28.05.1957
Efri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2943)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég hef heyrt menn segja, að skattalög geti aldrei orðið réttlát, og má það sjálfsagt til sanns vegar færast. Samt mun engum blandast hugur um, að viðleitnin verður stöðugt að vera sú að gera skattalög sem önnur lög svo réttlát sem verða má á hverjum tíma. Komi vankantar á þeim í ljós, er bæði rétt og skylt að sníða þá af sem fyrst. Skattlagning hjóna, er bæði vinna utan heimilis, er, eins og hún er ákveðin í lögum nú, ekki aðeins ranglát, heldur beinlínis fáránleg. Þar er gerður leikur að því að níðast á hjónabandinu sem stofnun. Einn traustasti hornsteinn hvers þjóðfélags, hjónabandið, er skattlagður líkt og um stríðsgróða væri að ræða eða munaðarvöru.

Það mun öllum hv. þdm. kunnugt, að gildandi skattalög ýta mjög undir það, að fólk stofni heimili án þess að ganga í hjónaband. Þurfi eða óski karl og kona, sem búa saman, bæði að vinna utan heimilis, þá er þeim það í lófa lagið, ef þau eru ógift; séu þau hins vegar gift, er það næstum ógerningur, því að þá láta yfirvöldin greipar sópa um tekjur þeirra. Slík eru lögin. Hér er um svo áberandi öfuguggahátt í löggjöf að ræða, að úr ætti að bæta þegar í stað. Margar giftar konur hafa góða aðstöðu til að vinna að einhverju leyti utan heimila sinna án þess að vanrækja heimilishaldið. Sumar gera það, en aðrar halda að sér höndum vegna ranglátra skattalaga. Til eru þær giftar konur, sem vegna erfiðra ástæðna neyðast til að vinna úti, enda þótt þær viti, að óeðlilega mikill hluti teknanna fyrir þá vinnu verði af þeim tekinn í sköttum.

Það lagaákvæði, að sértekjur konu skuli lagðar við tekjur eiginmannsins, áður en tekjuskattur er reiknaður, skerðir hag margra heimila og sumra úr hófi fram. Oft bitnar það á börnunum, sem fyrir það fara á mis við æskileg gæði lífsins, svo sem framhaldsnám eða annan menningarauka.

Þetta lagaákvæði kemur meira að segja hart niður á sjúklingum landsins. Ef það væri burtu fellt, mundu fást til starfa margar giftar hjúkrunarkonur, sem nú halda að sér höndum. Þannig mætti að nokkru bæta úr þeirri miklu vöntun, sem er á hjúkrunarliði í landinu.

Þetta er sú málshliðin, sem veit að einstaklingunum. Hin hliðin snýr að þjóðfélagsheildinni, og er hún vart þýðingarminni.

Hver sú skattalöggjöf, sem að verulegu marki dregur úr mönnum hug til að vinna þjóðnýt störf, hlýtur að vera meira en lítið gölluð frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það hefur lengi verið í almæli, að ýmsum hátekjumönnum þyki ekki svara kostnaði að vinna nema hluta úr árinu vegna hárra skatta. Slíkt þarf ekki að vera svo mjög skattalögum að kenna, heldur öllu frekar því, að þessir menn njóti óhæfilega hárra launa. Allt öðru máli gegnir að jafnaði um störf giftra kvenna utan heimilanna. Þar er oftast um að ræða að auka lítillega heimilistekjur, sem hvergi nærri eru úr hófi fram. Að níðast á slíkri viðleitni er þjóðfélaginu ekki í hag, og skattalög, sem heimíla það, missa illilega marks.

Engri þjóð er það jafnbrýn nauðsyn og okkur Íslendingum, að hver vinnandi hönd hafi gnægð verkefna. Ef vel á að vera, þarf hver þegn okkar fámennu þjóðar að vinna margra manna verk. Þessi 160 þús. manna þjóð nýtur sjálfstjórnar, heldur á lofti menningu og býr við lífskjör, sem mörg milljónaþjóðin mætti vel við una. En slíkt sem þetta getur ekki blessazt til frambúðar, nema allir vinni og vinni mikið. Þess vegna skal hvert það lagaákvæði bannfært, sem fjötrar vinnufúsar hendur. Hafi húsmóðir tíma aflögu til starfa utan heimilis og vilja til að takast þau á hendur, má löggjafinn sízt aftra henni. Á sumum árstímum a.m.k. er hér mikill skortur á vinnuafli, bæði í sveit og við sjó. Vantar þá ekki hvað sízt fólk til þeirrar vinnu, er konur inna af höndum, svo sem til heyvinnu og fiskverkunar. Kveður svo rammt að þessari vöntun á vinnuafli, að orðið hefur um langt skeið að fá erlent kvenfólk hingað til þess að vinna ýmiss konar nauðsynjastörf þjóðfélagsins, og fylgja þeirri ráðstöfun þó margháttaðir gallar. Erlent fólk er ókunnugt þjóðtungu, venjum og vinnubrögðum og á því erfiðara um að leysa störfin vel af hendi en ella væri. Þá er þess vart að vænta, að úrvalsfólk komi hingað til lands í atvinnuleit, slíkt væri þá frekar undantekning en regla. Loks verður að greiða útlendingum kaupgjald að vissum hluta í erlendri mynt, og er það eitt mikið óhagræði. Allir þessir ágallar jafngilda fjárhagslegu tapi þjóðfélagsins, þótt erfitt sé að meta það í krónutali. Er þó vert að hafa það í huga, þegar reiknaður er raunverulegur hagnaður ríkissjóðs af undantekningarlausri samsköttun hjóna.

Víst eru menn sammála um, að þótt frv. á þskj. 376 yrði að lögum, þá mundi það ekki skerða tekjur ríkissjóðs verulega. Ýmislegt kæmi þar til með að vega upp á móti, svo sem hækkun heildartekna til framtals og betri nýting starfskraftanna. Nú eru vonir til og raunar útlit fyrir, að mikil vinna sé fram undan, og verður þá full þörf á, að sem flestar hendur standi fram úr ermum. Samþykkt frumvarpsins mundi leysa úr læðingi nokkurt vinnuafl, sem nú er bundið, og að sama skapi draga úr þörfinni á innfluttum vinnukrafti, misjöfnum að gæðum. Giftar konur mundu í stærri stíl en verið hefur hlaupa undir bagga, þar sem þess gerðist þörf, og taka þátt í framleiðslustörfum og annarri mikilvægri atvinnu. Væntanlega verður þessa brýn þörf þegar í sumar, og því væri samþykkt frv. betur gerð nú en síðar. Heildarendurskoðun skattalaganna er að vísu boðuð, en enginn veit, hvenær hún kemst í gagnið. Frávísun frv. á þeirri forsendu, að þessi endurskoðun standi fyrir dyrum, kemur mér fyrir sjónir sem skálkaskjól. Frestun á þeirri lagfæringu, sem í frv. felst, er óþörf, og það sem meira er. hún er skaðleg að mínum dómi. Hún er óþörf af því, að lagfæringin raskar ekki lögunum í heild, hún er skaðleg fyrir það, að með henni er aðkallandi réttarbót tafin.

Ég mun því greiða atkv. gegn frávísun frv.