19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að minnast nokkuð á þann þátt í þessu máli, sem snertir mest mín störf, þ. e. a. s. þátt ríkisbúskaparins, en vegna þess að hv. þm. G-K. hefur talað hér á undan mér, vil ég byrja á því að víkja nokkuð að hans ræðu.

Hv. þm. G-K. kvartaði undan því, hvernig farið hefði verið með þetta mál, það hefði ekki verið ráðgazt um þetta nægilega við þm. stjórnarandstöðunnar. Ég fullyrði, að það hefur verið farið með þetta mál að þessu leyti alveg hliðstætt því, sem tíðkazt hefur áður í ríkisstj. og á hv. Alþingi og eins og tíðkaðist, þegar hv. þm. G-K. hafði stjórnarforustu. Það er ekki venja og hefur ekki verið venja að bera efni frv. eins og þess, sem hér er til meðferðar, undir stjórnarandstæðinga, fyrr en alveg er að því komið, að málið verði lagt fyrir Alþingi. Þá hefur verið venja að afhenda þeim frv., til þess að þeir gætu kynnt sér það fyrir 1. umr. málsins, en að öðru leyti hefur ekki verið við þá ráðgazt. Hv. þm. hefur því ekki yfir neinu að kvarta í þessu efni fyrir flokk sinn.

Hv. þm. G-K. spurði: Á hvaða vörur koma gjöldin þyngst, sem gert er ráð fyrir í frv.? Þessu mun ég ekki svara í einstökum atriðum, en minna á, að gjöldin koma þyngst á annað en allra brýnustu nauðsynjar, en að sjálfsögðu munu verða listar, bæði tollskráin sjálf og listar yfir einstakar vörur, sem gjöldum er sérstaklega breytt á, til afnota fyrir hv. fjhn., og rétti vettvangurinn til að ræða þetta atriði er við 2. umr. málsins.

Þá spurði hv. þm., hvaða áhrif þetta frv. mundi hafa á vísitöluna. Þessu er ekki hægt að svara með neinni vissu, og mun ég því ekki nefna neinar tölur í því sambandi. Ástæðan er sú, að það er ekki hægt að segja fyrir fram með neinni vissu a. m. k., hversu mikið milliliðirnir geta tekið á sig af þeim hækkunum, sem gjöldin hafa í för með sér, en í frv. eru ákvæði, sem segja, að enga vöru og enga þjónustu, hvorki erlenda vöru né innlenda iðnaðarvöru né nokkra þjónustu megi hækka í verði nema með leyfi innflutningsnefndarinnar, þ. e. a. s. verðlagseftirlitsins, og þetta þýðir, að það verður gaumgæfilega athugað í hverju falli, hversu mikið milliliðirnir geti tekið á sig, áður en verðhækkun verður hleypt í gegn. Þess vegna er að sjálfsögðu ekki hægt að segja í dag, hver áhrif þessar ráðstafanir hafa á verðlagið, útsöluverðið eða vísitöluna, en það er þegar vitanlegt af rannsóknum, sem farið hafa fram um þetta atriði, að það er hægt að lækka heildsöluálagninguna mjög verulega og verður gert.

Þá er það sýnilegt, að mann greinir nokkuð á, og það kom fram í ræðu hv. þm. G-K., hvort hér sé hjakkað í sama farinu eða eitthvað nýtt sé á ferðinni, og vildi hv. þm. G-K. mjög leiða athygli manna að því eða halda því fram, að hér væri hjakkað í sama farinu.

Við höfum á undanförnum árum átt mikinn þátt í því, bæði ég og hann, að gera ýmsar ráðstafanir fyrir framleiðsluna og til þess að ráða bót á þeim vandkvæðum, sem verið hafa í efnahagsmálum landsins. En sannleikurinn er sá, að þær ráðstafanir, sem við höfum staðið fyrir á undanförnum árum, hafa ætíð leitt til þess, að ný velta hefur orðið á verðbólguhjólinu, og að við höfum aldrei náð tökum á þeim málum nú um alllangan tíma. Að vísu náðust nokkur tök á þessum málum í tvö ár, en síðan stóð það ekki lengur.

Ég hef aldrei farið dult með, að ég tel höfuðástæðuna fyrir því, hversu illa hefur til tekizt, vera þá, að ekki hefur náðst samvinna við alþýðusamtökin í landinu um stefnuna í þessum málum. Og ég hef notað svo að segja hvert tækifæri á undanförnum árum til þess að leggja áherzlu á einmitt þetta og benda á, að eins og þjóðarbúskapnum er háttað, þá er í raun og veru varla við því að búast, að hægt sé til lengdar að halda jafnvægi eða stöðugu verðlagi, nema bæði stjórnarvöldin og alþýðusamtökin stefni að því eða miði ráðstafanir sínar við það markmið, annaðhvort vegna þess, að pólitísk samvinna sé þar á milli, eða þá vegna þess, að báðir aðilar eða hvor um sig stefni að því af áhuga, án þess að beint samstarf sé þar á milli. En þessu hefur ekki verið til að dreifa undanfarið. Það hefur ríkt mikil tortryggni og engin samvinna náðst, með þeim afleiðingum, sem við þekkjum og óþarfi er að lýsa hér í löngu máli.

Þegar Framsfl. ákvað í fyrravetur að slíta stjórnarsamvinnunni við Sjálfstfl., var það fyrst og fremst byggt á þessari skoðun og á þeirri reynslu, sem við höfðum fengið um það, að Framsfl. og Sjálfstfl. saman réðu ekki við þessi mál, náðu ekki þeim tökum á þeim, sem við þurfti, náðu ekki þeirri samvinnu við alþýðusamtökin í landinu, sem þurfti, til þess að árangurs væri að vænta til frambúðar.

Hv. þm. G-K. var að lesa hér upp ýmislegt, sem sagt hefur verið um þessi mál áður, og minnast á kosningarnar s. l. vor í því sambandi, ræða síðan um þá leið, sem stungið væri upp á í þessu frv. Hv. þm. G-K. hefði átt að segja frá því, að í kosningastefnuskrá Alþfl. og Framsfl. var því lýst yfir sem fyrsta og þýðingarmesta atriðinu að velja þær færar leiðir til lausnar efnahags- og framleiðslumálunum, sem hægt væri að fá samvinnu við alþýðusamtökin í landinn um, byggt á þeirri skoðun, að hver sú fær leið, sem hægt væri að fá samvinnu við þau um, væri í sjálfu sér bezta leiðin.

Þessu lýstum við skýrt og skorinort yfir í kosningabaráttunni, samkv. þessu höfum við starfað eftir kosningarnar, og sú leið, sem gert er ráð fyrir að fara samkv. þessu frv., er farin vegna þess, að það var hægt að fá samkomulag um hana við samtök hinna vinnandi stétta í landinu. Það er hinn mesti misskilningur að halda, að hér sé hjakkað í sama farinu, heldur er því þvert á móti þannig varið, að einmitt þetta, að um þessar ráðstafanir hefur náðst samkomulag við þessi sterku samtök, gefur fyllstu vonir um, að þessar ráðstafanir geti orðið meira til frambúðar en áður hefur verið hægt að gera sér vonir um. Og þetta er höfuðatriði málsins.

Það er ekki nema eðlilegt, að það komi fram hjá ýmsum, að þeim þyki háar tölur þær, sem gert er ráð fyrir í frv., og mikið fé, sem þurfi að afla til framleiðslunnar og til ríkisins. Og menn heyra stundum þá spurningu, hvort nauðsynlegt sé að styðja útflutningsframleiðsluna eins og gert er ráð fyrir, hvort það þurfi raunverulega svona mikið. Mönnum er hollt að hafa í huga þá staðreynd, sem ámögulegt er að komast fram hjá, að það er óhugsandi að láta endana mætast hjá útflutningsframleiðslunni með því verðlagi, sem hún nú býr við. Í raun og veru er verið með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að gera ráðstafanir til þess, að þjóðin skili því aftur til baka til framleiðslunnar. sem meira er af henni tekið nú en hún getur staðið undir.

