14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3209)

121. mál, ríkisborgararéttur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er mikið vandamál. Það er ekki nýtt fyrir þá, sem sátu á Alþingi síðasta kjörtímabil. Á því kjörtímabili var málið margrætt, síðast á næstsíðasta þingi. Ég segi, að málið sé vandamál, vegna þess að ég er hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) alveg sammála um þau orð í ræðu hans, að það er mjög óæskilegt, að erlend nöfn, sem lúta ekki lögmálum íslenzkrar tungu, festist um aldur og ævi. Það er mjög óæskilegt, að svo fari, að um ófyrirsjáanlega framtíð beri íslenzkar fjölskyldur erlend nöfn.

Hins vegar er það líka að mínu viti mjög óeðlilegt, og í því er vandi málsins fólginn, að skylda fólk, sem náð hefur fullorðinsaldri, til þess að skipta um nafn, að fyrirskipa fólki að segja skilið við það nafn, sem það hefur hlotið við skírnina, og þar með verða að sjá á bak þeim tengslum, sem í nafni hvers manns felast við forfeður sína og ættmenni sín.

Það er þessi tvöfaldi vandi, sem reyna þarf að leysa með einhverju skynsamlegu móti. Það þarf að koma í veg fyrir það, að íslenzkir menn beri á ókomnum tímum erlend nöfn. En hitt er líka frá mínu sjónarmiði séð jafnæskilegt, að enginn maður þurfi á fullorðinsaldri að skipta um nafn. Það skilur hv. 2. þm. Reykv., sem er viðskiptafrömuður, án efa betur en við margir hinir, hvílíkir erfiðleikar eru í því fólgnir fyrir fyrirtæki að skipta um nafn á miðju starfsskeiði sínu. Það getur haft í för með sér fyrir fyrirtækið margs konar beina hagsmunaskerðingu. Það skerðir svonefndan „good-will“ fyrirtækisins verulega og getur haft fyrir það alvarlega þýðingu. En gildir það þá ekki einnig um mann, einstakling, sem yrði að sjá á bak nafni sínu á miðjum aldri? Það geta jafnvel verið tengd við nafn manns beinir viðskiptahagsmunir, eins og raunar hv. 9. landsk. þm. vék að í frumræðu sinni, sem ég var í öllum meginatriðum sammála. Hann nefndi vísindamenn til dæmis eða rithöfunda, sem unnið hefðu nafni sínu frægð, og væri því eðlilegt, að þeir vildu ógjarnan sjá á bak því. Það gætu einnig verið tengdir beinir viðskiptahagsmunir nafni einstaklings, ekki síður en nafni fyrirtækis.

Þó tel ég allt þetta vera léttara á metunum en það beina tilfinningaatriði, það beina metnaðarmál einstaklings að vera ekki skyldaður til þess á fullorðinsaldri að segja allt í einu skilið við þau miklu og dýrmætu persónulegu verðmæti, sem hljóta að vera fólgin í fjölskyldunafni, einkum og sér í lagi ef hafðar eru í huga þær nafnavenjur, sem annars staðar ríkja í þessum efnum, en við Íslendingar höfum ekki mjög náin kynni af, sem sagt ættarnafnavenjurnar, þar sem sama ættarnafnið hefur verið í fjölskyldunni e.t.v. í margar aldir og er því öllum aðilum fjölskyldu mjög dýrmætt. Samkvæmt þeim reglum, sem hér hafa gilt undanfarið, verða menn að segja skilið við það skyndilega, um leið og þeir öðlast íslenzkan ríkisborgararétt.

Mér fyndist það vera sök sér, ef menn hefðu þá stefnu að vilja algerlega útrýma erlendum nöfnum úr íslenzku máli. Það er stefna, sem ég út af fyrir sig gæti skilið og gæti virt. Leiðin til þess að ná því markmiði er auðvitað sú að banna mönnum að bera erlend nöfn, segja, að frá einhverjum ákveðnum degi, frá 1. maí eða 1. apríl n. k„ mætti enginn íslenzkur ríkisborgari nefna sig erlendu nafni. Það væri hin eina rökrétta afleiðing af skoðun hv. 2. þm. Reykv. í þessum efnum. Ef hann gerir lítið úr þeim vanda, sem af því hlýzt, að menn, sem sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, verði að skipta um nafn, getur hann ekki gert mikið úr þeim vanda, sem af því mundi hljótast fyrir menn, sem nú eru íslenzkir ríkisborgarar. Ef það er ekki meira fyrir menn að skipta um nafn en að skipta um jakka, ætti ekki heldur núverandi íslenzkum ríkisborgurum að vera mikill vandi á höndum í þeim efnum.

