14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Till. meiri hl. hv. fjhn. um afgreiðslu þessa máls varð mér æði mikil vonbrigði, og ekki hvað sízt er hún mér vonbrigði fyrir þá sök, að hv. frsm. meiri hl. lét hér í ljós mjög eindreginn stuðning við þá hugsun, sem liggur að baki þessa frv., og lýsti því sérstaklega yfir, að það væri ánægjulegt, hvað sú stefna, sem i frv. birtist, væri í nánu samræmi við fyrirheit stjórnarsáttmála núverandi hæstv. ríkisstj. um aðgerðir í þessum málum.

Þegar þessa er gætt og forsögu þessa máls alls, þá hlýtur það að vekja æðimikla undrun, að það skuli nú vera lagt til, að frv. sé fellt.

Rökin fyrir þessari afstöðu meiri hl. fjhn. er að finna í nál. meiri hl. á þskj. 330, og verð ég að segja, að þær röksemdir eru harla veigalitlar, og í rauninni skipta að mjög litlu leyti máli varðandi afgreiðslu þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. frsm. minni hl. n. hefur gert hér rækilega grein fyrir forsögu þessa máls, og þarf ég ekki að rekja hana ýtarlega, en vil aðeins, vegna þess að svo virðist sem röksemd hv. meiri hl. n. um að vísa málinu til ríkisstj. byggist aðallega á því, að málið þurfi nánari athugunar við, benda á það, að þetta mál hefur verið mjög rækilega kannað á undanförnum árum, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur að stofni til verið endurflutt áður á tveimur þingum, þannig að það hefur gefizt mjög rækilegt tóm til þess að íhuga þetta mál og hvernig því yrði bezt fyrir komið. Auk þess hefur fengizt fullkomin reynsla í sambandi við úthlutun atvinnubótafjár á undanförnum árum og þau sjónarmið, sem þar hafa verið höfð í huga, hvaða skipan þessara mála væri eðlilegust og heppilegust.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og er í nokkrum atriðum breytt frá fyrri frv., sem við höfum flutt um þetta mál, byggist í senn á þeirri athugun og niðurstöðum, sem jafnvægisnefndin komst að, og enn fremur á þeirri reynslu, sem fengizt hefur undanfarin ár í sambandi við úthlutun atvinnubótafjárins, sem veitt hefur verið úr ríkissjóði um nokkurra ára bil.

Þegar á þetta er horft, þá er það veigalítil röksemd til að vísa þessu máli frá, að sett hafi verið lög um togarakaup annars vegar, sem er aðeins einn þáttur þessa máls, og hins vegar sé verið að vinna að því að gera skýrslur um atvinnutæki og atvinnuástand í kaupstöðum og kauptúnum á Vestur-, Norður- og Austurlandi til undirbúnings till. um úrbætur í þeim efnum, þar sem þeirra er þörf, eins og það er orðað í nál. meiri hlutans.

Ég held, að öll þessi nýja skýrslusöfnun sé ákaflega tilgangslítil og þarflaus. Það er búið að gera margar athuganir á þessum málum. Atvinnumálanefnd, — ég man nú ekki raunar, hvaða nafn hún bar, — sem starfandi var hér fyrir nokkrum árum, safnaði margvíslegum upplýsingum um atvinnuástand í landinu, ferðaðist víðs vegar um landið og gerði sér í öllum meginatriðum grein fyrir því, hvaða atvinnutæki helzt skorti á hverjum stað. Síðan hefur svo jafnvægisnefndin unnið að mjög víðtækri skýrslusöfnun í sambandi við atvinnumálin víðs vegar um landið, þróun þeirra, tilflutninga fólksins og þær þarfir, sem skapazt hafa í því sambandi, og hefur skilað um þetta mjög ýtarlegu og greinagóðu nál. Ef það á svo að vera innlegg hæstv. ríkisstj. í þetta mál nú að fara að byrja á þessum málum að nýju og byrja á nýrri skýrslusöfnun, nýjum ferðalögum um landið og fyrirspurnum, þá held ég sannast sagt, að menn fari að verða nokkuð þreyttir á þessum skýrslusöfnunum öllum saman, og ég sé ekki í rauninni, hvaða þörf er fyrir slíkar rannsóknir umfram það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að á hverjum tíma þurfi að gera og eðlilegt sé að gerðar verði af þeirri n., sem eigi að hafa það fasta hlutverk með höndum að fylgjast með atvinnuþróuninni í landinu og ráðstafa fé jafnvægissjóðs, eftir því sem hverju sinni verður talið heppilegast til þess að laga það misrétti sem þar er, og jafnvægisleysi.

