20.05.1957
Efri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. á þskj. 546, sem er breyt. á l. nr. 56 frá 31. maí 1947, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, er ferns konar: Í fyrsta lagi eru settar nýjar reglur um undanþágur frá skemmtanaskatti. Í öðru lagi er ný skipting á skemmtanaskattinum. Í þriðja lagi er upp tekinn nýr skattur á kvikmyndasýningar og dansleiki. Og í fjórða lagi er breytt til um ráðstöfun á hagnaði viðtækjaverzlunar.

Breytingarnar á undanþágum frá skemmtanaskatti eru aðallega þessar: Samkvæmt a-lið 1. gr. frv. eru það fræðandi fyrirlestrar, sem skulu vera undanþegnir, en þetta er orðað nokkuð á annan veg í lögunum. Þar er það orðað þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ódýrir fræðandi fyrirlestrar, sem styrktir eru af opinberu fé, svo sem stúdentafélagsfyrirlestrar.“

Annar liður í 1. gr. frv., b-liðurinn, er um innanfélagsskemmtanir, sem eru undanþegnar skemmtanaskatti, aðrar en dans, sem aðeins eru fyrir félagsmenn og gesti þeirra o.s.frv. Þetta er óbreytt frá því, sem stendur í lögunum.

Þriðji liðurinn, c, er um skemmtanir skóla og skólafélaga, annarra en dansskóla, enda séu þær aðeins fyrir nemendur og kennara ásamt gestum þeirra, undir umsjón skólastjórnar. Þetta er orðað lítið eitt öðruvísi í lögunum. Þar er það: „Dansleikir skóla, annarra en dansskóla, og skólafélaga, enda fari þeir fram í herbergjum hlutaðeigandi skóla og séu fyrir nemendur og kennara eina, ásamt gestum þeirra.“

Munurinn er aðeins sá, að því er sleppt í frv. að tala um, að samkomurnar fari fram í herbergjum viðkomandi skóla, en í staðinn kemur, að þær skuli fara fram undir umsjá skólastjórnar, og er það vafalaust til bóta. Hitt atriðið er minna um vert, í hvaða húsakynnum samkomurnar fara fram, þegar þær eiga að fara fram undir umsjá skólastjórnar.

Samkvæmt d-lið skulu vera undanþegnar leiksýningar þjóðleikhúss og hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta er nýmæli og er ekki í lögunum nú. Aftur á móti eru þessar stofnanir báðar styrktar mjög mikið af opinberu fé, og þykir því mjög fjarri lagi að láta þær greiða skemmtanaskatt.

E-liðurinn er líka nýmæli, þ.e. að kvikmyndasýningar á vegum sáttmálasjóðs og kvikmyndasýningar bæjarsjóðs Akraness og Hafnarfjarðar skuli vera undanþegnar, enda sé tekjunum varið á sama hátt og nú er. Þessar sýningar hafa undanþágu núna samkvæmt almennum ákvæðum í núgildandi lögum, og er þetta ekki önnur breyting en sú, að það er beint tekið inn í lögin, að þessar stofnanir skuli vera undanþegnar skemmtanaskattinum, í staðinn fyrir það, að það voru þær samkvæmt almennri reglu, sem nú er í lögunum.

Þá er auk þess í þessum lið, e-lið 1. gr., tekið inn, að ráðh. skuli vera heimilt að undanþiggja skemmtanaskatti kvikmyndasýningar eins kvikmyndahúss, er rekið sé af opinberum aðila í hverjum hinna annarra kaupstaða, enda sé tekjum af þeim varið til menningar- og mannúðarmála. Þetta mun líka vera nýmæli, en er í samræmi við það, sem nefnt er hér áður hvað snertir Akranes og Hafnarfjörð.

F-liður er um íþróttasýningar, sem eiga að vera undanþegnar, og er ekki heldur í sjálfum lögunum, en munu nú vera það samkvæmt almennu ákvæði laganna.

