29.04.1957
Sameinað þing: 53. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

Varamenn taka þingsæti

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar kjörbréf tveggja varaþingmanna, séra Gunnars Gíslasonar í Glaumbæ, sem er varaþingmaður Sjálfstfl., kosinn af D-lista í Skagafjarðarsýslu. Við athugun á því kjörbréfi hefur komið fram, að nm. voru sammála um að mæla með því, að kosningin yrði talin gild og kjörbréfið samþykkt.

Þá hefur n. haft til athugunar kjörbréf varaþingmanns, Gunnlaugs Þórðarsonar, Reykjavík, sem fyrsta varauppbótarþingmanns Alþýðuflokksins, og við athugun á því máli klofnaði n. þannig, að meiri hlutinn, ég, hv. þm. N-Þ. og hv. 1. landsk. þm., leggur til, að kjörbréfið sé samþykkt, en hv. sjálfstæðismenn í n. munu sitja hjá, en hv. 1. þm. Reykv. mun gera grein fyrir hjásetu þeirra. Ég ber því hér fram annars vegar till. nefndarinnar í heild sinni um það að samþykkja kjörbréf Gunnars Gíslasonar og hins vegar till. meiri hlutans um að samþykkja kjörbréf Gunnlaugs Þórðarsonar.