27.03.1957
Sameinað þing: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2417)

140. mál, Loftleiðir h/f til flugvélakaupa

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur rætt þetta mál á fundi sínum í gær og fengið til viðræðu við sig Sigtrygg Klemenzson ráðuneytisstjóra í fjmrn., en hann hefur ásamt Benjamín Eiríkssyni bankastjóra Framkvæmdabankans haft með höndum af ráðuneytisins hálfu athugun á þeim samningum, sem hér er farið fram á að veitt verði ríkisábyrgð fyrir að nokkru.

Málið er í aðalatriðum þannig vaxið, að flugfélagið Loftleiðir hefur þegar gert forsamning að flugvélakaupum í Bandaríkjunum. Sá forsamningur gildir til mánaðamóta, þannig að Loftleiðir eiga kost á því fram til 1. apríl skv. þessum forsamningi að undirrita samning um smíði tveggja stórra farþegaflugvéla, sem ætlaðar eru til flugs á leiðinni yfir Norður-Atlantshaf. Afhending véla þessara er áætlað að fari fram í janúarmánuði 1960, og verð þeirra er miðað víð íslenzkar krónur rétt um 75.6 milljónir. Það er fyrir 70% af þeirri upphæð, sem farið er fram á ríkisábyrgð, sem till. gerir ráð fyrir að veitt verði.

Áætlun sú, sem gerð hefur verið um greiðslu vélanna, er talin raunhæf, og gerir hún einungis ráð fyrir 5 millj. kr. yfirfærslu íslenzkra peninga vegna þessara kaupa. Að öðru leyti hyggst félagið Loftleiðir sjálft sjá fyrir gjaldeyrisútvegun af rekstri sínum og með sölu á flugvélum, sem félagið á nú.

N. hefur að sjálfsögðu ekki haft tækifæri til þess að kanna þetta mál til hlítar. En að því er séð verður, þá þykir allt mæla með því, að ríkisábyrgð sú, sem gert er ráð fyrir í till., sé eðlileg, og mælir n. einróma með því, að Alþ. samþykki till. eins og hún liggur fyrir.