15.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að því atriði, sem aðallega er deilt um, vil ég geta þess, að í sumar, meðan ég enn gegndi starfi dómsmrh., barst dómsmrn. svo hljóðandi bréf :

„Alþýðubandalagið, Reykjavík, 10. júlí 1956.

Eftir ósk Lúðvíks Jósefssonar alþingismanns, sem skipaði efsta sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins í Suður-Múlasýslu við alþingiskosningarnar 24. f. m., leyfum við okkur að vekja athygli hv. Alþingis á eftirfarandi:

Við talningu atkvæða í Suður-Múlasýslu kom í ljós, að 84 kjósendur höfðu sett kross í auða reitinn á kjörseðlinum, þar sem nöfn frambjóðenda Alþýðuflokksins hefðu verið, ef sá flokkur hefði haft lista í kjöri í sýslunni.

Þessi atkvæði úrskurðaði yfirkjörstjórn Suður-Múlasýslu B-listanum, lista Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Þessi úrskurður virðist ekki geta staðizt, þar sem um er að ræða kross í reit, sem er algerlega aðgreindur frá reit Framsóknarflokksins á kjörseðlinum. Við verðum því að gera þá kröfu til hv. Alþingis, að þessir umræddu 84 atkvæðaseðlar úr Suður-Múlasýslu verði úrskurðaðir ógildir.

Þessu til stuðnings viljum við geta þess, að nokkur hundruð atkvæðaseðlar í Reykjavik voru þannig merktir, að kross (X) var settur í hinn auða reit Framsóknarflokksins á kjörseðlinum. Þessir kjörseðlar voru af yfirkjörstjórn Reykjavikur úrskurðaðir ógildir.

Virðingarfyllst,

f. h. Alþýðubandalagsins,

Guðmundur Vigfússon.

Til Alþingis.“

Nú hef ég spurzt fyrir um það á skrifstofu Alþingis, hvort þetta bréf hafi borizt Alþingi frá dómsmrn., og mér er sagt, að svo hafi ekki verið, og vildi ég þá spyrjast fyrir um það, hvort þessi kæra hafi verið afturkölluð eða hvort dómsmrn. hafi láðst að senda kæruna. En þetta mál hefur beina þýðingu í sambandi við það, sem hv. frsm. annars hluta 2. kjördeildar, 1. þm. Eyf., hélt hér fram, að ef ógilda ætti þau fjögur kjörbréf Alþýðuflokksmanna, sem deilt er um, þá yrði einnig að ógilda kjörbréf hv. 2. þm. S-M, (LJós), vegna þess að þá yrði að telja saman í Suður-Múlasýslu atkvæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins,

Þetta kann að hafa nokkuð til síns máls hjá hv. 1. þm. Eyf., og er þó engan veginn fullvíst, að þannig eigi á þetta að líta. Ég veit, að um það er ágreiningur. En ef orðið er við þessari kæru, sem fram var borin í sumar, beint að tilhlutun 2. þm. S-M. samkv. því, sem í henni segir, þá hefur mér skilizt, að þó að atkv. Frams.- og Alþfl. í Suður-Múlasýslu væru talin saman, þá yrði engu að síður hv. 2. þm. S-M. kosinn, vegna þess að það riði á þeim atkv., sem hér er um deilt og réttilega er tekið fram í kærunni, að miðað við það, sem úrskurðað var í Reykjavík, hefði tvímælalaust einnig átt að telja ógild fyrir austan. En í Reykjavík var það svo, að ógilt voru fyrir Sjálfstfl. nokkuð á fjórða hundrað atkv., þó að sambærileg atkv. hafi verið tekin gild fyrir Framsfl. a. m. k. í tveimur kjördæmum úti á landi og sennilega víðar.

En hvað sem líður ágreiningnum um þetta, hvort eigi að telja þessi atkv. gild eða ekki, þá er það mjög einkennilegt, að þessi kæra skuli ekki vera fram komin. Upplýsa þarf, hvort hún hefur verið afturkölluð, og ef svo er, þá bendir það til töluverðs annars en hv. 3. þm. Reykv. hélt fram, að það hefði í raun og veru alls ekki verið í neinu sambandi við stjórnarsamningana, að Alþb. hefur gersamlega breytt um skoðun í þessu máli, heldur hafi það eingöngu verið vegna þess, að Alþb. hafi gert sér ljóst strax eftir úrskurð yfirkjörstjórnar, að ekki væri hægt að hnekkja honum, vegna þess að kjósendur hafi kosið á þeim grundvelli, sem með honum var lagður. Það er ljóst, að þegar þessi kæra er send að tilhlutun Lúðvíks Jósefssonar hinn 10. júlí, þá er Alþb. enn með það í huga, að kosning hinna fjögurra Alþýðuflokksmanna verði gerð ógild, og þess vegna geti það haft úrslitaþýðingu varðandi kosningu hv. 2. þm. SM., hvort þessi atkv. séu tekin gild eða ekki.

Ég skal ekki ræða frekar um það á þessu stigi, en vil vænta þess, að upplýst verði, annaðhvort af hálfu hæstv. dómsmrh. eða af hálfu Lúðvíks Jósefssonar sjálfs, hver er ástæðan til þess, að Alþ. hefur ekki fengið þá kæru, sem til dómsmrn. barst.

Að öðru leyti er ljóst, að hv. stjórnarstuðningsmenn vilja sem mest koma sér hjá umræðum um það deiluefni, sem upp er risið. Þeir reyna ýmist að drepa umræðunum á dreif, tala um annað eða segja, að það sé bara óviðeigandi að tala um þetta á Alþ., og að atkv. verði látin skera úr, svo að það sé bezt fyrir þingmenn að vera ekki að eyða sínum kröftum í umræður um þetta,

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) fór nú allvíða í sinni ræðu, hinni síðari, og talaði m. a. um kosningarnar í Alþýðusambandinu og hélt því fram, að sjálfstæðismenn færu þar mjög miklar hrakfarir. Þetta kemur auðvitað ekkert því máli við, sem hér er verið að ræða um. En úr því að hv. þm. minntist á þetta, þá er nauðsynlegt, að hið sanna komi fram í þessu. Því fer svo fjarri. að sjálfstæðismenn fari hrakfarir í þessum kosningum, að það hefur aldrei komið betur í ljós en einmitt nú, hversu mikið og öruggt fylgi Sjálfstfl. á innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er komið í ljós, að til þess að hindra sigur sjálfstæðismanna í mörgum hinum stærstu og öflugustu verkalýðsfélögum hér í Reykjavik hafa allir stjórnarflokkarnir þurft að taka saman höndum og hafa almennt herútboð til þess að koma í veg fyrir, að sjálfstæðismenn yrðu þar ofan á. Hingað til hefur það verið þannig, að oft hefur mjóu munað, hvort lýðræðissinnar sameinaðir og þá fyrst og fremst Alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn yrðu ofan á í ýmsum þessum félögum eða kommúnistar.

