15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (2556)

161. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í till. þeirri til þál. á þskj. 452, sem hér er til umr., felst áskorun á ríkisstj. þess efnis, að hún láti athuga, hvort tiltækilegt sé að stofna lífeyrissjóð fyrir sjómenn, verkamenn, bændur, útvegsmenn og aðra þá, sem ekki njóta lífeyristryggingar hjá sérstökum lífeyrissjóðum.

Sérstakir lífeyrissjóðir eiga sér ekki ýkjalanga sögu að baki hér á landi. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér að neinu ráði, en ég ætla aðeins að drepa á örfá atriði til glöggvunar og til að sýna, hvert stefnt hefur í þessum efnum.

Lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra var settur á stofn árið 1921. Lög um þann sjóð höfðu að vísu verið sett 1919, en þau komu aldrei til framkvæmda. Árið 1921 var einnig settur á stofn lífeyrissjóður barnakennara. Samkvæmt lífeyrissjóðslögunum frá 1921 gátu embættismenn einir orðið sjóðfélagar. Áttu þeir að greiða 7% af árslaunum sínum í iðgjöld í sjóðinn. Tillag til sjóðsins kom ekki annars staðar að. Rétt áttu embættismenn á að fá greiddan lífeyri úr sjóðnum, ef þeir létu af embætti sakir elli eða vanheilsu. Eftirlifandi maki átti og rétt á lífeyri. Um lífeyrissjóð barnakennara giltu hliðstæðar reglur.

Árið 1943 var lögunum um lífeyrissjóð embættismanna breytt, og ná lögin eftir það til miklu fleiri manna en áður. Samkvæmt lífeyrissjóðslögunum 1943 heitir sjóðurinn Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Eftir 3. gr. þeirra laga eru allir ríkisstarfsmenn, sem taka laun eftir hinum almennu launalögum, sjóðfélagar, enn fremur allir aðrir starfsmenn ríkisins, sem laun taka úr ríkissjóði og ráðnir eru eigi til skemmri tíma en eins árs, eða með þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda sé starfið í þjónustu ríkisins aðalstarf þeirra. Með lögum frá 1955 er stjórn lífeyrissjóðsins enn fremur heimilt að taka sem sjóðfélaga starfsmenn þeirra ríkisstofnana, sem sérstakan fjárhag hafa, og starfsmenn bæjar-, sveitar- og sýslufélaga og stofnana, er þeim tilheyra og sérstakan fjárhag hafa.

Samkvæmt núgildandi lífeyrissjóðslögum greiða sjóðfélagar ár hvert 4% af heildarárslaunum í sjóðinn; enn fremur greiðir ríkissjóður eða annar launagreiðandi í lífeyrissjóðinn fyrst um sinn 6% af launum starfsmanna.

Auk þeirra lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, sem nú hafa verið nefndir, var stofnaður lífeyrissjóður ljósmæðra árið 1938, lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna árið 1943 og lífeyrissjóður alþm., sem stofnaður var með lögum frá 1953.

Af þessu örstutta yfirliti er ljóst, að verksvið þessara sérstöku lífeyrissjóða hefur verið rýmkað mjög, og er nú svo komið, að yfirleitt allir fastráðnir starfsmenn þess opinbera, hvort heldur eru starfsmenn ríkis, ríkisstofnana eða sveitarfélaga eru tryggðir eða eiga að fullnægðum vissum skilyrðum kost á lífeyristryggingu hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eða öðrum lífeyrissjóðum. Jafnframt hafa hlunnindi sjóðfélaga verið aukin, m.a. með þátttöku launagreiðenda í greiðslu iðgjalda.

Enginn vafi er á því, að lífeyrisréttindin eru og hafa verið opinberum starfsmönnum mikilvæg hlunnindi. Það er því sízt að undra, þótt ýmsir aðrir starfsmannahópar hafi sótt eftir hliðstæðum réttindum. Hefur orðið sú raunin á, að á síðari árum hefur sérstökum lífeyrissjóðum fjölgað. Hefur til sumra þeirra verið stofnað með sérstökum samningum eða samkomulagi milli launþega og atvinnurekenda. Má til dæmis nefna, að bankarnir hafa stofnað lífeyrissjóð fyrir starfsmenn sína. Sama máli gegnir um mörg viðskiptafyrirtæki, svo sem Samband ísl. samvinnufélaga, þar sem starfsmenn þess njóta lífeyristryggingar hjá lífeyrissjóði S.Í.S., og starfsmenn kaupfélaganna geta einnig fengið þar tryggingu, ef viðkomandi kaupfélag gerist aðili að sjóðnum. Allir þessir sjóðir byggjast á hreinum líftryggingargrundvelli, þ.e.a.s., að menn hafi greitt til sjóðsins iðgjöld í tiltekið árabil, áður en þeir öðlast réttindi.

