07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2362)

26. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu o. fl

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Í fyrradag, mánudaginn 5. nóv., var lögð á borð þingmanna hér í hv. Alþingi grg. um athugun á röskun jafnvægis í byggð landsins, um jafnvægisframkvæmdir o.fl. Hún á sem kunnugt er rætur sínar að rekja til þingsályktunar, sem samþykkt var á Alþingi 4. febr. 1953, þar sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum. Í þessari grg., sem er löng og ýtarleg, er margs konar fróðleik að finna, enda er hér um stórmál að ræða, sem dregið hefur til sín athygli fjölda manna hin síðari ár. Virðast flestir telja ýmsar jafnvægisráðstafanir æskilegar og jafnvel óumflýjanlegar.

Í till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir til umr., er gert ráð fyrir, að hafinn verði nú þegar undirbúningur að byggingu leirverksmiðju í Búðardal í Dalasýslu. Slík verksmiðja hefur ekki verið reist né rekin áður hér á landi. Er því eðlilegt, að ýmsir séu vantrúaðir á slíkt fyrirtæki, telji jafnvel till. þessa út í bláinn eða flutta til að sýnast. Ég mun því fara um hana nokkrum orðum og minnast á þau rök, sem að mínum dómi liggja henni til grundvallar.

Ég skal strax taka það fram, að ég tel höfuðnauðsyn að vanda alla rannsókn og undirbúning mjög rækilega, áður en hafizt er handa um framkvæmdir. En það hefur stundum viljað brenna við hjá Íslendingum, að þeir byrja á stórum framkvæmdum, án þess að þær séu hugsaðar og undirbúnar sem skyldi, en slíkt skaðar aðeins það málefni, sem barizt er fyrir.

Þó að þessu máli sé nú hreyft á Alþingi í fyrsta sinn, að ég ætla, á það sér langan aðdraganda. Það eru nú senn liðin 30 ár síðan hinn kunni listamaður, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, hóf rannsóknir sínar á aðstæðum til leirbrennslu á Íslandi. Þessar athuganir hans gáfu fljótlega góða raun. Árið 1930 var fyrsta sýning leirmuna úr íslenzkum jarðefnum haldin í Reykjavík. Hefur Guðmundur Einarsson frá því fyrsta unnið ötult brautryðjendastarf á þessu sviði. Er það að nokkru rakið í fskj. með þessari till. Sést af því, að athuganir þær, sem gerðar hafa verið á íslenzkum leir, eru allvíðtækar og harla merkilegar. Þær eru einnig mjög jákvæðar og lofa góðu um nýjan iðnað á þessu sviði.

Hér í bænum hafa nokkur smáverkstæði unnið ýmsa leirmuni undanfarin ár með ágætum árangri. Þeir leirmunir, sem framleiddir hafa verið á þennan hátt, eru flestir litlir og léttir, svo að til vinnslu þeirra hefur ekki þurft nema tiltölulega lítið magn af hráefni. Er fremur auðvelt að flytja það langan veg í smáum stíl. Þannig hefur Guðmundur Einarsson mestmegnis notað leir frá Búðardal í Dalasýslu s.l. 25 ár og flutt hann óunninn til Reykjavíkur, en sú vegalengd er á þriðja hundrað km. Í þessari till. er hins vegar gert ráð fyrir að hefja þungaiðnað úr leir, eða eins og segir á fskj.: „Tel ég mest aðkallandi, að komið verði á fót fullkominni verksmiðju fyrir byggingarvörur og annan þungaiðnað, svo sem flísar, þakhellur, rör, stein til skreytingar og einangrunar; enn fremur gæti slík verksmiðja unnið blómsturpotta, leir til heimilisþarfa og ýmsar vörur fyrir rafmagnsiðnað“.

Eins og hér hefur lauslega verið bent á, hafa ýmsar tilraunir til leirvinnslu verið gerðar með góðum árangri. Tilraunir þessar hafa sýnt og sannað, að leirinn við Hvammsfjörð er hið ákjósanlegasta hráefni til vinnslu. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að þar mun vera til næstum ótæmandi forði af þessu verðmæta jarðefni. Leirverksmiðjan mundi árlega spara landinu milljónir í erlendum gjaldeyri og veita hópi manna lífvænlega atvinnu.

Það virðist því vera ærin ástæða til að láta hið fyrsta athuga til hlítar, hvort hagkvæmt muni vera að reisa slíka verksmiðju í landinu. Þetta verkefni stendur næst ríkisstj. að láta framkvæma. Ætla má, að hún hafi greiðastan aðgang að rannsóknaráði ríkisins og Iðnaðarmálastofnun Íslands, svo að tveir aðilar séu nefndir.

Ætlazt er til, að kostnaður við umrædda rannsókn og undirbúning verði greiddur af ríkinu. Ég treysti mér ekki til að áætla, hvað slík verksmiðja mundi kosta fullbyggð. Það er að sjálfsögðu eitt af því, sem rannsaka þarf og gera kostnaðaráætlun um. Hitt má benda á, að þriðjungur þeirra ofna og véla, sem með þarf í slíka verksmiðju, er fyrir hendi í landinu, og skiptir það miklu máli, enn fremur nægjanlega margir fagmenn.

Geta má þess, að mér er kunnugt um ýmsa aðila, sem hafa mikinn áhuga á þessu máli, að rannsakað verði. Vil ég sérstaklega nefna Þorstein Þorsteinsson fyrrv. sýslumann. Má nokkuð taka mark á hans afstöðu til málsins, þar sem hann er þekktur að því að vera bæði hygginn og gætinn.

Þar sem ég tel hér vera um hið mikilvægasta mál að ræða, álít ég ríkisvaldinu bæði rétt og skylt að láta það til sín taka og það strax. Hitt yrði svo að athuga sérstaklega að rannsókn lokinni, hvaða rekstrarfyrirkomulag hentaði bezt slíku fyrirtæki.

Ég hef gert ráð fyrir, að verksmiðja þessi yrði staðsett að Búðardal í Dalasýslu. Skal ég að lokum rökstyðja það atriði lítið eitt.

Í fyrsta lagi ber að sjálfsögðu að reisa verksmiðjuna þar, sem gnægð er fyrir hendi af hinu bezta hráefni, sem völ er á hér á landi. Þetta er meginatriði varðandi allan þungaiðnað. Skilyrði til sjóflutninga eru fyrir hendi í Búðardal. Þó má vel vera, að hafnarbætur þyrfti að gera til að auðvelda slíka flutninga og gera þá öruggari, en slíkar umbætur eru æskilegar og nauðsynlegar hvort sem er.

Skilyrði til flutninga á landi fara stöðugt batnandi. Er Búðardalur að ýmsu leyti mjög vel staðsettur. Segja má, að þjóðleiðin frá höfuðstaðnum til Vestfjarða liggi þar um hlaðið. Er stöðugt vaxandi umferð og flutningar á þeirri leið. Vegamálastjóri hefur nýlega lýst því yfir í blaðavíðtali, að næsta höfuðviðfangsefni vegamálanna verði að bæta samgöngur á Vestfjörðum og tengja Vestfjarðakjálkann enn betur akvegakerfi landsins. Þá er vonandi ekki langt að bíða eftir því, að draumurinn um góðan þjóðveg úr Dalasýslu suður um Heydal rætist og á hinn bóginn frá Búðardal um Laxárdalsheiði til Stranda. Verða þá áreiðanlega fjölfarnar krossgötur við Búðardal.

Þá má minnast á rafmagnið. Dalasýsla er að vísu ekki rafvædd enn þá á borð við sum önnur héruð, en væntanlega verða ekki mörg ár látin líða, þangað til hún fær rafmagn, ef hin fræga 10 ára áætlun um rafvæðingu alls landsins kemst lífs af út úr núv. stjórnarsamstarfi.

Loks vil ég geta þess, að staðsetning leirverksmiðju í Búðardal mundi koma mjög vel heim við þá heildaráætlun um jafnvægi í byggð landsins, sem nú hafa verið lögð allveruleg drög að og allir virðast sammála um í meginatriðum. Dalasýsla hefur ekki farið varhluta af hinni miklu röskun og tilfærslu á búsetu fólksins í landinu, sem orðið hefur síðustu áratugi. Frá 1930 hefur íbúum sýslunnar fækkað um nær þriðjung, sérstaklega hefur eyjabúskap hrakað, og eru nú aðeins fáar Breiðafjarðareyjar í byggð, þar sem áður hafðist við fjöldi fólks, enda brugðust eyjarnar ekki sem matforðabúr á mestu þrengingarárum þjóðarinnar.

Þessi þróun blasir reyndar við víða um land og á sér að mörgu leyti eðlilegar orsakir. Samkv. áætlun um uppbyggingu eyðijarða og nýbýlastofnanir 1955–1965, sem samin er af landnámsstjóra og prentuð á bls. 100 í skýrslu þeirri, sem ég minntist á í upphafl, er rætt um 16 byggilegar eyðijarðir í Dalasýslu og 10 nýbýli. En ég vil minna á, að jafnvel þótt þessi áætlun gengi að óskum, þá hefur hún ekki ýkjamikla fólksfjölgun í för með sér. Það þarf ekki eins margar hendur og áður var til að vinna að búskapnum, þar sem vélakostur er til staðar. Fólkið er eftir sem áður fátt, og fámennið eitt út af fyrir sig hefur lamandi áhrif, einkum á æskufólk, sem þráir fjölmenni og félagslíf.

Hér og hvar úti um land þurfa að rísa upp útgerðar- og viðskiptastöðvar, iðjuból og menningarmiðstöðvar, sem mynda eins konar kjarna, þétta hina dreifðu byggð og styðja þannig landbúnaðinn beint og óbeint og skapa skilyrði fyrir aukið félagslíf. Þannig er það t.d., að ég ætla, um þorpin á Suðurlandi, Selfoss, Hellu og Hvolsvöll, sem sprottið hafa upp á allra síðustu árum og áratugum. Ég hygg, að þau hafi reynzt héruðunum drjúgur styrkur, m.a. í menningarlegum efnum. Geta má þess, að skýrt var frá því í blöðum um daginn, að í haust tæki til starfa tónlistarskóli á Hvolsvelli, en sá staður telur þó aðeins fáa íbúa.

Varðandi Dalasýslu vil ég í þessu sambandi nefna, að nú er verið að reisa myndarlega bryggju í Skarðsstöð. Þar eru talin einhver beztu hafnarskilyrði við Breiðafjörð. Ekkert virðist vera því til fyrirstöðu, að þar geti í framtíðinni risið upp útgerðar- og viðskiptastöð, sem haft getur ómetanlega þýðingu fyrir byggðarlagið, ekki sízt þar sem allmiklar vonir eru bundnar við brúnkolanámið að Tindum. Ég kom að kolanámunni fyrir rúmri viku. Þar var þá verið að vinna úr jörðu þau beztu kol, sem þar hafa fundizt til þessa.

Við heyrðum fyrir nokkru í útvarpinu fréttir frá Noregi, þar sem skýrt var að nokkru frá áformum og aðgerðum Norðmanna varðandi uppbyggingu Norður-Noregs. Hér á landi virðist nú vera kominn töluverður skriður á þessi mál, enda getum við með engu móti setið og horft aðgerðarlausir á, að heil byggðarlög leggist í auðn. Um leið og eitthvert byggilegt býli eða byggðarlag eyðist, minnkar Ísland, þjóðin glatar hluta af sjálfri sér og sérkennum sínum. Gegn þessu þarf að sporna. Við skulum vona, að sú hin mikla grg., sem jafnvægisnefnd hefur sent frá sér, hafi vekjandi áhrif í þessum efnum, allt verði gert, sem unnt er, til að bæta aðstöðu hinna dreifðu byggða úti um landið og reynt verði að glæða þann skilning og lífsviðhorf meðal allra landsmanna, að „hvar sem mest var þörf á þér, þar er bezt að vera“.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þáltill. þessari verði að umræðu lokinni vísað til fjvn.