Þá kemur í niðurlagi 1. gr., að ráðh. er heimilt að láta haldast að nokkru eða öllu leyti undanþágur frá greiðslu skemmtanaskatts, er þær samkomur hafa notið, sem haldnar eru til fjáröflunar fyrir góðgerða-, líknar- og björgunarstarfsemi, sjúkrasjóði með staðfestri skipulagsskrá, sjúkrahús, elliheimili, æskulýðsheimili, tónlistarskólann í Reykjavík, kirkjustarfsemi eða bindindisstarfsemi o.s.frv. M.ö.o. er með 1. gr. búið að ná yfir allar þær undanþágur, sem nú eru samkvæmt lögum og hafa verið framkvæmdar.

Aftur á móti er í þessu ákvæði, niðurlagsákvæði 1. gr., bann við því að veita frekari undanþágur. Þær verða þá ekki heimilar af neinu tagi, eftir að þetta er orðið að lögum, en samkvæmt b-lið 3. gr. í núgildandi lögum segir, að skemmtanir, sem haldnar eru í góðgerðarskyni eða til styrktar málefna, er miða að almenningsheill, séu undanþegnar. Þetta er fellt niður, og mun ástæðan vera sú, að það hafa orðið árekstrar út af þessu og mjög erfitt að dæma um, hvaða samkomur og hvaða félagssamtök falla undir þetta almenna ákvæði og hvaða ekki, og er vitnað til hæstaréttardóms út af þessu atriði í grg. með frv., eins og hv. þm. munu hafa veitt athygli.

Í fáum orðum sagt eiga allar undanþágur að haldast, sem nú eru, en bann sett við því, að þær verði meiri eða fleiri en í 1. gr. segir.

Annað atriðið í þessu frv. er skipting skemmtanaskatts, sem er nokkuð önnur en er í núgildandi lögum. Skemmtanaskattur skiptist nú þannig: Þjóðleikhúsíð fær 42% af skattinum, og nam það á s.l. ári um 2 millj. 350 þús. kr. Félagsheimilasjóður fékk 35% af skattinum, og nam það um 1 millj. 960 þús. kr. í fyrra. Til byggingarskulda þjóðleikhússins runnu 15% af skattinum, og nam það um 840 þús. á s.l. ári. Til lestrarfélaga fóru 4% af skattinum, sem nam um 225 þús., og til kennslukvikmynda 4%, sem nam sömu upphæð, 225 þús.

Sú skipting, sem nú á að verða, er, að þjóðleikhúsið fái helming skattsins og félagsheimilasjóður helming. Það þýðir, ef skatturinn yrði eins og hann var á s.l. ári, um 5 millj. 600 þús. kr., þá fær þjóðleikhúsið um 2.8 millj. í staðinn fyrir 2.35, eða um 450 þús. kr. aukningu, og félagsheimilasjóður fær sömu upphæð, um 3.8 millj., en það er um 840 þús. kr. aukning.

Um hinar stofnanirnar, sem fengu þarna nokkurn hluta af skemmtanaskattinum, er þetta að segja: Lestrarfélög, sem fengu um 4%, eru komin inn á fjárl., og því er hlutur þeirra af skemmtanaskattinum felldur niður. Um kennslukvikmyndir er það svo, að þær fá 4% áfram, en samkvæmt þessu frv. er ætlazt til, að þær verði teknar inn á fjárl. á næsta ári og verði taldar með hinum almenna kennslukostnaði í landinu, og þess vegna falla þær út. Á þessu ári njóta þær 8% af skattinum fram til 1. júlí, sem verður þá sama upphæð og þær nutu áður, 4% allt árið, svo að á þessu ári fá þá kennslukvikmyndirnar það sama og þær höfðu áður, en ætlazt er til, að þær færist yfir á fjárl. þegar á næsta ári.

Af þessari ástæðu, að kennslukvikmyndirnar njóta 8% skattsins fram á mitt þetta ár, verður hlutur þjóðleikhússins ekki helmingur alls skemmtanaskattsins á þessu ári, heldur nokkru minni, eða sem nemur um 225 þús. Aftur á móti hefur þjóðleikhúsið nú á fjárl. um 450 þús. kr., svo að þetta mun ekki eiga að koma að neinni sök fyrir það.