Samkvæmt þessu er augljóst, að þeim starfsstéttum hefur farið æ fjölgandi, sem njóta lífeyristryggingar hjá sérstökum lífeyrissjóðum, og enn stefnir í sömu átt. Til þess benda m.a. nýafstaðnir samningar milli iðnrekenda og iðnverkafólks í Reykjavík, en í sambandi við þá samninga hefur verið skýrt frá því, að samkomulag hafi orðið um það á milli þeirra aðila að leggja til, að félögin skipi sameiginlega nefnd til þess að athuga möguleika á stofnun lífeyrissjóðs iðnverkafólks.

Það orkar ekki tvímælis, að lífeyrisréttindin í hinum sérstöku lífeyrissjóðum eru sjóðfélögum dýrmæt, að þau eru þeim mikilsverð hlunnindi, sem þeir meta mikils, og þær starfsmannastéttir, sem öðlazt hafa aðstöðu til að tryggja sér þessi réttindi, mundu telja það mikla kjaraskerðingu, ef svipta ætti þær þessum réttindum. Þetta er ofur eðlilegt. Lífeyristryggingin veitir mikið öryggi, sjóðfélagar tryggja sér ellilífeyri, sem getur numið allt upp í 60% af meðalárslaunum þeirra síðustu árin, auk þess sem eftirlifandi maka og börnum er tryggður lífeyrir, ef sjóðfélagi fellur frá, hvort heldur er á starfsaldri eða síðar. Þarf ekki að fjölyrða um það, hversu mikið öryggi er í þessu fólgið. En auk þessa hafa sjóðfélagar í rauninni, eins og rakið er nánar í grg., notið annarra mjög mikilsverðra hlunninda hjá hinum sérstöku lífeyrissjóðum. Sjóðfélagar hafa sem sé átt þess kost að fá hagfelld lán í sjóðunum til byggingar eigin íbúða. Allir, sem nokkuð þekkja til þeirra miklu erfiðleika, sem á því hafa verið að fá lán til bygginga, vita og skilja, hversu stórfellt hagræði hefur verið fólgið í lánveitingum lífeyrissjóðanna. Og það eru hreint ekki fáar íbúðir, sem byggðar hafa verið með tilstyrk lána úr hinum sérstöku lífeyrissjóðum. Það má rétt til dæmis geta þess, að á árinu 1953 fengu 127 sjóðfélagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ný lán úr sjóðnum til íbúðabygginga. En samkv. skýrslu Tryggingastofnunar ríkisins námu lán sjóðsins til íbúðabygginga þá alls, þ.e. bæði ný og eldri lán, rúmum 50 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins hafa lán úr sjóðnum á árinu 1955 numið 12–13 millj. kr., ný lán. Á árinu 1953 fengu 38 sjóðfélagar í lífeyrissjóði barnakennara bústaðalán úr þeim sjóði. Það er auðsætt, að með þessum lánveitingum hafa lífeyrissjóðirnir leyst mikinn vanda og orðið bæði félögum sínum og þjóðinni í heild að miklu liði. En þessu þýðingarmikla hlutverki hafa þeir getað sinnt vegna þess, að þeir hafa verið reknir á heilbrigðum og traustum tryggingargrundvelli. Hjá þeim hefur átt sér stað veruleg fjármagnsmyndun. Á árinu 1953 jukust t.d. eignir lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um 12 millj. kr. Á sama tíma jukust eignir lífeyrissjóðs barnakennara um rúmlega 2 millj. kr.

Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið hjá Tryggingastofnun ríkisins, jukust eignir lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um 14 millj. kr. á árinu 1955, og eignir lífeyrissjóðs munu nú nema yfir 90 millj. kr. Ég hef ekki tölu um aukningu á s.l. ári, en hún hefur vafalaust orðið mun meiri. Á s.l. ári hækkaði hrein eign lífeyrissjóðs S.Í.S. um 3 millj. og 200 þús. kr. Mér eru ekki nú tiltækar aðrar tölur um þetta efni, en vafalaust er svipaða sögu að segja af öðrum lífeyrissjóðum.

Þegar alls þessa er gætt, er eigi að undra, þó að æ fleiri starfsmannahópar hafi komið auga á lífeyristryggingar, orðið ljóst gildi þeirra og hafi eygt í þeim möguleika til raunhæfra kjarabóta.

Fyrir Alþ. því, er nú situr, liggja þegar tvö mál, sem lúta að stofnun nýrra lífeyrissjóða. Annað er frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna, hitt er till. til þál. um stofnun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn. Bæði þessi mál stefna þannig í þá átt að bæta tiltekinni starfsstétt í hóp þeirra starfsstétta, sem nú njóta lífeyrisréttinda hjá sérstökum lífeyrissjóðum.

