13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (2836)

186. mál, framleiðsluhagur

Fyrirspyrjandi (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir glögg svör við þessum fyrirspurnum. Samkv. hans svörum liggur dæmið þannig fyrir, eins og ég raunar bjóst við, að þetta sé miðað við árlegar tekjur, enda þótt þarna sé tekið inn í nokkuð frá eldra ári varðandi þetta ár, 1957. En það er auðséð samkv. svörum hæstv. ráðh„ að þessi gífurlega fjárþörf, sem þarna er, er miðuð við óbreytt ástand í öllum aðalatriðum, við það, sem nú er; og þess vegna er það, að um leið og gjöldin hækka og vörurnar, kaupgjald eða annar kostnaður, eða jafnvel framleiðslan vex, þá þarf hærri greiðslur en nú er. Ég skal segja það ákveðið, að ég tel þetta mikilsverðar upplýsingar fyrir okkur að hafa og vildi gjarnan óska eftir að hafa aðgang að tölunum, eins og þær liggja fyrir, því að þetta eru þýðingarmiklar tölur fyrir okkur að vita um.