31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (2570)

118. mál, endurheimt íslenskra handrita frá Danmörku

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þáltill. á þskj. 259 um endurheimt íslenzkra handrita frá Danmörku. Eins og alkunna er, hefur Alþ. alloft áður látið frá sér fara ályktanir um það efni. Eftir að allshn. hafði kynnt sér þær áskoranir og stefnuyfirlýsingar, þótti henni réttara að vísa í ályktuninni til slíkra fyrri samþykkta Alþingis. Jafnframt leggur allshn. til, að gerð sé á till. ofur lítil orðalagsbreyting í þá átt, sem betur þótti fara að athuguðu máli. Allshn. mælir einróma með samþykkt ályktunarinnar svo breyttrar, þ.e. eins og hún er prentuð í nál. á .þskj. 694.

Um það mál, sem ályktunin varðar, handritamálið, þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það er eitt þeirra mála, sem ég hygg að allir Íslendingar séu í rauninni sammála um. Allir Íslendingar vilja fá handritin heim, og hér á landi munu naumast vera skiptar skoðanir um það, að Íslendingar séu réttir eigendur handritanna. Sú sannfæring Íslendinga sjálfra stoðar þó ekki ein út af fyrir sig. Rök Íslendinga í málinu, bæði siðferðisleg, söguleg og lagaleg, þarf að kynna Dönum og dönskum stjórnarvöldum. Það þarf að fá dönsk stjórnarvöld til að skilja og viðurkenna sjónarmið Íslendinga. Málið verður að leysa með samningum á milli þessara vina- og frændþjóða. Íslendingar hafa á því óbilandi trú, að það takist. Hitt þarf engan að undra, sem setja vill sig í spor Dana í þessu máli, þó að það taki nokkurn tíma að fá handritin heim. En íslenzk stjórnarvöld verða sífellt að vera á verði í þessu máli og halda því vakandi. Hljótt hefur verið um málið um skeið, en þar með er auðvitað ekki sagt, að ekki hafi verið unnið að því í kyrrþey. Vafalaust hefur það verið gert, og vafalítið hefur málinu þokað nokkuð áleiðis. Með ályktun þessari ítrekar Alþ. fyrri stefnu í þessu máli. Er þess að vænta, að eftir samþykkt hennar hefji ríkisstj. nýja sókn í málinu og vinni að endurheimt handritanna af einurð og festu.