Það er áreiðanlega æskilegt, að hægt sé að veita sjómönnum líftryggingu með hliðstæðum hætti sem opinberum starfsmönnum. En um leið hlýtur sú spurning að vakna, hvort ekki sé ástæða til að veita öðrum starfsstéttum sömu aðstöðu. Er ekki með því sagt, að sjómenn kunni hér ekki að hafa nokkra sérstöðu vegna þeirrar hættu, sem þeirra störfum fylgir. Flm. þessarar till. virðist þörf á því, að fram fari á því gagnger athugun, hvort ekki sé tiltækilegt að stefna nú strax að lífeyrissjóði fyrir landsmenn alla. Þær fjölmennu starfsstéttir, sem nefndar eru sérstaklega í tillögunni, bændur og verkamenn, virðast a.m.k. eiga sanngirniskröfu á því, að jafnhliða sé athugað, hvort ekki séu tök á að láta lífeyristryggingu taka til þeirra.

Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur verði til að andæfa því, að það sé æskilegt og réttmætt, að landsmerin allir, hvar í stétt sem þeir standa, geti notið lífeyristrygginga og þess öryggis, sem þeim er samfara, og þeirra hlunninda, sem þeim hafa fylgt og munu fylgja. Ég býst varla við, að nokkur verði til þess að draga í efa, að hér sé um fullkomið réttlætismál að ræða, og ég skal því ekkert fjölyrða um það. Hinu get ég frekar búizt við, að því verði svarað til, að almenn lífeyristrygging landsmanna allra sé þegar komin á, hún eigi sér stað skv. lögunum um almannatryggingar, og enn fremur, að dregið verði í efa af öðrum, að þetta réttlætismál sé framkvæmanlegt, eins og sakir standa.

Um fyrra atriðið er það að segja, að hér er um allt annað að ræða en hina almennu elli og örorkutryggingu almannatrygginganna, enda verður sá lífeyrir, sem almannatryggingarnar veita, á engan hátt borinn saman við lífeyri þann, sem opinberir starfsmenn njóta. Þar er alls eigi um hliðstæð réttindi að ræða. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er byggður á því, að starfsmenn hafi tryggt sér lífeyri með því að greiða iðgjöld í sjóðinn um tiltekinn tíma, að vísu með atbeina launagreiðanda að nokkru, og á myndun sjóðs. Elli- og örorkulífeyrir almannatrygginganna er eigi byggður á slíkri sjóðmyndun, heldur á því að afla í hvert sinn nægilegra fjárhæða til þess að standa undir útgjöldum.

Með alþýðutryggingalögunum frá 1936 var að vísu ákveðið, að stofnaður skyldi almennur elli- og örorkulífeyrissjóður, er nefndist lífeyrissjóður Íslands. Þessi sjóður var á hreinum lífeyrisgrundvelli, átti að byggjast á iðgjaldagreiðslum, og átti ekki að byrja að veita lífeyri úr sjóðnum fyrr en eftir ákveðið árabil. Hér var því gert ráð fyrir sjóðmyndun. En frá þessari stefnu, sem mörkuð var með stofnun lífeyrissjóðs Íslands í alþýðutryggingalögunum frá 1936, að hver maður skyldi tryggja sér ellilífeyri með iðgjaldagreiðslu til sjóðsins, er skyldi svo ávaxtaður og látinn standa undir ellilífeyrisgreiðslunum, var algerlega horfið með almannatryggingalögunum frá 1946. Með þeim lögum var horfið frá sjóðmyndun, en í þess stað gert ráð fyrir, að iðgjöld yrðu miðuð við væntanlegar bótagreiðslur hvers árs. Af þessum sökum hefur sjóðstofnun í þessu sambandi orðið lítil sem engin eða a.m.k. hverfandi lítil, miðað við alla umsetningu stofnunarinnar.

Fyrir flm. þessarar till. vakir stofnun lífeyrissjóðs, er starfi á hreinum lífeyrisgrundvelli.

Fyrsta skilyrði slíkrar lífeyristryggingar er myndun öflugs lífeyrissjóðs. Sá sjóður verður að byggjast á réttum tryggingareglum og útreikningi tryggingafræðinga. Ég vil undirstrika það, að fyrir flm. vakir einmitt þetta: stofnun lífeyrissjóðs, er taki til landsmanna allra, og að sá sjóður veiti þeim hliðstæð réttindi og hinir sérstöku lífeyrissjóðir veita sjóðfélögum sínum nú, og að sá allsherjarsjóður verði reistur á jafntraustum fjárhagslegum grundvelli og hinir sérstöku lífeyrissjóðir.

