19.12.1956
Efri deild: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. séu sammála hv. 1. þm. Eyf. (BSt) um það, að æskilegt sé, að fjárlög séu afgreidd fyrir áramót, eins og til er ætlazt, að fjárhagsáætlun ríkissjóðs hafi verið gerð fyrir fram fyrir það ár, sem hún á að gilda á. Við vitum hins vegar ástæðurnar fyrir því, að frá þessari meginreglu stjórnarskrár hefur orðið að víkja á undanförnum árum. Atvinnuvegir landsmanna og þá fyrst og fremst útflutningsframleiðslan hefur um mörg undanfarin ár verið komin í þrot um áramót, og allt hefur verið komið í harðan hnút, ef svo mætti að orði komast, og margvísleg vandkvæði á því að sætta þau sjónarmið, sem leiða hefur þurft saman, þannig að heildarsamkomulag tækist um ráðstafanir til þess að tryggja rekstur atvinnutækjanna. Þannig hefur þetta verið á undanförnum árum, og þannig er þetta nú.

Ég vakti athygli á því hér í dag, að á s. l. ári, þegar sjálfsagt var talið og eðlilegt að tengja saman afgreiðslu fjárlaga og undirbúning ráðstafana í dýrtíðarmálunum, hefði flokkur hæstv. fjmrh., þáverandi og núverandi, beint hörðum ádeilum að Sjálfstfl. og talið hann sýna ábyrgðarleysi og þvermóðsku með því að telja nauðsynlegt, að afgreiðslu fjárlaga yrði frestað fram yfir áramót. Ég fæ ekki séð, að þetta byggist á neinum misskilningi, þegar ég held því fram, að það sé ósamræmi í málflutningi hv. framsóknarmanna nú frá því, sem var í fyrra, þegar þeir telja það nú sjálfsagt og eðlilegt, að slík frestun sé um hönd höfð.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði hér áðan, að allt öðru máli gegndi nú vegna þess, að óframkvæmanlegt væri að afgreiða fjárlög fyrir áramót, kominn væri 19. des. og það væri ekki hægt tímans vegna. Vitanlega er ekki hægt að afgreiða fjárlög, úr því sem komið er. Þó að hæstv. ríkisstj. og fjvn. tæki sig til í dag og tækju að vinna af kappi að afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót, þá væri það naumast „tekniskt“ séð framkvæmanlegt. En vegna hvers? Vegna þess að starf fjvn. hefur í allt haust verið miðað við það, að fjárlög yrðu ekki afgreidd fyrir áramót. Í fyrra var starf fjvn. miðað við það meiri hluta haustsins, að fjárlög yrðu afgreidd fyrir áramót og að ráðstafanir, sem gera þyrfti til stuðnings framleiðslunni, yrðu einnig afgreiddar fyrir áramót. Það kom hins vegar í ljós á síðustu dögunum fyrir jól, að ekki var hægt að ná samkomulagi milli þeirra aðila, sem samkomulag þurfti að fá við, um nauðsynlegar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum og til stuðnings framleiðslunni. Þess vegna varð að fresta afgreiðslu fjárlaga þá. Það má raunar segja, að núna sé að vissu leyti hægra um vik að afgreiða fjárlög fyrir jól og fyrir áramót, vegna þess að nú virðist þó í aðalatriðum hafa tekizt nauðsynlegt samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og framleiðenda og ýmissa fleiri starfsstétta um nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur útgerðarinnar, vélbátaflotans og togaranna. Að því leyti til ætti að vera auðveldara að afgreiða fjárlög nú fyrir jól. Hins vegar er það alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, að það er ýmislegt í sambandi við þessar ráðstafanir, sem er í svo nánum tengslum við fjárlögin, að ómögulegt hefur reynzt að afgreiða fjárlög nú, eins og þó hlýtur jafnan að vera stefnt að, að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Og ég segi fyrir mig, að ég fellst að verulegu leyti á þau rök, sem hann flutti fram í þeim efnum, þó að ég fái ekki séð, að það sé neitt ósamræmi í mínum málflutningi eða að hann byggist að neinu leyti á misskilningi, þegar ég bendi á, hversu allt aðra afstöðu flokkur hv. 1. þm. Eyf. hefur nú til afgreiðslu fjárlaga en hann hafði í fyrra. Ég veit raunar, að hann er það sanngjarn maður, að hann skilur það, að í fyrra var ekki um neitt annað að ræða en pólitískt hrekkjabragð af hálfu annars stjórnarflokksins, Framsfl., hann taldi, að það væri óvinsælt hjá þjóðinni að fresta afgreiðslu fjárlaga fram yfir áramót, og það er það kannske líka í dag. Og þá var um að gera að skella bara skuldinni á Sjálfstfl. Ég skal ekki fara að ræða hér almennt um stjórnmál, en ég álít, að þetta hafi ekki verið drengileg vinnubrögð af hálfu okkar ágætu samstarfsmanna á s. l. ári.

