28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fyrrv. menntmrh., hv. 1. þm. Reykv. (BBen), fól hinn 6. júlí s.l. 2 manna nefnd að endurskoða l. nr. 115 frá 1951, sem fjalla um skiptingu skemmtanaskattsins, svo og að endurskoða lagaákvæði um ráðstöfun þess hluta skemmtanaskattsins, sem rennur til félagsheimila. Í því frv., sem hér liggur fyrir og lagt var fram nú mjög nýlega, eru algerlega teknar upp till. þessarar n., sem ég gat um, en auk þess bætt við 1. gr., sem fjallar um undanþágur frá skemmtanaskattinum, og 4 gr. um nýja fjáröflun og loks bráðabirgðaákvæði um hagnað viðtækjaverzlunarinnar.

Minni hl. menntmn. lýsir sig fylgjandi þessu frv. að því er tekur til þess efnis þess, sem fellur saman við till. n., sem skipuð var hinn 6. júlí í fyrra, en höfuðbreytingin, sem sú n. gerði á l. um skiptingu skemmtanaskatts, var, að 50% skattsins skyldu renna í félagsheimilasjóð og 50% í rekstrarsjóð þjóðleikhússins. Hv. frsm. meiri hl. n. mun hafa gert grein fyrir rökunum til þess áðan, og hirði ég því ekki að rekja þau nánar.

Um 4 gr. frv. skal það sérstaklega tekið fram, að minni hl. menntmn. er algerlega mótfallinn þeirri fjáröflunarleið, sem felst í því að leggja sérstakt gjald á alla selda aðgöngumiða að kvikmyndasýningum, þótt undanteknar séu kvikmyndasýningar fyrir börn. Verð aðgöngumiða að kvikmyndasýningum er nú lágt, bæði miðað við önnur lönd og einnig miðað við það, sem var hér áður fyrr. Við teljum ástæðu til, að í því horfi verði verðinu haldið, en ekki verði hlutazt til um það af löggjafarvaldinu, að þetta verð hækki, vegna þess að þarna er um að ræða einhverja ódýrustu og hollustu eða öllu heldur minnst óhollu skemmtun og mest fræðandi, sem almenningur á Íslandi á völ á. Þess er að gæta, að það eru fyrst og fremst unglingar, sem sækja kvikmyndasýningar. En hækkunin getur dregið úr því, að unglingar sæki kvikmyndasýningar í stað ýmissa annarra miður hollra skemmtana, sem eru líka mun kostnaðarsamari. Á ég þar fyrst og fremst við dansleiki og áfengisneyzlu. Þannig yrði þetta gjald allstór baggi á þær fjölskyldur, sem hafa á framfæri unglinga á bíóaldri, ef svo mætti að orði kveða.

Okkur í minni hl. menntmn. finnst eðlilegt og sjálfsagt, að fyrst þarna þarf nýr gjaldstofn að koma til, verði „skemmtun“, sem er mun óhollari en þessi, látin bera þennan skatt.

Mikill hluti þess fjár, sem koma á inn skv. 4. gr. þessa frv., á að ganga til vísindasjóðs, sem í ráði er að stofna. Við vísum því til þess, sem fram kemur í nál. okkar um það frv. Við leggjum til, að í þeim l. verði kveðið á um sérstaka fjáröflun sjóðsins, þannig að hann verði sjálfstæðari um fjárhag en gert er ráð fyrir í þessum frv. þremur, sem nú hafa nýlega verið lögð fram, en það eru þetta frv., frv. um menningarsjóð og menntamálaráð og frv. um vísindasjóð.

Við munum leggja fram skrifl. brtt. þess efnis, að fellt verði niður úr 4. gr. þessara laga ákvæðið um aukagjaldið á aðgöngumiðana að kvikmyndasýningum, en eftir standi aðeins ákvæði um aukagjald á aðgöngumiða að dansleikjum þeim, sem um ræðir í greininni.

Við teljum ekki ástæðu til að koma með till. um sérstaka fjáröflun í stað þessa kvikmyndaaðgöngumiðagjalds, þar eð við gerum ráð fyrir að bera fram brtt. um fjáröflun til vísindasjóðs í sambandi við það frv.

Við munum einnig leggja til, að bráðabirgðaákvæðið í þessu frv. verði fellt niður, en það er í samræmi við athugun þeirrar n., sem ég gat í upphafi. Höfundar frv., sem er prentað með nál. okkar á þskj. 6í0, töldu, að ríkisútvarpinu veitti alls ekki af þeim tekjustofni, sem skapast hjá viðtækjaverzlun ríkisins. Rökstuðningur þeirra fyrir niðurfellingu þessa ákvæðis var m.a., að sá hluti skemmtanaskattsins, sem á að renna til þjóðleikhússins, er hækkaður upp í 50%. Mun þá ríkinu verða kleift að fella niður þá fjárveitingu, sem það hefur lagt fram til að greiða rekstrarhalla þjóðleikhússins á undanförnum árum. Hins vegar leggur nefnd þessi til, að ríkið taki að sér að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins beint, en ekki á þennan hátt, að hagnaður ríkisútvarpsins sé af því tekinn og það látið standa undir byggingarskuldum þjóðleikhússins.

Ég held, að ástæðulaust sé að fjölyrða frekar um þetta mál efnislega, enda hefur komið fram, að það er sízt vilji til þess fyrir hendi hjá hv. þm., að mál þessi séu rædd. Það verður að segja hreinskilnislega, að það er sízt vilji til þess að athuga þessi mál gaumgæfilega. En minni hl. menntmn. telur það mjög varhugavert að hraða svo mjög afgreiðslu mála eins og þessara, sem hér um ræðir, þessara þriggja menningarmála, að þm. gefist ekki tóm til að athuga nákvæmlega einstakar gr. þeirra, en það var ekki einu sinni gert í n., sem hafði þessi mál til meðferðar. Þau voru afgreidd af mikilli skyndingu s.l. laugardag, og meiri hl. n. mælti með þeim, en minni hl. n. vildi hins vegar fá ráðrúm til að athuga þau nokkru nánar, og gáfum við því út nál. okkar í samræmi við það.

Ég mun svo skila hæstv. forseta skrifl. brtt., sem ég bið hann að leita afbrigða fyrir.