30.11.1956
Efri deild: 21. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

67. mál, tunnuverksmiðjur ríkisins

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um tunnuverksmiðjur ríkisins, er fram borið í því skyni að bæta skilyrði fyrir framleiðslu á tunnum í tunnuverksmiðjunum, þannig að hvort tveggja geti orðið, að framleiðslan aukist frá því, sem tíðkazt hefur, og ekki síður hitt, að gæði framleiðslunnar verði meiri.

Um tunnuverksmiðjur ríkisins gilda nú lög nr. 33 frá 23. apríl 1946, um tunnusmíði, og breyting á þeim lögum, sem er nr. 41 frá 9. maí 1947.

Við flm. þessa frv. töldum rétt, að ný lög yrðu sett um þetta efni, þar sem þau fyrri eru að verulegu leyti orðin úrelt, enda eru þau heimildarlög og miðuð við byrjunarframkvæmdir einungis.

Tunnuverksmiðjur ríkisins hafa nú verið reknar um margra ára skeið og gefizt vel. Afköst verksmiðjanna eru: Siglufjarðarverksmiðjunnar 12 þús. tunnur á mánuði og Akureyrarverksmiðjunnar 10 þús. tunnur á mánuði. Hins vegar hefur framleiðslan hvergi nærri orðið jafnmikil og unnt hefði verið miðað við þessi afköst. Og á s.l. vetri voru framleiddar á Siglufirði rúml. 70 þús. tunnur og á Akureyri rúml. 33 þús. tunnur, eða samtals 103425 tunnur í báðum verksmiðjunum.

Við tunnuframleiðsluna hefur hvort tveggja unnizt, að sparazt hefur erlendur gjaldeyrir, sem nota hefði þurft við innflutning á tilbúnum tunnum, og einnig hitt ekki siður, að veruleg atvinna hefur skapazt við framleiðsluna á Siglufirði og Akureyri, einmitt yfir vetrarmánuðina, þegar annars hefur verið erfiðast um atvinnu á þessum stöðum. Verksmiðjurnar hafa því að mínum dómi skýlaust verulega þjóðhagslega þýðingu. Hins vegar hefur brostið á, að skilyrði til framleiðslunnar væru svo góð sem vera þyrfti, og á þetta þó einkum við um Akureyrarverksmiðjuna. Þar vantar alveg skýli til geymslu á tunnuframleiðslunni, en það skiptir miklu máli, að það sé fyrir hendi, vegna þess að tunnur skemmast við geymslu undir beru lofti, eins og bent er á í grg. frv. Framleiðslukostnaður á tunnum hlýtur einnig að verða meiri, þar sem geymsluskýll er ekki fyrir hendi, því að þá er útilokað að nota annað en frumstæðustu tæki við flutning á tunnunum úr vélasal á stæði, þar sem þær eru geymdar. Við þetta bætist einnig snjómokstur að vetrinum.

Í þessu frv. er lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að endurbæta verksmiðjurnar, búa þær húsa- og vélakosti, og þessi heimild nái til þess að byggja tunnugeymsluskýli við verksmiðjuna á Akureyri, sem rúmi allt að 50 þús. tunnur, og að öðru leyti til þess að gera nauðsynlegar umbætur á þeirri verksmiðju. Þar vantar upphitun og lofthreinsunartæki, sem hvort tveggja er nauðsynlegt fyrir þá, sem þarna starfa. Samfara þessum verksmiðjuiðnaði er að sjálfsögðu mikið ryk af sögunarvélum og nauðsynlegt, að þar verði sett upp viðeigandi lofthreinsunartæki, þannig að ryki verði eytt jafnóðum og það kemur fram.

Frv. gerir ráð fyrir, að stjórn verksmiðjanna verði hagað með sama hætti og áður hefur tíðkazt, þ.e., að síldarútvegsnefnd annist hana, enda er talið, að sú tilhögun hafi gefizt vel, og því ekki efni til þess, að þar verði gerð breyting á.

Það er mikið hagsmunamál fyrir síldarsaltendur á Norðurlandi, einkanlega á Sauðárkróki, Dalvík, Hjalteyri, Akureyri, Húsavík og Dagverðareyri, að jafnan séu til nægar birgðir af tunnum fyrir saltsíldarframleiðsluna á Akureyri, en til þessara staða er unnt að flytja tunnur jafnharðan og þörf er fyrir þær með bifreiðum og það á mun ódýrari hátt en unnt yrði með skipum.

Þessu hagsmunamáli verður því aðeins borgið, að búið sé sómasamlega að verksmiðjunni á Akureyri, og þess vegna er ærin nauðsyn á því, að endurbætur þær, sem frv. gerir ráð fyrir, komist í framkvæmd, til þess að hún geti gegnt sínu hlutverki sómasamlega. En takmarkið ætti vitanlega að vera það, að við getum orðið sjálfum okkur nógir um tunnuframleiðslu í landinu, og hér er stefnt að því marki, þótt stærra átak þurfi að gera í máli þessu síðar meir.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta á þessu stigi málsins, en legg til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til fjhn.