27.05.1957
Efri deild: 110. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

177. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég hef haft framsögu fyrir þessu máli í hv. Nd., og það er nú orðið öllum þingheimi kunnugt og ljóst, um hvað þetta frv. fjallar. Þó þykir mér rétt að láta fylgja því nokkur orð til viðbótar þeirri grg., sem fylgir frv. og hverri einstakri grein þess.

Ég hafði þann hátt á að mæla fyrir frv. öllum um bankana í hv. Nd., og hér liggur fyrir einnig frv. um Útvegsbanka Íslands, svo að ég mun fara nokkrum orðum um það um leið, eins og ég gerði áður.

Það liggur ljóst fyrir, að hér er um verulega skipulagsbreytingu að ræða á Landsbanka Íslands. Það hefur verið rætt um það mjög mikið á undanförnum árum að gera þessa skipulagsbreytingu og var meira að segja rætt um það mjög, þegar lögin um Landsbanka Íslands voru sett á sínum tíma, og alla leið síðan. Ýmsir og þeir eru ekki fáir — hafa viljað fara þá leið að skilja seðlabankann algerlega frá viðskiptabankanum, og þess er ekki að dyljast, að erlendir sérfræðingar, sem hafa rannsakað okkar bankamálalöggjöf, hafa ýmsir hallazt að þeirri skoðun og fært rök fyrir því, að sú breyting væri eðlileg. En þessi skoðun hefur einatt mætt verulegri mótstöðu og þótt varhugavert að stiga skrefið þannig að skilja seðlabankann algerlega frá viðskiptabankanum. Hins vegar er í þessu frv., sem hér liggur fyrir, gert ráð fyrir því, að stigið verði verulegt skref í þessa átt.

Aðalbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir að gerðar verði, ef þetta frv. verður að lögum, eru þær, að landsbankanefndin svonefnda er afnumin og í stað þess kýs Alþ. stjórn bankans með hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn. Fjórir af fimm eru þannig kosnir af Alþ., en formaðurinn skipaður af ríkisstj. eða þeim ráðh., sem fer með bankamál. Þannig er æðsta stjórn bankans sem heild skipuð, en jafnhliða gert ráð fyrir því í þessu frv., að seðlabankinn verði skilinn frá viðskiptabankanum í því formi, sem nú er, og þessi stjórn bankans, bankaráðið, þessir fimm menn framselja síðan vald sitt í raun og veru þremur meðstjórnendum, sem eiga að stjórna seðlabankanum, einum bankastjóra, en síðan er einn af bankastjórunum skipaður af forseta, þ.e.a.s. af ríkisstj., og verður þá þannig í framkvæmd, að óbeint er það vald, sem fer með stjórn bankans í heild og stjórn seðlabankans, skipað af Alþingi, vegna þess að bankaráðið er, eins og ég sagði áðan, kosið hér á Alþ., og síðan kýs það stjórn seðlabankans með þeim hætti, sem ég sagði. Að þessu leyti verður stjórn Seðlabankans í verulegum atriðum sjálfstæð, og það stendur von til þess, að með þessu móti takist að skapa nokkru meiri festu í peningamálum þjóðarinnar en verið hefur til þessa.

Valdinu er þannig skipt, eins og kemur fram af því, sem ég þegar hef sagt, að meiri hl. þeirrar stjórnar, þrír meðstjórnendur, sem fara með vald í seðlabankanum, eru skipaðir óbeint af Alþingi, eins og það er á hverjum tíma og fyrir visst tímabil, og síðan er til þess að fá festu í þessi mál einn maður ásamt þeim bankastjóra, sem bankaráðið ræður, skipaður af forseta eða ríkisstj. sem fastur embættismaður.

