25.10.1956
Efri deild: 5. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

16. mál, eftirlit með skipum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, hefur það sannazt mjög greinilega á s.l. árum, að gúmbjörgunarbátar um borð í skipum auka mjög líkurnar fyrir því, að unnt sé að bjarga mannslífum, þegar skipunum hlekkist á og önnur björgunartæki, sem til ern í skipunum, koma ekki að notum. Það er óþarft að rekja þessa mörg dæmi, þau eru öllum kunn, enda hefur nokkuð verið að því gert, að gúmbjörgunarbátar hafa verið hafðir um borð í skipum, einmitt sem staðfesting og viðurkenning á þessari reynslu.

Í þessu frv. er lagt til, að á hverju þilfarsskipi skuli auk venjulegra björgunartækja vera gúmbjörgunarbátar, einn eða fleiri, og skal stærðin miðuð við það, að þeir rúmi þá, sem á skipi eru, en ráðh. skal svo með reglugerð setja nánari fyrirmæli um gerð þeirra og fyrirkomulag á skipinu. Þessi skylda er þó aðeins lögð fram í frv. á þilfarsskip, en ekki á opnar fleytur.

Sjómannafélag Reykjavíkur og sjómannasamtökin í landinu yfirleitt leggja á það mikla áherzlu, að þessir bátar verði teknir í notkun og það verði tryggt, að þeir verði til á öllum þilfarsskipum, umfram þau björgunartæki, sem til þessa hefur verið skylt að hafa meðferðis.

Það var nokkuð athugað af forráðamönnum sjómannafélaganna, áður en þau óskuðu, að þetta frv. væri borið fram, hvort öruggt þætti, að hægt væri að setja fyrirmæli um þetta með reglugerð, án sérstakrar lagaheimildar umfram það, sem nú er í lögum. Og þeir menn, sem kynntu sér þessi mál, töldu, að öruggara væri að fá til þessa sérstaka lagaheimild. Því er frv. borið fram.

Síðan þetta frv. var lagt fram, hefur verið gefin út reglugerð um skyldu ákveðinna skipa til þess að hafa gúmbjörgunarbáta, sumpart með öðrum björgunartækjum og sumpart, að mér skilst, í stað venjulegra björgunarbáta. Ég vildi því mælast til þess, að sú hv. n., væntanlega sjútvn., sem fær þetta frv. til athugunar, gangi úr skugga um, hvort þau ákvæði, sem tekin eru upp í þessa reglugerð, eru fullnægjandi til þess að mæta óskum sjómanna á eðlilegum þörfum í þessu efni, og um leið, hvort það er alveg tvímælalaust, að þessa skyldu sé hægt að leggja á útvegsmenn um að bæta þessum tækjum við þau, sem fyrir eru, án þess að sérstök lagaheimild sé fyrir hendi umfram það, sem nú er. Fleiri orð hygg ég ekki þurfi að láta fylgja þessu frv. Efnislega hygg ég að dm. muni allir vera samþykkir því, og leyfi mér að leggja til, að frv. verði visað til hv. sjútvn.