19.03.1957
Neðri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2991)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem um skeið hefur verið til athugunar og afgreiðslu hjá sjútvn. þessarar d., er að efni til um það, að framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs Íslands verði árlega 12 millj. kr. í staðinn fyrir 2 millj. kr., eins og nú er í lögum.

Nefndin hefur athugað frv. og kynnt sér nokkuð rekstur fiskveiðasjóðs, og að lokum gat n. ekki orðið sammála við endanlega afgreiðslu málsins.

Fiskveiðasjóður er, svo sem kunnugt er, sá sjóðurinn, sem veitir stofnlán til fiskibáta og ýmiss konar fiskiðjuvera, og það leikur ekki á tveim tungum, að fjárhagur sjóðsins er með þeim hætti, að hann þarfnast rýmkaðs fjárhags. Um það munu allir nm. í sjútvn. sammála. Hitt er annað mál, að frá því að frv. kom fram, það frv., sem gerir ráð fyrir 10 millj. kr. auknu framlagi ríkisins árlega til sjóðsins, hefur tvennt gerzt að þessu sinni. Nokkrum dögum fyrir áramót mun ríkisstj. hafa fengið Fiskveiðasjóði Íslands í hendur 10 millj. kr. að láni, og með samþykkt fjárl. síðast í febrúarmánuði var ákveðin 10 millj. kr. lánseftirgjöf af hálfu ríkissjóðs til handa Fiskveiðasjóði Íslands, en það er það lán, sem fiskveiðasjóði var veitt af tekjuafgangi ríkisins árið 1955.

Það má þess vegna segja, að að því er snertir eitt ár, hefur verið gengið til móts við það, sem lagt er til í þessu frv. Hitt er rétt, að frv. gerir ráð fyrir því að lögfesta árlega 10 millj. kr. framlagshækkun til sjóðsins, en um framtíðina er engu slegið föstu með þeim afgreiðslum, sem ég hef nú nefnt, og þeim samskiptum, sem ríkissjóður hefur átt við fiskveiðasjóð á þessu tímabili.

Fiskveiðasjóður gerði áætlun um það í janúarmánuði s.l., að á þessu yfirstandandi ári þyrfti hann á að halda 55 millj. kr. til útlána, en hann taldi, að möguleikarnir væru fyrir hendi sem svaraði 42.5 millj. kr. Við sjáum því, að það er fullkomlega rétt, að sjóðurinn þarfnast rýmkaðs fjárhags.

Eins og öllum er kunnugt, er það eitt atriði í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að auka verulega fiskiskipastól landsmanna. Það er óhjákvæmilegt, að með þeirri nýsmíði fiskiskipa, sem ýmist þegar er komin af stað og búið að semja um eða fyrir dyrum stendur, verður að athuga betur, með hverjum hætti þeirri lánsfjárþörf, sem þar skapast, verður mætt. Og okkur í sjútvn. er kunnugt um það, að ríkisstj. hefur nú málefni fiskveiðasjóðs til athugunar, og vænti ég þess, að áður en langt um líður, verði lagt hér fyrir Alþ. frv. um þau mál.

Okkur, sem meiri hl. skipum og stöndum að því nál., sem birt er á þskj. 338, þykir ekki sem óhjákvæmilegt sé, að ríkið leggi þessum sjóði árlega til það fé, sem hér er fram á farið. Það er vel hugsanlegt að greiða úr vandamálum hans eftir öðrum leiðum, t.d. með lánsfé. Það má á það benda, að eigið fé sjóðsins er nokkuð á annað hundrað millj. kr., og verður að líta svo á, að vel geti komið til mála, að sjóðurinn geti haldið áfram að eflast á næstu árum, þótt hann þurfi í bili að fá nokkurt lánsfé. Það orkar nokkurs tvímælis, hvað mikið á að gera að því að taka upp bein framlög, jafnvel til sjóða, sem eru óumdeilanlega nauðsynlegir, eins og þessi sjóður er. Það er ekki alveg víst, að það þurfi endilega að leysa hans mál með beinu ríkisframlagi. Lánsfé getur allt eins komið til greina, a.m.k. eins og nú standa sakir.

Að öllu þessu athuguðu hefur meiri hl. n. lagt til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. og að það mál, sem frv. fjallar um, sem sagt aukið fjármagn til handa Fiskveiðasjóði Íslands, komi þar til athugunar, um leið og aðrar hliðar á rekstri þessa sjóðs eru athugaðar, en sú athugun stendur nú yfir, eins og ég hef áður sagt.