Þessi háttur er á hafður, að ég hygg, í flestum Norðurlandaríkjunum, að þar er aðalbankastjóri seðlabankans skipaður af ríkisstj. eða af konungi.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem gerðar eru á Landsbanka Íslands. Það er jafnframt gert ráð fyrir því, að samhliða þessari breytingu verði gerð veruleg breyting eða fullkomin skipulagsbreyting á Útvegsbanka Íslands. Eins og hv. alþm. er sjálfsagt kunnugt, er Útvegsbanki Íslands, eins og nú standa sakir, hlutafélag og hefur verið það frá upphafi, hlutafélag með löggjöf, sem er þannig háttað, að framlag ríkisins til bankans, framlag ríkisins til þessa hlutafélags nýtur sín að fullu á aðalfundum og hefur fullan atkvæðisrétt á aðalfundum, gagnstætt því, sem er um venjuleg hlutafélög, þar sem einn aðili getur ekki farið með nema 1/5 af atkvæðisrétti. Þetta hefur leitt til þess, eins og skiljanlegt er, að sá ráðh. í ríkisstj., sem fer með bankamál hverju sinni, ræður jafnframt, hvernig þessi atkvæðisréttur ríkisins er notaður á aðalfundum hverju sinni, og ræður fram til þessa, hverjir skipa meiri hl. bankaráðs á hverjum tíma, og þar af leiðandi um leið, hverjir eru bankastjórar í þessu hlutafélagi. Að því leyti hefur ríkið eða sá ráðh., sem fer með bankamál, beinni afskipti, beinni stjórn, ef svo má segja, á þessum banka heldur en er á nokkrum öðrum banka hér á landi. Að því leyti hefur hann í framkvæmdinni vegna þessarar löggjafar verið meiri ríkisbanki, ef svo mætti segja, heldur en hinir bankarnir. Hins vegar er hlutaféð, sem einstaklingar eiga, rúmir 4%, og eftir því sem mér er tjáð, hefur eðlilega vegna þess, hve þetta er lítið fjármagn og atkvæðanna gætir lítið á aðalfundi, verið þannig a.m.k. á seinasta fundi, ef ekki oftar, að það hefur enginn hluthafi mætt frá þessum hluthöfum, sem eiga þessi rúmlega 4% eða nánar tiltekið 4.2%. Það liggur því í augum uppi, enda held ég, að flestir séu sammála um það, að það sé eðlilegt að gera þessa skipulagsbreytingu á Útvegsbanka Íslands, gera hann að ríkisbanka, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það mæla raunverulega engin rök með því að hafa þennan hátt á, þó að til þess væri gripið, þegar Útvegsbanki Íslands h/f var reistur á rústum Íslandsbanka. Það er þess vegna gert ráð fyrir því, að þetta hlutafé verði tekið eignarnámi og Útvegsbanki Íslands h/f verði ríkisbanki.

Það kann að vera, að um það sé nokkur ágreiningur, hvort rétt sé að breyta Landsbanka Íslands á þann hátt, sem hér er gert. Þó hefur ekki komið fram verulegur ágreiningur um það, að eigi sé rétt að stíga a.m.k. þetta skref til þess að greina að seðlabankann og viðskiptabankann. En það eru margir, eins og ég gat um í upphafi, sem telja, að skrefið sé ekki stigið nógu langt, það hefði átt að skilja seðlabankann algerlega frá viðskiptabankanum. Um hitt atriðið, breytinguna á Útvegsbanka Íslands, hygg ég að geti varla verið ágreiningur.

Eins og ég hef tekið fram og eins og kom fram í umr., er jafnhliða þessari skipulagsbreytingu gert ráð fyrir því, að breyting verði á framkvæmdastjórn og breyting á bankaráðum, því að það er gert ráð fyrir því, að þau verði kosin nú þegar, og það er ekki þess að dyljast, að vitanlega eru í þessum frv., jafnhliða því sem þau eru skipulagsbreytingar, sem ganga í rétta átt, breytingar, sem gerðar eru til þess, að stjórn bankanna sé skipuð í samræmi við það meirihlutavald, sem er hér á Alþingi. Og það verður að teljast óeðlilegt, svo að ekki sé meira sagt, að stjórn bankanna sé þannig skipuð, að minnihlutaflokkur á Alþ. og um leið stjórnarandstaðan nú sem stendur hafi meirihlutavald í aðalviðskiptabönkum þjóðarinnar.

Ég held, að ég hafi hér skýrt frá þeim meginbreytingum, sem fyrirhugað er að gera á þessum tveimur bönkum. Þetta eru aðalatriðin. Frv. hefur ekki verið breytt í neinum verulegum atriðum í hv. Nd. Nefndir frá báðum þingdeildum hafa athugað þessi mál í sameiningu, og ég geri þess vegna að till. minni, að málinu verði vísað til 2. umr., en ekki til nefndar, þar sem sá háttur hefur verið hafður á um vinnubrögð, að nefndirnar hafa starfað saman að athugun málsins.