Nú hafa Alþýðuflokksmenn og Framsóknarflokksmenn fyrir atbeina flokksstjórnanna fylkt sér undir merki kommúnista, og það hefur mjóu mátt muna, hvort sú miður geðslega fylking gæti unnið félögin eða hvort sjálfstæðismenn einir yrðu þar ofan á, og sum félögin hafa sjálfstæðismenn beinlínis hlotið þrátt fyrir þessa samfylkingu á móti þeim. Þessi samfylking hefur og ekki látið sér nægja að fylkja liði og láta kosningar fara fram með eðlilegum hætti, heldur hefur verið gripið til hinna fáheyrðustu ofbeldisverka, beinnar kosningakúgunar, kosningasvika, eins og í Iðju, til þess að hindra það, að vitanlegur meiri hluti félagsmanna fengi að ráða.

Það er því algert öfugmæli, svo fullkomið sem frekast er unnt, þegar hv. 3. þm. Reykv. talar um ósigur eða hrakfarir sjálfstæðismanna í þessum kosningum. Fylgi sjálfstæðismanna stendur þar með miklum blóma, og ótti andstæðinganna við afl sjálfstæðismanna hefur aldrei verið meiri en einmitt um þessar mundir, enda málstaður andstæðinganna aldrei lakari en nú, svo að ótti þeirra er vissulega ekki ástæðulaus. En ég skal ekki ræða frekar um þetta, þótt ástæða væri til, vegna þess að sjálft meginmálið, sem hér er til umræðu, er svo mikils vert, að ekki er rétt að láta leiða sig frá umræðum um það.

Það er að vísu rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði hér á dögunum, að atkvæði verða látin skera úr um þetta. Okkur er það ljóst, að það er þegar ákveðið, hvernig þessu máli á að lykta hér á Alþ. En það er mjög gott dæmi um veikleika stjórnarsinna í þessu máli, að svo hógvær maður og fús til rökræðna venjulega eins og hv. 1. þm. Eyf. skuli leiðast til þess að hverfa frá rökræðum og vitna til valdsins eins og segja, að rökræðurnar hafi ekki neina þýðingu. Ef hann hefði góðan málstað að verja, þá mundi hann vitanlega fagna því að eiga kost á að skýra málið hér á Alþingi og fyrir alþjóð. Það er vegna þess, að hann veit, að hlutur þeirra félaga verður þeim mun lakari, sem málið er lengur rætt, sem hann grípur til þess ráðs að segja, að allt sé fyrir fram ákveðið og að umræðurnar séu þýðingarlausar.

Ég játa það, að ég hef samúð með hans örðuga hlutskipti, að hafa verið kjörinn til þess að gerast málsvari rangindanna að þessu sinni. Honum er líka brugðið að fleiru leyti. Hann fór að efast um, að þær sagnir, sem borizt hefðu frá Rússlandi um ofbeldisstjórnarhætti þar og annað slíkt, væru allar réttar. Þegar slíkur eindreginn lýðræðissinni eins og þessi hv. þm. er farinn að gerast svo veill í trúnni, þá hlýtur eitthvað verulegt að búa undir, og það skyldi þó aldrei vera, að hann væri að vinna fyrir einhverri mikilli upphefð, sem bráðlega mundi í ljós koma og hann þyrfti fylgi kommúnista til að ná. Við sjáum, hvað í því gerist.

Ég efast út af fyrir sig ekki um það, að hræðslubandalagsmennirnir hafi verið í góðri trú í sumar, þegar þeir höguðu framboðum sínum eins og þeir gerðu, og ég efast ekki heldur um, að þeir hafi enn trú á sínum málstað, þó að þeir geri sér ljóst, að hann verður þeim mun veikari sem málið er lengur rætt. En þó að ég sem sagt gruni þá ekki um að tala á móti betri vitund, þá verð ég að segja, að ummæli eins og hjá hv. þm. Ak. (FS) eru langt úr hófi.

Lokaummæli hans um árás á þingræði, stjórnskipun og annað slíkt, sem fælist í okkar till., eru auðvitað fjarri öllum sanni.

Hv. þm. hlýtur að gera sér þess grein, að hér er a. m. k. um mjög mikið vafamál að ræða. Eða hvernig væri hægt að skýra það með öðrum hætti, að fyrir kosningarnar töldu þrír flokkar af fimm framboð Hræðslubandalagsins vera ólögleg? Og meiri hluti landskjörstjórnar hefur tvímælalaust talið framboðin vera ólögleg, um það verður ekki efazt, því að það er eingöngu vegna þess, að meiri hl. kemur sér ekki saman að öllu leyti um það, í hverju ólögmætið felst, og um viðurlögin, að þessir fjórir menn hafa fengið kjörbréf.

Af yfirlýsingu Alþb, er það einnig óvefengjanlegt, að meiri hluti Alþ. telur, að þessir fjórir menn séu ólöglega kosnir, jafnvel þó að Alþb. af annarlegum ástæðum vilji ekki taka þá ákvörðun að senda þessa menn heim og fylgja því eftir, að þeir séu hingað til Alþingis ranglega komnir.

Ég segi: Hvernig getur nokkur maður og hvað þá jafnhógvær maður og við vitum að hv. þm. Ak. í raun og veru er fengið af sér að segja, þegar allar þessar staðreyndir eru fyrir hendi, að hér sé ekki um neitt að ræða, og talað um þetta sem árás á þingræði og stjórnskipun? Þegar vitað er, að meiri hluti flokkanna, meiri hluti Alþingis og meiri hluti kjósenda í landinu telur, að hér hafi átt sér stað fullkomin lögleysa, þá verða andstæðingarnir a. m. k. að viðurkenna, að um slíkt vafamál sé að ræða og slíkan vanda, að það minnsta, sem gera eigi, sé að rökræða málið á Alþingi, kryfja það til mergjar og íhuga af rólyndi og öfgalaust, hvort hér hafi verið farið að lögum eða lögbrot verið framin.

Því hefur mjög verið haldið fram af stjórnarstuðningsmönnum, og það kom sérstaklega fram hjá hv. 1. þm. Eyf., og hann byggði í raun og veru allan sinn málflutning á því, að þetta bandalag, hið „algera kosningabandalag“ frá því í sumar, væri nákvæmlega hið sama og bandalag sjálfstæðismanna og- Bændaflokksmanna 1937. Þetta hefur að vísu verið marghrakið, en stjórnarstuðningsmenn taka engu að síður þessa fullyrðingu upp jafnóðum, og verður því ekki komizt hjá því að ræða þetta mál nokkru nánar en áður hefur verið gert.

Munurinn kemur fram í mörgu.

1937 gáfu sjálfstæðismenn og Bændaflokksmenn ekki út neina slíka sameiginlega stefnuyfirlýsingu, eins og Alþfl. og Framsfl. gerðu í vor. Þeir sömdu aldrei um neitt algert kosningabandalag, eins og Alþfl. og Framsfl. sömdu um og síðan framkvæmdu. Þvert á móti buðu sjálfstæðismenn og Bændaflokksmenn víða fram hvor á móti öðrum 1937, og hv. þm. Eyf. lagði einmitt á það mjög ríka áherzlu, að einn helzti áhrifamaður Sjálfstfl., Jón Pálmason, var þessu bandalagi algerlega andsnúinn og að í kjördæmi Jóns Pálmasonar var háð mjög hörð kosningabarátta á milli Sjálfstfl. og Bændaflokksins. Þetta rifjaði hv. þm. Eyf. upp, og ég spyr: Hvar átti nokkuð svipað sér stað í kosningabaráttunni í sumar? Þegar hv. þm. Eyf. rifjar þetta upp og nefnir það sem dæmi, þá sannar hann einmitt berlega, að þarna er meginmunur á bandalögum 1937 og 1956.

Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn höfðu hvergi sameiginlega lista í kjöri 1937, eins og Alþfl. og Framsfl. gerðu núna a. m. k. á tveim stöðum, bæði hér í Rvík og í Árnessýslu, enn þá síður, að það ætti sér stað 1937, sem var í sumar, að fram fór beinlínis prófkosning innan Framsfl. í Rvík. prófkosning, sem tilkynnt var, auglýst í útvarpi og á annan veg, ekki um það, hver ætti að vera í kjöri sem framsóknarmaður hér í Rvík á Framsóknarflokksins eigin lista, heldur hafði Framsfl. prófkosningu um það, hver ætti að taka eitt sætið á lista Alþfl. í Rvík.

Hvaða dæmi frá 1937 er sambærilegt við þetta 1 Svo segir hv. 1. þm. Eyf.: Ja, það kemur ekkert við, hvaða skoðun menn hafa, bara ef þeir segjast bjóða sig fram fyrir einhvern flokk, þá er ákvæðum kosningalaganna fullnægt. — Ég efast mjög um, að þetta standist. Ég efast mjög um, að það sé heimilt fyrir frambjóðanda að segjast bjóða sig fram fyrir flokk, ef hann er sannanlega í öðrum flokki. Ég held því fram, að slíkt sé fullkomin misbeiting á kosningalögunum, og ég held því fram, að það sé hneyksli, sem Alþingi geti ekki þolað, að slíkur skollaleikur eigi sér stað.

Þá sýndu kosningaúrslitin 1937 með eðlilegum hætti fylgi Sjálfstfl. og Bændaflokksins. Miðað við kosningaúrslitin þremur árum áður var ekkert óvenjulegt eða óeðlilegt við úrslit í kosningunum 1937. Bændaflokkurinn fær svo að segja sama hundraðshluta, ívið hærri, en svo að segja sama hundraðshluta og hann hafði fengið við kosningarnar áður, og Sjálfstfl. aðeins lægra hlutfall, rúmlega 41% í staðinn fyrir rúmlega 42% áður.

Enn fremur er sannað, að ef fylgi flokkanna hefði verið talið saman, þá mundu þeir sennilega hafa fengið einum uppbótarmanni meira en þeir fengu. Þeir kepptu um uppbótarsætin sín á milli, og það, að fylgið var talið í tvennu lagi, leiddi til þess, að þeirra þingstyrkur varð minni en ella hefði orðið. Þetta er alveg gerólíkt því, sem nú er.

Tilgangurinn 1937 var engan veginn sá að fara á nokkurn veg í kringum kosningalögin eða að afla flokkunum fleiri þingsæta en þeim bar, miðað við eðlilegt fylgi. Þvert á móti: Ástæðan til þess, að Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn höfðu nokkurt takmarkað samstarf með sér í kosningunum 1937, var sú, að kosningarnar 1934 sýndu, að Alþfl. og Framsfl. höfðu fengið mun fleiri þingmenn en þeim bar, miðað við heildarfylgi sitt hjá þjóðinni. 1934 fengu sjálfstæðismenn og Bændaflokksmenn saman 48.7% af kjósendum, en aðeins 23 þingmenn kosna, en Frams. og Alþfl. fengu saman 43.6%, en 25 þingmenn kosna. Það var þess vegna engan veginn neitt óeðlilegt og ekki á neinn veg til þess að fara í kringum kosningalög eða hafa nein rangindi í frammi, eins og vakti fyrir Hræðslubandalaginu nú, þó að sjálfstæðismenn og Bændaflokksmenn reyndu í nokkrum kjördæmum að styðja hvor annan til þess að hindra það, að Framsfl. og Alþfl. fengju meiri hluta á Alþingi, þó að þeir væru í miklum minni hluta hjá þjóðinni.

Það er ekki eitt, heldur er það allt, sem er svo gerólíkt um bandalagið 1937 og 1956, að mann hlýtur stórlega að furða, að jafngreindur maður og gegn eins og hv. 1. þm. Eyf. skuli láta hafa sig til þess að koma hvað eftir annað opinberlega fram á Alþingi og segja, að hér sé um „nákvæmlega hið sama“ að ræða.

Það fór ekki heldur neitt leynt í sumar, fyrir kosningarnar og áður en kæran kom fram, að hér væri um algera nýjung að ræða í íslenzkum stjórnmálum. Það verður enn að minna á ummæli hæstv. fjmrh., sem höfð eru eftir honum í Tímanum þriðjudaginn 24. apríl 1956, þegar hann hafði á fundi sagt:

„Hreinn meiri hluti þessara flokka á Alþingi næst ekki nema með nánara samstarfi en áður hefur þekkzt á milli flokka. Það dugir ekki minna en að flokkarnir sameinist algerlega í kosningum og að hver einasti maður í Alþýðuflokknum líti á sigur framsóknarmanna sem sinn sigur og hver framsóknarmaður skoði sigur Alþýðuflokksins sem sigur sinn.“

Hver og einn einasti maður í flokkunum á sem sé að líta á hinn flokkinn sem sinn flokk, og ráðherrann tekur alveg skýrt fram, að það á að verða „nánara samstarf en áður hefur þekkzt á milli flokka“. Eftir þessa yfirlýsingu og eftir það, hvernig bandalagið var framkvæmt, lætur svo hinn mæti 1. þm. Eyf. hafa sig að því ginningarfífli að segja, að hér sé alveg það sama og áður hefur átt sér stað. Ég ann hv. þm. Eyf. annars hlutskiptis og betra en að leika þennan bjálfalega leik, sem hann hefur látið ota sér út í. Það var ekki heldur svo, að hæstv. fjmrh. lýsti þessu yfir í nokkru fljótræði, enda held ég sannast sagt, hvað sem maður segir um hæstv. fjmrh., að þá sé hann manna sízt líklegur til þess að tala af sér eða segja annað en það, sem hann hefur vendilega undirbúið, Hann hefur og aldrei horfið frá þessari yfirlýsingu sinni eða gert neina leiðréttingu á henni. Hún var ekki heldur neitt einstök.

Það voru fleiri af talsmönnum þessara flokka, sem lýstu svipuðu yfir. Samkvæmt því, sem Alþýðublaðið hinn 22. apríl hefur eftir Emil Jónssyni, þá hafði hann sagt á fundi í Hafnarfirði það, sem nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta:

„Með samfylkingu Alþfl. og Framsfl., með sameiginlegum framboðum þessara flokka og sameiginlegri stefnuyfirlýsingu er stefnt að því að gerbreyta íslenzkum stjórnmálum, brjóta blað í sögunni, breyta valdahlutföllum og efna til nýrra stjórnarhátta. Stefnuskráin hefur verið lögð fram, flokkarnir ganga til kosninga í einhuga fylkingu.“

Hér er ekkert verið að draga úr því, að um algera nýjung sé að ræða í íslenzkum stjórnmálum, eitthvað, sem því svipað hafi aldrei komið fyrir áður. Emil Jónsson hefur aldrei borið á móti því, að þetta sé rétt eftir honum haft,

Aftur á móti er rétt að geta þess, að það voru önnur ummæli mjög athyglisverð, sem síðar voru borin til baka, en segja þó sína sögu, því að Alþýðublaðið hefur það eftir Gylfa Þ. Gíslasyni, núv. hæstv. menntmrh., að hann hafi á fundi á Akureyri hinn 12. maí lýst því yfir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, sem nú skal lesið, að „ekki færi hjá því, að á næsta þingi yrði þingflokkur þessara flokka stærsti samstæði þingflokkur.“

Þetta hefur Alþýðublaðið eftir hæstv. núverandi ráðherra, og hæstv. ráðh. sá ekki ástæðu til að leiðrétta þetta fyrr en eftir að kæran var komin fram. Þá mundi hann allt í einu eftir því, að hann hafði ekki sagt „þingflokkur“, heldur „þingblokk“.

