19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Um hver áramót nokkur undanfarin ár hefur það verið vandamál ríkisstj. og Alþ., hvernig tryggja ætti rekstur útflutningsatvinnuveganna á komandi ári. Eins og öllum er kunnugt, hafa þær ráðstafanir, sem þannig hefur borið að, tekizt mjög misjafnlega, og er þar skemmst að minnast, hvernig til tókst um síðustu áramót í þessum efnum, en þá tókst svo til, að mikill hluti fiskveiðiflotans lá óstarfræktur nær allan janúarmánuð. Sú framleiðslustöðvun orsakaðist af því, að ekki hafði orðið samkomulag í ríkisstj. á þeim tíma við frameiðendur um það, hvernig skipa skyldi málum framleiðslunnar á þessu ári.

Þessi reynsla frá upphafi ársins 1956 var mjög á sömu lund og hafði verið nokkur undanfarin ár. Þá höfðu verið allharðar deilur á milli ýmissa aðila um það, hvernig koma ætti fyrir þessum málum, Ýmist var það svo, að það voru sjómenn á fiskiskipaflotanum, sem gerðu vinnustöðvun, vegna þess að þeir undu ekki sínum hag, vinnufólk í landi gerði vinnustöðvun, af því að það vildi ekki una þeim ráðstöfunum, sem ákveðnar höfðu verið, eða þá að eigendur framleiðslutækjanna neituðu beinlínis að reka þau, vegna þess að ekki hafði tekizt samkomulag við ríkisstj.

Það var öllum ljóst, að þær ráðstafanir, sem að lokum tókst þó samkomulag um í lok janúarmánaðar s. l., voru þess eðlis, að þær gátu ekki tryggt, að framleiðslan gengi með eðlilegum hætti út allt árið, enda fór svo, að á miðju ári var þannig komið, að fyrrv. ríkisstj. varð að grípa til þess til að tryggja, að síldveiðarnar yfir sumarmánuðina færu fram með eðlilegum hætti, að hún varð að lýsa yfir allverulega auknum framleiðsluuppbótum til þeirra, sem síldveiðarnar stunduðu, og þetta varð að gerast, án þess að nokkurra nýrra tekna væri aflað til þess að standa undir þessum nýju útgjöldum.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við, var svo komið hjá ýmsum greinum atvinnulífsins, einkum sjávarútvegsins, að þar lá við fullkominni stöðvun. Þannig var þetta með togaraflotann. Það varð því, þegar komið var fram á haustið, að grípa til sérstakra viðbótarráðstafana til þess að reyna að halda togurunum úti. Einnig var svo ástatt, að ekki hafði verið samið um neinn stuðning við bátaflotann, til þess að hann gæti stundað síldveiðarnar hér við Suðvesturland að haustinu til. Núverandi ríkisstj. varð því að taka við þessum vanda strax á sínum fyrstu dögum og semja um ákveðnar bætur til handa framleiðendum í þessum efnum, og skipti þetta vitanlega allt saman talsvert verulegum fjárhæðum. Þannig var sem sagt ástandið í þessum efnum og sá vandi, sem við blasti. Þegar leið að áramótum og þurfti að gera nýjar ráðstafanir fyrir hið komandi ár, þá þurfti einnig að mæta verulega háum útgjöldum, sem voru beinar skuldahrúgur frá því ástandi, sem hafði skapazt á framleiðsluárinu 1956.

Bein afleiðing þeirra ráðstafana, sem samþ. voru í upphafi ársins, voru svo þær, að allt verðlag í landinu hafði hækkað verulega, vegna þess að tekna vegna hinna nýju ráðstafana var aflað á þann hátt, að lagðir voru á nýir tollar og skattar, sem gengu mjög jafnt yfir allan innflutning. En hinar almennu verðhækkanir leiddu svo vitanlega af sér hækkun á verðlagsvísitölunni og kaupgjaldsvísitölunni, og kaup fór verulega hækkandi á árinu.

Allt þetta þýddi það í raun og veru, að þær ráðstafanir, sem nú þurfti að gera um þessi áramót, hlutu að vera miklum mun kostnaðarsamari en þær höfðu verið nokkru sinni áður. Nú lá það sem sagt fyrir, að það þurfti að veita togaraflotanum miklu meiri stuðning en áður hafði verið gert. Nú lá það einnig fyrir, að það varð að veita bátaflotanum meiri stuðning en áður. Og allar líkur bentu að sjálfsögðu til, að það þyrfti einnig að veita öllum fiskvinnslustöðvum allverulega aukna aðstoð, þar sem útgjöld þeirra höfðu stórlega vaxið á árinu með hækkandi verðlagi og hækkandi kaupi.

Við þetta allt saman bættist svo það, að nú, þegar leið að áramótum, varð stórkostleg verðhækkun vegna utanaðkomandi áhrifa á einni af aðalrekstrarvörum útgerðarinnar, sem sagt brennsluolíum.

Þær ráðstafanir, sem felast í því frv., sem hér hefur verið lagt fram, og eiga að tryggja rekstur útflutningsframleiðslunnar á næsta ári, eru fyrst og fremst þýðingarmeiri og gagnlegri fyrir framleiðsluna, þar sem það liggur fyrir, að þær eru byggðar í meginatriðum á samkomulagi við alla þá aðalaðila, sem hér eiga hlut að máli. Nú hefur tekizt að ná samkomulagi um rekstrargrundvöll við bátaeigendur og ekki aðeins við þá eina, heldur einnig við sjómennina, sem eiga að vinna á bátaflotanum. Nú hefur einnig tekizt að ná samkomulagi við togaraeigendur og einnig við sjómennina, sem vinna á togurunum. Þá hefur tekizt samkomulag við aðaleigendur fiskvinnslustöðva um það fiskverð, sem þær eiga að greiða veiðiflotanum á þessu ári, og einnig hefur svo það verið tryggt, að launþegar í landi og bændur sætta sig við þær ráðstafanir, sem hér er byggt á.

Í þessum efnum er hér um grundvallarmun að ræða frá því, sem áður hefur verið. Ég vil í þessu efni minna á það, að þegar gengið var frá þessum málum í upphafi ársins, þá var t. d. þannig á málunum haldið, að þó að stuðningurinn við togaraútgerðina þá liti út á pappírnum sem allverulegur, varð hann að engu strax sömu dagana og var verið að veita hann samkv. lögum frá Alþ. Öll hin aukna aðstoð, sem þá var samþ., hvarf úr höndum togaraútgerðarmanna í stórhækkað verð á olíu, sem þá var heimilað um sama leyti, og í beina fiskverðslækkun á einni aðalframleiðsluvöru togaranna, sem einnig var þá samþ. um sama leyti. Þá urðu togaraeigendur einnig að samþ., einnig þessa sömu daga, allverulega hækkun á kaupi togarasjómanna.

Þannig var það, að sá stuðningur, sem veittur var togurunum, hvarf þá strax fyrstu dagana, og þeir sátu eftir í sömu rekstrarvandræðunum og þeir höfðu verið, strax dagana eftir að lausnin hafði verið tilkynnt.

Svipað mátti segja um bátaeigendur og aðra, að þegar búið var að veita þeim nokkra aðstoð, urðu þeir að hefja glímu við sjómennina á fiskiskipaflotanum með vitanlega tilheyrandi útgjöldum vegna rekstrar bátanna.

En nú hafa þessi vandamál verið leyst öll í einu, þannig að tillit hefur verið tekið til allra, að því leyti til sem rétt hefur þótt og sanngjarnt hefur verið, og ætti því allur veiðifloti okkar að geta hafið rekstur án verulegra truflana strax frá n. k. áramótum að telja. Á þessu er vitanlega gífurlega mikill munur frá því, sem áður hefur verið.

Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því að tryggja bæði bátaflotann og togaraflotann fyrir óvæntum hækkunum í sambandi við útgjöld af olíukostnaði.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í þessu frv. að breyta allverulega til um form á þeim stuðningi, sem hinum einstöku greinum sjávarútvegsins er veittur. Bátaflotinn hefur að undanförnu notið nokkurs stuðnings frá hinu svonefnda bátagjaldeyriskerfi. Nú er þetta kerfi lagt niður, og hafa því bátaútvegsmenn ekki lengur með það að gera að selja hluta af gjaldeyrinum með því sérstaka álagi, sem þeir hafa gert að undanförnu. Þess í stað eiga bátaútvegsmenn nú til viðbótar við hið fastskráða fiskverð, sem fiskvinnslustöðvarnar munu greiða hverjum bát, að fá úr útflutningssjóði, sem stofnaður verður, fasta greiðslu, sem miðuð er við hundraðshluta af útflutningsverðmæti þeirra afurða, sem bátarnir framleiða og fluttar eru á erlendan markað.