Mér virðist, að hlutur þjóðleikhúss af skemmtanaskatti á s.l. ári, sem var 2.35 millj., og sá tekjuhalli, sem greint er frá í grg. frv. að hafi orðið, þegar skemmtanaskatturinn var kominn, 734 þús., þá hafi tekjuþörf þjóðleikhússins orðið rúmar 3 millj., 3 millj. 85 þús. Nú á þjóðleikhúsið að fá um 2.8 millj., og virðist því vanta eitthvað á, að þetta dugi því, ef tekjuhallinn verður hlutfallslega sá sami á næsta ári eins og hann var í fyrra. Mun því þurfa einhverja fjárveitingu til viðbótar. Ef aftur á móti er tekinn tekjuhalli þjóðleikhússins á undanförnum 5 árum, þá var hann ekki svona mikill, eða um 400 þús. að meðaltali á ári, og ætti þá þessi hluti af skemmtanaskattinum að nægja því.

Um byggingarskuldir þjóðleikhússins er það að segja, en til þeirra hafa runnið 15% af skemmtanaskattinum, að við síðustu áramót voru 3 millj. eftir af þessum skuldum, sem höfðu verið greiddar úr ríkissjóði. Nú er ætlazt til, að af tekjuafgangi viðtækjaverzlunarinnar renni 3/5 til greiðslu á þessum byggingarskuldum. Tekjuafgangurinn varð um 1 millj. 1956. Það yrði því um 600 þús. kr. á ári, sem gæti þarna runnið til greiðslu á byggingarskuldum þjóðleikhússins, og á 5 árum ættu þær þá að greiðast upp, eins og segir í grg. frv. Hinn hlutinn af tekjuafgangi viðtækjaverzlunarinnar, 2/5, eða um 400 þús. á ári samkvæmt tekjuafganginum s.l. ár, á að renna til sinfóníuhljómsveitarinnar. Auk þess nýtur sinfóníuhljómsveitin 10% álags á skemmtanaskattinn og á að njóta þess áfram. Þetta 10% álag nam á s.l. ári 560 þús., svo að þar er ekki um neina breytingu að ræða frá því, sem áður var.

Ég held, að ég hafi þá gert nokkurn veginn grein fyrir því, hvernig þær muni verka, þessar breytingar á skiptingu skemmtanaskattsins, sem ráðgerðar eru með þessu frv.

Þá er í 4. gr. frv. gert ráð fyrir nýjum skatti, sem er einnar krónu gjald á hvern seldan aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og tveggja króna gjald á hvern seldan aðgöngumiða að dansleikjum. Þetta gjald á að renna óskipt í menningarsjóð, en hér er nýlokið umr. um menningarsjóð og hlutverk hans, og fer ég því ekkert út í það. Menningarsjóður mun hafa haft um 1/2 millj. eða rúmlega það, kannske 550 þús. kr. tekjur á ári, sem ekki hefur fullnægt honum og mjög fjarri því, en áætlað er, að þessi skattur samkvæmt 4. gr. frv. geti numið allt að 2 millj. kr. á ári, og yrðu þá tekjur menningarsjóðs á eftir rúmlega hálf þriðja milljón króna.

Ég hef nefnt hagnað viðtækjaverzlunar, hvernig honum er ráðstafað, en frá því er greint í bráðabirgðaákvæðum frv.

Ég get að vísu bætt því við, þótt ekki eigi það við að þessu sinni, heldur í sambandi við afgreiðslu fjárl., að það er fyllilega athyglisvert, hvort ekki eigi að færa í einfaldara form þessa ráðstöfun skemmtanaskattsins og gera einfaldari innheimtuna á honum, því að ég sé ekki þá nauðsyn að parta þetta allt svona niður, einn partinn í þennan staðinn og annan í hinn, þegar sjálfar tekjurnar af þessum skemmtanaskatti setja engin takmörk fyrir gjöldum viðkomandi stofnana, sem eiga að njóta þessara tekna, heldur verður ríkissjóður þá að taka inn á fjárlög til viðbótar fjárveitingu. Mér sýnist, að í raun og veru skipti engu máli, hvort þetta form er haft á því eða hitt, að skemmtanaskatturinn renni óskiptur í ríkissjóð og síðan komi fjárveitingar til þessara stofnana, sem nú njóta skattsins. En þetta kemur ekki til greina að þessu sinni, en er fyllilega athyglisvert, þegar næst kemur til afgreiðslu fjárl.

Hv. menntmn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Tveir af nm., hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og 2. þm. Árn. (SÓÓ), voru báðir fjarverandi úr bænum, þegar málið var afgr. í nefndinni.