05.12.1956
Sameinað þing: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (2670)

54. mál, eftirlitsbátur á Breiðafirði

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 63 hef ég flutt till. til þál. um, að Alþingi álykti að fela hæstv. ríkisstj. að leigja hentugt skip, er annist landhelgisgæzlu við Breiðafjörð á vetrarvertíðum eða á tímabilinu frá janúarbyrjun til miðs maímánaðar ár hvert. Jafnframt aðstoði gæzlubáturinn, ef með þarf, fiskiskip, er stunda veiðar beggja vegna Öndverðaness.

Útgerðarmenn og sjómenn hafa á undanförnum árum borið fram óskir sínar um eftirlitsbát við Breiðafjörð. Það hefur verið miklum erfiðleikum háð að fá eftirlitsskip, sem að staðaldri gæti annazt þetta starf. Hæstv. ráðh., sem þessi mál heyrðu undir, og forstjóri landhelgisgæzlunnar, herra Pétur Sigurðsson, hafa þó á undanförnum árum sýnt fyllsta vilja á því að sinna óskum Breiðfirðinga í þessum efnum, þó að skort hafi á getu til að framkvæma eftirlitið, svo að viðunandi hafi verið. Stafar það af ónógum skipastól við gæzlustarfið í heild, sérstaklega á aðalvertíð fiskiskipaflotans, vetrarvertíðinni. Það er því brýn nauðsyn að auka tölu gæzluskipanna, ef Íslendingar eiga að geta varið hina auknu landhelgi, þjóðinni til efnahagslegs öryggis.

Ég hef átt tal við forstjóra landhelgisgæzlunnar, og er hann mér sammála um það, að eina úrræðið í sambandi við lausn þessa máls fyrir verstöðvarnar við Breiðafjörð sé það, að bátur verði tekinn á leigu yfir vetrarvertíðina, sem anni því hlutverki, sem till. þessi fjallar um.

Að sjálfsögðu er það ósk og markmið Breiðfirðinga að skapa skilyrði til þess að fá fullkomið eftirlitsskip, sem sinni því verkefni að annast landhelgisgæzlu, en sé jafnframt björgunar- og aðstoðarskip fyrir fiskiflotann frá verstöðvunum við Breiðafjörð svo og fyrir önnur þau fiskiskip, er sækja á sömu mið. Þegar hefur verið safnað töluverðu fé í verstöðvunum vestra til væntanlegra framkvæmda við smíði á eftirlits- og björgunarskipi fyrir Breiðafjörð. Voru það hjónin frú Svanhildur Jóhannsdóttir og Þorbjörn Jónsson, til heimilis á Mímisveg 2 hér í bæ, sem efndu til þessa björgunarskútusjóðs fyrir Breiðafjörð með 50 þús. kr. peningagjöf fyrir nokkrum árum. Bæði þessi heiðurshjón eru fædd við Breiðafjörð og hafa raunar dvalið mikinn hluta ævi sinnar þar. Þorbjörn hefur verið sjómaður mestan hluta ævi sinnar, bæði á fiskiskipum frá Ólafsvík og botnvörpuskipum hér á Suðurlandi. Veit hann af eigin raun um þá miklu erfiðleika, sem sjómaðurinn á við að etja í stórviðrum á hafi úti. Þorbjörn hefur með þessu rausnarlega framlagi sýnt hug sinn til stéttarbræðra sinna, að sjálfsögðu í trausti þess, að aðrir velunnarar þessa þarfa máls leggi hönd á plóginn til að hrinda í framkvæmd byggingu á björgunarskútu til þess að tryggja betur en nú er öryggi hinna dugmiklu sjómanna við Breiðafjörð.

Á síðustu vetrarvertíð fórst fiskiskipið Hafdís, sem gert var út frá Rifi. Vél skipsins bilaði, og rak það í aftakaveðri stjórnlaust og í alla staði ófært í þeim veðurofsa til að ná landi fyrir eigin aðgerðir. Það var alger tilviljun, að togarinn Hallveig Fróðadóttir, er staddur var vestur af Snæfellsnesi á heimsiglingu, heyrði neyðarkall Hafdísar og gat fyrir harðfylgi skipverja sinna náð sex manna skipshöfn Hafdísar yfir í togarann. Má með sanni segja, að þar hafi skollið hurð nærri hælum um afdrif þessara ágætu sjómanna.

Fiskimiðin á Breiðafirði og í vestur og suður af Öndverðanesi hafa reynzt fengsæl. Togararnir sóttu mikið á þessi mið línubátanna, áður en landhelgin var færð út. Raunar sækja þeir enn mikið á djúpmið línubátanna, og þó að þau mið teljist utan 4 mílna landhelgislínunnar, hefur það sýnt sig þar eins og við Faxaflóa, að það er knýjandi þörf fyrir línubátana að hafa eftirlitsskip á þessum fiskislóðum, sem reyna að fyrirbyggja, að togararnir togi yfir fiskilínur þeirra. Hafa línubátarnir oft orðið fyrir stórkostlegu tjóni, bæði á veiðarfærum og afla vegna þessara aðgerða togaranna. Það er síður en svo, að skipsstjórnarmenn á togurunum valdi þessum skemmdum af ráðnum hug. Það er mjög bagalegt fyrir togarana að fá veiðarfæri bátanna í trollið. Það er því auðsætt, að skipsstjórnarmenn þeirra mundu taka því með þökkum að fá vísbendingu frá eftirlitsskipi, hvar lína fiskibátanna er lögð, svo að þeir geti togað fjarri henni.

Þar sem hér er um mikið öryggis-, réttlætis og hagsmunamál að ræða fyrir sjómenn og útgerðarmenn við Breiðafjörð, vænti ég þess, að hv. alþm. ljái till. fylgi. — Að lokinni þessari umr. vil ég biðja hæstv. forseta að vísa henni til hv. fjvn. og til síðari umr.