30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (2683)

63. mál, íslensk ópera

Flm., (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. ráðh. gat enn þess, að samanburðurinn á sýningum söngleika og almennra leikrita væri ekki alls kostar réttur og væri það m.a. vegna þess, að leikarar þjóðleikhússins væru starfslausir, meðan á söngleikaflutningi stæði. Nú er það svo, að í því leikriti, sem hefur skilað einna beztri útkomu fyrir þjóðleikhúsið, léku aðeins tveir leikarar, svo að hinir hafa verið starfslausir á meðan. Hæstv. ráðh. gat þess einnig, að þjóðleikhúsinu væri ekki fært að fullnægja því menningarhlutverki, sem því væri ætlað, nema það tæki til sýninga leikrit, sem fyrir fram væri vitað að yrðu sýnd með tapi, og vil ég leyfa mér að láta þá skoðun í ljós, að þótt ekki sé fyrir fram vitað, að óperur yrðu sýndar með tapi, þá fullnægir þjóðleikhúsið ekki því menningarhlutverki, sem því er ætlað, ef það tekur ekki óperur til flutnings í ríkara mæli en nú er, enda er því það frá upphafi ætlað samkv. lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús.