30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (2686)

63. mál, íslensk ópera

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hvers vegna skyldi hæstv. menntmrh. hafa komizt hálfvegis úr jafnvægi við þær hógværu ábendingar, sem ég setti fram hér áðan? Er það ekki satt, að hann og hv. stjórnarliðar standi nú hér yfirleitt upp hver á fætur öðrum, í hvaða máli sem er, og sjái öll tormerki á framkvæmd nýrra hluta, nýrra hugmynda, gagnlegra hluta? Þetta er vissulega staðreynd, en það er einmitt vegna þess, að þetta er satt. sem hæstv. ráðh. tapaði sér dálítið í upphafi ræðu sinnar. Hann finnur, að hlutverk hans er í dag allerfitt. Hann finnur, að það er allerfitt fyrir sig að standa upp sem menntmrh. og snúast gegn góðu máli, sanngirnismáli, menningarmáli, sem hlýtur að ná fram að ganga og þróunin í þessum málum hefur þegar sýnt að er að rótfestast og ná fram að ganga. Ég segi: Það er erfitt fyrir hæstv. ráðh. að standa upp og mæla gegn þessu, en segjast þó öðrum þræði vera því fylgjandi.

Hæstv. ráðh. spurði: Hvað er hér á ferðinni? Ja, hvaða ósköp eru hér á ferðinni? Ekkert annað en það, að nokkrir þm. leggja til, að skorað sé á ríkisstj. að koma á ákveðinni menningarstarfsemi við eina merkilegustu menningarstofnun þjóðarinnar, þ.e.a.s. óperuflutningi að staðaldri við þjóðleikhúsið. Ráðherrann sagði, að það stæði í lögum þjóðleikhússins, að það skyldi beita sér fyrir söngleikum, þess vegna þyrfti ekki að vera að flytja neina till. um þetta. En þó að þetta standi í lögum þjóðleikhússins, þá hefur þetta ekki verið gert. Er þá nokkuð eðlilegra en að þm., sem áhuga hafa fyrir þessu menningarmáli, skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að þetta verði framkvæmt? Þetta hefur ekki verið gert í jafnríkum mæli og ætlazt er til í tillögunni. Það hefur verið, eins og ég sagði áðan, byrjað á þessu, og það upphaf sýnir að þetta er mjög vel hægt. Íslendingar hafa hæfileikamenn og listamenn á þessu sviði, þannig að það er leikur einn að sýna hér óperu, 3–5 óperur á ári.

Svo þykist hæstv. ráðh. sanna einhvern voðalegan tvískinnungshátt á Sjálfstfl., vegna þess að hv. þm. V-Sk, hefur flutt frv. í Ed. um það að efla félagsheimilasjóðinn frekar, jafnhliða því sem þm. í Nd. hafa áhuga fyrir því að víkka starfssvið þjóðleikhússins.

Ég fæ ekki séð neitt ósamræmi í þessu. Hv. þm. V-Sk., sem er einn af fulltrúum sveitanna, hefur fyrst og fremst áhuga fyrir því að styrkja aðstöðu félagsheimilasjóðs, til þess að hann verði færari um að gegna hlutverki sínu, þ.e.a.s. að skapa skilyrði fyrir félagslegu samstarfi og skemmtanalífi úti í sveitunum. Hann flytur þess vegna frv. um að auka tekjur hans af skemmtanaskatti. Hér í hv. Sþ. flytja svo nokkrir þm. flokksins till. um að víkka starfssvið þjóðleikhússins, og jafnhliða er bent á það, einmitt af flutningsmönnum, þm. Sjálfstfl„ að auðvelt sé að auka tekjurnar af skemmtanaskattinum verulega, eins og hæstv. ráðh. hefur einnig gengið inn á að hægt sé. Hann segir, að ég hafi komið fyrst og fremst við hjartað í hv. þm. Borgf. Öðrum þræði játar hann svo sjálfur, að það sé ekkert flokksmál, hvort undanþiggja eigi nokkur kvikmyndahús greiðslu skemmtanaskatts. Mér sýnist þessi rakaflutningur hæstv. ráðh. ekki vera sterkur í máli, sem hann er þó mjög vel kunnugur og ég veit að hann er velviljaður í.

Ég veit, að hæstv. menntmrh. hefur áhuga fyrir því, þó að hann telji sig nú þurfa að berjast gegn því, að bætt verði skilyrði til óperuflutnings við þjóðleikhúsið, og enn fremur því, að bæði ungmennafélög og verkalýðsfélög, kvenfélög og önnur félagasamtök fólksins úti um land geti komið sér upp nýjum og fullkomnum samkomuhúsum. En hann heldur, að hann standi í þeim sporum nú, að sér beri að snúast gegn þessu. Og ég segi: það er vissulega miklu verra hlutskipti en ég hefði viljað óska honum.

Nei, það er vissulega ekkert skringilegur menningaráhugi hjá þm. Sjálfstfl., þó að þeir flytji í Ed. frv. um að efla félagsheimilasjóð og í Sþ. till. um að hagnýta krafta íslenzkra hljómlistarmanna betur en nú er gert og koma á óperuflutningi í ríkari mæli við þjóðleikhúsið en verið hefur. En það er vissulega skringilegur málflutningur hjá hæstv. menntmrh., þegar hann grípur til slikra raka.

Ég verð að játa, að það er töluverð freisting að fara að ræða við hæstv. ráðh. um skattamál, en það er nú nýlega lokið alllöngum umr. um þau, svo að ég skal nú ekki fara langt út í það. En ég verð þó aðeins að minnast á þau frv., sem hann var mjög rogginn af hér áðan að hefðu verið lögð á borðin hjá hv. þingmönnum. Í grg. annars þessa frv. er komizt að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í des. s.l., þegar gengið var frá frv. um útflutningssjóð og öðrum ráðstöfunum í efnahagsmálum í því sambandi, ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir lækkun tekjuskatts á lágtekjum á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu.“

Hvað er sagt í grg. þessa frv.? Það er ekkert annað en það, að eftir að hæstv, ríkisstj. sér það, að hún er nokkurn veginn búin að klæða almenning úr skyrtunni með skattaráni og álögum, þá setur að henni sárt samvizkubit, þá setur að henni hroll, og þá finnst henni hún verða að gera einhverja yfirbót. Og þetta er þá yfirbótin, sem hæstv. ráðh. var svo ánægður og rogginn af hér áðan. Hæstv. ríkisstj. ætlar með öðrum orðum að skila almenningi aftur örlitlu broti af þeim blóðpeningi, sem hún hefur verið að kreista undan nöglum hans með lögunum, sem sett voru rétt fyrir jólin og kölluð hafa verið „jólagjöf vinstri stjórnarinnar til þjóðarinnar“. Og þessu er hæstv. ráðh. svona hreykinn af, að hann segir, að það sé nú svo sem síður en svo, að núv. stjórn hugsi ekki um neitt nema að hækka skatta, tolla og aðrar álögur á almenningi, hvort hv. þm. sjái það ekki, að hvorki meira né minna en tvö frv. um skattalækkanir liggi fyrir, útbýtt á einum og sama fundi. Má ég spyrja hæstv. ráðh.: Hve miklu af „jólagjöfinni“, þ.e.a.s., hve miklu af sköttunum og tollunum, sem lagt var á fyrir jólin, á að skila aftur með þessum tveimur frv., sem hér liggja fyrir? Vill hæstv. ráðh. ekki upplýsa það, þannig að það sjáist alveg svart á hvítu, að stjórnin hafi nú, eftir einn mánuð frá því að hún lagði á jólagjöfina, skipt um stefnu og farið að lækka skatta? Það væri ákaflega gagnlegt, þó að það sé í umr. um annað mál, að hæstv. ráðh. gefi upplýsingar um það. Hve miklu er hæstv. ríkisstj. að skila aftur með þeim tveimur frv., sem hæstv. ráðh. var svo ánægður með ?

Það er alveg óþarfi fyrir hæstv. menntmrh. að rjúka hér upp, eins og hann eigi allan heiminn, þó að menn leyfi sér að gagnrýna hans háæruverðugheit. Ég veit ekki betur en að íslenzkar ríkisstjórnir hafi yfirleitt talið sér skylt að hlíta gagnrýni — meira að segja ríkisstj., sem hafa staðið sig betur en núv. ríkisstj., sem setið hefur að völdum í hálft ár og svikið svo að segja allt, sem hún lofaði.