23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (2799)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Skúli Guðmundsson:

Það virtist koma fram í síðari ræðu hv. 1. þm. Rang. (IngJ), sem hann flutti hér áðan, að hann hefur ekki enn áttað sig á því, að það er alveg óupplýst mál, hvað kostar að reka olíuskipið Hamrafell. Það er svo lítil reynsla fengin enn af útgerð þess skips, að það er ekki hægt um það að segja, hvernig útkoman verður og hvað skipið þarf að hafa miklar tekjur, hvað það þarf að taka mikið fyrir olíuflutninga, fyrir hverja smálest, til þess að reksturinn geti borið sig og það geti staðið við sínar skuldbindingar um greiðslur af kaupverði skipsins. Hv. þm. fór að vísu að bollaleggja um það, hvað það gæti haft miklar fragttekjur með því að fara svo og svo margar ferðir á ári og taka ákveðna upphæð í flutningsgjald, en þetta er ekki nema önnur hliðin. Hvað reksturinn á skipinu kostar, það er óupplýst mál. En það afgreiddi hv. 1. þm. Rang. bara með því að segja: „Ég hef það fyrir satt,“ að reksturinn kosti svo og svo mikið. „Ég hef það fyrir satt,“ segir hann. Hvar hefur hann reikninga, sem sýna þetta? Og eftir að hann er búinn að segja þetta, „ég hef það fyrir satt“, þá segir hann og spyr: „Þarf gleggri skýringar?“ Mönnum ætti líklega að vera þetta nóg, ef hv. 1. þm. Rang. segir: „Ég hef það fyrir satt“, þá ætti ekki að þurfa að spyrja frekar um málið.

Ég held, af því að þessar umræður hafa snúizt að verulegu leyti um þetta nýja olíuskip Íslendinga og það eru ýmsir menn hér, sem virðast hafa horn í síðu á þeim glæsilega farkosti, að full ástæða væri til fyrir okkur að íhuga það, hver stefna Íslendinga ætti að vera einmitt í þessum málum, útgerð kaupskipa. Ég hygg, að það væri gott fyrir okkur að hugleiða það, hvað frændur vorir og nágrannar, Norðmenn, hafa gert í þeim málum á undanförnum árum og áratugum.

Víð vitum það, að Norðmenn eru mikil siglingaþjóð. Auk annarra kaupskipa eiga þeir mjög stóran olíuflutningaskipaflota, að sögn þann þriðja stærsta í heimi. Þó að þeir noti að sjálfsögðu mikla olíu sjálfir, þá vitanlega nota þeir fyrst og fremst þessi skip sín til þess að flytja olíu fyrir aðrar þjóðir. Og mér er sagt, að þeir eigi nú mikinn fjölda slíkra skipa í smíðum. Siglingarnar hafa gefið þjóðarbúi þeirra mjög miklar tekjur og eru, eins og öllum er kunnugt, einn af höfuðatvinnuvegum Norðmanna. Þeir eiga dugmikla sjómannastétt. En ég tel víst, að íslenzkir sjómenn standi þeim norsku a.m.k. jafnfætis. En í Noregi hefur ríkt frelsi í skipaútgerð og siglingum. Norsk útgerðarfyrirtæki hafa fengið og fá leyfi til að láta byggja skip í öðrum löndum, ef þau geta útvegað þar lán til skipasmíðanna. En hér á landi hefur gengið torveldlega að fá slíkt. Og þá hefur það einnig gert Norðmönnum fært að eignast og reka stóran kaupskipaflota, að útgerðarfyrirtæki þeirra hafa haft frelsi til að taka þátt í samkeppni um flutninga á heimsmarkaði. Þannig hefur þeim tekizt að byggja upp sinn stóra og þýðingarmikla flota.

Við vitum, hvernig ástatt er nú um þá atvinnuvegi hér á landi, sem framleiða vörur til útflutnings til þess að ná í erlendan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Það er þannig, að það þarf sérstakar opinberar ráðstafanir til þess, að þessir atvinnuvegir geti haldið áfram. En það virðist svo nú sem það sé hægt að gera út kaupskip, íslenzk kaupskip, í samkeppni við aðrar þjóðir. án þess að fá til þess nokkurn sérstakan stuðning af hálfu þess opinbera, og skapa þannig erlendan gjaldeyri fyrir vinnu íslenzkra manna. Þetta er vissulega eftirtektarvert, og það sýnir okkur m.a., að það er sérstaklega rík ástæða til þess fyrir Íslendinga að reyna að feta í fótspor Norðmanna, reyna að auka kaupskipaflota sinn, svo að fleiri íslenzkir sjómenn geti haft góða atvinnu við siglingar á íslenzkum kaupskipum, ekki aðeins til að flytja vörur að og frá okkar landi, heldur einnig til að annast flutninga fyrir aðrar þjóðir. Að því þarf að stefna, að kaupskipum undir íslenzkum fána fjölgi á heimshöfunum á næstu. árum. Einmitt á því sviði sést hilla undir mikla möguleika til arðvænlegs atvinnurekstrar fyrir Íslendinga, alveg eins og íslenzku flugfélögin hafa nú um skeið annazt flutninga fyrir aðrar þjóðir með ágætum árangri. En það lítur út fyrir, að aðrir en Sjálfstæðisflokksmenn þurfi að vera hér að verki, ef þetta á að takast. Það sýnir m.a. framkoma þeirra í þessu máli. Það hefur líka komið í ljós getuleysi eða áhugaleysi þeirra manna til að ná í olíuskip að undanförnu, og svo fyllast þeir vitanlega öfund og ólund og hafa allt á hornum sér, þegar aðrir leysa vandann.