Það var meinleg misheyrn eða prentvilla hjá blaðinu, og leiðréttingin hefði verið markmeiri, ef hún hefði komið fram strax, en ekki eftir það, að kæran hafði komið til yfirkjörstjórnar.

Þessi hv. þm. (GÞG) á auðvitað leiðréttingu orða sinna eins og aðrir, og vitanlega dettur mér ekki í hug að halda honum að þeim orðum, sem hann segir að hann hafi aldrei mælt.

En við, sem hlustuðum á útvarpsumr. í sumar, höfum áreiðanlega margir tekið eftir því, að þegar þessir ágætu menn, eins og von var til, voru að eggja sína menn til að standa sig í kosningunum, þá notuðu þeir flest orð um sameiningu sína og vilja sinn til samstarfs, annað en þetta eina, að þeir ættu að ganga fram í einum flokki. Það var vandlega passað að nota aldrei það orð, en öll önnur sameiningarheiti voru þar notuð. Þá voru þeir farnir að gæta tungu sinnar dálítið betur en áður.

En auðvitað eru það athafnirnar, sem menn eru dæmdir eftir, en ekki orðin, þó að orðin vitanlega hafi sína þýðingu. Vitanlega hefur það þýðingu, hvaða orð menn viðhafa, en þó að þeir hefðu sagt allt þetta, sem ég hef nú rakið um „algert kosningabandalag“ o.fl., þá höfðu orðin enga þýðingu, ef þeir hefðu ekki hagað framboðunum eins og þeir gerðu, Það er athöfnin, styrkt af orðunum, sem sker úr. Og það er vegna þess, að kosningabandalagið var algert í framkvæmd, sem það á að vera algert, þegar úrslitin eru fundin, en ekki skiptast, þegar þessum herrum þóknast. Þeim tjáir ekki að hafa það algert, meðan þeir eru að afla sér fylgisins, en neita svo að taka afleiðingunum af þessari „algeru“ sameiningu. Auðvitað skilur hv. þm. (EystJ) þetta, jafngreindur og hann er. Og það er vegna þess, að hann og flokksbræður hans skilja þetta, að þeim er jafnilla við þessar umr. og raun ber vitni um. Þótt þeir hafi atkvæðamagnið og þótt þeir ætli ekki að láta rökin hafa nein áhrif, þá finna þeir, að þeir hafa gert rangt, og þess vegna þola þeir ekki, að umræðunum sé haldið áfram, að þetta mál sé lagt fyrir þjóðina og rökrætt svo sem efni standa til.

Það er einnig óvefengjanlegt, að kosningaúrslitin eru með þeim hætti, að ómögulegt er að greina á milli raunverulegs fylgis hvors flokksins um sig. Þeir segja að vísu hér, bæði hv. 1. þm. Eyf. og þm. Ak.: Alþfl. fékk þetta fylgi. Það er staðreynd, sem ekki verður haggað, og Alþfl. er þá svona stór eins og raun ber vitni um.

Ég skal leiða vitni móti þessum herrum um þetta. Við skulum alveg sleppa því að rekja, hvað sjálfstæðismenn segja um þetta, og ekki minnast á, að öll þjóðin veit, að Framsfl. er stærri flokkur en Alþfl., þótt kosningatölurnar sýni allt annað. En við skulum athuga, hvað Tíminn, málgagn Framsfl., segir um þetta. Viðurkennir hann það, að kosningaúrslitin, kosningatölurnar, sýni raunverulegt fylgi Framsfl.? Þannig stóð á, að Morgunblaðið var að stríða Tímanum eða framsóknarmönnum með því í sumar, að nú væri Framsfl. orðinn það, sem Morgunblaðið kallar stundum „pínulitli flokkurinn“, og búinn að taka þann titil af Alþfl. Tíminn var þá fljótur að svara, eins og stundum ella, og ég er ekki viss um, hvort þeim verður mikil þökk í því svari, þegar til lengdar lætur, Það er stundum betra að hugsa dálítið, áður en talað er. Tíminn sagði 3. júlí:

„Þá gerir Morgunblaðið sér mjög tíðrætt um Framsfl. sem „pínulitla“ flokkinn. Rétt er það, að Framsfl. hefur nú minna atkvæðamagn á bak við sig en 1953. En það stafar ekki af fylgistapi. Kosningaúrslitin sýna vissulega, að Framsfl. hefur ekki tapað fylgi í kosningunum, heldur hið gagnstæða. Um það vitna m. a. úrslitin í þeim kjördæmum, þar sem Framsfl. hefur fyrst og fremst orðið að styðjast við eigið fylgi. Ástæðan til þess, að heildartala flokksins lækkar, er allt önnur en fylgistap. Það veit Morgunblaðið mæta vel af úrslitunum á Akureyri, Siglufirði, Snæfellsnesi og í Austur-Húnavatnssýslu, svo að nokkur kjördæmi séu nefnd. Þau sýna bezt, hve samstæður og sterkur flokkur Framsfl. er og hve auðveldlega hann getur fylkt liði eftir því, sem bezt hentar á hverjum stað. Kosningaúrslitin sýna ótvírætt, að Framsfl. er enn sem fyrr sterkasti andstæðingur íhaldsins.“

Þetta segir Tíminn, orðrétt, eftir að kosningatölurnar eru búnar að sýna, að hann sé orðinn minnsti flokkurinn, jafnvel minni en „pínulitli flokkurinn“.

Svo var hv. þm. Eyf. (BSt) hér að tala um, að það væri algerlega rangt, að flokkarnir gætu ráðið yfir atkvæðum kjósendanna, og auðvitað væru kjósendurnir alveg frjálsir að því, hvernig þeir kysu. Ja, hvað segir Tíminn hér? Tíminn segir beinlínis og hælist um yfir, að flokksstjórnin hafi fylkt liði, eftir því sem bezt hentaði á hverjum stað. Þarna kemur fram alger staðfesting á því, sem hv. þm. A-Húnv. (JPálm) og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) höfðu haldið fram. (Gripið fram í: Skorað á menn.) Já, þeir skoruðu á menn og kannske gerðu dálítið meira sums staðar.

Nú, en látum það eiga sig, Það er alveg rétt hjá þessum hv. þm., að við kjörborðið ræður kjósandinn því einn að lokum, hvern hann kýs. Það getur verið áskorun, það geta verið hinar og þessar fortölur, það getur verið ýmiss konar þvingun, sem er beitt, en að lokum ræður kjósandinn, hvern hann kýs. Þetta er alveg rétt, og það er rétt, að kosningatölurnar urðu að lokum þær, sem þær eru, þótt þær séu alveg villandi. En enginn ber á móti því, að kjósendur Alþfl, eigi að hafa jafnrétti á við aðra, hvernig sem atkvæðin voru fengin.

Það, sem hér er verið að tala um, er eingöngu þetta: Eiga kjósendur að geta skapað sér meiri rétt en þeim í raun og veru ber, með því að fara að eins og gert var í sumar? Eiga þeir að skapa sér meiri rétt en aðrir landsmenn? Það er ekki verið að tala um að svipta kjósendurna nokkrum rétti. Þeir eiga að hafa alveg þann rétt, sem þeim ber. En eiga framsóknarmenn með því að láta fylkja sér, eins og Tíminn segir, eftir því sem bezt hentar á hverjum stað, að verða rétthærri en aðrir landsmenn? Það er það, sem hér er til úrskurðar og ákvörðunar.

Þessir menn tóku þátt í „algeru kosningabandalagi“. Þeir áttu fullkominn rétt til þess að taka þátt í slíku algeru kosningabandalagi og kjósa hvern þann, sem þeim leizt. En úr því að þeir tóku þátt í hinu „algera kosningabandalagi“, urðu þeir vitanlega að taka afleiðingunum af því og atkvæði þeirra að metast samkvæmt því og hið „algera kosningabandalag“ að fá það atkvæðamagn á Alþ., sem því að réttum lögum ber, en ekki með rangindum fjórum þingmönnum meira en þessir menn eiga nokkra siðferðislega eða réttarlega kröfu til.

Þeir kjósendur, sem þetta gerðu, vissu ákaflega vel, hvað þeir voru að gera. Það var margtekið fram á kosningafundum víðs vegar um landið, í blöðum og í útvarpi, að 3 af 5 flokkum töldu, að svona ætti að líta á atkvæðin, og þegar kjósendurnir greiddu atkvæði, þá hlutu þeir sem góðir og skynsamir menn að gera ráð fyrir þeim möguleika, að sú leið yrði ofan á. Það liggur líka fyrir, að ýmsir af forustumönnum þessara flokka gerðu sér þess fulla grein. Þannig hafði einn af frambjóðendum Hræðslubandalagsins, frambjóðandinn í A.-Húnavatnssýslu, áður látið uppi, hvernig líta bæri á slíkt „algert kosningabandalag“. Bragi Sigurjónsson hafði í blaði sínu sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sameiningin væri alger, mundi það tákna, að kosningabandalagið fengi enga uppbótarþingmenn sökum atkvæðafæðar Framsóknarflokksins bak við hvern þingmann sinn. Kosninguna yrði því að vinna á kjördæmakosnum þingmönnum eingöngu.“

Svo mörg eru þau orð, Þessi forustumaður Alþfl. gerði sér fullkomna grein fyrir því, áður en til þessarar deilu kom, að algert kosningabandalag væri algert, það væri ekki hægt að hlaupa frá því í miðjum klíðum og gera það að engu, sem algert er, eða sundurskilja það.

Hv. þm. Ak. lagði á það mikla áherzlu, að þetta mál væri í raun og veru útrætt; það væri búið að taka ákvörðun um það af réttum aðilum, landskjörstjórn, og Alþ. kæmi þetta í raun og veru ekkert við. Hv. þm. veit það auðvitað ofur vel, jafnvel og ég, að samkv. stjórnlögum landsins hefur Alþ. endanlega úrskurðarvaldið í þessu. Og það er ekki aðeins réttur, sem Alþ. með þessu er fenginn, heldur er það bein skylda Alþingis að gera sér grein fyrir, hvort að lögum hafi verið farið eða ekki. Alþingi hefur skylduna og getur ekki skotið sér undan henni með nokkru móti. Og eins og ég segi, þá var svo margoft tekið fram í kosningabaráttunni, að þessu mundi verða skotið til Alþingis, að engum þeim manni, sem þetta hugleiddi í alvöru, hefur getað komið annað til hugar en að Alþ. að lokum yrði um málið að fjalla og því frekar sem landskjörstjórn er tvíklofin og tveir af fimm ráða úrslitum. Þó að ekkert væri annað en það eitt, þá er það auðvitað óhjákvæmilegt, að Alþ. geri sér sjálfstæða grein fyrir málinu og athugi, hvernig á getur staðið, að slíkur úrskurður sé kveðinn upp sem þarna átti sér stað og slík sundrung komi fram, að alger minni hluti ráði úrslitum.

Þess hefur stundum verið spurt af andstæðingum okkar í þessu máli, af hverju sjálfstæðismenn fylgdu ekki oddamanninum í landskjörstjórn, Jóni Ásbjörnssyni hæstaréttardómara. En ég spyr andstæðingana: Viljið þið fylgja Jóni Ásbjörnssyni, þið sem berið hann svo mjög fyrir ykkur? Eruð þið þá reiðubúnir til þess að fylgja Jóni Ásbjörnssyni? Eruð þið reiðubúnir til þess að láta hæstv. menntmrh. víkja af þingi? Mér er enginn sérstakur akkur í því, að hæstv. menntmrh. viki af þingi, og ég segi það, að sjálfur tel ég, að hann eigi ekki frekar að víkja af þingi en hinir þrír. En samkv. skoðun Jóns Ásbjörnssonar er hæstv. menntmrh. ólöglega kosinn. Þeir, sem alltaf eru að bera fyrir sig Jón Ásbjörnsson, vilja þeir þá fylgja honum í þessu máli? Ef þeir vilja það ekki, er sæmst fyrir þá að hætta að vitna í þann mæta mann.

Ég hef sjálfur mjög mikla tiltrú til Jóns Ásbjörnssonar og tel hann með okkar mætustu lögfræðingum. Mér kemur ekki til hugar að væna hann eða neinn af landskjörstjórnarmönnum um það, að þeir hafi gert annað en það, sem þeir telja réttast og sannast. En einmitt ágreiningurinn innan landskjörstjórnar og tvískinnungurinn í afstöðu manna þar hlýtur að sanna mönnum það, þótt ekki væri annað, að hér er um fullkomið vafamál að ræða, að ekkert fær staðizt af þeim stóryrðum, sem hv. þm. Ak. hafði um það, hversu þessi kæra væri fráleit og till. okkar ósanngjarnar.

Í mörgum deilumálum, þar sem deilt er um lög og staðreyndir, er auðvitað mikill vafi um, hver úrslit eigi að vera. Þess vegna eru höfð fleiri en eitt dómsstig. Það er ekki vegna þess, að menn væni héraðsdómarana um það, að þeir dæmi vísvitandi rangt eða séu út af fyrir sig ekki hæfir menn í sínu starfi, heldur vegna þess, að betur sjá augu en auga. Það eru mörg atvik, sem geta valdið því, að einstökum manni skjátlist í dómi sínum. Þess vegna eru líka ekki aðeins höfð fleiri en eitt dómsstig, heldur eru hafðir fleirskipaðir æðri dómstólar og víða lægri dómstólar líka. Þess vegna eru 5 menn í hæstarétti. Einn maður gæti e. t. v. annað því starfi að kveða upp dóma í öllum málunum, sem koma fyrir hæstarétt. En það er vegna þess, að talið er nauðsynlegt, að margir menn beri ráð sín saman og fleiri en einn verði sammála um niðurstöðu í vandasömum málum, sem dómurinn er hafður fjölskipaður.

