08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (3106)

155. mál, menntun kennara

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í lögum, sem samþykkt voru 1947 um menntun kennara, eru ákvæði um kennslustofnun í uppeldisvísindum við Háskóla Íslands. Hlutverk þessarar stofnunar á að vera að veita kennaraefnum, sem búa sig undir kennslustörf við barnaskóla og gagnfræðaskóla og menntaskóla og aðra sérskóla, bæði bóklega og verklega menntun í uppeldisfræði, sálarfræði og kennslufræðum. Kennararnir í uppeldisvísindum áttu einnig að annast rannsóknir og leiðbeiningar í þágu uppeldismála landsins. Samkvæmt lögunum átti að skipa einn prófessor til þess að veita þessari stofnun forstöðu.

Þessi lagaákvæði hafa aldrei komið til framkvæmda, vegna þess að gert var ráð fyrir því, að kennararnir í uppeldisvísindum skyldu hafa aðstöðu til þess að annast kennslu sína í sambandi við æfingaskóla, sem einnig voru ákvæði í lögunum um að setja á stofn. Slíkur æfingaskóli hefur aldrei verið stofnsettur, og þess vegna hefur aldrei verið starfsaðstaða til þess að inna af höndum þá kennslu í uppeldisvísindum við háskólann, sem lögin gerðu ráð fyrir. Auk þess hefur háskólinn jafnan talið, að þessi ákvæði í lögunum um menntun kennara væru ekki alls kostar heppileg. Hitt er hins vegar alveg óumdeilt, að æskilegt er, að við háskólann fari fram kennsla í uppeldisvísindum. Það er bæði við hina svonefndu B.A. deild, sem hefur það hlutverk m.a. að láta þeim í té menntun, sem hyggjast annast kennslu við framhaldsskóla, að þar er gert ráð fyrir kennslu í uppeldisfræðum, og auk þess er háskólanum nú skylt að halda námskeið í uppeldisfræðum fyrir þá norrænufræðinga, sem eiga að fá kennararéttindi. Til þess ber því brýna nauðsyn, að kennslunni í uppeldisfræðum við háskólann verði komið í fastara horf en nú hefur átt sér stað, en hana hafa annazt einn aukakennari og enn fremur að nokkru leyti kennarinn í forspjallsvísindum við heimspekideildina.

Um mörg undanfarin ár hefur verið veitt fé á fjárlögum til rannsóknar á greindarþroska íslenzkra skólabarna. Því verkefni má nú heita lokið að mestu leyti. Hins vegar eru rannsóknarefnin að því er varðar uppeldismál landsins mikil, nær ótæmandi. Virðist það því vera skynsamleg lausn á þörf háskólans fyrir fasta skipun á kennslu í uppeldisfræðum og lausn á rannsóknarþörfinni í þágu uppeldismála landsins almennt að. framkvæma lagaákvæðið frá árinu 1947 um stofnun eins prófessorsembættis í uppeldisfræðum við háskólann og fela þeim prófessor að annast þá kennslu, sem nú annast stundakennarar, en jafnframt að fela honum að halda áfram því starfi, sem kostað hefur verið mörg undanfarin ár með sérstakri fjárlagagreiðslu og verja hefur átt til rannsókna á greindarþroska íslenzkra skólabarna. Ef það yrði gert, að þessi störf yrðu sameinuð, kennslustörfin í uppeldisvísindum við háskólann og þau rannsóknarstörf, sem undanfarin ár hafa verið stunduð í sambandi við mælingar á greindarþroska íslenzkra skólabarna, þá er hvort tveggja, vel séð fyrir þörfum háskólans fyrir kennslukrafta, en jafnframt mundi af því hljótast nokkur sparnaðarauki fyrir ríkissjóð, ef aukakennslan, sem nú er innt af hendi í heimspekideildinni í uppeldisvísindum, þyrfti ekki lengur að greiðast og rannsóknarstörfin, sem unnin hafa verið á vegum sérstakrar stofnunar, yrðu flutt inn fyrir veggi háskólans. Þess vegna held ég, að þetta frv. geti þjónað því tvöfalda markmiði að sjá betur fyrir uppeldismálafræðslunni innan háskólans en nú á sér stað, sjá betur fyrir úrlausn á þeirri þörf á rannsóknum í þágu uppeldismálanna, sem nú á sér stað, en jafnframt verða til sparnaðar fyrir ríkissjóð með því að sameina þessa tvenns konar starfsemi á einn stað innan heimspekideildar háskólans.

Að lokinni umræðu leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.