24.04.1957
Sameinað þing: 52. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (2734)

158. mál, skólaskip

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 419 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Snæf. (SÁ), hv. 2. þm. Eyf. (MJ) og hv. þm. Ísaf. (KJJ) að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til þess að rannsaka og gera till. um leiðir til þess að örva unga menn til þátttöku í sjómennsku og fiskveiðum. Skal hún m.a. athuga möguleika á rekstri skólaskips fyrir ung sjómannaefni og gera till. og kostnaðaráætlun um útgerð þess og tilhögun hennar. Nefndin skal hafa samráð við Fiskifélag Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands.“

Íslenzkt atvinnulíf og útflutningsframleiðsla á um þessar mundir við mikla og fjölþætta erfiðleika að etja. Einn þeirra er sá, að mikill skortur er á vinnuafli til rekstrar atvinnutækjanna til lands og sjávar. Um land allt skortir bændur svo landbúnaðarverkafólk, að búskapur er almennt orðinn að þrotlausu striti fárra manna, er ekki vilja láta af trú sinni á ræktun og þroskavænleg lífsskilyrði í sveitum landsins. Við sjávarsíðuna er ástandið þannig, að af 5000 sjómönnum, sem eru á fiskiskipaflotanum, togurum og vélbátum, eru um 1000 útlendingar eða um 1/5 hluti þeirra manna, er manna hann. Hér verða ekki fyrst og fremst ræddar orsakir þess, að þannig er komið fyrir tveimur höfuðatvinnuvegum Íslendinga, en um það þarf ekki að fara í neinar grafgötur, að meginorsökin er sú, að hinar fjölmennu framleiðslustéttir, sem raunverulega skapa arð þjóðfélagsstarfseminnar, hafa borið skarðan hlut frá borði. Þær hafa ekki notið þess öryggis um afkomu sína, sem engum ber frekar en þeim, sem að langsamlega mestu leyti skapa þjóðarauðinn.

Hér verða í stuttu máli gerðar að umtalsefni nokkrar leiðir, sem hugsanlegar kynnu að vera til þess að örva unga menn til þátttöku í sjómennsku og fiskveiðum. Á því Alþingi, sem nú situr, hafa verið uppi till., bæði frá hæstv. ríkisstj. og einstökum þingmönnum, um aukin skattfríðindi sjómönnum til handa. Þessar till. eru góðra gjalda verðar. En til þess að þær komi að gagni, þurfa þær að ná miklu lengra en þær gera, a.m.k. þær till., sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt. Óhætt er að fullyrða, að nokkur hundruð króna skattfrádráttur á mánuði freisti varla nokkurs manns til þess að hefja sjómennsku. Hitt er líklegra, að mjög verulega aukinn skattfrádráttur, t.d. ef 1/3 eða helmingur tekna sjómanna yrði gerður skattfrjáls, mundi hafa þau áhrif, að fleiri menn vildu stunda sjó á togurum og vélbátum en nú er. Auðvitað er þetta bein sönnun þess, að skattar eru orðnir það háir í þessu landi, að þeir verka lamandi á framleiðslustarfsemina og stórskaða þjóðfélagið.

Þá er í till. þessari lagt til, að meðal leiða, sem athugaðar séu til að örva unga menn til sjómennsku, skuli rannsakaðir möguleikar á rekstri skólaskips fyrir ung sjómannaefni. Ýmsum kann í fljótu bragði að virðast, að með till. um skólaskip sé verið að víkka skólakerfi okkar enn að óþörfu, en í því sambandi má á það benda, að flestar mestu siglingaþjóðir heimsins hafa gert út og rekið slík skip með góðum árangri. Meðal þeirra þjóða má nefna Norðmenn, Dani, Bandaríkjamenn, Breta, Þjóðverja, Kanadamenn og Japani. Margar þessar þjóðir sameina vísinda- og rannsóknarstarfsemi verklegri kennslu í sjómennsku á skólaskipum sínum. Um borð í þeim eru ung sjómannaefni ekki aðeins þjálfuð og búin undir lífsstarf sitt í þágu fiskveiða og farmennsku. Hin hagnýtu vísindi eru þar tekin í þágu fiskveiðanna og vinna þar geysiþýðingarmikið starf í þágu efnahagslegrar uppbyggingar þjóðfélaganna. Einnig þetta þurfum við Íslendingar að athuga. Við höfum nú þegar hafizt handa um fiskirannsóknir, að vísu af litlum efnum og við miklu ófullkomnari aðstæður en keppinautar okkar á sviði fiskveiða og markaða.

