31.05.1957
Sameinað þing: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

Þinglausnir

forseti (GJóh):

Eins og sjá má af þessu yfirliti, hefur Alþingi það, sem nú lýkur störfum í dag, haft mörg merk og stór mál til meðferðar, enda hefur Alþingi setið lengi að störfum. Til þess liggja eðlilegar ástæður, sem hér verður ekki farið frekar út í.

Ég bendi hér aðeins á nokkur hinna stærri mála, sem afgreidd hafa verið á Alþingi. Samþykkt voru lög um útflutningssjóð o.fl. Sett lög, sem heimila ríkisstjórninni kaup á 15 nýjum togurum og 12 fiskiskipum, 200–250 smálesta hvert, ásamt lántökuheimild fyrir ríkisstj. til þessara skipakaupa. Áætlað er, að hinum nýju togurum og fiskibátum verði ráðstafað til þeirra byggðarlaga, er mesta þörf hafa fyrir aukinn atvinnurekstur á sviði sjávarútvegs og hafa jafnframt vinnslumöguleika í landi. Þá er og gert ráð fyrir því í lögunum, að ríkisstj. sé heimilt að setja á stofn ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar fyrir þau sjávarþorp, sem verst eru á vegi stödd með atvinnu.

Samþykkt voru lög um útflutning sjávarafurða o.fl.

Samþykkt hafa verið lög um landnám, ræktun og byggingar í sveitum.

Samþykkt lög um búfjárrækt.

Endurskoðuð og samþykkt lög um lax- og silungsveiði og fleiri lög viðkomandi landbúnaði, sem ekki vinnst tími til að telja upp.

Þá hafa verið samþykkt ný lög um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga o.fl., mikill lagabálkur, þar sem í eru allmörg nýmæli, svo sem um húsnæðismálastofnun ríkisins, byggingarsjóð ríkisins, frjálsan sparnað og skyldusparnað ungs fólks gegn forgangsrétti til lána úr byggingarsjóði til húsbygginga.

Samþykkt hafa verið lög um breytingar á orlofslögunum. Nú fá t.d. hlutarsjómenn fullt orlof, en fengu áður aðeins hálft.

Samþykkt hafa verið lög um heilsuvernd í skólum og samþykktar breytingar á sjúkrahúsalögum.

Samþykkt lög um Háskóla Íslands, þar sem í eru mörg nýmæli frá eldri lögum.

Gerðar hafa verið breytingar á lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús og félagsheimilasjóði séð fyrir auknum tekjum. Nú fá verkalýðsfélög og búnaðarfélög beina aðild að félagsheimilasjóði, sem þau höfðu ekki áður. Helmingur af skemmtanaskatti skal nú renna í félagsheimilasjóð í stað 35 af hundraði áður.

Þá hafa verið samþykkt lög um stofnun vísindasjóðs og sjóðnum tryggðar allmiklar tekjur árlega.

Þá hafa verið samþykkt þrjú bankafrumvörp um breytingar á bankalöggjöfinni. Aðalbreytingin er um seðladeild Landsbankans, sem nú verður undir sérstakri stjórn innan Landsbankans. Önnur aðalbreytingin er sú, að Útvegsbankanum h/f skuli breytt í ríkisbanka.

Samþykkt hafa verið lög um skatt á stóreignir. Ég hef hér í sem stytztu máli nefnt nokkur frv., sem Alþingi hefur fjallað um og gert að lögum. Að sjálfsögðu eru fjölmörg önnur mál, sem Alþingi hefur haft til meðferðar og afgreitt sem lög. Einstaka mál hefur dagað uppi, og eru það engin nýmæli í sögu Alþingis.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að eftir þetta þing liggi mikið og merkilegt starf. Það er ósk mín og trú, að störf þessa Alþingis verði landi og þjóð til aukinnar hagsældar og blessunar.

Ég vil þakka öllum hv. alþm. fyrir góða samvinnu og fyrir þá miklu vinnu, sem þeir hafa lagt í störf sín í nefndum og á þingfundum.

Ég þakka hæstv. forsetum fyrir ágæta samvinnu, svo og riturum sameinaðs Alþingis, sem á margan hátt hafa aðstoðað mig við forsetastörfin.

Skrifstofustjóra Alþingis, fulltrúum og öllu starfsfólki þakka ég alla þá aðstoð og fyrirgreiðslu, sem mér hefur verið veitt og ætíð hefur verið í té látin með glöðu geði.

Ég óska hæstv. alþm. alls hins bezta á komandi tímum. Utanbæjarþingmönnum svo og öðrum þeim, sem nú halda heim frá þingi, óska ég góðrar ferðar og heimkomu og að við megum öll heil hittast við setningu næsta Alþingis.