17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

157. mál, Háskóli Íslands

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er rétt, að það komi alveg skýrt fram, að sú endurskoðun, sem er upphaf þessa frv., var hafin af háskólaráðinu sjálfu án atbeina þáverandi menntmrh., og hafði ég sem menntmrh. í raun og veru ekki önnur skipti af málinu en að samkv. beiðni háskólans skipaði ég formann nefndarinnar, eftir að n. hafði starfað um nokkra hríð. Háskólaráð mun ekki alveg að ástæðulausu hafa talið, að skynsamlegra væri frá þess eigin sjónarmiði að hafa með þessum hætti nokkurt samband, þótt óbeint væri, við menntmrn. Ég get þess vegna þess, að að mér er veitzt í blaðagrein í dag, sem prentuð er í málgagni hæstv. núv. menntmrh., á þann veg, að ég hafi staðið á móti því, að stúdentar fengju mann í endurskoðunarnefndina. Þetta er í grein, sem prentuð er upp úr stúdentablaði Alþýðuflokksins, hygg ég vera.

Nú verð ég að segja það alveg eins og er, að ég man ekki, hvort beiðni kom frá stúdentaráði um þátttöku í endurskoðuninni til menntmrn. En eins og málið var upp tekið og að því var unnið, var hér fyrst og fremst um að ræða mál háskólans og háskólaráðs og því eðlilegt, að eftir þess till. um það, hvaða aðilar tækju þátt í endurskoðuninni, væri farið. En víst má segja, að ekki hefði skaðað, þó að stúdentar væru þarna til kvaddir, og ég er ekki fjarri því, að að sumu leyti beri frv. þess merki, að þeir hafa ekki um það fjallað eins og skyldi. Er þó á það að líta, að þeim hefur eftir á gefizt færi til að láta uppi um það umsögn sína.

Þá vil ég aðeins benda á, að ég tel nokkurn ljóð á grg. frv., að þar er ekki nógu ljóslega sýnt fram á, í hverju einstök ágreiningsatriði eru fólgin milli hæstv. menntmrh., háskólaráðs og þeirrar nefndar, sem frv. samdi. Það er auðvitað engin ástæða til að gera grein fyrir slíku, ef þessir aðilar koma sér saman, þó að það sé eftir till. hæstv. menntmrh. Ef um raunverulegan ágreining er að ræða, hefði ég talið, að það þyrfti að koma glögglegar fram í grg. frv., í hverju hann er fólginn, en hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir því, að varðandi eitt viðkvæmasta deilumálið í þessum efnum, skipun háskólakennaranna, er einmitt einhver slíkur ágreiningur. Ég vil lýsa því, að mér sýnist hæstv. menntmrh. þar hafa ratað rétt meðalhóf í sínum tillögum.

Ég fagna því, að hæstv. menntmrh. lýsti því, að það hefði farsællega tekizt til um framkvæmd þessa ákvæðis á undanförnum árum, vegna þess að einmitt fyrir nokkrum árum varð ég fyrir hörðum árásum hans félaga, ég man nú ekki, hvort hæstv. menntmrh. var þar í þátttakandi eða ekki, fyrir það, að ég hefði misbeitt því valdi, sem mér var fengið á sínum tíma í þessum efnum. Ef um það hefði veríð að ræða í alvöru, að slík misbeiting hefði átt sér stað, hefði auðvitað nú verið kjörið tækifæri til þess að koma í veg fyrir, að slíkt gæti endurtekið sig. En ég sé einmitt, að hæstv. menntmrh. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þess væri ekki þörf, og ég er honum sammála um það. Ég tel, að það sé óhjákvæmilegt, að ráðherrann beri á þessu endanlega ábyrgð og háskólinn hafi hvorki ástæðu né eðlilegan rétt til að óska eftir meiru en að geta útilokað þá, sem óhæfir eru, og síðan verði veitingarvaldið með venjulegum hætti að velja úr þeim, sem hæfir teljast til embættisins.

Ég efast sannast sagt um, hvort það er að öllu leyti heppilegt að hafa í sama frv. sem fjallar um stjórn háskólans og starfshætti ákvæði um það, hversu margir kennarar eða prófessorar skuli vera í hverri deild. Það er miklu breytilegra atriði og á þess vegna í raun og veru heima í sérákvæðum, enda er það komið í ljós, að því er mér skilst, að síðan frv. var samið í fyrstu, hefur tveimur embættum eða fleirum verið bætt við af hæstv. menntmrh. eins og hann nánar gerði grein fyrir. Það þarf sjálfsagt að athuga það mál nánar.