Það er þess vegna síður en svo nokkurt vantraust á Jón Ásbjörnsson hæstaréttardómara eða aðra landskjörstjórnarmenn, þó að við séum þessum mönnum ósammála. Þeim skjátlaðist í þessu efni, og það er vegna þess, að Alþ. hefur gert ráð fyrir því, að slíkum mönnum geti skjátlazt, að þeir hefðu ekki að lokum rétt mat á öllum atvikum, sem það er sett í lög, að Alþ., en ekki landskjörstjórn, eigi að hafa í þessu úrslitaatkvæði.

Hitt er svo auðvitað fjarstæðara en í raun og veru ætti að þurfa að eyða orðum að, þó að ég skuli einnig svara því nokkuð, þegar hv. 3. þm. Reykv. heldur því fram, að við sjálfstæðismenn höfum ráðið atkvæði Jóns Ásbjörnssonar í þessu efni. Það var einn af aðalforkólfum Alþfl., sem sagði það við ákveðinn sjálfstæðismann, áður en þessi úrskurður var kveðinn upp: Við vitum það, að hvernig sem Jón Ásbjörnsson kveður upp sinn úrskurð að lokum, þá verður hann gerður eftir beztu vitund og ákveðinni sannfæringu hans sjálfs.

Ég hygg, að þó að mikill hluti og ég vil segja mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar sé áreiðanlega ósammála Jóni Ásbjörnssyni um úrskurð hans, þá séu allir þeir, sem eitthvað þekkja til Jóns Ásbjörnssonar, sammála þessum orðum Alþýðuflokksmannsins, að allir viti, að Jón Ásbjörnsson kvað upp úrskurð sinn eftir beztu vitund. En honum getur auðvitað skjátlazt eins og öðrum, og við teljum, að honum hafi illilega skjátlazt í þessu máli. Ég fer ekki dult með það.

Það er alveg tvennt til varðandi menn í slíkum nefndum eins og landskjörstjórn. Eiga þeir þar eingöngu að skoða sig sem umboðsmenn sinna flokka og fara eftir fyrirmælum þeirra, eða eiga þeir að skoða sig sem sjálfstæða aðila, sem sjálfstætt stjórnvald, sem á að gera sér sjálfstæða grein fyrir málefninu og kveða upp sinn eigin úrskurð og ekki fara eftir fyrirmælum annarra? Landskjörstjórnarmenn hafa áreiðanlega að meiri hluta fylgt þessari skoðun, að þeir teldu sig vera sjálfstætt stjórnvald, sem ætti að gera sér sína eigin grein fyrir málinu, en ekki fara eftir utanaðkomandi fyrirmælum. Ef það væri tilgangurinn, væri og alveg eins hægt að láta þetta bara í hendurnar á umboðsmönnum miðstjórnanna eða láta þær koma sér saman um meðferð málsins, Alþingi ætlast ekki til, að sá háttur sé hafður á. Þess vegna hefur þetta sjálfstæða stjórnvald verið skipað.

Hitt er svo annað mál, að út frá skoðun einmitt hv. 3. þm. Reykv. er það eðlilegt, að hann telji, að það séu ekki til sjálfstæð stjórnvöld í þessari merkingu. Það er einmitt skoðun kommúnista, — eitt af því, sem mest greinir þá frá lýðræðismönnum, að kommúnistar viðurkenna ekki sjálfstæði dómstólanna eða getu dómara til þess að kveða upp hlutlausan og sjálfstæðan úrskurð, heldur vilja þeir láta dómstólana og hliðstæð stjórnvöld vera beint verkfæri í höndum valdhafanna. Sú skoðun er einmitt skýringin á þeim réttarhneykslum, sem þeir sjálfir viðurkenna nú að hafi átt sér stað austur í þeirra ríkjum. Þar hafa dómstólarnir ekki sjálfstæða tilveru, heldur líta þeir eingöngu á sig sem verkfæri, er eigi ætíð að hlíta valdhöfunum.

Þess vegna gerast slík ósköp eins og gerðust fyrir rúmri viku austur í Ungverjalandi, þegar þar er haldin ný jarðarför yfir mönnum, sem voru drepnir fyrir eitthvað sjö árum. Nú er grafhelgi þeirra raskað, þeir eru teknir úr moldinni, þar sem þeir höfðu verið heygðir eins og hundar, og safnað saman 200 þúsund manns í fylkingu til þess að grafa þá í heiðursgrafreit, vegna þess að nú hafa stjórnvöldin ákveðið, að þessir menn hafi verið drepnir saklausir. Sömu stjórnvöldin, að verulegu leyti sömu mennirnir, sem enn fara með völdin, ákváðu, að þessa menn skyldi drepa að ósekju. Þannig fer, þegar fylgt er þessari kenningu kommúnistanna, að dómstólarnir eiga eingöngu að vera verkfæri í höndum valdhafanna, eru eingöngu notaðir til þess að kúga borgarana, til þess að halda þegnunum í skefjum, til þess að hindra, að einstaklingarnir hafi sjálfstæðar skoðanir og njóti mannréttinda.

Víð sjálfstæðismenn erum þessari lífsskoðun gersamlega andstæðir, og það eru ekki við sjálfstæðismenn einir, heldur er það yfirleitt skoðun lýðræðissinna, að þetta sé eitt mesta mein í mannlegu samfélagi, þegar slík stjórnarstefna ræður, þegar dómstólarnir á þennan veg eru sviptir sjálfstæði sínu.

Við viðurkennum það ósköp fúslega, að dómurum jafnt sem öðrum getur skjátlazt, einstökum dómara þó öllu frekar heldur en mörgum dómstigum. Við viðurkennum þetta allt saman, og einmitt þess vegna erum við alveg ófeimnir að segja: Við teljum Jón Ásbjörnsson einn fremsta lögfræðing þessa lands, og við höfum aldrei reynt að segja honum fyrir verkum, en í þessu tiltekna máli skjátlaðist honum, og Alþingi er til þess sett og hefur til þess skyldu að taka þarna í taumana, að leiðrétta þá skyssu, sem hinn ágæti, flekklausi maður, Jón Ásbjörnsson, gerði sig sekan um.

En þá komum við að því, sem hv. 3. þm. Reykv. hélt fram, að það væri ekki hægt að gera þetta ógilt nú eftir á, vegna þess að kjósendurnir hefðu kosið í góðri trú á þennan úrskurð landskjörstjórnar. Hann sagði: Það er vitað mál, að ef úrskurðurinn hefði ekki fallið á þennan veg, þá hefðu margir kjósendur kosið allt öðruvísi en þeir gerðu. — Ég spyr nú hv. þm. að því og vonast til þess, að hann svari því: Gerir hann ráð fyrir því, að Hræðslubandalagið hefði fengið fleiri eða færri atkv., ef úrskurðurinn hefði gengið á móti því?

Ég geri ráð fyrir, að það kunni að vera eitthvað til í því, að úrskurðurinn hafi haft sín áhrif, en ég er eindregið þeirrar skoðunar, að úrskurðurinn, eins og hann féll, hafi orðið Hræðslubandalaginu viss lyfting í kosningabaráttunni, gefið mönnum trú á, að þrátt fyrir allt kynni svo að fara, að bandalagið lukkaðist, og þess vegna hafi þeir fengið fleiri atkv. en ella. Ef svo er, þá er a. m. k. ekki hallað á þá, þó að kosningatölurnar, eins og þær liggja fyrir, séu teknar til greina og lagðar til grundvallar, Hræðslubandalagið hafði eina hina æskilegustu kosningaaðstöðu, sem mögulegt var. Úrskurður landskjörstjórnar gaf þeim óneitanlega vind í segl, og þess vegna geta þeir ekki farið fram á annað eða sagt, að á sig sé hallað, þó að þessar tölur séu lagðar til grundvallar og sagt: Þið verðið að standa við það, að þið voruð í „algeru kosningabandalagi“, eins og þið sögðuzt ætla að vera. Það er alveg víst, að ekki er á þá hallað, þó að svo sé farið að.

Ég játa þó, að það er ekki hægt að fullyrða, hver áhrif úrskurðurinn hafi haft, en þá kem ég aftur að því, að kjósendurnir hlutu auðvitað að gera sér grein fyrir því, að þetta mál kæmi til Alþ., og þeir gátu ekki trúað því fyrir fram, að t. d. Alþb. væri eingöngu að nota þetta mál til áróðurs, en meinti ekki þær marggefnu yfirlýsingar, sem fram komu af þess hálfu um, að Alþingi hlyti að hnekkja úrskurði landskjörstjórnar. Það hefur nokkuð verið lesið upp af því, sem Þjóðviljinn sagði um þetta mál fyrir kosningarnar. En Alþb. hafði fleiri málgögn, þ. á m. blað, þar sem ritstjórinn var einn af þm., sem nú eiga að greiða atkv. um þetta, hv. 4. landsk. þm, (FRV). Í blaðinu Útsýn, sem hann gaf út, segir berum orðum: „Alþingi er hæstiréttur í málum kosningasvindlara.“ Þetta er sagt 4. júní, og svipað þessu er síðan margendurtekið í blaðinu, t. d. segir blaðið hinn 18. júní, hér um bil viku fyrir kosningar: „Það er of augljóst svindl. Þingsætaþjófnaður verður ekki látinn viðgangast fremur en annar opinber þjófnaður.“

Nú sjáum við, hvort hv. þm., sem þetta skrifaði og á þessu ber ábyrgð, ætlar að láta þingsætaþjófnað viðgangast, því að væntanlega er ekki hinnar nýju stjórnar að löggilda annan opinberan þjófnað.

Kjósendur gerðu sér vitanlega fulla grein fyrir því, að það var möguleiki, svo að vægt sé talað, á því, að Alþ. skærist í þennan leik, og ég vil segja, að hv. þm. Alþb, bregðast illilega sínum kjósendum, ef þeir standa ekki við þau heit, hinar marggefnu yfirlýsingar um það, að Alþ. ætti að taka um þetta sjálfstæða ákvörðun og úrskurða í málinu.

Hv. 3. þm. Reykv. segir: Það er ekki hægt að kjósa upp aftur, það yrði þá að ógilda allar kosningarnar, og það er ekki ástæða til að kjósa aftur bara vegna deilu um hlutföll milli stjórnarflokkanna. — Hver segir, að deilan verði einungis um það? Það skyldi þó aldrei vera svo, að hv. þm. vilji ekki taka afleiðingunum af því, að kjósendurnir hafi kosið á röngum forsendum, vegna þess að þessir herrar séu hræddir við að ganga fram fyrir kjósendur nú aftur, af því að þeir óttast, að kjósendurnir snúi algerlega við þeim baki og Sjálfstfl. fái hreinan meiri hluta við nýjar kosningar, ef þær nú yrðu?

Við sjáum virðingu Alþýðubandalagsins fyrir kosningaheitum sínum, og Hræðslubandalagið lýsti hvað eftir annað yfir því, að þeir ætluðu ekki að vinna með kommúnistum að loknum kosningunum. Það er ósköp eðlilegt, að þeir menn, sem strax að afloknum kosningum ganga þvert ofan í helztu yfirlýsingar, gefnar fyrir kosningar, séu hræddir við að koma fram fyrir kjósendur skjótlega aftur og vilji láta nokkurn tíma líða þangað til kjósendurnir fái að dæma í málum manna.

Við sjálfstæðismenn óttumst ekki að ganga fram fyrir kjósendur, hvort heldur af þessum sökum eða öðrum, heldur lítum vonglaðir til þeirrar baráttu, hvenær sem hún verður. Hitt er svo annað mál, að við teljum, að það sé ekki ástæða til að ógilda alla kosninguna af þessum sökum, þó að ég segi það fyrir mitt leyti, að ég vildi frekar gera það heldur en láta þessi rangindi haldast. Við teljum, að það sé ekki ástæða til slíkrar ógildingar, við teljum, að fullkomnu réttlæti verði fullnægt með því, að þessir 4 rangkjörnu þm. verði látnir hverfa heim og þeir kvaddir í þingsalinn í staðinn, sem til þess hafa raunverulegt fylgi þjóðarinnar.

Hv. 3. þm. Reykv. veit ofur vel, að afstaða þeirra félaga hefur valdið mikilli óánægju í þeirra eigin herbúðum. Hann veit það, að einn af mestu ráðamönnum þeirra hér í bænum sagði t. d. í nokkuð fjölmennum hóp, skömmu eftir kosningarnar: „Er það þá virkilega svo, að við eigum að telja þessa fjóra Alþýðuflokksþingmenn réttkjörna, bara ef Gylfi vill hafa okkur með í stjórn, en ef hann vill ekkert með okkur hafa að gera, þá eigum við að vera með því að reka þá af þingi?“

Fólkið finnur ósköp vel þau óheilindi, sem hér eiga sér stað, þá brigðmælgi gagnvart því og þau svik, sem þessir flokkar hafa gert sig seka um í sambandi við þetta mál.

Það er líka mjög athyglisvert, að í þessum umræðum hefur enginn, ekki einn einasti þm., gerzt talsmaður þess, að það væri sanngjarnt, að þessir 4 menn ættu sæti á Alþ. Það mesta sem var hægt að toga út úr hv. þm. Ak. og 1. þm. Eyf., var þetta, að lög væru lög og þeim yrði að fylgja, þangað til þeim væri breytt, hvort sem þau væru réttlát eða ranglát. Út af fyrir sig er það rétt, að ef lögin eru ótvíræð, þá verður að fylgja þeim. En ef þau eru vafasöm, og fram hjá því verður aldrei komizt, að hér leiki mjög mikill vafi á, þá er hið eina eðlilega og rétta að túlka lögin í samræmi við sanngirni og heilbrigða skynsemi, svo sem við sjálfstæðismenn förum fram á að gert verði.

Við sjálfstæðismenn viðurkennum fúslega, að á núverandi kjördæmaskipun, kosningalögum og stjórnarskrárákvæðum eru verulegir gallar. Við höfum meira að segja sjálfir sýnt fram á það, að við þyrftum ekki að fá nema nokkur hundruð atkvæðum meira í nokkrum kjördæmum til þess að fá einir hreinan meiri hluta á Alþ. Þetta er staðreynd, sem er óhagganleg.

Hv. 3. þm. Reykv. var að bera það, að við hefðum bent á þessa staðreynd, saman við þá kosningaklæki, sem Hræðslubandalagið gerði sig sekt um, Það er auðvitað eins víðs fjarri og frekast getur verið, að þetta sé sambærilegt, eða ætlast hv. þm. eða nokkur heilvita maður til þess, að vegna þess að við getum fengið hreinan meirihluta með jafnlítilli fylgisaukningu í nokkrum kjördæmum, þá ættum við bara að hætta að bjóða fram í þessum kjördæmum og segja: „andstæðingarnir eiga að halda þeim“. Þetta sjá auðvitað allir, að ekki kemur til greina. Við verðum að berjast innan ramma kosningafyrirkomulagsins, eins og það er á hverjum tíma.

En við höfum einmitt gerzt talsmenn þess, að þessu kosningafyrirkomulagi ætti að breyta. Hv. 3. þm. Reykv. upplýsti það hér, að nú ætti að skipa nýja nefnd, sem ætti að reyna að koma sér saman um breytingu á kosningalögum og kjördæmafyrirkomulagi. Það er góðra gjalda vert, ef slík tilraun er gerð, en sú tilraun er búin að standa nokkuð lengi. Allt frá því á árinu 1344 hafa verið starfandi hinar og þessar stjórnarskrárnefndir, sem hafa verið að reyna að finna lausn á þessu máli. En sú lausn hefur ekki fundizt, og hefur þó ekki staðið á okkur sjálfstæðismönnum,

Í þeirri stjórnarskrárnefnd, sem hefur verið starfandi nú síðast, — ég veit ekki, hvort á að telja hana starfandi eða ekki, — hafði ég formennskuna. (Félmrh.: Hún er sjálfsagt dáin.) Ég geri ráð fyrir því, þó að ég hafi ekki séð bráðabirgðalög um það enn þá. Það er nefnilega dálítið til í því, að það dó allur áhugi hjá Framsókn, Alþfl. og kommúnistaflokknum til að leggja nokkuð fram í þessu máli, þegar að því kom að segja hið ákveðna orð.

Við höfðum starfað mörg ár í þessari nefnd, og ég hafði gert margar tilraunir til þess að fá þar samkomulag eða að minnsta kosti einhverjar till. frá okkar andstæðingum. Þeir töluðu vítt og breitt um málið, voru með alls konar bollaleggingar, en alltaf þegar kom að því, að ákveðnar till. ætti að gera, þá þögnuðu þeir, þá fengust þeir ekki til þess að segja neitt. Þess vegna var það, að okkur leiddist þófið, sjálfstæðismönnunum, og seint á árinu 1952 lögðum við fram alveg ákveðnar till. í stjórnarskrármálinu. (Gripið fram í.) — Við vorum klofnir um eitt atriði, það er alveg rétt, — já, nokkuð mikils vert, en við sögðum, að við gætum allir verið sammála um aðra lausnina, ef samkomulag fengist við þá hina um hana, Till. okkar voru lagðar fram, þær liggja opinberlega fyrir, hafa verið birtar í blöðum, svo að hver getur séð þær, og verði það vefengt, þá get ég lesið þær hér upp og hef þær með mér, en ég tel það óþarft á þessu stigi málsins.

Andstæðingarnir fengust hins vegar ekki með nokkru móti til þess hvorki að gera sjálfstæðar till., gera brtt. við okkar till. né segja til um, hvort þeir væru með okkar till. eða ekki, þannig að það reyndist gersamlega þýðingarlaust að halda nefndarfundum áfram. Þó hef ég síðan með hæfilegu millibili öðru hverju spurt nefndarmennina að því, hvort þeir teldu ástæðu til eða þýðingu hafa að kalla nefndina saman aftur, þannig að þeir fengjust til að gera einhverja till., en þeir hafa neitað því. Ég man sérstaklega, að á síðasta þingi spurði ég t. d. hv. 3. þm. Reykv., sem var í nefndinni, um það, hvort hann teldi ástæðu til þess að halda nefndarfundi eða það hefði nokkra þýðingu. Hann kvað það fjarri vera, sagði það mundi vera gersamlega þýðingarlaust. Hér skal þó undantaka einn, sem bar fram till., og það er hv. þm. S-Þ. (KK), en hans till. var ákaflega einkennileg. Hún var nánast um það, að „þjóðarandinn“ ætti að leysa málið. Kalla átti saman þjóðfund, og var þar það eitt ákveðið, að enginn þm. mátti eiga sæti á þeim þjóðfundi. Sú till. fékk ekki byr hjá neinum nema þessum góða nefndarmanni sjálfum. En öðrum framsóknarmanni, sem var í nefndinni, ágætum manni, prófessor Ólafi Jóhannessyni, varð svo mikið um, þegar hann sá tillögurnar frá okkur sjálfstæðismönnum, að hann sagði sig úr nefndinni.

Ég vona, að þessum hv. mönnum komi saman um einhverja till. í þessu máli. Ég vona það af heilum hug, til þess að hægt sé að taka málið upp til ákveðinnar úrlausnar, því að vitanlega gera sér nú orðið allir grein fyrir því, að sú kosningaskipun, sem á þessu er, dugir ekki lengur. En því miður held ég, að það mál eigi töluvert langt í land enn þá, því að Framsfl. hefur aldrei verið reiðubúinn til þess að reyna að finna lausn á málinu. Hann hefur ætíð viljað skipa nýja og nýja nefnd í málið, en þegar hefur komið að því, að málið ætti að leysast í raun og veru, hefur hann horfið frá og ekki fengizt til neinnar lausnar. Batnandi manni er bezt að lifa, og við skulum vera bjartsýnir um, að þeir verði skárri í þessu máli en öðru, Einhvers staðar hlýtur hið góða að koma fram. (Gripið fram í.) Jú, það er enginn svo, að hann sé alvondur, jafnvel ekki framsóknarmenn.

Um hitt mætti spyrja, af hverju sjálfstæðismenn hafi ekki lagt fram sínar till. á Alþingi í þessu máli. Auðvitað er það til athugunar, að við leggjum þær fram á Alþingi, en hingað til hefur verið vitað, að það væri gersamlega þýðingarlaust að koma með þetta mál inn á þingið, enda höfum við viljað í lengstu lög leita samkomulags um þetta grundvallarmál, áður en það væri dregið inn í hatramma flokkabaráttu.

Ég hef reynt að ræða þetta mál með rökum og sýna fram á, að Alþingi ekki aðeins hefur rétt til, heldur ber því skylda til að kveða upp í því úrskurð. Ég hef talið það þess vert að ræða málið hér og ræða það öfgalaust frá mínu sjónarmiði, þó að ég viti, að ég tali fyrir daufum eyrum hér í sölum Alþingis að því leyti, að meiri hlutinn er þegar búinn að semja um, hver lok málsins eigi að verða. En það er ekki aðeins talað til þeirra eyrna, sem hafa lokað sjálfum sér hér í sölum Alþingis. Það er einnig talað til þjóðarinnar, til hennar heilbrigðu dómgreindar. Og hvað sem þessum umr. og þeirri valdbeitingu líður, sem að lokum verður framin í þessu máli, mun þannig verða haldið á málinu af okkur sjálfstæðismönnum, að engum komi til hugar framar að reyna slíkt ranglæti, að reyna þvílíkt brot á lýðfrelsi og réttum stjórnháttum eins og framið var með hinu algera kosningabandalagi í sumar. Og það skal sannast, þótt síðar verði, að samvizkan er svo vakandi hjá þessum mönnum og óttinn við kjósendurna, að þeir þora ekki að leika sama leikinn enn á ný.