07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2427)

24. mál, árstíðabundinn iðnaður

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ef svo hefur farið á þessu ári kosninga, stjórnarskipta og róstusams þinghalds, að einhverjum landsmönnum hefur þótt nóg um sundurþykkju og deilur stjórnmálamanna, þá kann það að vera þeim nokkur huggun, að það eru til málefni, sem allir flokkar virðast vera sammála um.

Eitt þessara mála er það, sem kallað er að efla jafnvægi í byggð landsins. En þrátt fyrir ágætt samkomulag og ýmsar aðgerðir undanfarin ár, er enn fjarri því, að málið hafi verið leyst og því jafnvægi náð, sem allir telja þjóðinni lífsnauðsyn.

Tili. sú, sem hér er til umr. og fjallar um árstíðabundinn iðnað, er af hálfu flm. hugsuð sem framlag til þessara mála. Ætti hún, ef hún yrði framkvæmd, að geta komið þar að nokkru gagni.

Ef litið er á íslenzka atvinnuvegi í heild, blasir sú staðreynd við augum, að tveir veigamestu þættir þeirra, sjávarútvegur og landbúnaður, eru að verulegu leyti árstíðabundnir. Einmitt þessi staðreynd á mikinn þátt í því, hve illa hefur gengið að skapa hér á landi atvinnuöryggi, fasta og jafna framleiðslu og tryggar tekjur þjóðarbúi og einstaklingum.

Íslendingar hafa t.d. komið upp síldarverksmiðjum, sem aðeins starfa 3–4 mánuði úr árinu, ef þær fá þá hráefni þann tíma. Þennan sama tíma fer mestallur bátaflotinn á síldarmið og hverfur þá frá veiðum fyrir frystihúsin, þannig að hráefnisöflun þeirra er töluverðum sveiflum háð, enda þótt togarar jafni þar nokkuð metin. Ekki hef ég séð tölur um það, hversu margt fólk síldariðnaðurinn einn dregur til sin, en það skiptir sennilega nokkrum þúsundum. Það er augljóst, að þetta fólk verður að finna aðra atvinnu aðra hluta ársins. Hið sama gildir að nokkru leyti um landbúnaðinn og fleiri atvinnugreinar, t.d. byggingariðnaðinn, sem er mjög háður árstíðum og veitir því á sumrum mörgum hundruðum, ef ekki þúsundum, fleira fólki atvinnu en yfir vetrarmánuðina.

Það má benda á ýmislegt, sem vegur á móti þessu ástandi, t.d. þá ágætu venju, að skólafólk vinni við þessa höfuðatvinnuvegi á sumrin og hafi til þess nægilega langt sumarfrí. Þrátt fyrir þetta er það staðreynd, að Íslendingar hafa til skamms tíma orðið að sætta sig við þessa árstíðaratvinnu og miklum mun rýrari tekjur eða jafnvel algert atvinnuleysi þess á milli. Þegar atvinna gefst, leggur fólkið nótt við dag og fær oft verðskuldaðar tekjur fyrir, en þarf að láta þær duga marga mánuði á eftir. Það er hugmynd flm., að reyna skuli þá lækningu við þessu meini að koma upp annarri árstíðabundinni atvinnu og þá fyrst og fremst iðnaði, sem starfað gæti á þeim tímum, er minnst er að gera við sjávarútveg og landbúnað.

Þessi hugmynd er engan veginn ný. Hún hefur skotið upp kollinum áður í ýmsum myndum í umr. um þessi mál og nú síðast hjá þeirri jafnvægisnefnd, sem nýlega hefur skilað ýtarlegu áliti. Hið opinbera hefur farið inn á þessar brautir, t.d. með tunnusmíðum norðanlands. Þá hefur Samband ísl. samvinnufélaga nú nýlega gert mjög athyglisverða tilraun á þessu sviði, og er henni lýst í grg. till. sem dæmi um það, hvað hægt er að gera. Þessi tilraun er fataverksmiðjan Fífa í Húsavík, sem framleiðir aðallega skyrtur og annan léttan fatnað. Húsnæði var til í Húsavík í nýlegri byggingu Kaupfélags Þingeyinga, og þörfin fyrir aukna vetrarvinnu var þar mikil sem víða annars staðar. Saumaiðnaður var í þetta skipti valinn til tilraunarinnar fyrir margra hluta sakir. Vélakostur við slíkan iðnað er tiltölulega lítill og ekki dýr, þannig að verksmiðjan þarf ekki að bera mjög þunga afskriftabyrði. Auk þess hafa íslenzkar konur lengi verið saumakonur góðar, svo að hagnýttir eru hæfileikar, sem fyrir eru, og verkefnið krefst ekki mjög umfangsmikillar þjálfunar.

Fataverksmiðja þessi er nú á öðrum vetri sínum og starfa 16–17 manns við hana. Er augljóst, að þær tekjur, sem hún veitir, verða heimilum Húsvíkinga veruleg búbót. Þetta er að sjálfsögðu aðeins ein tegund iðnaðar, sem hugsanlegt er að reka á þennan hátt. Tilgangur till. okkar er að fá gerða ýtarlega athugun á því, hvaða aðrar tegundir iðnaðar komi til greina og hvað gera þarf til að hjálpa slíkum iðnaði á stað.

Því er haldið fram og óneitanlega með nokkrum rétti, að Reykjavík og nágrenni hafi mikla yfirburði yfir aðra staði í landinu fyrir ýmiss konar iðnað. Þar eru nálega allir hlutir fyrir hendi, sem til þarf, og þar er ekki sízt mesti markaður landsins fyrir hvers konar framleiðslu. Aukinn flutningskostnaður og fleiri kostnaðarliðir bætast því við framleiðslu hjá verksmiðjum úti á landi, en þessir erfiðleikar eru engan veginn ósigrandi. Reynslan sýnir það, að ýmiss konar verksmiðjur, t.d. á Akureyri, keppa með mjög góðum árangri við reykvísku verksmiðjurnar á Reykjavíkurmarkaði og öðrum markaði hér í nágrenninu. Það má nefna mörg dæmi um þetta, sælgætis- og kexverksmiðju, fataverksmiðju, skógerð, sápuverksmiðju og jafnvel kaffibrennslu. Það má því ekki mikla fyrir sér fyrir fram þá erfiðleika, sem kunna að vera á staðsetningu nýrra verksmiðja víðs vegar um landið, enda þótt það geti farið svo, að ríkisvaldið þurfi á einhvern hátt að hjálpa til að skapa þeim rekstrargrundvöll. Það er svo einnig rannsóknarefni, hvers konar iðngreinar þola það að starfa aðeins hluta úr ári. og er það von flm., að ríkisstj. feli það færustu mönnum og geri þeim kleift að rannsaka málið vandlega, ef till. okkar nær samþykki hæstv. Alþingis.

Ég vil svo einnig leggja til, að þessari till. verði vísað til allshn.