Þá verða einnig gerðar ráðstafanir til þess, að þessar útflutningsuppbætur berist bátaeigendum hraðar en bátagjaldeyriskerfið hefur skilað þeim því fé, sem þeir fengu með þeim hætti, og einnig verða gerðar ráðstafanir til þess að tryggja, að sá hlutur, sem hver einstakur bátseigandi fær út úr þessu og þarf vegna sinnar margvíslegu útgjalda, m. a. til kaupgreiðslu, komi til hvers einstaks báts miklu fyrr en áður var. Eftir áætlun er metið, að aukinn stuðningur við bátaútgerð landsmanna muni nema samkv. þessu frv. um 36–38 millj. kr., miðað við ársrekstur.

Stuðningurinn við togaraflotann er líka stórlega aukinn frá því, sem verið hefur. Þar verður áfram um fasta daggreiðslu að ræða, miðað við úthaldsdag hvers skips. En nú verða daggreiðslur til togaranna gerðar misjafnar eftir því, hvaða veiðar skipin stunda. Þannig er gert ráð fyrir því, að daggreiðslur til þeirra skipa, sem stunda saltfiskveiðar, verði 6 þús. kr., en daggreiðslur til þeirra, sem stunda ísfiskveiðar og landa innanlands, verði 5 þús. kr., eins og áður var, en daggreiðslur til skipa, sem sigla á erlendan markað, verði hins vegar nokkru lægri en þær hafa verið.

En jafnframt þessu er svo gert ráð fyrir því, að fiskverð frá fiskvinnslustöðvum í landinu hækki til togara sem nemur 22 aurum á hvert kg fyrir þorsk og 23 aurum fyrir hvert kg af karfa.

Það kann að vera, að ýmsum finnist, að sá stuðningur, sem hér er veittur togaraútgerðinni, sé æði mikill, þar sem hér er um að ræða upphæð, sem mun nema í kringum 38 millj. kr., miðað við fullan rekstur allra skipanna allt árið, en skipin eru í kringum 41 skip, sem þessa stuðnings njóta. Ástæðan er einfaldlega sú að hallarekstur á togaraútgerðinni hefur verið allt þetta ár alveg gífurlega mikill. En með þessum stuðningi og með því að aðalrekstrarvörur togaranna, eins og brennsluolía, og einnig kaupgjald verður nokkuð jafnt yfir árið, þá standa vonir til þess, að nú ætti meðaltogari að geta staðið undir öllum sínum útgjöldum og að rekstur þeirra gæti því orðið með eðlilegum hætti, sem ekki er hægt að segja að rekstur þeirra hafi verið.

Þá er í frv. einnig gert ráð fyrir nokkrum auknum stuðningi við fiskvinnslufyrirtæki. Þar er þó um mjög smávægilega aukningu að ræða frá því, sem verið hefur, þar sem við athugun þótti koma í ljós, að verulegur hluti af hraðfrystihúsum landsins mundi geta unnið við þau kjör, sem þau hafa búið við. En þó er gert ráð fyrir því, að til allrar fiskvinnslunnar í landinu muni útgjöldin aukast um um það bil 9 millj. kr. Þessi aukning fer að verulegu leyti í aukið framlag til vinnslu á smáfiski, sem er miklum mun dýrari í vinnslu, en greitt er hins vegar sama verð fyrir af fiskkaupendum.

Einnig er gert ráð fyrir að auka allverulega stuðninginn við vinnslu á ýsu, en vinnslan á þeim fiski hefur reynzt mjög óhagstæð á þessu ári.

Ætla verður svo að sjálfsögðu fiskvinnslufyrirtækjunum nokkuð aukið fé, þar sem þeim er nú gert að skyldu að greiða talsvert hærra verð til togaraflotans en fiskvinnslustöðvarnar hafa gert á þessu ári.

