24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

177. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skil, að forseti vilji leggja áherzlu á að ljúka umr., og skal ekki lengja þær mikið. En hv. 5. landsk. (BG) segir: Ja, dæmið, sem ég nefndi, er svo augljóst, að það alveg sker úr. — Ef Hafnarfjarðarbær hefði aldrei beðið um neitt lán í neinum banka og skuldaði þar af leiðandi ekki neinum banka neitt, enginu banki hefði lánað honum, af því að ekki hefði verið beðið um, ber þá að skoða það þannig, að það sé vottur um, að bankarnir hafi komið illa fram gagnvart Hafnarfjarðarkaupstað? Það, sem verður að sanna með þessu dæmi, ef það á að gagna hv. 5. landsk. þm., er það, að í fyrsta lagi hafi Hafnarfjarðarkaupstaður ekki fengið lán úr bönkum landsins til jafns við önnur sveitarfélög, og í öðru lagi, að þær lánveitingar hafi strandað á pólitískri misbeitingu valds af hálfu sjálfstæðismanna, því að það er það, sem ásakað er um, og það er það, sem þarf að sanna. Ekkert — ekki vitund af slíkri sönnun var í þessu dæmi.

Ég vil svo að lokum segja hv. 5. landsk. það, að hugmyndir hans um, hvernig málum er varið í bönkunum, eru mjög af ókunnugleika, því að ef lánveitingar berast bönkunum, þá eru þær auðvitað ræddar af framkvæmdastjórninni í heild, og ágreiningsatkvæði, ef einhver eru, eru þá bókuð og gerð grein fyrir þeim, og ber hverjum bankastjóra, ef hann telur það svo mikilvægt, skylda til þess og bera sig þá upp við bankaráðið, ef hann telur, að meiri hl. hafi borið sig órétti eða farið ranglega að. En að öðru leyti koma lánveitingarnar alls ekki til kasta bankaráðanna, ekki nema heildarstefnan í bankamálunum, þegar einstök tilfelli er um að ræða. Þetta eina dæmi er ósköp líkt og bezta sönnunin fyrir misbeitingunni, sem ég gerði grein fyrir í minni ræðu áðan, um lánveitingar til viss fyrirtækis, og það er fjarri því, að ég hafi tekið það illa upp, eins og hv. 5. landsk. sagði, heldur fagnaði ég því, að hann skyldi koma með þetta dæmi, og mér er það sönn ánægja, að þetta skuli hafa komið fram í umr., og tel það mikils virði fyrir okkur sjálfstæðismenn.