31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. færir þau rök fyrir áskorun sinni til mín um að taka till. aftur, að það sé óvenjulegt, að brbl. sé breytt í meðförum þingsins. Þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðh. Það hefur iðulega verið gert. En þó að þessi brtt. verði samþ., er það engin breyting efnislega á brbl., því að ákvæði brbl. stendur alveg óbreytt þrátt fyrir mína till.

Hann segir, að sett verði á þessu þingi ný lög um húsnæðismálin og sé það því önnur ástæða til þess, að ég ætti að taka till. aftur. En ég vil spyrja hæstv. ráðh., fyrst hann hefur haft í undirbúningi nýja löggjöf um þessi efni: Hvers vegna lét hann þá ekki efni sjálfra brbl., fjölgunina í húsnæðismálastjórn, heldur bíða þeirrar heildarlöggjafar? Var sem sagt í húsnæðismálunum eina atriðið, sem alveg var bráðaðkallandi, að fjölga um tvo menn í húsnæðismálastjórn? Það virðist eftir upplýsingum hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. telur vafalaust, að efni þessara brbl. sé mjög þýðingarmikið, en hann talar heldur óvirðulega um þessa brtt. mína um að gera sveitarfélögunum kleift að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Hann talar heldur óvirðulega um hana sem framandi böggul. Ég veit nú ekki betur en efnislega sé þó brtt. mín stórum þýðingarmeiri um lausn húsnæðisvandræðanna heldur en bráðabirgðalög hæstv. ráðh. um að fjölga um tvo í húsnæðismálastjórn. Ég hef því ekki getað sannfærzt af þeim rökum, ef rök skyldi kalla, frá hæstv. ráðh. að taka till. aftur og mun því ekki gera svo.

Hins vegar náttúrlega getur ráðh. kannske losnað við till. með því að taka frv. aftur, því að þá náttúrlega fellur brtt. við það af sjálfu sér niður, a.m.k. við þetta mál.

Ég vil í sambandi við þetta upplýsa, að á fundi bæjarstjórnar Rvíkur 17. jan. s.l. var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúanna, þ. á m. fulltrúa flokksbræðra hæstv. félmrh., að bæjarstjórnin telji sérstaklega óhjákvæmilegt að auka stórlega framlög ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi íbúða samkv. II. kafla laga nr. 55 frá 1955, þannig að þessi brtt. er að sjálfsögðu flutt í sambandi við og í framhaldi af ályktun, sem einnig hans samherjar hafa samþykkt í bæjarstjórninni.

Nú er það að vísu svo, að hæstv. ráðh. boðar hér frv. um lausn húsnæðismálanna eða byggingarmálanna. En ekki taldi hann þó ástæðu til að gera að neinu leyti grein fyrir efni þess frv. eða þeim úrræðum, sem hann byggst benda á og ætlar að fá lögfest, því að hann lýsir því hér yfir, að þessi lög muni verða samþykkt á þessu þingi. Það er náttúrlega ákaflega gott að vera voldugur ráðherra,en ég hefði þó haldið, að Alþingi sjálft réði þar mestu um, og finnst harla mikill einræðisbragur á því, að alþm. fái tilkynningu um það, áður en þeir hafa séð einu sinni framan í frv.: Þetta skal verða lögfest. Alþingi á að lögfesta þetta frv., sem ég ætla einhvern tíma seinna að leggja fyrir þingið. Það getur verið, að þessi háttur sé að verða ríkjandi í hv. stjórnarflokkum, en þeir um það.

En í sambandi við þetta góða frv. er vissulega ástæða til að staldra við og hugleiða, hvað mundi vera efni þess og hver er stefna hæstv. núv. ríkisstj. í þessum málum.

Það er svo, að við sjálfstæðismenn teljum, að íbúðabyggingar séu sízt of miklar í landinu, heldur þurfi fremur að auka þær. En það er yfirlýst stefna eins af stjórnarflokkunum og þess flokksins, sem hefur bæði forsæti og fjármál, að draga eigi úr verklegum framkvæmdum og fjárfestingu. Ég hef hér t.d. fyrir framan mig, svo að maður taki nú ekki neitt úr Tímanum, sem farið er að slá í, heldur hef ég fyrir framan mig Tímann frá því í dag, og þar ræðir um þá breytingu, sem gerð var á fjárfestingunni með nýju lögunum frá 1953, þar sem nokkuð var rýmkað um byggingu íbúða. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Framsóknarmenn gengu nauðugir til þess leiks að afnema fjárfestingarhömlurnar í jafnstórum stíl og gert var.“

Og síðar segir:

„Nú blasa við afleiðingar þess, að fjárfestingunni var sleppt lausri 1953.“

Á hvern hátt var nú fjárfestingunni sleppt lausri? Sú lagabreyting, sem þá var gerð, var efnislega varðandi byggingarnar eingöngu sú, að gefið var frjálst að byggja íbúðir, sem væru allt að 520 rúmmetrum að stærð. Nú má vera, að hæstv. ráðh. telji, að íbúðir allt að 520 rúmmetrum séu skrauthýsi og lúxusíbúðir. En ég vil benda á í því sambandi, að samvinnubyggingarfélögin hafa hámarksákvæði svo að segja alveg það sama, eða um 500 rúmmetra, og býst ég ekki við, að hv. stjórnarflokkar telji, að íbúðir samvinnubyggingarfélaganna séu lúxusíbúðir.

Auk þess, að þessar íbúðir voru gerðar frjálsar 1953, var ákveðið, að menn mættu einnig byggja peningshús og verbúðir án leyfis.

Nú er mér spurn: Fyrst þessar breytingar hafa valdið þeim ósköpum og mér skilst steypt fjárhagskerfi þjóðarinnar í voða, er það þá ætlun núverandi ríkisstj. og er það kannske eitt af efnisatriðum frumvarps hæstv. félmrh. að draga úr þessu, að draga úr því frelsi, sem menn nú njóta til þess að byggja íbúðir við hæfi, eða því frelsi, sem menn hafa til þess að byggja peningshús eða verbúðir? Eftir upplýsingum Tímans er það einmitt þetta frelsi, sem ég nú hef lýst, sem er aðalorsök vandræðanna, og blasa nú við afleiðingar þess. Mér er þess vegna spurn: Er það stefna hæstv. núverandi ríkisstj., sem fram kemur í blaði forsætis- og fjármálaráðherrans í dag?

Þetta er vissulega ekki að ófyrirsynju spurt, vegna þess að allar þær þúsundir landsmanna, sem bíða eftir því að eignast heilsusamlegar og góðar íbúðir, spyrja vitanlega um það og mæna til þess með nokkurri eftirvæntingu, hvort þær eiga að hafa það byggingarfrelsi, sem þær hafa haft nú um undanfarin þrjú ár, eða hvort það eigi nú að vera stefna núverandi ríkisstj. og stjórnarflokka að draga úr þessum möguleikum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni. En mér virðist, að þau formsatriði, sem hæstv. ráðh. talaði hér um, séu að sjálfsögðu ekki því til fyrirstöðu að samþykkja þessa brtt. mína, því að hin mikla hugsjón hæstv. félmrh., sem fram kom í brbl. um að fjölga í húsnæðismálastjórninni úr fimm upp í sjö, nær fram að ganga og verður að veruleika, þó að mín brtt. yrði samþykkt.