14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

83. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls beindi ég til landbn. tilmælum, sem hnigu í þá átt, að n. tæki til athugunar, að aukin yrði nokkuð friðun einnig í þessu frv. að því er snertir stangveiðarnar. Ég viðurkenni það alveg fullkomlega, að það er nauðsynlegt, ef reynslan sýnir, að veiðarnar í ánum gangi svo langt, að stofninum stafi hætta af því, að þá séu gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þetta. En þær ráðstafanir verða þá að vera, eftir því sem frekast er unnt, raunhæfar ráðstafanir. — Ætli hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) sé hér nokkurs staðar? Ég vildi gjarnan, að hann hlýddi hér á mitt mál, ef þess væri kostur.

Þær friðunarráðstafanir, sem í þessu frv. felast, miðast eingöngu við að takmarka netaveiðar, sem þá ef til vill byggist á þeirri skoðun, að netaveiðunum einum geti laxastofninum stafað hætta af, aðrar veiðiaðferðir séu ekki þess eðlis, að af þeim geti nein hætta stafað. — Ég vil nú skjóta því til hæstv. forseta, að ég sé hér hvorki hv. frsm. þessa frv. og ekki heldur hv. 2. þm. Reykv., sem mjög hefur lagt til þessa máls, og vildi ég þá mælast til þess, að ég fengi að fresta minni ræðu, þangað til þessir hv. þm. hefðu tækifæri til þess að vera hér viðstaddir. (Forseti: Það má athuga, hvort þm. eru í húsinu, en annars var meiningin að ljúka umr.)

Ég vil þá endurtaka það, af því að hv. 2. þm. Reykv., sem mikið hefur látið þetta mál til sín taka hér, var horfinn, að ég var að lýsa því hér, að ég hefði borið fram tilmæli til landbn. um það, að hún tæki visst atriði þessa frv. um stangarveiðarnar til athugunar, af því að þessu frv. er ætlað að stefna að friðun á laxveiðunum. Hér í þessu frv. er gert ráð fyrir því að lengja friðunartímann um 24 klukkutíma á viku að því er snertir netaveiðarnar, en hins vegar ber svo einkennilega við, að veiðitími með stöng er rýmkaður frá því, sem er í gildandi lögum. Það þýðir ekkert fyrir hv. 2. þm. Reykv. að vera að hrista neitt höfuðið yfir því í mótmælaskyni við, að þetta sé svona, því að í l. er það svo, að stangarveiðar eru bannaðar í námunda við árósa á tilteknu svæði upp og niður frá árósum. Að vísu er til undanþáguheimild hvað þetta atriði snertir, sem máske hefur verið notuð eitthvað, ég veit ekki vel um það, en í löggjöfinni er þetta bannað algerlega. En í þessu frv. er þetta opnað upp á gátt. Nú er heimilt að veiða við árósa, við stöðuvötn, 100 m upp frá slíkum ósum og 200 m niður frá þeim. Nú er þetta algerlega heimilað í þessu frv. Þannig er samtímis því, sem aukin er friðun að því er netaveiðarnar snertir, gengið í þveröfuga átt að því er stangarveiðarnar snertir. Þar sem ég er þeirrar skoðunar, að sjálfsagt sé að gera nauðsynlega friðun til verndunar stofninum, vil ég, að í hvorum tveggja þessum tilfellum sé þessarar nauðsynjar gætt. Of miklar netaveiðar geta náttúrlega verið hættulegar fyrir stofninn, en of miklar stangarveiðar geta engu að síður verið hættulegar fyrir stofninn. Í þessu sambandi má þó líta á það, að að því er gamansemi og tekjur af þessum veiðum snertir, þá er sá lax, sem veiðist nýgenginn úr sjó, miklu verðmeiri vara en lax, sem runnið hefur sitt skeið upp eftir ánum eða hefur legið í þeim um nokkurn tíma, og að því er það snertir að nota erlendan markað fyrir lax, þá er ekki hægt að nýta hann fyrir annan lax en fyrir þann, sem er nýgenginn úr sjó. Það þýðir ekkert að senda á erlendan markað lax, sem búinn er að liggja í ánum og breytt hefur um litarhátt og megrazt þar og misst bragð og önnur gæði, sem neytandinn vill gefa mikla peninga fyrir. Á þetta má fullkomlega líta, þó að hins vegar megi ekki missa sjónar á því í þessu sambandi, að það verður að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að netaveiðarnar séu ekki notaðar úr hófi fram.

Nú vitum við það, að á öllum sviðum á síðustu árum hefur tæknin aukizt, og þetta náttúrlega kemur fram að því er þessa veiðiaðferð snertir. Það er ýmiss konar útbúnaður, nælonnet og annað, sem þykja miklu veiðnari bæði í sjó og vötnum, og fleira kemur þar til greina, auk þess sem tæknin í stangarveiðunum hefur stórum aukizt eins og eðlilegt er.

Þess vegna er það, að ef á að þjóna þeirri hugsjón, sem sjálfsagt er, að tryggja landinu þau gæði, sem fólkinu, sem þar býr, geta fallið í skaut í sambandi við þessar veiðar, þá verður að gera þær ráðstafanir, sem að haldi komi í þessu efni, og þá má sannarlega ekki, eins og gert er í þessu frv., missa sjónar af þeirri hættu, sem þarna getur stafað af stangarveiðinni.

Það er alveg rétt, að í báðum þessum tilfellum, hvort sem rétturinn til veiði skapar tekjur bóndanum, sem landið á, með netaveiði eða veiðinni er ráðstafað á annan hátt, þá eru það hans hagsmunir, að veiðin geti borið sem allra beztan árangur. En hagsmunirnir eru því aðeins tryggðir, að ráðstafanir séu til þess gerðar, að veiðunum sé ekki beitt þannig, hvort sem um er að ræða netaveiði eða stangarveiði, að þessir hagsmunir gangi úr sér og rýrni og máske verði að engu fyrir óskynsamlegar aðferðir við veiðarnar.

Þess vegna er það, að rétt bændanna og hagsmuni bændanna í þessu efni, hvort sem þeir búa við árósana ellegar lengra uppi í landi, verður að hafa fyrir augum og tryggja hann í báðum tilfellum gersamlega, því að það eru ekki neinir framtíðarhagsmunir bóndans fólgnir í því, þó að hann geti leigt ána fyrir dýra dóma, ef þeirri leigu fylgir það, að með stangarveiðunum sé beitt hreinni rányrkju, sem sviptir bóndann, þegar fram líða stundir, þeirri gagnsemi, sem þarna er um að ræða. Það er alveg eins með þetta og með netaveiðarnar, í hvoru tveggja tilfellinu verður að setja hæfilegar og skynsamlegar skorður.

Ég skal ekki segja um það, hvað þess þarf lengi. Það má vel vera, að friðun í sambandi við netaveiðarnar sé nauðsynleg, og ef svo er, þá er sjálfsagt að gera hana. En á sama tíma verður að hafa það hugfast, að það verður að gera hliðstæðar ráðstafanir gagnvart öðrum veiðiaðferðum, hvort sem þar er heldur um að ræða stangarveiði og þá ekki síður, ef um ádrátt er að ræða, sem nú mun vera orðið, sem betur fer, lítið eða ekkert stundaður. Ég veit ekki til, að það sé neinn ádráttur í ám fram yfir það, sem nauðsynlegt er að ná þá laxi í klak, t.d. í Borgarfjarðarhéraði; ég þekki það ekki.

Svona stendur þetta mál. En í meðförum þeirrar n., sem hefur samið frv., og meðferð Alþingis enn sem komið er, er algerlega vanrækt að reisa skorður nema í öðru tilfellinu. Þvert á móti er gengið lengra en verið hefur til þess að auka hættuna, sem getur stafað af ofbeitingu stangarveiðanna. Það var með tilliti til þessa, sem ég bar fram við landbn. tilmæli um það, að hún tæki þennan þátt frv. til athugunar, en það hefur n. alls ekki gert. Meiri hlutinn hefur fallizt á þau ákvæði frv. að takmarka verulega netaveiðarnar, en vanrækt gersamlega að gera hliðstæðar ráðstafanir að því er stangarveiðarnar snertir, sem þó er brýn þörf á, eins og ég hef þrásinnis bent á og brýnt fyrir nefndinni við 1. umr. þessa máls. Þetta skortir á. Væntanlega vinnst enn tóm til að ráða hér bót á.

Minni hl. landbn. hefur borið hér fram ýmsar till., sem ganga í þá átt, að hér sé leitað nokkurs jafnræðis, auk ýmissa annarra breytinga, sem ég er honum engan veginn að öllu leyti sammála um.

Ég vil taka mjög undir það með hv. 2. þm. Reykv., að aðstaða til laxveiða í Borgarfirði og máske líka í Árnessýslu, — ég þekki þar ekki eins vel til, — er sú, að þetta geti verið eitt af stórum kostum þessara byggðarlaga. En það verður það því aðeins, að reistar séu skorður við því, að svo langt sé gengið í veiðunum eða lengra en svo gagnvart stofninum, sem elst upp í þessum ám og síðan fer þaðan út í sjóinn til þess að sækja sér vöxt og þroska og gengur svo aftur sem fullvaxinn fiskur upp í árnar, að úr þessum kostum dragi. En þá dugir ekki í því sambandi að blína eingöngu á netaveiðarnar, þegar það er vitað, að stangarveiðunum er hægt að beita á jafnhættulegan hátt og netaveiðunum eða hættulegri. Þá verður að fylgja því fast eftir í báðum þessum tilfellum, að allrar varfærni sé gætt, og ég vildi mega vænta þess, að hv. 2. þm. Reykv., sem er mikill og góður veiðimaður og þekkir vel til þessara mála, fáist til að viðurkenna, að það er fyllsta þörf á, eins og nú er komið, að fylgjast með því vel og gaumgæfilega, hvernig veiðunum vegnar í sambandi við stangarveiðarnar, engu síður en með hliðsjón af netaveiðunum. Á því velta framtíðarhagsmunir og ánægja héraðsbúa á þeim svæðum, sem þessara veiða hafa not. Hér er ekki einasta um arðvænlegan atvinnurekstur að ræða, heldur mjög ánægjulegan fyrir þá, sem hneigð hafa til slíkra veiða. En sveitafólkið kann alveg eins og kaupstaðabúar að meta þá ánægju, sem laxveiðarnar veita, þó að það af fjárhagsástæðum hafi orðið að neita sér um hana og hún því fallið að mestu leyti í skaut kaupstaðafólki. En þessir hagsmunir og ánægjan, sem veiðunum fylgir, verða því aðeins tryggðir, að gætt sé allrar varfærni og rönd reist við allri ofveiði, hvort sem hún stafar af netalögnum eða stangarveiði. Sveitafólkinu má vera það ljóst, að kaupstaðabúar bjóða því aðeins hátt verð fyrir veiði í ánum, að þeir fái eitthvað í aðra hönd. Beri út af með það, kippa þeir fljótt að sér hendinni.