Ég er honum alveg sammála um það, að vissulega væri langæskilegast, að enginn íslenzkur maður, enginn íslenzkur ríkisborgari bæri erlent nafn. Það væri sannarlega langæskilegast. En af hverju hefur engum manni dottið í hug, að því er ég bezt veit, að koma fram með þá till., að frá einhverjum ákveðnum degi skuli allir íslenzkir menn, sem bera útlend nöfn, leggja þau til hliðar og taka síðan upp íslenzk nöfn? Það er auðvitað af því, að menn finna það, hvað sem hver segir, að það er vægast sagt gróft að farið að skylda menn til slíks verknaðar, enda mundi það tvímælalaust verða svo óvinsælt hér innanlands, að því mundi bókstaflega ekki verða framfylgt.

Engu að síður hefur Alþingi neytt valds síns gagnvart þeim mönnum, sem undir það eiga að sækja og sækja um ríkisborgararétt, með því að beita þar þessu andlega ofbeldi. Einungis af því, að þeir eiga undir þingið að sækja, þeir sækja vissan rétt í hendur þingsins, eru þeir beittir því andlega ofbeldi að verða að skipta um nöfn. Þetta finnst mér að láta kenna aflsmunar í skiptum á hátt, sem ég tel Alþingi og hef talið að Alþingi væri ekki fullkomlega samboðinn.

Ef það er stefna meiri hl. Alþingis, að erlend nöfn eigi undir engum kringumstæðum að þolast á íslenzkum ríkisborgurum, á það að ganga jafnt yfir alla, þá, sem nú þegar eru íslenzkir ríkisborgarar, og hina, sem vilja verða það. Sé sú skoðun rétt, að það sé ekki til of mikils ætlazt af verðandi íslenzkum ríkisborgurum, að þeir skipti um nafn, þá hlýtur það líka að vera rétt gagnvart hinum.

Á annað atriði í þessum efnum vildi ég einnig benda og undirstrika alveg sérstaklega. Meðal þeirra, sem nú sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, eru menn, sem bera eftirfarandi nöfn: Andreasen, Berg, Briem, Hansen, Jacobsen, Malmquist, Mortensen og fimm Rasmussenar. Samkvæmt þeirri stefnu, sem n. nú mælir með og er hin gamla stefna meiri hl. Alþ. í málinu, eiga nöfnin Rasmussen, Mortensen, Malmquist, Jacobsen, Hansen, Briem, Berg og Andreasen að vera óheimil, og þarf nú að undirstrika það sérstaklega: Hver er sanngirnin, hvert er vitið í því að segja við Gunnar Robert Hansen leikstjóra hér í Reykjavík, að hann megi ekki kalla sig Hansen, að segja honum að skipta um nafn, þegar hér eru tugir manna, ekki einn eða tveir, heldur tugir manna, sem bera nafnið Hansen með löglegum hætti? Sjá menn ekki rangsleitnina í þessu? Hv. 2. þm. Reykv. nefndi nöfn eins og Stieborsky og önnur, sem er alveg rétt að fara mjög illa í íslenzku máli, en hann þagði um hin nöfnin, sem fjöldi manns þegar ber, en engu að síður á að skylda til að segja skilið við. Sama gildir t.d. um Kjartan Frits Jacobsen, sem ég tel að fáránlegt sé að skylda til að skipta um nafn með hliðsjón af því, að fyrir eru fjölmargir ágætir íslenzkir ríkisborgarar, sem bera sama nafnið. Þó vil ég segja, að út yfir tekur þó alveg, þegar Christiene Briem á að gera að skyldu að skipta um nafn, þegar á að banna Christiene Briem, húsmóður í Reykjavik, ungri konu, að nefna sig þessu nafni og skylda hana til þess að taka upp eitthvert annað nafn. Briem-nafnið er nafn á einni af ágætustu fjölskyldum landsins, og allir þeir tugir, ef ekki hundruð manna, sem það nafn bera, bera það með miklum sóma, og svo á allt í einu það að gerast, að segja á við einn einstakling af þessari fjölskyldu: Þér megið ekki heita Briem, þér verðið að taka yður annað nafn.

Hér tel ég, að greinilega komi í ljós, út í hvílíkar feiknalegar ógöngur þessi stefna, sem meiri hl. Alþ. hefur markað á undanförnum árum, — að vísu lítill meiri hluti, — getur leitt. Ég skoðaði ekki nafnalistann fyrr en rétt áðan og hafði ekki veitt þessu athygli fyrr en nú fyrir fáeinum mínútum, en ég sé, að þó að ekkert væri nema þetta atriði, þá er þetta nægilegt til þess fyrir n., finnst mér, að taka málið aftur til alvarlegrar athugunar. Mér finnst satt að segja, að sú afgreiðsla mundi verða hinu háa Alþ. til hinnar mestu vansæmdar, ef það afgreiddi málið í því formi að segja við einn einstakling úr Briem-fjölskyldunni: Þér megið ekki bera ættarnafnið Briem.