Í því efni geta komið upp nokkur vafaatriði, eins og ef tekið er fram, að prófessor eigi að hafa forstöðu einhverrar annarrar stofnunar með hendi. Ja, hver hefur þá í raun og veru veitingarvaldið. Er það þá það ráðuneyti, sem t.d. einhver tiltekin verzlun heyrir undir, sem veitingarvaldið hefur, eða á um skipun í stöðuna að fara með þeim hætti, sem í þessu frv. segir. Nú skulum við segja t.d., ef talið yrði, að sá maður, sem gegnir forstöðu lyfjaverzlunar ríkisins, yrði ekki talinn hafa þá vísindalegu þekkingu, sem háskólaprófessor þurfi á að halda, er þá engu að síður skylt að skipa hann, eða verður að breyta til um forstjóra þessarar stofnunar? Vera kann, að á þessu finnist skýring í lögunum, en þegar farið er að blanda slíkum harla óskyldum atriðum saman, er hætt við, að sumt verði heldur óljóst.

Ég vil einnig benda á, þó að ef til vill mætti fjalla um það við 2. umr., — en ekki er vist, að ég eigi kost á að vera við hana, svo að ég vil víkja hér að nokkrum atriðum, — að mér finnst hæpin sú ráðstöfun að ætla að svipta dósenta kosningarrétti um háskólarektor og svipta þá valdi á deildarfundum. Þar er um fastráðna vísindamenn að ræða, sem a.m.k. sumir, að því er mér skilst, eiga að hafa þetta vísindastarf að aðalstarfi. Í þeim tilfellum sé ég ekki, hver munur er á dósentum samkv. þessu frv. og dósentum áður en lögskylt var, sem er tiltölulega nýtt ákvæði, að dósentar skyldu verða prófessorar eftir tiltölulega fárra ára starfstíma.

Þá vil ég einnig benda á, að mér virðist ósamræmi í því, að prófessorar háskólans eiga einir að kjósa rektor, en hins vegar er tekið fram, að forstöðumenn vísindastofnana, sem heyra undir tiltekna deild, skuli eiga sæti á deildarfundum og að því er virðist eiga þar atkvæðisrétt. Ef þeir eiga á annað borð atkvæðisrétt á deildarfundum, virðist mér þar af leiða, að sanngjarnt sé, að þeir eigi einnig rétt til að kjósa rektor. Hitt er svo annað mál, að mér finnst nokkuð hæpið að láta slíka menn, sem deildin á að hafa yfirumsjón með og eru nánast hennar starfsmenn, hafa fullt vald til atkvæðisréttar á deildarfundum og mjög hæpið, að þeir eigi rétt til setu á þeim fundum með öðrum hætti en þá dósentar, aukakennarar og aðrir slíkir.

Enn fremur vildi ég benda á, að eftir þá breyt., sem hv. Ed. gerði, ef ekki hefur verið gerð á því ný breyt. við 3. gr., — ég bið þá afsökunar á því, að ég hef ekki tekið eftir henni, — þá virðist mér ósamræmi í því, að í 4. gr. segir:

„Nú er til umr. á fundi háskólaráðs mál, er varðar sérstaklega stúdenta háskólans, og skal rektor þá kveðja á fundinn einn fulltrúa stúdenta, sem stúdentaráð nefnir til. Hefur fulltrúinn þar málfrelsi og atkvæðisrétt.“

Þarna er um beina skyldu að ræða til þess að kveðja slíkan fulltrúa til, en í 14. gr. varðandi deildarfundina segir:

„Nú er mál til umræðu á deildarfundi, sem varðar sérstaklega nemendur deildarinnar, og er deildarforseta þá heimilt að kveðja á fundinn fulltrúa nemenda, einn eða fleiri, er stjórn deildarfélags nefnir til. Hafa fulltrúarnir þar málfrelsi, en eiga ekki atkvæðisrétt.“

Ef á að skylda til að kveðja þá á fundi í háskólaráði, sem hefur miklu meiri völd en deildin, þá virðist einnig vera eðlilegt, að þeir séu með sama rétti atkvæðisbærir og eigi aðgang að deildarfundunum.

En annað mál er svo það, að töluverður vafi er, hvaða mál varða stúdenta. Við skulum segja t.d. val prófverkefna. Mér virðist fátt varða stúdenta meira, og vist hefði ég sem stúdent viljað eiga þess kost að vera á deildarfundi, þegar verkefnin voru valin. En ég er þó ekki alveg viss um, að það sé meiningin.

En látum nú vera, að það sé of fráleitt, að til slíks komi. Annað atriði, sem kemur auðvitað fyllilega til álita um, hvernig á að fara að, er það, ef til kemur að víkja stúdent úr háskóla? Er þá ætlunin, að fulltrúi stúdenta eigi þar að vera við og hafa atkvæðisrétt í háskólaráði, eða er þarna einungis um að ræða þau málefni, sem almennt varða stúdenta? En engu að síður, þótt við segjum, að þau eigi almennt að varða stúdenta, þá lendum við í miklum vanda. Það varðar almennt stúdenta, hvort á að vera leikfimisskylda eða ekki, og a.m.k. hafa stúdentar látið það mál sig meira skipta en að standa á móti því að taka þá skyldu á sig. En eiga þeir þá einnig að hafa rétt á því að skipta sér af vali og ákvörðun annarra námsgreina? Þetta er atriði, sem vei má vera að menn hafi hugsað til hlítar og fordæmi séu fyrir, t.d. frá Oslóarháskóla, þar sem sagt er, að svipuð ákvæði hafi verið í gildi. En mér sýnist nauðsynlegt, að þetta sé athugað þegar frá upphafi.

Varðandi 5. gr. vildi ég benda á, að þar segir: „Nú er fundur boðaður að frumkvæði kennara, sem eiga ekki sæti í ráðinu, og er þeim þá rétt að senda fulltrúa á fundinn. Hafa slíkir fulltrúar málfrelsi á fundinum, en atkvæðisrétt eiga þeir ekki.“

Eiga þeir rétt á að senda marga fulltrúa eða einn fulltrúa? Og er í raun og veru ástæða til þess, að þeir sendi nema einn fulltrúa? En ef það er ætlunin, þá væri réttara að segja: Hefur slíkur fulltrúi málfrelsi á fundinum. — En sjálft orðið „fulltrúa“ í því falli, sem það stendur þarna, getur átt hvort tveggja við eintölu og fleirtölu, eins og þeir sjá, sem renna augunum yfir þetta.

Þá vil ég vekja athygli á því og skjóta því sérstaklega til hæstv. menntmrh., sem er því kunnugri en ég, og raunar hv. 9. landsk. þm. einnig: Er ástæða til þess að láta viðskiptadeildina lengur vera sameinaða lagadeildinni? Er þarna ekki um algerlega tvær sjálfstæðar stofnanir að ræða? Og skiptir það í raun og veru nokkru máli, þó að fastir kennarar séu ekki fleiri en tveir? Gæti ekki deildin engu að síður verið ein út af fyrir sig og starfað sér? Segja mætti, að þetta kæmi til greina varðandi það, að viðskiptadeildarmenn eiga að kenna lögfræðingum og lögfræðingarnir viðskiptadeildarmönnum. Þá skyldu er hægt að hafa á mönnum alveg án tillits til þess, hvort deildin er ein eða tvær, enda vitum við, ég og hæstv. menntmrh., að ágreiningur hefur komið út úr þessu nú þegar, jafnvel þótt deildin sé einungis ein.

Ég var einnig að efast um, hvort menntmrh. væri ekki fengið fullmikið vald í 10. gr., þar sem segir: „Menntamálaráðherra ákveður í samráði við háskólaráð, hverjir af kennurum háskólans, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara, séu dósentar, lektorar, aukakennarar og aðstoðarkennarar.“ Það er ekki vegna þess, að ég hafi vantraust á hæstv. menntmrh., sem ég að vísu hef fullkomið, að ég hreyfi þessu, heldur vegna þess, að jafnvel þótt ég hefði sjálfur átt hlut að máli, mundi ég ekki hafa viljað lenda í því að þurfa að ákveða þetta Mér skilst, að hér sé um mjög erfitt mál að ræða. Segja mætti, að háskólinn muni gera það raunverulega, en ekki menntmrh., og menntmrh. eigi einungis að setja sinn stimpil á. En er þá ekki eðlilegra, að það komi fram, að það sé í raun og veru háskólinn, sem geri það, einungis með samþykki ráðh.? Efnislega breytir þetta e.t.v. ekki ýkja miklu og er algerlega ópólitískt atriði, sem ég vildi þó benda á, eins og þessar aths. eru, sem ég hér hreyfi. Þær eru ekki sérstaklega mikilsverðar allar, en eins og ég sagði, ég vildi þó koma þeim á framfæri. Þar sem vera kann, að ég í næstu viku þurfi í erindum, sem Alþingi að nokkru leyti hefur falið mér, að skreppa einn eða tvo daga af landi burt og ég get ekki vænzt þess, að málinu sé frestað eftir mínum óskum, þá vildi ég skjóta þessum aths. að strax, þó að þær að sumu leyti eigi frekar heima við 2. umr., en hv. n. getur þá einnig athugað þær við sína meðferð málsins.