Að lokum vil ég svo aðeins minna á, að það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Eyf. og hjá fleiri mönnum, sem fram hefur komið í sambandi við það frv., sem nú er nýframkomið um ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, að það sé fyrst nú, sem hafi verið leitað til hinna ýmsu atvinnustétta um samráð í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarráðstafana. Ég veit, að hann er búinn að vera það lengi hér á hv. Alþingi, að hann veit, að þetta er ekki rétt. Það hefur á undanförnum árum þráfaldlega — og ég verð að segja þann stutta tíma, sem ég hef átt sæti hér á hv. Alþingi, s. l. 14 ár, þá hygg ég, að það hafi jafnan verið háttur ríkisstjórna að leita til ýmissa hagsmunasamtaka, þegar sett hefur verið löggjöf, sem mjög hefur snert hagsmuni þeirra, og ekki sízt almennar dýrtíðarráðstafanir og ráðstafanir til þess að tryggja rekstur framleiðslunnar. Ég minnist t. d. 1950, þegar gengisbreytingarlögin voru sett, sem í fólust víðtækar ráðstafanir til sköpunar jafnvægis í efnahagsmálum þjóðarinnar, að þá átti þáverandi ríkisstj., bæði minnihlutastjórn Sjálfstfl, og hin nýja samsteypustjórn Sjálfstfl. og Framsfl. undir forsæti Steingríms Steinþórssonar, miklar og langar viðræður við Alþýðusamband Íslands og stjórn þess, og það voru meira að segja tekin út úr frv. þýðingarmikil ákvæði fyrir beiðni verkalýðssamtakanna. Ég man t. d. sérstaklega eftir einu ákvæði, sem var eitt af þýðingarmestu ákvæðum þess frv., að því er þeir menn töldu, sem það höfðu undirbúið, ákvæðið um það, að gengisskráningin skyldi vera í höndum bankanna, en ekki Alþingis. Það var tekið út úr þeirri löggjöf fyrir beina ósk verkalýðssamtakanna. Og ýmsar fleiri breytingar voru gerðar á þeirri löggjöf og ýmis ný ákvæði tekin inn í hana eftir langvarandi viðræður og samninga milli ríkisvaldsins og verkalýðssamtakanna.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar. En af því að hv. 1. þm. Eyf. minntist á þetta, þessi samráð við verkalýðssamtökin, vil ég sem sagt endurtaka, að það er ekki nýtt. Það hefur oft verið gert áður, og það væri undantekning frá reglunni, ef það hefði ekki verið gert nú. Hins vegar verð ég að segja það, að það er ákaflega hæpin virðing við Alþingi og má ákaflega mikið draga það í efa, að það sýni réttan skilning á hlutverki og aðstöðu Alþingis í þjóðfélaginu, ef það á að bíða viku eftir viku, kannske mánuð eftir mánuð eftir því, að verið sé að ræða ráðstafanir við alls konar hagsmunasamtök úti í þjóðfélaginu, en svo sé slíkum geysiþýðingarmiklum ráðstöfunum slengt inn í Alþingi og til þess ætlazt, að það sporðrenni þeim á tveimur eða þremur dögum. Mér sýnist það einmitt vera að gerast hér nú, að það er búið að ræða þær ráðstafanir, sem felast í þessu svokallaða bjargráðafrv. hæstv. ríkisstj., vikum og jafnvel mánuðum saman í alls konar hagsmunasamtökum úti í þjóðfélaginu. Ég er ekkert að fara neinum óvirðingarorðum um þau, nema síður sé, þau eiga fullan rétt á sér. En þegar þetta mál er svo lagt fyrir Alþingi, þá hefur það, að mér skilst, 3 daga til þess að ræða það og afgreiða það sem lög. Mér er næst að halda, að með þessu sé verið að fara aftan að hlutunum. Ég vil ekki vanmeta það, að haft sé samráð við stéttasamtök af hálfu löggjafans. Það getur verið nauðsynlegt og gagnlegt til þess að tryggja framkvæmd löggjafar. En ég tel óvirðingu við Alþingi að ætlast til þess, að það fjalli í örfáa daga um mál, sem er jafnþýðingarmikið og viðurhlutamikið og það mál, sem hér er um að ræða, og öllum öðrum en löggjafanum sjálfum ætlaður miklu lengri og betri tími til þess að fjalla um það, auk þess sem ég fæ ekki betur séð en að það sé ákaflega litið tillit tekið til stjórnarandstöðunnar á Alþingi.

Þetta er annað mál, sem ég skal ekki fara að fjölyrða um hér, en hv. 1. þm. Eyf. gaf mér tilefni til þess að minnast lauslega á í þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan.