29.04.1957
Neðri deild: 88. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

87. mál, fasteignaskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Því hefur verið lýst af mér og fleiri mönnum, bæði við fyrri hluta þessarar umr. og 1. umr. málsins hér í hv. d., að tilgangurinn með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er enginn annar en sá að taka innheimtuna á fasteignaskattinum frá sýslumönnum og bæjarfógetum og færa það yfir á oddvitana í landinu. Við teljum, að þetta sé algerlega óþarft og engan veginn heppilegt, þar sem annars vegar eru menn, sem hafa flestir nægilegt af starfsfólki til þess að anna þeim störfum, sem að kalla, bæði innheimtu og öðru. Hins vegar eru önnum kafnir oddvitar víðs vegar um landið, sem lítið hafa fyrir sitt starf og engin ástæða til að vera að bæta á. Þar að auki er þess að geta, að um fasteignaskatt eru fleiri lagaákvæði en eitt, sem nauðsynlegt væri þá að sameina í eitt, áður en gerðar eru breytingar á þeim lögum, og því fremur er ástæða til þess nú, þar sem næstu daga gengur í gildi nýtt fasteignamat, og samkv. lögum er ákveðið, að þá verði tekin til athugunar ákvæði um skatta, sem lagðir eru á eignir og fasteignir. Það er bæði eignarskatturinn og fasteignaskatturinn. Ég tel þess vegna eðlilegt, ef ekki fæst frestun á þessu máli, þannig að það verði látið daga uppi, að það verði þá fellt hér í hv. deild, því að ég sé ekki neina ástæðu til þess að vera að knýja það fram nú. Þessi mál þarf að taka til nánari athugunar og eðlilegast, að þá séu færð í lag þau ákvæði, sem eru um fasteignaskatt, og það undirbúið fyrir næsta Alþingi.