Ég játa, að það er ekki óeðlilegt ákvæði, sem stendur í 18. gr.: „Nú unir kennari ekki úrlausn háskólaráðs um það, hver sé kennsluskylda einstakra kennara, og má hann þá skjóta úrlausninni til menntmrh., sem leysir til fullnaðar úr þessu efni.“ Þetta er ekki óeðlilegt ákvæði. En í raun og veru er það nú svo, og ég veit, að hæstv. menntmrh. af sinni reynslu muni vera mér sammála, að þetta er atriði, sem háskólinn verður að skera úr sjálfur. Hér er oftast nær um fræðileg atriði að ræða og slíkan samanburð á störfum manna, að langhelzt verður að leysa það með samkomulagi milli aðila. Ef það er ekki fáanlegt, er mjög erfitt fyrir menntmrh. að blanda sér í það, heldur verða þeir, sem með daglegu starfi þessara manna fylgjast, að skera úr um það, og mjög erfitt fyrir ráðherra að taka aðra ákvörðun en þá, sem háskólinn leggur til.

Svo vil ég benda á atriði, sem ég tel mjög hæpið, og það er í 21. gr.: „Með sama hætti getur háskólaráð mælt svo fyrir í samþykkt, að aðeins ákveðinn fjöldi stúdenta skuli skráður í deild árlega og eftir hverjum reglum hinni tilteknu tölu stúdenta sé veittur aðgangur að deildinni.“

Ég efast mjög um, að það sé rétt að láta háskóladeild fá þannig úrskurðarvald um það, hversu margir menn skuli fá aðgang að þessum stéttum ár hvert. Þarna er hugsanlegt, að kennararnir geri sig að vörðum fyrir þrönga stéttarhagsmuni, sem séu þjóðfélaginu í raun og veru alveg andstæðir. Ég efast sannast sagt um, að slíkar takmarkanir eigi að setja nema með samþykki löggjafarvaldsins, en undir öllum atvikum tel ég rétt, að menntmrh. þurfi að veita samþykki sitt til þess, að þær séu gerðar. Vissulega eru mörg atriði, sem undir úrskurð ráðh. heyra, sem eru miklu minna virði en það, hvort takmarka eigi rétt til háskólafræðslu með þeim hætti, sem hér er ráðgerður.

Þá er ákvæði í 23. gr. um, að ákvæði um eftirlit með námsástundun háskólastúdenta megi setja í reglugerð háskólans. Það er ákaflega viðtækt ákvæði og veitir háskólanum og að vísu ráðh. mjög mikið vald. Og spurning er, ef slíkar reglur á að setja, hvort ekki megi telja eðlilegra, að það sé kveðið á um það í háskólalögum beinlínis heldur en með reglugerð.

Þá er það algert nýmæli, sem ég ekki til hlítar átta mig á, hvort til góðs er eða ekki, að stúdent sé heimilt að skjóta úrskurði háskólaráðs um brottvikningu úr háskólanum til hæstaréttar eftir reglum um kæru í opinberum málum innan fjögurra vikna o.s.frv.

Það er sagt, að þetta sé tekið eftir norskum lögum. En í mínum huga er ákaflega vafasamt, hvort leiða á hæstarétt til úrskurðar um atriði, sem í flestum tilfellum eru jafnfrábrugðin lögfræðilegum vandamálum og þetta. Hingað til hefur það verið svo, að hver skóli, eftir atvikum undir umsjá og eftir lokaákvörðun ráðuneytis, verður að taka ákvörðun um, hvort nemendur hegði sér svo, að þeir eigi að vera þar áfram eða ekki. Telja má til aukinnar réttarverndar ákvæðið, sem hér er stungið upp á, en án þess að ég lýsi mig því andvígan á þessu stigi, finnst mér það þurfa nokkru frekari íhugunar við.

Þá vil ég benda á, að í 25. gr. segir, að rektor sé „heimilt að vera viðstaddur dómþing, þegar svo stendur á, eða öðrum kennara háskólans, sem hann nefnir til“. Hér væri auðvitað mjög nauðsynlegt að bæta við „eða háskólaritara eða umboðsmanni.“ Oft og tíðum mundi það vera miklu eðlilegra, að háskólaritari, sem er í raun og veru eins konar framkvæmdastjóri háskólans, sækti dómþing í slíkum tilfellum heldur en kennari færi til þess. Það skiptir ekki miklu máli, en úr því að það er verið að taka þetta fram á annað borð, finnst mér hæpið að hafa þetta eins og það er.

