25.10.1956
Neðri deild: 5. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

7. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég var satt að segja að búast við því, að það mundu einhverjir aðrir kveðja sér hér hljóðs í þessu máli, þegar minnzt er fyrri umræðna um þetta mál hér á Alþingi. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi hér. Það hefur komið árlega um nokkurra ára skeið, verið lagt fram frv. um framlengingu á þeim ákvæðum, sem hér um ræðir, og hafa þá jafnan heyrzt hér í þinginu mjög háværar ræður um það, hvílíkt óhæfuverk væri hér verið að fremja, þar sem væri hinn margumtalaði og illræmdi söluskattur, sem sérstaklega væri til þess að þjaka almenning í landinu, hækka vöruverð, auka dýrtíð og annað þess konar. Það virðist einhver veðrabreyting hafa orðið á þessu sviði, og skal ég út af fyrir sig ekkert vera að fordæma það, en gat þó ekki stillt mig um, þar sem horfur virtust á, að frv. ætlaði að fara hér umræðulaust í gegn, að vekja athygli á þeirri miklu breytingu, sem hér er á orðin, að nú virðist söluskatturinn ekki vera svo ýkjaslæmur skattur. Það er kannske í bili forsvarað með því, að það standi til mjög miklar og róttækar aðgerðir í okkar efnahagsmálum, sem eigi kannske að verða það róttækar og stórkostlegar, að það þurfi ekki lengur á sköttum að halda, og er ekkert nema gott um það að segja. En ég er ákaflega hræddur um það, að jafnvel þótt þær ráðstafanir verði gerðar, muni reynast erfitt að fella niður söluskattinn, og ég efast a. m. k. um það, að hæstv. fjmrh. mundi vilja taka við fjárlagafrv. fremur nú en endranær, þar sem þessi tekjustofn væri niður felldur.

Eins og ég áðan sagði, gat ég ekki stillt mig um að benda á það, sem hér er um að ræða, og e. t. v. hafa þessir ágætu þm., sem hér hafa á undanförnum þingum talað mest gegn þessum skatti, ekki áttað sig á því, hvað hér væri um að ræða, að þetta væri söluskatturinn, og vil ég þá nota tækifærið til þess að vekja athygli þeirra á því, að það er raunverulega um það að ræða. Og ég held jafnvel ekki, að formi frv. hafi heldur verið breytt, sem þeir hafa talið hina mestu ósvinnu, hvernig frá því hafi verið gengið á undanförnum árum.