21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

98. mál, veð

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mál þetta var tekið út af dagskrá fyrir skömmu eftir ósk minni, og benti ég þá á, að það væri þörf á að breyta 1. málsgr. 1. gr. frv., vegna þess að þar væri ekki höfð í huga sú breyting á meðferð þessara mála, sem gerð var hér í Reykjavík með sérstökum lögum og er nokkuð annars eðlis en aðferðir þær, sem hafðar eru við þinglýsingu skjala annars staðar á landinu. Í samræmi við þetta hef ég leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 238 þar sem breytt er nokkuð upphafi 1. meginmálsgr. í samræmi við þessa athugasemd mína.

Þessi brtt. er gerð í samráði við borgarfógetann í Reykjavík, sem hefur með þessi mál hér að gera, og er aðeins til þess fram borin, að þetta frv. geti farið hér út úr hv. d. með lögformlega réttu orðalagi. Vildi ég því leyfa mér að vænta þess, að hv. þdm. gætu fallizt á að samþykkja þessa brtt.