08.05.1957
Sameinað þing: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2465)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér vegna þess, að við fyrri hluta umr. þessa máls flutti ég brtt. við þessa þáltill., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við tillögugreinina bætist ný mgr., svo hljóðandi:

Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að gera hið fyrsta ráðstafanir til, að samþykktin komist í framkvæmd hér á landi.“

Hv. frsm. gat þess í ræðu sinni, að hann undraðist þann ótta, sem komið hefði fram hjá sjálfstæðismönnum við, að töf yrði á framkvæmd þessa máls. En ég vil vekja athygli á því, að sá ótti er síður en svo ástæðulaus, þar eð hinn 13. apríl 1954 samþykkti Alþingi þáltill., sem sjö sjálfstæðismenn báru fram um, að ríkisstj. yrði falið að undirbúa ráðstafanir til þess, að hægt yrði að fullgilda jafnlaunasamþykktina frá Genf. Þess vegna álitu margir, þegar nú í vetur hæstv. félmrh. afhenti Kvenréttindafélagi Íslands afmælisgjöf, — það var á 50 ára afmæli félagsins, þá fékk form. Kvenréttindafélags Íslands í hendur tilkynningu frá félmrh. þess efnis, að nú hefði hann fengið ríkisstj. til að leggja fram á Alþingi þáltill. um, að alþjóðasamþykktin um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf karla og kvenna yrði nú fullgilt fyrir Íslands hönd, — þá álitu kvenréttindakonur, að hæstv. félmrh. hefði nú einnig gert þær ráðstafanir, sem ríkisstj. voru faldar með þáltill. sjálfstæðismannanna frá 1954, og skilyrði samþykktarinnar væru nú þegar fyrir hendi á Íslandi. En þegar í ljós kom, að hann hafði í sinni ráðherratíð og sem forseti Alþýðusambands Íslands ekki aðhafzt neitt því máli til framdráttar, en lagði þessa þáltill. fram engu að síður, þá þótti okkur sjálfstæðismönnum ástæða til, að fram kæmi till., sem gæti orðið til þess að ýta undir framkvæmd málsins. Og ég held, að það sé ekki hætt við öðru en að þeir, sem eru raunverulega efnislega fylgjandi þessu máli, ljái þessari brtt. fylgi sitt.