Hv. þm. G-K. sagði hér áðan, að með þessu frv. væri þjóðinni búinn gálgi. Þetta eru eftirtektarverð orð frá hv. formanni stjórnarandstæðinga. Eftir hans skilningi er það að búa þjóðinni gálga að afla tekna til þess að greiða svo fyrir framleiðslustarfseminni í landinu, að hún geti haldið áfram. Það var ekki hægt að heyra annað en hv. þm. G-K. talaði hér af miklum móði gegn því, að það þyrfti nýja tekjuöflun f þessu skyni. Og gálginn, sem þjóðinni var búinn, var þessi tekjuöflun vegna framleiðslunnar, eða a. m. k. var ómögulegt að skilja öðruvísi það, sem hv. þm. sagði. (Gripið fram í: Það var nú hægt að skilja það öðruvísi.) Nei, það var ekki hægt að skilja það öðruvísi, Frumvarpið væri gálgi, sem þjóðinni væri búinn. Og um hvað fjallar frv.? Það fjallar um að afla tekna til þess að styðja framleiðsluna og mæta auknum framleiðslukostnaði hjá henni, til þess að húm geti haldið áfram af öllu afli, og svo um að afla fjár, til þess að fjárlögin geti orðið afgreidd greiðsluhallalaus. En sannleikurinn er sá, að menn þurfa ekki að sjá eftir því fé, sem aflað er til þess, að framleiðslan sé rekin með fjöri, því að undir því eigum við öll okkar afkomu.

Ég skal þá víkja fáeinum orðum að þeim þætti þessa máls, sem snýr að ríkisbúskapnum, því að ég kvaddi mér raunar fyrst og fremst hljóðs til þess að ræða ofur lítið þann þáttinn við 1. umr.

Það er gert ráð fyrir því, eins og kemur fram í grg. frv., að til ríkissjóðs renni um 20% af tekjum skv. frv. Þetta mun nema eitthvað rúml. 100 millj. kr., og ástæður til þess, að ráð er gert fyrir þessu, eru þær, sem ég nú skal greina.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að afnema söluskattinn í smásölu, og það nemur 25 millj. kr. Þessi skattur er örðugur í innheimtu. Það er mjög örðugt að ganga úr skugga um, að öll kurl komi þar til grafar, og ég hef fyrir mitt leyti haft í huga nokkuð lengi að fá honum breytt, þannig að hann væri í rann og veru færður yfir í heildsöluna og yfir á iðnaðarframleiðsluna innanlands í stað þess að innheimta hann að nokkru leyti í smásölunni. Ég hygg, að þessi breyting verði mjög til bóta frú því, sem áður hefur verið.

Þá er gert ráð fyrir því að halda áfram að greiða niður innlendar afurðir, eins og ákvarðað var s. l. haust, og vantar 25 millj. kr. til þess, að hægt sé að borga þær niður, eins og nú er gert.

Þá eru eftir um 50 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að verði til ráðstöfunar í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.

