16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (2596)

44. mál, kosning manna til að semja um endurskoðun varnarsamningsins

Flm., (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. sameinað Alþingi hefur nú lokið meðferð á sjálfri efnistillögunni um, hver skuli vera tilgangurinn með þeirri endurskoðun varnarsamningsins, sem nú er ákveðin. Það verður þó að segja eins og er, að því miður er hvorki þingheimur né þjóðin miklu nær eftir en áður, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar hér á Alþingi vakir með þessari samþykkt og endurskoðun. Það er raunar komið fram af hálfu hæstv. utanrrh., að eins og nú standa sakir sé hann algerlega andvígur því, að varnarliðið hverfi brott frá Íslandi. Hann hefur hins vegar ekki fengizt til þess að gera Alþingi grein fyrir því, hvaða áhrif þessi skoðun hans eigi að hafa á samningsgerðina og meðferð málsins.

Hæstv. forsrh. hefur verið enn þá óákveðnari í svörum og vildi kenna mér um það, að honum hefði illa til tekizt í sinni ræðugerð áðan. Það var auðvitað ekki mín sök, að hann sagði þar hluti, sem hann vildi skýra á þann veg, að sér hefði mismælzt. Ég tel það mjög gott, að mínar athugasemdir komu fram, því að hann átti þó þess kost að leiðrétta sig, og vissulega var hans seinni ræða skynsamlegri og hófsamlegri heldur en sú fyrri. En hann má bara ekki reiðast mér fyrir það, að ég benti honum á þær rökvillur og vandræði, sem hann lenti i vegna þeirrar óljósu afstöðu, sem hann og ríkisstj. hans hafa til þessa máls. Það er hans sök, en ekki mín. En það er greinilegt, að þessum hæstv. ráðh. fer stundum dálítið svipað og sumum gömlum einræðisherrum, að þeir létu drepa þá, sem fluttu þeim ill tíðindi. Eins er hann nú mjög reiður við blöð hér á landi fyrir það, að þau skuli segja frá heimsviðburðunum eins og þeir gerast, af því að þeir koma ríkisstj. hans illa. Eins reiddist hann mér fyrir það, að ég skyldi rekja í sundur, hverju hann hélt fram, í stað þess að hann hefði átt að þakka mér af bljúgum huga fyrir það, að ég gaf honum þó færi á því þegar í stað að leiðrétta sig og láta ekki mismælin standa deginum lengur.

En þrátt fyrir þessa umvöndun hæstv. ráðh. erum við ekki miklu nær um það, hvað það er í raun og veru, sem fyrir honum vakir. Hann vill þó játa, að í bili sé yfirvofandi stríðshætta, og hann hefur lesið það í New York Times, sem hann var að fá rétt um hádegisbilið, og hefur þess vegna ekki merkt til fulls, að aðalstríðshættan væri fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Nú má það vel vera, að í bili sé mikil stríðshætta þaðan. En það, sem máli skiptir í þessu, er ekki, hvar mest er hættan á því, að logi upp úr í dag. Það, sem alla þýðingu hefur í þessu og við verðum að átta okkur á til hlítar, er, að sannazt hefur, að allt heimsástandið er miklu ótryggara en menn höfðu áður gert sér grein fyrir, að allar þær vonir, sem menn höfðu bundið við andann frá Genf, eru úr sögunni. Nú er sannað, að heil þjóðlönd loga í óánægju og uppreisn. Rússar kenna Vesturveldunum um þessar uppreisnir, en ekki sínu eigin fordæmda stjórnskipulagi.

Meðan slíkt ástand er í stórum hlutum heimsins, og það er í raun og veru í stærri hlutum heimsins en við höfðum gert okkur grein fyrir og sennilega í miklu ríkara mæli innan Rússlands sjálfs heldur en umheimurinn hefur áttað sig á, þá er allt heimsástandið í fullkominni óvissu. Á meðan þannig logar undir og slíkur ógnareldur er kyntur eins og við sáum fyrst blossa upp úr í Austur-Berlín 1953, í Póllandi í sumar, í Póllandi aftur í haust, síðustu dagana í Ungverjalandi, og fregnir eru af um, að einnig séu í Rúmeníu, — á meðan slíkt ástand varir í þessum löndum og á meðan einræðisherrar hafa völd í jafnstórum hluta heimsins eins og Rússlandi og raunveruleg stefnubreyting á sér þar ekki stað, þá er það ekki vogandi fyrir neina þjóð, allra sízt smáþjóð eins og Íslendinga, að vera einir á vegi staddir. Á meðan þessu fer fram, verðum við að leggja okkar af mörkum til þess að tryggja heimsfriðinn, því að okkar litla framlag kann að hafa meiri þýðingu í hinum stóra heimi heldur en við í fljótu bragði áttum okkur á.

Það má vel vera, að blöð í Bandaríkjunum segi, að hættan sé mest þessa dagana fyrir botni Miðjarðarhafs og að hættan þar sé meiri en við höfum áttað okkur á, eins og hæstv. forsrh. var að gera hér grein fyrir, og ég þakka honum þær upplýsingar og hef enga löngun til þess að troða við hann neinar illsakir, þótt hann verði að una því eins og aðrir, að honum sé svarað og hans ummæli gagnrýnd. Og við heyrðum það líka í hádegisútvarpinu, að Nehru, sem hefur verið bjartsýnismaður, hafði svipaða skoðun um það, að augnablikshættan væri mest fyrir botni Miðjarðarhafs, um leið og hann gleymdi ekki eins og sumir að fordæma árásina á Ungverja í þeirri sömu ræðu.

En það eru ekki þessi einstöku merki um óróann, sem við megum telja að hættan stafi frá. Þetta eru aðeins merki, þetta er tákn um eldinn, sem undir býr, og meðan eldurinn sjálfur er ekki slökktur, meðan raunverulegt friðarástand kemst ekki á milli heimsþjóðanna, þá helzt voðinn. Við megum ekki gleyma sjálfum voðanum við það, þó að hann liggi niðri nokkra stund, þó að ógnaröflin taki um hríð á sig friðsama grímu. Eftir að hafa misst andlitíð, ef svo má segja, nokkra hríð, reyna þau vafalaust á næstu mánuðum, ef ekki árum, að friða heiminn og friðsama menn með því að taka ennþá harðari friðarsókn en nokkru sinni áður.

Eins og Tíminn sagði eftir árásina á Ungverjaland, þriðjudaginn næstan á eftir, og áður en framsóknarmenn fóru að athuga, hvaða afstöðu þeir yrðu að taka til þess að friða Alþýðubandalagsmennina innan ríkisstj., hefur ásýnd heimsins í raun og veru breytzt við atburðina þarna austur frá, og atburðirnir kalla á endurmat allra þjóða á alþjóðasamskiptum. Þessi orð Tímans voru í raun og veru neyðaróp kúgaðrar sálar manns, sem hefur verið neyddur til þess að skrifa allt annað í blaðið marga mánuði, en gat svo loksins ekki setið á sér eftir þessa ógnaratburði. En svo kemur maðurinn með lyklavöldin og hefur lokað sálina inni aftur, og Tíminn er farinn að skrifa á sinn gamla máta til þess að halda kommúnistunum í stjórn. Á þessari stuttu stundu kom hins vegar í ljós, hvað margir framsóknarmenn í raun og veru álita um atburðina, alveg eins og slíkt hið sama kom í ljós hjá Alþýðublaðinu, þegar þar segir í einum ritstjórnardálkinum, að nú sé skrímslið afhjúpað og engum geti lengur dulizt, hvað fyrir því vaki.

Af hálfu Alþfl. hefur komið fram hið sama og brauzt út hjá Tímanum um stund og er einnig ítrekað þar, eins og ég gat um áðan, af einum ungum framsóknarmanni í morgun.

Það er þessi breyting á heildarsjónarmiðinu, sem úrslitaþýðingu hefur. Ekki tjáir að skoða aðeins atburðina einn og einn, halda, að þeir séu algerlega einangraðir og hafi engin áhrif á, hvað næst gerist, í stað þess að taka þá sem tákn um þann eld, sem logar undir niðri og ógnar heimsbyggðinni, þangað til búið er að slökkva hann. Það eru þessi sannindi, sem atburðirnir núna verða að færa íslenzku þjóðinni heim, og ég veit, að miklu meiri hluti þm. í raun og veru skilur heldur en vilja láta það uppi í bili, af því að það hentar ekki vegna hinnar pólitísku afstöðu á Íslandi, að allir segi eins og þeim í raun og veru býr í brjósti varðandi þetta mál.

Við skulum ekki gleyma því, að 1914, nokkrum vikum áður en heimsstríðið brauzt út, sögðu æfðir stjórnmálamenn og utanríkismálasérfræðingar, að aldrei hefði verið eins friðvænlegt í heiminum og þá. Engu að síður brauzt ófriðurinn út, og eftir á koma sagnfræðingarnir og segja, að ófriðurinn hafi verið óhjákvæmilegur, vegna þess að deilurnar voru óleysanlegar og hlutu að brjótast út í ófriði. Við skulum heldur ekki gleyma því, að frá því að Chamberlain kom frá München og veifaði samningnum við Hitler og sagði, að nú væri friður tryggður um okkar aldur, þá var ekki ár liðið, þangað til ófriðurinn hafði blossað upp. Það var vegna þess, að í München höfðu engin vandamál verið leyst, að það ástand var í raun og veru fyrir hendi, sem menn nú eftir á segja að hlotið hafi að leiða til ófriðar.

Við skulum vona, að núverandi heimsástand leiði ekki til ófriðar. Persónulega verð ég að segja, að ég er ekki sammála þeim mönnum, sem segja, að ófriður hafi verið óhjákvæmilegur 1914 og 1939. Ég er því sammála, að með nægum vörnum af hálfu lýðræðisþjóðanna, með nægu þolgæði, með nægri samstöðu þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessa ófriði og halda áfram friðsamlegri þróun í heiminum, svipað og hafði verið um aldar skeið til 1914, en síðan hefur í raun og veru naumast verið stundarfriður í heimsbyggðinni.

Það, sem skeði bæði 1914 og 1939, var, að vissir einstaklingar, sem höfðu í hendi sér úrslitaráð yfir stórum heimsveldum, mismátu aðstöðuna. Þeir héldu, að þeir gætu gengið lengra, ekki í beinni ögrun við önnur stórveldi, heldur í kúgun á smáveldum, heldur en önnur stórveldi vildu sætta sig við. Þeir héldu, að þeir gætu farið sinni ránshendi lengra en þolað var, og þess vegna var á hana höggið, og síðan hófust þessar tvær heimsstyrjaldir. Svo mjög sem við verðum að fordæma þá stjórnarhætti, sem voru í Þýzkalandi á dögum nazista, þá verðum við þó að segja, að stjórnarhættirnir í Þýzkalandi á dögum keisaradæmisins voru siðað þjóðfélag og langt komið á leið miðað við það, sem við höfum nú sannfærzt um af lýsingum kommúnista sjálfra að sé í Rússlandi. Lýsingarnar á hegðun og ógnarveldi Stalins sanna, að honum er ekki líkjandi við neinn einvalda á seinni tímum, nema ef vera skyldi Hitler, og skal ég þó ekki segja, hvor fremra komst í mannvonzkunni.

En hvaða tryggingu höfum við fyrir því, að það þjóðskipulag, sem hefur fætt af sér einn Stalín, fæði hann ekki af sér aftur? Alveg eins og hv. þm. Siglf. segir: ósköpin eru í raun og veru ekki Stalín persónulega að kenna, heldur eru það kenningar og þjóðskipulag Leníns, sem ber sökina á ofbeldinu, og það er þetta, sem hinn vestræni heimur er nú að gera sér ljóst, að ástandið i þessum löndum austur frá er enn þá hættumeira fyrir friðsamar þjóðir heldur en menn hefðu nokkurn tíma, jafnvel þeir svartsýnu, eins og ég, gert ráð fyrir. Ég játa það, að mér hafði ekki dottið í hug, að slíkir atburðir hefðu gerzt jafnljótir eins og víst er að Stalín hefur valdíð. Og ég játa einnig, að þó að ég hafi allan tímann, sem atburðirnir voru að gerast í Ungverjalandi, verið mjög efins í því, að bjartsýni væri réttmæt um það, að Rússar mundu draga sig þaðan til baka, og undraðist sannast sagt fyrirsagnir sumra blaða, bæði íslenzkra og erlendra, sem sögðu, að Ungverjar hefðu unnið fullan sigur, og taldi, að því miður væri sigri fagnað of snemma, þá hlýtur mér og öllum öðrum mönnum, sem reyna að vera heiðarlegir og hugsa rétt, að ógna þau tíðindi, sem í Ungverjalandi gerðust, þau svik og sá níðingsskapur, sem þar var framinn.

Meðan þetta vald er eitt sterkasta valdið í heiminum, jafnvel þó að það leggist niður aftur um hríð og taki á sig friðsemdargrímuna, er enginn öruggur. Það er þetta vald, sem ógnar heiminum og gerir það að verkum, að smáþjóð eins og Íslendingar, sem eins og aðrar friðsamar smáþjóðir kjósa fyrst og fremst, eins og forsrh. sagði, að fá að vera einar í sínu landi, verður að taka alla sína afstöðu upp til endurskoðunar og meta meðferð sinna mála með þá endurskoðun í huga. Og við megum ekki láta dægrabrigði um það, hvort friðsamlegar horfi á einum stað eða ekki, rugla okkur í þessu heildarmati á aðstöðunni.

Ég vona það vissulega, að sá tími komi og sá tími komi fyrr en síðar, að þessi illu öfl hrynji að velli og séu úr sögunni, en við verðum að gera okkur það ljóst, að því fer fjarri enn þá, að horfur séu á því.

Ískyggilegt er, að með þessa vitneskju skuli hæstv. ríkisstj. ekki fást til þess að svara því skýrt og skorinort, hver afstaða hennar eigi að verða í þeim samningum, sem nú eru fyrirhugaðir, og svo loðnir sem bæði hæstv. utanrrh. var að nokkru og sérstaklega hæstv. forsrh., þá var þó loðnan fullkomnuð, það var eins og það gægðist upp rófa af ljótu dýri, þegar hæstv. félmrh. fór hér að tala, svo loðin var hans framkoma og illskiljanlegt, hvað fyrir honum vakti annað heldur en það, að hann vildi þó dilla rófunni framan í valdhafana og segir: Góðu, rekið okkur ekki í burtu. Lofið okkur að vera áfram í stjórninni. Við skulum vera góðu börnin. Við skulum gleyma öllu, sem við höfum sagt; bara ef þið rekið okkur nú ekki út í horn og einangrið okkur, eins og við eigum skilið. Þetta var það, sem hæstv. félmrh. sagði að efni til.

Ég segi: Verði kommúnistunum að góðu að ætla að sitja í stjórninni eftir þær yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar, og verði þeim að góðu, sem hafa geð í sér til þess að vinna með þeim eins og þeir koma fram í dag og hafa komið fram að undanförnu.

Hæstv. félmrh. sagði að öðru leyti, að við færum fram á meira hernám, meiri hersetu, meira herlið. Þetta var allt annað en það, sem bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. höfðu sagt. Hæstv. forsrh. sagði berum orðum, að till. fæli þó ekki í sér meira en látið væri sitja við það, sem nú væri. Þetta voru hans óbreytt orð, að því er mér heyrðist. Hann getur leiðrétt það, ef hann vill. (Gripið fram í.) Já, við erum sammála um það.

Alveg það sama og enn skýrar kom það fram í sjálfum rökstuðningnum hjá hæstv. utanrrh. fyrir því að vísa till. til ríkisstj. Hann var sá, að í till. væri ekkert nýtt, þannig að hún væri nánast efnislaus, og þar af leiðandi ætti að vísa henni til ríkisstj. Þetta var sá rökstuðningur, sem hæstv. utanrrh. flutti, en það skaut mjög skökku við það, sem hæstv. félmrh. vildi halda fram.

Það, sem hæstv. félmrh. og flokksbræður hans komast ekki hjá því að gera grein fyrir, er þetta: Eru þeir enn þá sammála yfirlýsingunni, sem þeir gáfu 5. nóv. um það, að atburðirnir hefðu leitt til þess, að Atlantshafsbandalagið væri úr gildi fallið og tafarlaust yrði að láta allt varnarlið hverfa burt frá Íslandi?

Það er alveg ljóst af því, sem a.m.k. hæstv. utanrrh. hefur sagt, að um þetta er hann á gersamlega gagnstæðri skoðun, og jafnvel hæstv. forsrh. virðist alls ekki taka undir það, að Atlantshafsbandalagið sé úr gildi fallið. En hv. Alþýðubandalagsmenn geta auðvitað leikið það dálítinn tíma að birta fagrar yfirlýsingar fyrir þjóðinni um það, hverju þeir ætla að koma áleiðis, hvílík gerbreyting eigi að verða á öllum málum, eftir að þeir eru komnir í ríkisstj., en kingja síðan öllu, sem þeir hafa áður haldið fram. Við höfum áður rætt um kaupbindinguna. Þessa dagana er í blöðunum rætt um lausn löndunarbannsins í Englandi, þar sem Þjóðviljinn í morgun er verulega farinn að kingja því, sem hann sagði í gær um utanrrh. Alþýðuflokksins, Guðmund Í. Guðmundsson, eins og blaðið kallaði hann þá. Nú, á morgun verða þeir sennilega farnir að tala um frægan sigur, sem unnizt hafi í löndunarbannsdellunni undir forustu Lúðvíks Jósefssonar. Eftir sama áframhaldi verður þetta sennilega, áður en árið er liðið, orðin aðalstefnuskrá Alþýðubandalagsins: Við heimtum varnir á Íslandi, og helvítis íhaldið er sá eini, sem er þar á móti.

Svona er nú frammistaðan. Þeir vilja mikið vinna til þess að vera við völdin. Það er alveg ljóst. En þeir skulu bara bíða til næstu kosninga. Við skulum allir bíða, þangað til þjóðin fær að kveða upp sinn dóm, og þá skulum við sjá, hver dómur verður kveðinn upp yfir frammistöðu hvers og eins.

Jafnvel gæran, sem nú er varpað yfir þessa menn, og verndin, sem þeim er veitt af Framsfl. og Alþfl., mun ekki nægja til þess að hlífa þeim frá þeirri réttmætu fordæmingu þjóðarinnar, sem þeir með öllum sínum athöfnum, bæði utan þings og innan, hafa unnið til.

