15.11.1956
Efri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

52. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. flytur hér till. um, að teknir séu nokkrir vegir inn í þjóðvegakerfið. Hann drap aðeins á vegakerfið á Vestfjörðum, og það er raunar rétt hjá honum, að það er full þörf á því að fullkomna það betur en það er nú og bæta við nýjum vegum. Þar munu fara saman þarfir Norður-Ísfirðinga, Barðstrendinga og reyndar allra héraðanna þar vestur.

Það er út af fyrir sig sjálfsagt gott að fá veg tekinn upp í þjóðvegatölu, ég efast ekkert um það. Ég hef þó séð dæmi þess, að það hefur orðið til tjóns. Og mér þætti það ekki ólíklegt, að einhverjir fleiri hefðu þá reynslu að segja. Það liggur nefnilega þannig í því, að um leið og vegarkafli er tekinn upp í þjóðvegatölu, leggur sýslusjóður viðkomandi héraðs ekki lengur peninga í þann veg, telur sér það ekki skylt, sem ekki er heldur von, og gerir það heldur ekki.

Í þessu sambandi vil ég aðeins nefna það, að einn allra mesti þröskuldurinn á þjóðvegi Vestur-Barðastrandarsýslu er svokölluð Þingmannaheiði. Þetta er mjög erfið heiði, ill yfirferðar, eins og Þorsteinn Erlingsson kvað um á sínum tíma, og lokast í fyrstu snjóum. Nú er kominn í vegalög nýr vegur meðfram sjó í þeim tilgangi, að í framtíðinni verði hægt að losna við þessa Þingmannaheiði.

Ég minnist þess, að fyrirrennari minn í þessu sæti hér á hv. Alþingi ræddi einu sinni við mig um þetta mál og þáverandi vegamálaráðherra, og þá vorum við allir sammála um það, að hann skyldi ekki leggja til að taka allan þann vegarkafla upp í þjóðvegatölu, sem á væntanlega að koma í staðinn fyrir Þingmannaheiði, því að ef það yrði gert, þá hætti sýslusjóður Barðastrandarsýslu að leggja fé í þennan veg, en hann var farinn til þess og hefur gert það enn. Hann er með annan endann á veginum, ríkið með hinn. Þannig nálgast það fyrr, að sambandið komist á.

Ég segi þetta sem dæmi um, að það er ekki alltaf öruggt, að það hraði vegi að taka hann upp í þjóðvegatölu. En hins vegar þýðir kannske ekki fyrir einn þm. að taka sig út úr með að fylgja slíkri reglu, og ég býst við, að það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði hér áðan, að full þörf væri á endurskoðun á vegalögunum í heild, sé rétt.

Ég hef heyrt þeirri skoðun haldið fram, að þjóðvegir ættu aðeins að vera höfuðvegirnir um landið, en allir aðrir, sem liggja út frá þessum höfuðvegum, eigi að vera á vegum viðkomandi héraða, hvort sem það eru sýslusjóðir eða hreppar, sem kosta þá. Það getur vel verið, að þetta sé rétt stefna í heild. En það vitum við, að sýslusjóðirnir hafa enga möguleika til þess að taka á sig miklar vegagerðir af ríkinu, og yrði þess vegna að koma til kasta ríkisins, þrátt fyrir það þó að önnur skipun yrði á þessu gerð. Það er meira að segja orðið svo, að það er nærri því útilokað fyrir einstaka bændur að leggja veg heim að bænum hjá sér. Séu það tveir, þrír km, þá er þetta orðið útilokað. Þetta er orðið það dýrt. Þar verða aðrir líka að koma til.

Ég býst fastlega við því, að ég komist ekki hjá því að flytja brtt. við þetta frv. síðar undir umræðunum. En þrátt fyrir það tel ég það fyllilega nauðsynlegt fyrir samgmn. þessarar hv. d. og samvinnunefnd í samgöngumálum hér á hæstv. Alþingi að taka þetta til greina, hvort ekki á að koma á nýrri skipan í heild. En þá verður auðvitað að sjá rækilega fyrir möguleikunum til þess að leggja þessa vegi á ekki skemmri tíma en áður og gæta þess þá að binda ekki sýslusjóðum eða héruðum þyngri bagga en þeir bera nú. Og það hygg ég að sé ljóst fyrir hv. 1. þm. Eyf. í því, sem hann sagði áðan, að það má auðvitað gera þetta á þann hátt til dæmis, að ríkissjóður taki við öllum vegum, en héruðin leggi síðan til þeirra þarfa eitthvað í samræmi við það, sem þau gera núna. Aðalatriði í allri vegagerð er það, að vegirnir séu lagðir, að til sé fé til að leggja vegina fyrir, en ekki hitt, hvort þessi vegarkafli kemst inn á einhver pappírslög eða ekki.