25.01.1957
Efri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

98. mál, veð

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Í þessu frv. um breytingu á veðlögunum, 7. gr. þeirra, felast tvær efnisbreytingar. Er önnur sú, að til samræmis við frv. um breyt. á l. nr. 30/1928, um þinglýsing skjala og aflýsing, á þskj. 191 er gert ráð fyrir, að þinglýsing lausafjárveðbréfa skuli fara fram á bæjarþingum í kaupstöðum, í stað þess að lögin ætlast til þess, að þeim sé þinglýst á manntalsþingum. Fyrir þessari breytingu hefur verið gerð grein í grg. á þskj. 191 og í framsögu minni um það frv.

Hin efnisbreytingin er sú, að í stað þess, að nú ber að þinglýsa lausafjárveðskjall á 1. eða 2. manntals- eða bæjarþingi, eftir að bréf er gefið út, skuli nú þinglýsa því á 1., 2. eða 3. bæjarþingi eftir dagsetningu þess.

Það hefur sem sé komið nokkrum sinnum fyrir, svo að fim. sé kunnugt, að frestur sá, sem nú gildir, hefur reynzt of stuttur og gildi lausafjárveðbréfs hefur að engu orðið af þeim sökum, þegar það hefur borizt of seint til þinglýsingaryfirvalds. Hins vegar er vafasamt vegna viðskiptaöryggis að hafa frestinn of langan, og er því aðeins lagt til, að hann verði lengdur um eina viku og þá gert ráð fyrir reglulegu bæjarþingi vikulega.

Svo að dæmi sé nefnt til skýringar í þessu sambandi, getur maður gert ráð fyrir, að maður búsettur t.d. í Neskaupstað eða á Seyðisfirði gefi út lausafjárveðbréf einhvers staðar á Vestfjörðum. Þá þarf veðbréfið að vera komið í hendur þinglýsingaryfirvaldi, þar sem veðsali á heima, t.d. hvort sem væri nú i Neskaupstað eða Seyðisfirði eða annars staðar, áður en tvö bæjarþing hafa verið haldin frá útgáfudegi bréfsins. Þetta gæti orðið allt að 8 daga frestur skemmst, og ég dreg f efa, að samgöngur milli þessara staða séu það öruggar, að hægt sé að treysta því, að ábyrgðarbréf þurfi aldrei lengri tíma til þess að komast leiðar sinnar milli þessara staða eða annarra álíka, og þess vegna sé ástæða til að lengja þennan frest, en þó að sjálfsögðu aðeins í hófi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum — þetta ætti að liggja nokkurn veginn ljóst fyrir — og legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.