Við höfum líka gert smávægilega tilraun með útgerð skólaskips. Undanfarin ár hefur Reykjavíkurbær gert út vélbát að vorlagi, mannað hann ungum skólapiltum til fiskveiða um stuttan tíma. Þessi tilraun hefur gefizt ágætlega. Drengirnir hafa sýnt mikinn áhuga á starfi sínu, og sumir þeirra hafa síðar ráðið sig á fiskiskip og orðið dugandi sjómenn. Hvers vegna skyldi slík tilraun ekki gerð í stærri stíl? Við flm. þessarar till. teljum, að hér sé um nýjung að ræða, sem vel geti orðið íslenzkum sjávarútvegi að gagni, ef rétt er á haldið. Íslendingar eyða árlega mörgum tugum milljóna til skólahalds og bóklegrar fræðslu æsku sinnar. Við vonum, að því fé sé vel varið. En verknámið í þágu framleiðslunnar er enn þá of lítið, það er langt á eftir. Á meðan hundruð manna ljúka árlega stúdentsprófi frá fjórum menntaskólum, útskrifast aðeins örfáir tugir ungra manna frá tveimur bændaskólum og einum sjómannaskóla.

Það er því fyllilega ómaksins vert að athuga, hvort verklegur sjómannaskóli, skólaskip, geti ekki ásamt öðrum úrræðum átt nokkurn þátt í að auka áhuga ungra manna fyrir sjósókn og fiskveiðum. Þjóðfélagið þarf á þeim aukna áhuga að halda. Við getum ekki til lengdar rekið fiskiskipaflota okkar með erlendu vinnuafli, sem að sjálfsögðu hefur í för með sér gjaldeyriseyðslu, þar sem greiða verður útlendingum laun þeirra að meira eða minna leyti í, mynt lands þeirra. Og hvar eigum við að fá sjómenn á hin nýju skip, sem við þurfum á næstu árum að kaupa, bæði togara og vélskip? Ef ekki finnast leiðir til þess að auka þátttöku Íslendinga í framleiðslustörfum til lands og sjávar með frjálsu vali fólksins sjálfs, fæ ég ekki betur séð en að nauðsynlegt geti orðið að koma hér á nokkurs konar þegnskylduvinnu. Mætti m.a. hugsa sér hana fólgna i því, að hver einasti fullhraustur ungur piltur yrði að hafa verið skráður til starfa á fiskiskipi í eina eða tvær vertíðir, áður en hann yrði t.d. 23–25 ára gamall. Svipaða vinnuskyldu pilta og stúlkna mætti hugsa sér til starfa við landbúnað. Fyrir fullnægingu slíkrar vinnuskyldu, hvort heldur væri á sjó eða í sveit, yrði að sjálfsögðu greitt fullt kaup.

Enda þótt þegnskylduvinna gæti að minni hyggju orðið gagnlegur og merkilegur þáttur í menningarlegu uppeldi æskunnar í okkar agalausa þjóðfélagi, væri þó æskilegra, að til hennar þyrfti ekki að grípa til þess að tryggja útflutningsframleiðslu okkar vinnuafl, en það úrræði verður þó að hafa í bakhöndinni, ef önnur duga ekki. Svo stórkostlegt vandamál er hér um að ræða, og svo þýðingarmikil er lausn þess fyrir framtíðarheill og velmegun þjóðarinnar.

Kjarni málsins er sá, að við getum ekki haldið áfram að búa við betri lífskjör en flestar aðrar þjóðir án þess að taka öflugan og almennan þátt í sköpun þjóðararðsins. Sú skoðun er orðin háskalega útbreidd, að sífellt vaxandi fjöldi fólks geti búið um sig í yfirbyggingu þessa dvergþjóðfélags og látið sífellt færra fólk stunda sjó og rækta landið. Þrátt fyrir hina miklu tækniþróun er þetta mikill og örlagaríkur misskilningur. Það þarf a.m.k. fólk til þess að stjórna vélum og skipum.

Það er von okkar flm. þessarar till., að framkvæmd hennar geti átt einhvern þátt í að leysa þann vanda, sem nú steðjar að íslenzkum sjávarútvegi og þjóðinni í heild.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.