Hv. 2. þm. Reykv. lagði á það mikla áherzlu áðan, að það væri ekki of hart að gengið gagnvart þessu fólki að skylda það til að skipta um nöfn, vegna þess að það væri að biðja um rétt af Alþ., sem það mæti mikils. Mér finnst þetta vera að setja of mikinn viðskiptabrag á veitingu ríkisborgararéttarins. Málinu er ekki svo háttað, að það sé eingöngu hagsmunamál þessa fólks að verða ríkisborgarar, það er engu síður hagsmunamál íslenzka þjóðfélagsins að fá nýta menn og konur til þess að gerast íslenzkir ríkisborgarar. Hér er um gagnkvæmt hagsmunamál að ræða, og mér finnst, að á það eigi ekki að leggja áherzlu í sambandi við slíka lagasetningu, að annar aðilinn sé veitandi og hinn aðilinn sé þiggjandi. Undir þeim kringumstæðum ætti ekki að veita ríkisborgararéttinn. Það á því aðeins að gera það, að málið sé sameiginlegt hagsmunamál beggja aðilanna, þeirra, sem um réttinn sækja, og Alþ., sem réttinn veitir.

Þess má og geta, — ég vil aðeins láta það koma fram hér, — að mér er kunnugt um það af fyrri afskiptum mínum af þessu máli, að það hefur verið mjög mikil óánægja með framkvæmd þessara ákvæða Alþ. hjá því fólki, sem fyrir barðinu á þessari lagasetningu hefur orðið, og ákaflega margir, sem hafa orðið að skipta um nöfn, hafa gert það með miklum sársauka, sem ég get vel skilið. Í ýmsum tilfellum hefur niðurstaðan enn fremur orðið sú, að menn hafi í rauninni, eftir að þeir höfðu orðið að hlíta þessum lagaákvæðum, nefnt sig tveim nöfnum, hinu gamla nafni, sem allir þekktu, og nýja nafninu, sem þeir voru skyldaðir til þess að taka upp. Í sumum tilfellum, sem mér er kunnugt um. hefur reynslan verið sú, að menn nota hið nýja nafn til þess að undirskrifa skjöl og skuldbindingar, það er í símaskránni, það er í skattskránni og þar fram eftir götunum, en eftir sem áður ganga menn undir gamla nafninu meðal vina og kunningja og í venjulegu, daglegu tali, þannig að til eru hér — sem afleiðing af þessum ákvæðum Alþ. — menn, sem raunverulega bera tvö nöfn, hið opinbera nafn og það, sem menn gætu kallað hið eiginlega nafn eða upprunalega nafn, og þetta er ástand, sem hvorki er til sóma né heldur til frambúðar.

Vegna þess að málið er í eðli sínu vandasamt, hefur verið reynt að finna lausn á málinu, og vandinn er, eins og ég sagði áðan, fólginn í þessu. Hv. 2. þm. Reykv. hefur alveg rétt fyrir sér í því, að það ber að gera ráðstafanir til þess, að erlend nöfn ílendist ekki í tungunni. Að hinu leytinu er vandinn fólginn í því, að það er ekki sanngjarnt eða eðlilegt að skylda fullorðið fólk til þess að skipta um nafn og segja þar með skilið við þau miklu persónulegu verðmæti, sem í nafni manns eru fólgin. Og hvernig er hægt að samræma þessi tvö sjónarmið? Það hefur verið reynt að gera í tillöguflutningi hér áður á hinu háa Alþ., þó að ekki hafi verið á þessu kjörtímabili.

Á næstsíðasta þingi fluttum við 5 þm. till. við hliðstætt frv. og þetta. Það voru ásamt mér þeir Helgi Jónasson, Jónas Rafnar, Gils Guðmundsson og Karl Guðjónsson, og till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem heita erlendum nöfnum, skulu þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með lögum þessum, fyrr en þeir hafa fengið íslenzkt fornafn. Sama skal gilda um barn, sem fær ríkisfang samkvæmt lögum þessum með foreldri sínu, en kenna skal það sig við föður, móður eða kjörföður samkvæmt lögum um mannanöfn. Þeir niðjar þessara nýju ríkisborgara, sem fæðast eftir gildistöku laga þessara, skulu á sama hátt kenna sig við föður, móður eða kjörföður.“

Hér er stungið upp á einfaldri miðlun í málinu. Engum manni er gert að skyldu að skipta um nafn. Hins vegar er tryggt, að erlend nöfn ílendist ekki í málinu, á þann hátt, að hinn nýi ríkisborgari tekur sér innlent fornafn; þau er ýmist hægt að íslenzka með mjög einföldum hætti eða finna íslenzkt fornafn, sem er náskylt eða líkt fornafni hins nýja ríkisborgara, en hann heldur sínu ættarnafni, sem í augum hans og fjölskyldu hans er aðalnafn hans, en síðan skal nafn barnanna fara eftir íslenzkum nafnalögum, þannig að börnin fá sitt fornafn og bera föðurnafn föður síns, sem er orðið íslenzkt eftir íslenzkum nafnareglum. Með þessu móti er tryggt, að hin erlendu nöfn lifa ekki í málinu, fá ekki neinn frambúðarrétt í málinu eða hér á landi. En hins vegar er engum manni gerður sá óréttur, sem ég tel vera að skylda hann til nafnbreytingarinnar.