Með því, sem nú hefur verið sagt, er á engan hátt gert lítið úr örorku- og ellilífeyri almannatrygginga. Hann er að vissu leyti vísir í rétta átt, þótt þar séu þeir annmarkar á, sem áður er vikið að. Og almannatryggingarnar hafa á þessu sviði vissulega unnið mikið gagn, sem skylt er að viðurkenna. En hitt hlýtur öllum að vera ljóst, að þær eru ekki fullnægjandi, og bezta sönnun þess er einmitt stofnun þeirra sérstöku lífeyrissjóða, sem átt hefur sér stað síðan, og þær óskir í þá átt, sem stöðugt eru uppi.

En hvað síðar nefnda atriðinu viðvíkur, sem ég minntist á, þ.e.a.s. því, hvort slík sjóðstofnun sé framkvæmanleg, eins og sakir standa nú, þá treysti ég mér alls ekki til þess að fullyrða neitt um það á þessu stigi. Þar er þess m.a. að gæta, að lífeyristryggingar hafa hingað til yfirleitt verið bundnar við fastráðna launþega, en hér er gert ráð fyrir, að athugunin taki bæði til bænda og annarra framleiðenda og eins lausráðinna manna eða manna, sem eru í lausari vinnu. Það mál þarf áreiðanlega við gaumgæfilegrar athugunar. Við þá athugun hljóta mjög mörg atriði að koma til álita, og ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja þau hér. Aðeins skal ég nefna það, að eitt þeirra atriða, sem til athugunar koma, er, hvort um ætti að vera að ræða skyldutryggingu eða frjálsa tryggingu.

Þessi till. felur aðeins í sér áskorun til ríkisstj. um það, að hún láti fram fara alhliða og gagngera athugun á þessu máli. Til slíkrar athugunar mundi væntanlega verða skipuð nefnd, sem fengi sér til aðstoðar og ráðuneytis sérfróða menn um þessi mál og hefði vafalaust samráð við stéttasamtökin. Vera má, að niðurstaða þeirrar athugunar verði sú, að ekki sé tiltækilegt, eins og sakir standa, að stofna til lífeyristrygginga fyrir landsmenn alla. Vera má, að að athuguðu máli þyki réttara að stofna til þeirra trygginga í eins konar áföngum, eins og átt hefur sér stað að undanförnu. En hvað sem um það verður, þá er ég fyrir mitt leyti alveg viss um, að þróunin stefnir í þá átt, að hér verði teknar upp lífeyristryggingar fyrir landsmenn alla, og það mun koma fyrr en seinna. Þessi mál eru í deiglunni víðar en hér. Er þess skemmst að minnast, að einmitt nú standa yfir miklar umræður í Svíþjóð um tryggingar. Má sjálfsagt eitthvað græða á því að fylgjast með og kynna sér, hvernig málum þessum verður skipað þar eða með öðrum þjóðum. Vera má, að með till. þeirri, sem hér liggur fyrir, sé stefnt hærra en þar. En íslenzk félagsmálalöggjöf mun einmitt vera í fremstu röð. Og það væri vissulega ánægjulegt, ef Íslendingar gætu gengið í fylkingarbrjósti í þessu efni og lyft merkinu hærra en aðrar þjóðir.

Verði talið framkvæmanlegt að stofna nú til lífeyrissjóðs fyrir landsmenn alla, er tryggi þeim svipuð réttindi og sjóðfélagar njóta hjá hinum sérstöku lífeyrissjóðum, þá er ég ekki í vafa um, að stigið er stórt spor í jafnræðisog framfaraátt. Aðalatriðið væri auðvitað hið almenna öryggi, sem mönnum væri tryggt í ellinni og vegna fráfalls fyrirvinnu. En jafnframt er rétt að vekja athygli á og leggja áherzlu á þá stórkostlegu þýðingu, sem varanleg fjármagnsmyndun hjá slíkum sjóði gæti haft. Lánveitingar úr honum gætu síðar létt undir með mönnum með hliðstæðum hætti og hinir sérstöku lífeyrissjóðir hafa létt undir með sjóðfélögum sínum. Slíkur sjóður gæti t.d. vafalaust létt undir með hinu almenna veðlánakerfi. Bændur og framleiðendur gætu sjálfsagt, ef þeir væru tryggðir, notið hliðstæðra lána.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um till. frekar, þar eð þetta mál liggur ljóst fyrir og mér virðist ekki þurfa frekari rökstuðnings, en leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg. og vænti þess fastlega, að hv. alþm. ljái máll þessu lið. Ég leyfi mér svo að leggja til, að umr. verði frestað og till. fari til athugunar í n., sem væntanlega mundi þá verða allshn. sameinaðs þings.