Svo eru líka ákvæði í 28. gr. um skyldur manna til að ganga undir próf, eftir því sem nánar er ákveðið. Ég vil benda hv. nefnd á, að íhuga þarf vandlega, að hve miklu leyti eru settar strangari reglur en nú gilda og hvort að öllu leyti er heppilegt að veita reglugerðargjafanum slíka heimild sem ráðgerð er.

Ég segi aftur á móti, að mér virðist bersýnilega ákvæðin í 30. gr. vera ástæðulaus, þar sem segir, að milli prófa skuli eigi liða lengri tími en eitt ár, ef maður fellur, og standist hann enn ekki sama prófið eða gangi frá því, hefur hann fyrirgert rétti sínum til að ganga oftar undir það. Það má vel vera, að þannig standi á fyrir manni, að hann hafi fallið á prófum, jafnvel fyrir óreglu og eitthvað, sem miður skyldi vera, en taki sig svo á nokkrum árum síðar og taki próf af skyndingu, löngu eftir að allir hafa haldið, að hann væri hættur námi. Ég er ekki frá því, að a.m.k. einn af okkar fremstu fræðimönnum hafi að vísu ekki fallið svo oft á prófi, en hafi þannig tekið próf löngu eftir að menn héldu, að hann væri hættur námi, og orðið sjálfum sér og öðrum til sæmdar með því að taka prófið, og sé ég enga ástæðu til þess að koma í veg fyrir það.

Þá vil ég benda á, hvort ástæða er til þess að hafa mismunandi reglur um prófdómara. Ef prófdómarar eru réttmætir á annað borð, er þá ekki nauðsynlegt að hafa þá í öllum fullnaðarprófum og með sama hætti, vegna þess að bersýnilega eru prófdómararnir ekki settir vegna háskólans eða kennaranna, heldur til þess að tryggja hæfilegt eftirlit af almannavaldinu og til þess að öruggt sé, að háskólakennarar misbeiti ekki því mjög viðkvæma og þýðingarmikla valdi, sem þeir hafa. Ég játa, að það eru mjög mismunandi reglur um þetta, sem gilt hafa, og ætlazt er til, að þær haldist að verulegu leyti. En mér finnst það vera óeðlilegt, þar sem reglurnar um prófdómara eru þannig til komnar eins og ég nú hef gert grein fyrir.

Þá vil ég benda á það, að nokkurt ósamræmi er í 39. gr., þar segir: „Forseti Íslands veitir embætti háskólabókavarðar samkvæmt tillögu háskólaráðs“. Samkvæmt því, sem skilið hefur verið, mundi hann alls ekki mega veita neinum öðrum en háskólinn gerir till. um, hvort sem það er einn eða fleiri. En menntmrh. skipar ritara við háskólann að fengnum till. háskólaráðs. Nú vil ég benda á, að háskólaritari er háskólaráðinu miklu tengdari en háskólabókavörður, þannig að ef ástæða er til þess að fá háskólaráði mjög mikið vald í öðru hvoru tilfellinu, þá væri ríkari ástæða til þess að fá því mikið vald í sambandi við háskólaritara heldur en háskólabókavörð.

Ég mundi nú telja, að í báðum tilfellunum færi bezt á því, að menntmrh. gerði þetta að fengnum till. háskólaráðs.

Enn fremur vil ég benda á, að ég kann ekki við orðalagið, það getur verið, að það standist fyllilega, þar sem segir: „Prófessorinn í lyfjafræði hefur yfirumsjón með kennslu í lyfefnafræði.“ Þetta er þá þannig, að það eiga margir menn að starfa með honum og hann á að hafa yfirumsjón með starfi þeirra, en yfirleitt er það þannig, að prófessorarnir eiga sjálfir að annast kennsluna. Hvort þeir hafa svo með sér aðstoðarmenn eða ekki, það fer eftir því, hvers eðlis kennslan er. En ég þekki ekki til um þessa sérstöku kennslu og skal því ekki segja um, hvort þetta standist eða standist ekki.

Þessar athugasemdir vildi ég láta fram koma nú þegar. Ég tel, að þær skipti mismunandi miklu máli, en vil beina því til hv. nefndar, að hún athugi þær í sinni meðferð, og mun síðar, ef tækifæri gefst til, áskilja mér rétt til að flytja brtt. eftir því, hvernig hennar umsögn og till. verða.