Þessa hugmynd töldum við flm. geta sameinað þau sjónarmið, sem uppi voru, enda fór það svo, a.m.k. einu sinni, að hv. Ed. samþ. hliðstæða till. og hér var um að ræða, en hún féll í þessari hv. d. með mjög litlum atkvæðamun. Sannleikurinn er sá, að í hvert skipti, sem till. hefur verið flutt, hefur munað mjög litlu, að hún næði fram að ganga, m.ö.o., það hefur verið naumur meiri hl., sem hefur staðið að baki þeirri stefnu, sem Alþ. hefur fylgt í málinu.

Ég vil nú enn mega vænta þess, að hv. 2. þm. Reykv., sem mun hafa verið forgöngumaður þess árið 1952, — hann mun þá hafa verið menntmrh. og hafa haft forgöngu um, að þessi regla var upp tekin, — hugleiddi, hvort ekki væri eðlilegt að gera þessa málamiðlun í þessu vandamáli, og mér finnst þeim mun ríkari ástæða til þess að mega vænta slíkrar sáttfýsi af hans hálfu, þar sem mér fannst einmitt slík sáttfýsi koma fram á síðasta þingi, þegar rætt var um frv., sem þá lá fyrir um mannanöfn, en þá urðum við 5 þm. sammála um dálítið svipaða málamiðlun í dálítið svipuðum vanda, þar sem rætt var um íslenzku ættarnöfnin, bæði þau löglegu og hin ólöglegu. Þá fluttu Jörundur Brynjólfsson, Björn Ólafsson, Gylfi Þ. Gíslason, Gils Guðmundsson og Lúðvík Jósefsson brtt. við frv. þáverandi stjórnar til laga um mannanöfn, sem í fólst eins konar málamiðlun í dellu, sem var þá uppi hér í hv. Nd. varðandi það mál. Kjarni þessarar till. okkar fimmmenninganna í mjög fáum orðum sagt var sá, að kveðið var á um, að ættarnafn mætti enginn taka sér eftir samþykkt laganna í fyrsta lagi. Í öðru lagi var gert ráð fyrir því, að þeir íslenzkir ríkisborgarar, sem bera ólögleg ættarnöfn, skuli þegar leggja þau niður og kenna sig til föður síns samkvæmt fyrirmælum 7.–9. gr., m.ö.o. var gert ráð fyrir skyldu til nafnbreytingar hjá þeim Íslendingum, sem bera sannanlega ólögleg ættarnöfn. Verð ég að segja, að það er sú eina skylda til nafnbreytingar, sem ég get viðurkennt að sé réttmæt, að þegar menn hafa tekið sér ólöglegt ættarnafn, tekið sér nafn, sem er í beinni mótsögn við íslenzk lög, þá beri þeim skylda til þess að hverfa frá því. Í þriðja lagi var sagt í ákvæði til bráðabirgða: „Hver maður, sem við gildistöku laga þessara ber löglegt ættarnafn, má halda því alla ævi. Sama gildir um barn hans eða börn, sem eldri eru en 16 ára, og þeirra systkini. Eftir sömu reglu fer um kjörbörn hans“. Kjarninn í þessum brtt., þar sem deilt var um ættarnöfnin í fyrra, var málamiðlun, sem ekki var mjög ólíkt hugsuð og sú hugsun, sem felst í þeirri brtt., sem ég las áðan og við fimmmenningarnir fluttum fyrir tveim árum.

Mér hefur verið sagt frá því, að tilætlunin sé að fresta þessari umr. nú af einhverjum ástæðum. Ég fagna því, að svo skuli vera gert, og vil mjög mælast til þess við hv. allshn„ að hún taki einnig þetta nafnamál til athugunar í því litla hléi, sem hér gefst. Málið er vandasamt, og ég tel reynsluna hafa sýnt, að þeirri stefnu, sem Alþ. tók upp 1952, eigi ekki að framfylgja lengur í því formi, sem henni hefur verið framfylgt, heldur reyna að finna nýtt og betra form til þess að leysa þennan vanda, — form, sem sameini hvort tveggja, tryggi það, að erlend nöfn lifi ekki í tungunni, en jafnframt hitt, að engum fullorðnum manni verði gert að skyldu að skipta um nafn.