20.12.1956
Efri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hv. 1. landsk. þm. (AG), tók fram, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Hann rakti nokkuð gang þessa máls í ræðu sinni og skýrði aðdraganda að setningu þessara laga, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. laga um atvinnuleysistryggingar, svo að ég þarf ekki miklu þar við að bæta.

Það, sem farið er fram á í þessu frv., sem hér er til umr., er það, að raskað sé því samkomulagi, sem sett var, um leið og l. voru sett, að Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands hefðu sinn manninn hvort í sjóðsstjórninni og fimm væru kosnir af sameinuðu Alþingi. Þessu hlutfalli er raskað með því, að nú er gert ráð fyrir í þessu frv., að Alþýðusamband Íslands tilnefni tvo menn, en sameinað Alþingi kjósi fjóra. Má segja, að með þessu sé rýrður réttur Alþingis til áhrifa í stjórn sjóðsins, en áhrif Alþýðusambands Íslands aukin.

Í bréfi því, sem hv. frsm. minntist á að Vinnuveitendasamband Íslands hafi skrifað heilbr.- og félmn. og lá fyrir nefndinni, er það tekið fram og segir svo orðrétt í því, með leyfi hæstv. forseta: „Í samningaviðræðum var því slegið föstu, að ef sérstök stjórn yrði sett fyrir sjóðina, skyldu stéttarfélögin fá fulltrúa í hana og vinnuveitendur a.m.k. jafnmarga.“ Enn fremur segir: „Það er því brot á forsendum samkomulagsins, sem kynni að hafa hinar alvarlegustu afleiðingar, ef fyrrgreint stjórnarfrv. yrði samþ. óbreytt.“ Til þess að fá skýringar m.a. á þessu atriði í bréfi Vinnuveitendasambands Íslands voru kvaddir á fund n. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, Björgvin Sigurðsson, og einnig þeir menn, sem áttu mestan þáttinn í að koma þessum l. á og viðræður um það og undirbúning undir það, Hjálmar Vilhjálmsson skrifstofustjóri og Torfi Hjartarson sáttasemjari. Við þessa menn átti nefndin tal, en eins og gefur að skilja, er ekki neitt eða a.m.k. ekki nærri allt, sem talað er á þessum undirbúningsfundum, skrásett eða skjalfest, og vitanlega segja þessir menn ekki og geta ekki sagt um hvert smáatriði, sem um er rætt, þegar um svona er að ræða. En hafi nú þetta verið svo, að um þetta hafi verið rætt og samið, án þess að það sé skjalfest, þá virðist vera ástæðulaust að breyta þessu nú, einkum með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir því í lögunum sjálfum, að þau skuli vera í heild endurskoðuð eftir tvö ár frá gildistöku þeirra. Minni hl. heilbr.- og félmn. lítur svo á, að þetta sé ekki svo langur tími, sem þarna er um að ræða, að það taki því að vera að samþ. breytingu á lögunum fyrr en sá tími er liðinn, sem þarna er —tiltekinn. Það er ákveðið, eins og segir í 22. gr. l., að lög þessi skuli endurskoðuð eftir tvö ár í samráði við verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda, og þetta yrði þá gert á árinu 1958. Minni bl. leit svo á, að þar sem þetta væri ekki lengri tími, sem hér væri um að ræða, þá væri rétt að breyta lögunum ekki fyrr en sú endurskoðun hefði farið fram og hún hefði leitt það í ljós, að nauðsynlegar væru breytingar á lögunum yfirleitt, því að nú má búast við því og er víst alveg gefið, að þessi lög þurfa einhverra breytinga við, því að eins og hv. alþm. muna, sem hér áttu sæti á síðasta Alþingi, kom þetta mál fram nokkuð seint á þingi og var samþykkt í nokkru flaustri, svo að ekki sé of mikið sagt, án þess að neinar breytingar væru gerðar á því, eins og það var lagt fyrir í upphafi.

Án þess að fjölyrða meira um þetta vil ég lýsa því, eins og segir í nál. á þskj. 163, að með skírskotun til þess, sem þar segir, leggur minni hl. til, að frv. verði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem hljóðar svo:

„Þar sem endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar á árinu 1958 er ákveðin í lögunum sjálfum, sér deildin ekki ástæðu til að samþ. breytingu á þeim nú og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Fyrir liggur brtt. frá hv. 6. þm. Reykv. um það, að Samband íslenzkra sveitarfélaga fái rétt til þess að tilnefna einn mann í sjóðsstjórnina. Þegar miðað er við það, hverjir greiða í sjóðinn, en það eru vinnuveitendur og sveitarfélög landsins, sem greiða jafnmikið hvort um sig, og ríkissjóður annað eins og þessir aðilar báðir, og þegar miðað er við það, að Vinnuveitendasamband Íslands hefur einn mann í sjóðsstjórninni og Alþýðusamband Íslands einn og Alþingi kýs fimm, þá er ekki óeðlilegt, þó að samband sveitarfélaganna krefjist þess að fá að tilnefna einn mann í stjórnina. Og ef breyting verður gerð á lögunum, þá leggjum við í minni hl. til, að brtt. hv. 6. þm. Reykv. verði samþykkt.

En við leggjum enn fremur til, til vara við rökstuddu dagskrána, skyldi hún verða felld, að þá verði frv. samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr. Fyrir orðin „einu tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands“ komi: tveir tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands.

2. Við brtt. á þskj. 83. Fyrir orðin „þrír kosnir af sameinuðu Alþingi“ komi: tveir kosnir af sameinuðu Alþingi.

Þessi brtt. við brtt. á þskj. 83 er afleiðing af því, að þar segir, að þrír skuli kosnir af sameinuðu Alþingi, og er þá miðað við það, að sveitarstjórnasamböndin fái að tilnefna einn mann, og þá eru ekki eftir nema þrír af þeim, sem kosnir verða af Alþingi. En verði þetta sjónarmið tekið til greina, að Vinnuveitendasambandið hafi jafnmarga menn í sjóðsstjórninni og Alþýðusamband Íslands, sem sagt tvo hvort og sveitarstjórnirnar eða samband ísl. sveitarstjórna einn mann, þá eru ekki eftir nema tveir, sem Alþingi kýs. Og ef á annað borð á að breyta þessu og viðurkenna það sjónarmið, að Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands skuli vera jafnrétthátt, eins og nú er og slegið var föstu með lagasetningunni sjálfri, þá leggjum við til, að þessar breytingar séu samþykktar, en að þeim felldum leggjum við enn til, að samþ. verði brtt. á þskj. 83 um það, að samband sveitarstjórnanna fái að tilnefna einn mann.