06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þess var að vænta, að hv. 5. þm. Reykv., sem seinast talaði, viðurkenndi það rétt vera, að það væri ekkert neitt nýtt fyrirbæri, að sparifjársöfnunin minnkaði seinni hluta árs. Það játaði hann að vera staðreynd. En hvað verður þá úr talnadæmi hv. 1. þm. Rang., sem segir, hvað sparifjársöfnunin hafi verið fyrstu 7 mánuði ársins, og reiknar svo út í réttu hlutfalli við það, hvað hún hefði átt að vera yfir allt árið. Þá er hann búinn að hnekkja þessu dæmi hv. 1. þm. Rang., — og það er vel.

Hv. 5. þm. Reykv. vék að því, að það væri visst samband milli sparifjársöfnunarinnar og þess fjármagns, sem hægt væri að veita til íbúðarhúsnæðislána. Undir venjulegum kringumstæðum er þetta auðvitað rétt. En þegar bankarnir hafa tekið á sig ákveðnar skuldbindingar til þess að leysa þetta verkefni, þá gera þeir hvorki að auka né minnka fjárveitingar til þessa. Ef þeir standa við sínar skuldbindingar, eru í fjárþröng, eins og allir vita, vegna annarra verkefna, þá fara þeir ekki yfir sínar skuldbindingar. Hvað sem sparifjársöfnuninni hefði því liðið, hefðu þeir ekki fengizt til að leggja meira fé í hið almenna veðlánakerfi heldur en fyrrv. ríkisstj. hafði samið við bankana um, og það hefur staðizt.

Á samningsbundnu tímabili er því alveg tilgangslaust að fjasa um það, hvað sparifjársöfnuninni líður í sambandi við þetta mál.

Það er dálítið spaugilegt, að samkvæmt ýtrustu áætlun ætlaði fyrrverandi stjórn 100 millj. kr. að duga til að leysa þetta stóra þjóðfélagsvandamál, íbúðarbúsnæðisvandann. En núna fyrir nokkrum vikum, þegar sjálfstæðismenn voru komnir úr ríkisstj., en þó ekki liðinn sá tími, sem þeirra fjáröflunarkerfi átti að ná yfir, þá bar Sjálfstæðisflokksmaður í húsnæðismálastjórn fram till. um, að það yrði ekki minna en 250 millj. kr. á ári, sem varið yrði til þess að ráða fram úr húsnæðisvandamálunum. Þá þurftu það að vera 250 millj.; en 100 millj. hið ýtrasta sem áætlunarupphæð átti að duga, meðan Sjálfstfl. tók þátt i ríkisstj.

Nú skal fyllilega játað, að eftir því sem viðskilnaðurinn er núna, þegar þúsundir fjölskyldna bíða húsnæðislausar og með hálfgerð hús, þá horfumst við í augu við það, að það þyrfti að útvega slíkt fjármagn. En það var bara ekkí sú krafa, sem fyrrverandi ríkisstj. gerði til sjálfrar sín. Hún getur gert það til annarra og þeirra flokksmenn, en ekki til sjálfrar sín; það er staðreynd.

Því verður ekki haggað, að það var fyrrv. ríkisstj., sem setti þennan ramma, sem á að fara eftir til næstu áramóta. Og hún gerði meira. Hún úthlutaði nálega öllu því, sem átti að koma inn í þetta veðlánakerfi til næstu áramóta, á síðastliðnu vori og sumri, af því að það voru kosningar, — það var kosningavopn, — og þess vegna var enginn eyrir til í þessu veðlánakerfi, þegar þeir skildu við, þegar síðasta ársfjórðungsúthlutun átti að koma til. Búnaðarbankinn átti að fá ákveðnar upphæðir. Hann hafði ekki fengið þær. Og þegar gengið var eftir greiðslu á þeim, þá var ekkert eftir.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að hæstv. raforkumálaráðh. hefði hafið samninga við banka um aukið fjármagn til þeirra málaflokka, þegar sýnt hefði verið, að það þurfti meira fé. Það er nefnilega nákvæmlega það, sem ég hef gert. Ég hef líka hafið viðræður við þjóðbankann um meira fé til þessara mála með ýmsum hætti, m.a. farið fram á það, að B-lánahlutfallið yrði aukið, sem er núna 2 á móti 5, t.d. að vera að jöfnu, eða 50 á móti 50. Þessar viðræður hafa að vísu ekki borið árangur, og verður þá fljótlega að fást úr því skorið, hvort hægt sé að byggja löggjöf fyrir framtíðina á samkomulagsleiðum við Landsbankann og aðra banka, líkt og gildandi löggjöf var byggð á slíkum samkomulagsgrundvelli, eða hvort Alþ. og ríkisstj. verða að ákveða, hvaða fjáröflunarleiðir skuli farnar og hversu miklu fjármagni skuli varið til þessara mála. Og þá þykir mér vænt um, ef það skyldi koma í ljós, að það standi hér ekki á sjálfstæðismönnum, ábyrgum á Alþ., að greiða atkv. með jafnvel að það yrðu veittar allt að 250 millj., eins og flokksbróðir þeirra í húsnæðismálastjórn hefur núna mjög ábyrgðarlítið lagt til, án þess að gera þó nokkra grein fyrir því, hvernig hann teldi fært að afla þess fjár.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv.: Hefur núverandi ríkisstj. notað þá heimild laganna að útvega erlend lán? — Nei, það hefur ekki enn þá verið notuð sú heimild. En þegar við ræddum um þetta mál við 1. umr. þessa máls og hv. 5. þm. Reykv. einmitt lét í ljós, að hann og hans flokkur mundu styðja, að það yrði útvegað erlent lánsfé til þessara mála, ef ekki tækist með öðrum hætti að útvega nægilegt lánsfé, þá tók ég undir það á þann hátt, að ég var honum þakklátur fyrir þann væntanlega stuðning, sem væri heitinn við þá hugsanlegu úrlausn málsins. Ég endurtek það, að ég er alls ekki viss um, nema ég þurfi mjög að halda á stuðningi þessara manna, til þess að sú heimild laganna, sem er í núgildandi lögum, verði kannske notuð. En svo mikið er víst, að þau tvö ár, sem nú eru bráðum liðin, síðan gildandi löggjöf var lögleidd af fráfarandi ríkisstj. með þessari heimild, var hún ekki notuð, og voru þeir þó áreiðanlega búnir að kynnast því, hver þörfin væri. Hún var ekki notuð. En ég segi: Það má vei vera, að það komi til þess, að við verðum einmitt að nota hana eða sams konar heimild í væntanlegri löggjöf. Þessi löggjöf, sem nú gildir, fellur niður sem sé við næstkomandi áramót, og Alþingi verður að ganga frá nýrri löggjöf um þessi mál öðru hvorum megin við áramótin.

Ég hjó eftir því, að í ræðu sinni áðan talaði hv. 1. þm. Rang. um það, að nú væri svo komið, að menn stæðu uppi ráðþrota vegna húsnæðisástandsins. Þetta er ekki rétt orðalag á því. Það er ekki nú fyrst komið svo, að menn standi ráðþrota í húsnæðisvandamálunum. Allan þann tíma, sem hann sat í ríkisstj., stóðu menn ráðþrota í þessum málum og miklu lengur. Það hefur verið húsnæðisneyð hér í Reykjavík um langa hríð, og það eru húsnæðisvandræði í kauptúnum og bæjum úti um allt land, sem ekki hefur tekizt að ráða bót á, og því miður sýna skýrslur, að það fækkar lítið því fólki, sem við heilsuspillandi húsnæði býr, og þeim börnum fjölgar stöðugt í Reykjavík, sem búa í óhæfu braggahúsnæði.