Þær greiðslur, sem ég hef nú nefnt og allt má telja sem aukið framlag til þess að tryggja rekstur sjávarútvegsins á næsta ári, nema um það bil 85 millj. kr. En með því að nú er gert ráð fyrir að leggja niður bátagjaldeyriskerfið, verður að gera ráð fyrir því að leysa út nokkuð af þeim vanskilum, sem myndazt hafa á þann hátt, að bátaeigendur hafa ekki fengið greitt út úr því kerfi það, sem þeim ber, ekki miðað við rekstrardag. Ef bátagjaldeyriskerfið hefði verið í gildi áfram, hefðu bátaútvegsmenn að vísu fengið þessar bætur, en þeir hefðu að sjálfsögðu þurft að bíða miklum mun lengur en ætlazt er til með því, að þetta kerfi er lagt niður og nýtt tekur við. Af þessum ástæðum verður að afla nýrra tekna til þess að leysa út þessi vanskil, upphæð sem nemur um 15 millj. kr.

Áætlað er svo, að verja þurfi á næsta ári til verðlækkunar á olíu um 22 millj. kr., og er þá miðað við það útlit, sem nú er í þeim efnum. Þó er reiknað með, að þegar kemur fram á sumarið ætti verðlag að geta lækkað með lækkandi frögtum, en þær eru að jafnaði hæstar einmitt yfir vetrarmánuðina.

Þá er gert ráð fyrir því, að hinn nýi útflutningssjóður verði að taka á sig a. m. k. 22 millj. kr., sem eru skuldir frá framleiðslusjóði þeim, sem einnig er gert ráð fyrir að leggja niður með þessum lögum.

Það má því segja, að vegna sjávarútvegsins beint eða óbeint, þegar einnig er tillit tekið til skuldagreiðslna, sem upp hafa safnazt, þurfi að afla tekna og sé aflað nýrra tekna með þessu frv. um það bil 144 millj. kr.

Þessi fjárhæð, 144 millj. kr., er að vísu geysihá fjárhæð, og þess verður æði oft vart, að menn efist um, að það sé þörf á því, miðað við núverandi rekstrarskilyrði útgerðarinnar, að greiða henni alla þessa fjárhæð. En eins og ég hef greint frá, þá er ekki öll þessi fjárhæð, sem hér er nefnd, tilheyrandi einu rekstrarári, heldur a. m. k. tveimur, og einnig tilheyrandi óvæntum atburðum eins og í sambandi við verðhækkun á olíu. En það verður að horfast í augu við þá staðreynd, að afkoma sjávarútvegsins hefur yfirleitt verið mjög léleg, og það er eitt af því þýðingarmesta í okkar þjóðfélagi að gera úrbætur í þeim efnum, þannig að þessi undirstöðuatvinnuvegur geti endurnýjað tæki sín og staðið undir eðlilegri aukningu án sérstakra styrkja eða hjálpar með árlegum ráðstöfunum, að hann geti byggt upp slíka sjóði sjálfur.

Það skal hins vegar játað, að það má vel vera, að hægt sé að koma fram ýmsum þeim ráðstöfunum í rekstri hinna ýmsu greina sjávarútvegsins, sem miðað gætu að því að lækka þar rekstrarútgjöld, og af þeim ástæðum hefur líka orðið samkomulag nú á milli sjútvmrn. og bátaútvegsmanna og togaraeigenda, að skipuð verði sérstök nefnd með fulltrúum útvegsmanna og fulltrúum, sem ráðuneytið skipar, til þess að taka þau mál til sérstakrar athugunar, hvort ekki er hægt að draga úr ýmsum útgjöldum, sem á rekstrinum hvíla nú, og minnka á þann hátt þann opinbera stuðning, sem veittur er m. a. með ráðstöfunum þessa frv. Ef reynslan leiðir í ljós, að hægt er eftir athugun þessara mála að draga þar úr ýmsum útgjöldum, þá vitanlega kæmi það öllum til góðs.