Við höfum athugað gaumgæfilega tekjuáætlun fjárlaganna einmitt í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, og undirbúning þess, og við höfum komizt að þeirri niðurstöðu við nákvæma athugun, að það veiti síður en svo af því að afla þessa fjár, ef hægt á að vera að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus og leggja fram fé til hinna mest aðkallandi nauðsynjamála, sem ríkisstj. og þingmeirihlutinn hefur á prjónunum. Ég skal nefna í því sambandi atvinnuaukningarféð. Það er aðeins 5 millj., sem gert er ráð fyrir í atvinnuaukningarfé á fjárlagafrv. Það er óhugsandi, að hægt verði að komast af með það fé, og gerir stjórnin ráð fyrir því að gera að tillögu sinni við afgreiðslu fjárlaganna að hækka það allverulega. Ég nefni raforkuframkvæmdirnar fyrir dreifbýlið. Það mun þurfa um 107 millj. kr. á næsta ári a. m. k. í þær framkvæmdir, sem þegar eru ákveðnar, og það hefur ekki verið tryggt fé nema fyrir tæplega helmingnum af þeirri fjárhæð enn þá. Og þó að við vinnum að því að útvega lánsfé í þessar framkvæmdir, þá er óhugsandi annað en að ríkið verði að auka eitthvað talsvert framlög sín á fjárlögum til þessara merku framkvæmda. Ég vil nefna ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gefið yfirlýsingu um að hún muni beita sér fyrir til þess að auka verulega stuðning við ræktun á þeim jörðum, þar sem ekki hefur verið náð tiltekinni túnstærð, og enn fremur ráðstafanir til þess að auka stuðning við nýbýlamenn frá því, sem verið hefur. Þá vil ég enn fremur í þessu sambandi nefna mál eins og íbúðamálið. Og loks vil ég einnig benda mönnum á, að það verður alveg óhjákvæmilegt að hækka nokkuð framlög til verklegra framkvæmda frá því, sem er á frv., svo sem vega, brúa, hafna og annarra slíkra framkvæmda, þar sem fjárhæðirnar á fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir núna, eru nokkru lægri en þær voru á gildandi fjárlögum. En það verður óhugsandi að komast af með minna en jafnháa fjárhæð til þessara framkvæmda og er á gildandi fjárlögum. Þarf þó áreiðanlega frekar að auka við í ýmsum greinum, eins og t. d. í hafnarmálunum, svo að ég nefni aðeins dæmi, þar sem gera verður ráðstafanir á ýmsum stöðum á landinu í hafnarmálum til þess að mynda undirstöðu að vaxandi útgerð stærri skipa í ýmsum sjávarplássum landsins.

Þetta eru aðeins nokkur atriði, sem ég hef nefnt, sem sýna glöggt, að það er mjög brýn nauðsyn að afla nokkurra viðbótartekna, og enn fremur verður það að vera einn hornsteinn stjórnarstefnunnar, þar sem hún ætlar sér að vinna að því að koma á stöðugu verðlagi og jafnvægi í þjóðarbúskapnum, að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.

Þá vil ég einnig minna á það, sem hér hefur verið frá sagt, að eftir áramótin verður lagt fram frv. um breytingar á tekjuskattslögunum, sem fjallar um að lækka um þriðjung tekjuskattinn á þeim hjónum, sem hafa 45 þús. kr. nettótekjur eða minna, og þeim einhleypum, sem hafa 35 þús. kr. nettótekjur eða minna. Enn fremur verða í því sama frv. ný ákvæði um frádráttarheimild við skattframtöl til handa fiskimönnum, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir fái að draga frá meira en verið hefur til þess að mæta sérstökum kostnaði sínum við að afla teknanna og einnig nokkra fúlgu beinlínis með tilliti til þess, hversu mikið þeir eru fjarstaddir heimilum sínum og geta minna unnið fyrir sjálfa sig en aðrir landsmenn.

Loks verður lagt hér fram á þessu þingi frv. um stóreignaskatt, eins og yfirlýsing hefur verið gerð um.

Þetta eru þá þeir þættir í málinu, sem snerta sjálfan ríkisbúskapinn og ég taldi mér skylt að gera sérstaklega grein fyrir með nokkrum orðum.

En að lokum vil ég svo aðeins segja þetta: Það standa vonir til þess, að því er mér finnst, að þessi lausn, sem nú fæst á efnahagsmálunum, geti markað tímamót í þeim efnum, einmitt vegna þess, að hún er fengin með svo víðtæku samkomulagi sem hér hefur verið lýst, sem er alger nýjung í stjórnmálasögu okkar, gleðileg nýjung, sem getur boðað betri tíma, ef vel tekst.

Hv. þm. G-K. vildi draga það í efa, að samkomulagið væri svo gott sem við vildum vera láta, og sagði eitthvað á þessa leið: Er það ekki sannara, að hér sé magnaður ágreiningur og að ekki sé samkomulag um neitt?

Svo mæla börn sem vilja, datt mér í hug þegar ég heyrði hv. þm. segja þetta. En sannleikurinn er sá, að mér finnst það hefði verið miklu myndarlegra fyrir hv. stjórnarandstöðu að fagna því, að svo víðtækt samkomulag hefur náðst um efnahagsmálin, því að það hlýtur að verða þjóðinni til góðs, að þetta hefur tekizt. En hitt finnst mér bera vott um minni manndóm, að hryggjast yfir því, að svo hefur til tekizt.