Ég held, að það sé þess vegna fyllilega orðið tímabært að setja um þetta atriði ákveðna löggjöf og koma þessum málum í fast form. Það má auðvitað segja, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, að það sé hægt að treysta skrifstofustjórum ráðuneyta og öðrum slíkum fyrir að gera sér grein fyrir þörfinni, eins og hún er á hverjum tíma. Ég get nú látið það gott heita. En þegar það er orðið viðurkennt af stjórnarvöldunum, að það sé full ástæða til árlegrar fjárveitingar í þessu skyni, og sú fjárveiting hefur nú verið hækkuð mjög verulega, þá liggur í augum uppi, að það ber brýna nauðsyn til þess, að samræmi og fastar reglur komist á varðandi úthlutun og ráðstöfun þessa fjár og að sveitarfélög og einstakir aðilar víðs vegar um landið viti gerla, hvers má vænta í sambandi við fyrirgreiðslur í þessum efnum. Og eins og sakir standa nú, er þetta ástand gersamlega óviðunandi. Það veit enginn frá ári til árs, hver á að ráðstafa þessu fé. Það rísa ótal vandamál, sem menn snúa sér hér með til ráðuneytanna í sambandi við atriði, sem þarf nauðsynlega að ráða skjótt fram úr, og þá kemur það á daginn, að þeir fá þau svör í viðkomandi ráðuneytum: Ja, við höfum ekki hugmynd um í fyrsta lagi, hvort nokkru fé verður ráðstafað á næsta ári, og þá enn þá síður, hverjir það verða, sem úthluta þessu fé. — Þetta verður því allt í hreinum „kaos“, og að ætla sér að velta því þannig áfram, ekki sízt eftir að féð hefur verið aukið myndarlega, eins og vissulega ber að þakka að nú hefur verið gert af Alþ., þá verður enn brýnni þörfin á því að koma þessum málum í skaplegt horf.

Þetta mál og sú till., sem hér er flutt um að kerfisbinda þetta meira en gert hefur verið, er ekki flutt á neinn hátt til þess að skapa núverandi hæstv. ríkisstj. erfiðleika, enda er málið fram komið, áður en hún tók við völdum, og auk þess má geta þess, að á síðasta þingi flutti þáverandi ríkisstj. sjálf frv. um að koma þessum málum fyrir í fast form og taldi þá málið vera það nægilega athugað, að hægt væri að setja um þetta ákveðna löggjöf. Sú löggjöf var mjög vandlega undirbúin. Ég skal játa, að það, sem ég fyrst og fremst er óánægður með í þeim lögum, var það, að fjárhæðin, sem ætlað var að verja til þessara mála, var of lítil, og þess vegna höfum við ekki tekið upp þetta frv. að öllu leyti eins og jafnvægisnefndin gekk frá því. En hugsunin er sú sama, og starfshættirnir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., eru nákvæmlega þeir sömu og þar var samkomulag um innan jafnvægisnefndarinnar. Það er því síður en svo, að þessu máli sé undirbúningslaust kastað hér inn í Alþ. En ég er þeirrar skoðunar og við flm., að það sé algerlega óviðunandi að koma þessum málum ekki í fastara form og koma á þetta föstu skipulagi og að hugsa sér að haga því þannig til frambúðar, að milljónum króna og það nú hálfum öðrum milljónatug sé úthlutað, eins og hv. frsm. minni hl. sagði, meira og minna af handahófi og skipulagslaust og eftir engum fyrirframgerðum reglum. Það er algerlega óviðunandi, og það leysir alls ekki það meginvandamál, sem hér er við að glíma og þarf að leysa. Það þarf að gera það á miklu skipulagsbundnari hátt, og það verður því aðeins gert, að það sé föst stofnun eða föst stjórn þessara mála sem frá ári til árs fari með þau, en ekki hringla með þau þannig frá ári til árs, að enginn viti fyrir fram, hvernig málunum verði skipað næsta ár.

Ég held því, að það séu engin rök fyrir því að vísa þessu máli frá nú, því að það sé það fullkomlega vel undirbúið og byggt á það traustum grundvelli, að það sé hægt fyrir Alþ. að afgreiða þetta frá sér sem lög og leysa þessa hlið málsins að því leyti. Það verður að taka undir það, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að það verður að teljast mjög eðlilegt, að skipuð sé n. manna, sem á að fjalla um jafnmikilvægar ráðstafanir, sem hljóta að hafa jafnmikil áhrif á alla efnahagsþróun í þjóðfélaginu eins og virðist vera gert ráð fyrir að þessi svokallaða atvinnutækjanefnd fjalli um, án þess að Alþ. sé gefinn kostur á að marka starfssvið slíkrar n. með lögum, eins og t.d. gert var á sínum tíma með nýbyggingaráð, hvort sem það verður ríkisstj., sem skipar þá n., eða ekki. Það er auðvitað eðlilegast, að það sé Alþ. En þótt það yrði ekki, þá verður a.m.k. að telja sjálfsagt, að Alþ. setji þær reglur, sem slík n. á að starfa eftir, ef þetta á að verða varanleg stofnun. Það væri ekkert við því að segja, ef hún ætti aðeins að semja eitt frv., eins og gert var ráð fyrir í sambandi við togarakaupin. En ef það á að vera hennar hlutverk að marka þær reglur, sem fylgja ber um úthlutun atvinnujöfnunarfjár nú og jafnvel lengur, þá verður að teljast, að það sé algerlega óviðunandi skipan mála að hafa þann hátt á.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að það virðist fullur skilningur vera á því, að það þurfi að sinna þessu mikilvæga vandamáli, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að stuðla að lausn á, en læt hins vegar í ljós mikla óánægju yfir þeim undarlegu vinnubrögðum, að þrátt fyrir alla þá vandlegu íhugun og nefndaniðurstöður, sem verið hafa í þessum málum, skuli það enn vera ætlunin að þvæla þessu máli áfram og byrja á nýjum skýrslugerðum í stað þess að hefjast handa um að leysa þann vanda, sem við er að glíma.