En hvað sem nú öllu þessu líður, þá er það alveg greinilegt, að stjórnin fæst ekki með neinu móti til þess að segja, um hvað endurskoðun varnarsamningsins eigi í raun og veru að fjalla. Endurskoðuninni á að halda fram, og nú er hlaupið inn á það, að sjálfstæðismenn hafi breytt um skoðun og vilji fallast á endurskoðun. Sannleikurinn er sá, að við sjálfstæðismenn höfum alltaf verið með því að endurskoða varnarsamninginn, hvenær sem ósk hefur komið fram um það. Það liggja margar yfirlýsingar hér frá Alþingi um þetta, og á eina fundinum, sem haldinn var innan hæstv. ríkisstj. um þetta mál í fyrra og þar sem þátt tóku fulltrúar stjórnarflokkanna, sem þá voru í utanrmn., var það alveg sérstaklega tekið fram af mér, að ég væri mjög samþykkur því, að varnarsamningurinn yrði endurskoðaður, þó að ég vildi vita betur, áður en ég féllist á endurskoðun, sem fyrir fram stefndi í þá átt, að varnarliðið ætti að fara í burtu. Auðvitað vil ég eins og aðrir, að varnarliðið fari í burtu, en ég taldi óráðlegt þá, eins og síðar hefur sannazt, að án samráðs við nokkra aðila og án þess að það mál væri borið undir bandamenn okkar og þeirra álit fengið, væri fyrir fram ákveðið, að hvað sem öllu öðru liði skyldi varnarliðið hverfa á braut. Það er nú orðið ljóst af yfirlýsingum hæstv. utanrrh., að við höfðum rétt í okkar varúð, og hann telur, að eins og sakir standa sé ekkert vit í því, að liðið hverfi á braut.

En þó að við vildum ekki fallast á endurskoðun, sem hefði þennan fyrir fram yfirlýsta tilgang, höfum við alltaf verið sammála því, að samningurinn væri endurskoðaður og á honum væru leiðréttir gallar. Og enn bjóðum við fram samvinnu okkar til slíkrar endurskoðunar, og ég tek það fram þrátt fyrir þau harðyrði, sem hæstv. forsrh. hefur hér mælt i minn garð, að enn býð ég það fram af hálfu Sjálfstfl., að Sjálfstfl. vill af heilum hug og einlægni vinna að lausn þessa vandamáls með hinum lýðræðisflokkunum. Við höfum ekki trú á því, að þetta mál verði leyst í samvinnu við Alþb., og við bendum á það, að þrátt fyrir hina mjög svo loðnu yfirlýsingu, sem hæstv. félmrh. gaf hér áðan, verður enn að ætla, að Alþb. haldi sér við sína stefnuyfirlýsingu frá 5. nóv. Þá er það ljóst, ef svo er, — annað hefur ekki komið fram, — að nú ætlar fulltrúi aðeins þriðjungs þjóðarinnar að taka að sér að semja um þetta mál við fulltrúa annars ríkis og vill að vísu ekki segja okkur, um hvað þeir ætla að semja eða hverju þeir ætla að ná með samningunum, fyrr en þeir séu búnir að fá tillögur viðsemjendanna um þetta efni. Annaðhvort virðist það vera svo, að þessir fulltrúar þriðjungs þjóðarinnar ætli einir að taka að sér að semja eða þeir ætla að hafa sína bandamenn, Alþýðubandalagsfólkið, með í þeim samningum, og trúi ég þó vart, að a.m.k. hæstv. utanrrh. láti teygja sig til slíks, þó að allt vilji hann til friðarins vinna á stjórnarheimilinu.

Við sjálfstæðismenn bendum enn á, að við því geti hamingja Íslands legið, að lýðræðisflokkarnir komi sér saman um sameiginlega stefnu í utanríkismálum, að við erum fúsir til þess að leggja okkur fram um að skapa slíka stefnu og leggja grundvöll hennar með þátttöku í þeim samningum, sem nú eiga að fara fram um endurskoðun varnarsamningsins. Slík samvinna var reynd um margra ára bil áður fyrr og heppnaðist þá vel, ekki sízt fyrir þátttöku núverandi hæstv. utanrrh., og við viljum vona það enn í lengstu lög, að hann skilji, að styrkur hans til að koma góðum málum fram verði að meiri, ef hann fellst á slíka þátttöku af okkar hálfu, heldur en ef hann hafnar henni. Við gerum okkur ljóst, að stjórnarliðið hefur vald til þess að eyða þessari till. eins og hinni, en við viljum bjóða okkar samstarf fram, og það er þá á ábyrgð þeirra, sem hafna því, að það verður gert, en meiri hlutans er að velja eða hafna.