Eins og segir í grg. þessa frv., er svo gert einnig ráð fyrir því að afla enn frekari tekna en sem samsvarar þessum útgjöldum, sem ég hef hér gert aðallega grein fyrir, en þar er fyrst og fremst um ýmsar verklegar framkvæmdir að ræða beint eða óbeint á vegum ríkisins. Af þeim ástæðum hefur þurft að afla hér nýrra tekna, sem nema um 230–240 millj. kr.

Það hefur nú verið gerð hér grein fyrir því af öðrum, hvernig þessara tekna er aflað í stórum dráttum, og skal ég því ekki fara út í það, en vildi aðeins segja það, að reynt hefur verið, eftir því sem mögulegt hefur verið, að afla þessara tekna á þann hátt, að hin nýju gjöld hvíldu með sem minnstum þunga á herðum almennings í landinu, en þeir kæmu hér til og stæðu undir þessum miklu millifærslum m. a. til stuðnings framleiðslunni, sem aðra og betri aðstöðu hafa til þess, og vegna þess er hér gert ráð fyrir, að lagður verði á hina ríku í landinu, þá, sem safnað hafa stóreignum á undanförnum árum, nýr skattur, sem áætlað er að nemi a. m. k. 80 millj. kr. Hér er einnig gert ráð fyrir því, að bankar landsins, sem hafa hagnazt vel á undanförnum árum, m. a. á skiptum sínum við atvinnuvegina, leggi hér einnig nokkuð af mörkum.

Gert er einnig ráð fyrir því í sambandi við breytingar á verðlagsmálum varðandi sölu á olíu, að olíusalarnir í landinu verði látnir taka á sig mjög verulegan hluta af þeirri hækkun á olíunni, sem fyrirsjáanleg er og skollin er á, eins og flestum er kunnugt, og er þar að sjálfsögðu um viðbót að ræða við þá beinu niðurgreiðslu á olíu, sem gert er ráð fyrir samkv. þessu frv.

Þá er nú gert ráð fyrir því á óbeinan hátt að láta innflutningsverzlunina í landinn taka sinn þátt í því að standa undir þessum gjöldum, en það verður gert með þeim hætti, að fyrirskipuð verður allveruleg lækkun á heildsöluálagningu, en á þann hátt á að vera hægt að lækka vöruverðið væntanlega til samræmis við þá óhjákvæmilegu hækkun í ýmsum greinum, sem leiðir annars af hinum nýju gjöldum.

Þá hefur einnig verið reynt að afla teknanna eftir ýmsum öðrum leiðum, þannig að hinar nýju álögur hvíldu með sem minnstum þunga á öllum nauðsynlegri varningi.

Það er að vísu ekki gott að spá miklu um það, hvernig þessar ráðstafanir munu reynast í framkvæmd. Ég hins vegar er þeirrar skoðunar, að þar sem þessar ráðstafanir eru byggðar á samkomulagi þeirra aðila, sem hér eiga mestan hlut að máli, þá sé full ástæða að vænta þess, að þær muni duga á annan hátt og betur en þær ráðstafanir, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum. En það skiptir vitanlega höfuðmáli, að svo takist til með framkvæmd verðlagsmálanna í landinu, að ekki verði um almenna vöruverðshækkun að ræða, og þar af leiðandi þurfi ekki að koma til kauphækkana, sem jafnframt mundi þýða aukinn framleiðslukostnað.

Takist með nýju verðlagseftirliti og lækkun á heildsöluálagningu og öðrum slíkum ráðstöfunum að halda verðlaginu í skefjum, þá efast ég ekki um, að næstkomandi ár mun verða fyrir sjávarútveginn í heild og allar greinar hans miklum mun hagstæðara rekstrarár en hann hefur búið við á undanförnum árum. En það einmitt, ef svo tækist til, að sjávarútvegurinn gæti verið rekinn af fullum krafti allt árið og án hallarekstrar, gæti þýtt það, að ekki þyrfti að grípa til neinna nýrra álaga um næstu áramót og hann gæti haldið áfram sínum rekstri með eðlilegum hætti og aukið á tekjuöflun þjóðarheildarinnar og staðið á eðlilegan hátt undir endurnýjun og aukningu.

Ég geri mér vonir um það, og það hygg ég, að framleiðendur við sjávarsíðuna geri einnig yfirleitt, að þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., þýði verulega breytta aðstöðu til hins betra fyrir sjávarútveginn sem heild.