18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

1. mál, fjárlög 1957

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir samvinnuna um fjárl.frv., sem hefur verið ágæt. Ég vil taka það fram, að mér var það ljóst, þegar ég lagði þetta frv. fram, að það mundi þurfa að hækka í meðförunum, eins og ég vék að þá. Ég gerði mér það ljóst, að þótt lækkaðar væru nokkuð í frv. fjárveitingar til ýmissa verklegra framkvæmda, m.a. í samgöngumálum, eins og nánast venja hefur verið um mörg undanfarin ár að gera frá gildandi fjárlögum, þá mundi reynast nauðsynlegt að hækka þessar fjárveitingar aftur, þegar þingið fjallaði um málið, enda hefur sú orðið raunin á.

Ég vil leyfa mér að rifja upp snöggvast, hverjar eru helztu hækkanirnar samkv. tillögum meiri hl. fjvn., en þær eru þessar:

Til nýrra akvega 4 millj. 920 þús., til brúargerða 3 millj. 340 þús., til hafnarmannvirkja og lendingarbóta 3 millj. 535 þús. og til byggingar barnaskóla og gagnfræða- og héraðsskóla 4 millj. 220 þús.

Hækkun á þessum liðum samtals er 16 millj. og 15 þús. Ég vil einnig benda á það, að þetta jafngildir því, að fjárveitingar til þessara framkvæmda, sem ég nú hef talið, verða þá 7 millj. 751 þús. kr. hærri en á gildandi fjárlögum.

Þá eru nokkrar aðrar hækkanir, sem ég vil aðeins benda á, af því að það eru stærstu liðirnir umfram þessa, sem ég þegar hef greint. Það er ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla 437 þús., rekstrarkostnaður landhelgisgæzlu 1 millj. 400 þús., rekstrarkostnaður Skipaútgerðar 2 millj. og 300 þús., framlag til íþróttasjóðs 400 þús., fyrirhleðslur og sjóvarnargarðar 869 þús., framlag til atvinnuleysistrygginga 2 millj., framlag til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna 1 millj., áætlaðar afborganir og vextir af lánum með ríkisábyrgð 2 millj., til landssmiðjunnar 900 þús., til flugvallagerðar 650 þús. og auknar niðurgreiðslur 24 millj., enn fremur útgjöld póstsjóðs 1 millj. 180 þús. og útgjöld landssímans 8 millj. 594 þús. En þegar þetta er allt lagt saman, sem ég nú hef talið, þ.e.a.s. stærstu hækkunartillögurnar dregnar nokkuð saman, þá nema þær samtals 61 millj. 95 þús. af 70 milljónum, sem heildarhækkanirnar eru. Með þessu móti ætla ég, að það sjáist, í hverju hækkanirnar eru fólgnar í höfuðdráttum. Allar aðrar tillögur hv. meiri hl. nema þá á milli 9 og 10 millj. kr.

Nú er sannast að segja, eins og hv. meiri hl. bendir á í sínu áliti, að þótt hér séu á ferðinni mjög verulegar hækkanir, þá hlýtur að vera von á frekari hækkunum við 3. umr., og er þar helzt að nefna aukið framlag til raforkumálasjóðs, sem vafalaust verður tekið upp við 3. umr. Þá hefur ríkisstj. ákveðið að beita sér á þessu Alþ. fyrir nýrri löggjöf um aukinn stuðning við ræktun á þeim býlum, sem skemmra eru á veg komin í ræktunarmálum, og aukinn stuðning við nýbýlamyndun og landnám, og hlýtur sú löggjöf að hafa talsverðan kostnað í för með sér, sem verður að gera ráð fyrir á þessu fjárlfrv. við 3. umr. Standa vonir til, að stjfrv. um þetta mál verði útbýtt næstu daga. Þá er, eins og bv. meiri hl. tekur fram, ráðgert að gera tillögur um aukningu á fjárveitingu til atvinnuaukningar til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Þegar þetta er haft í huga, þá er augljóst, að það verður að beita ýtrustu varfærni við undirbúning 3. umr. fjárlaganna, ef nokkur von á að vera um afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárlaga, að óbreyttum tekjustofnum, og verður að hafa þetta mjög fast í huga við undirbúning að 3. umr. fjárlaganna. Vænti ég mér góðrar samvinnu við hv. meiri hl. fjvn. um það mál.

Ég vil þá víkja fáeinum orðum að afstöðu hv. minni hl., sérstaklega vegna þess, að mín er minnzt nokkuð í nál. minni hl. og sömuleiðis í framsögu hv. 2. þm. Eyf.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það hefði verið auðið að afgreiða fjárlögin núna fyrir áramót. Þetta er alveg misskilningur, sem hann hlýtur að sjá, ef hann íhugar málið nánar. Það var óhugsandi að afgreiða þessi fjárlög þá. Það sýna þessar miklu breytingar, sem verður að gera á þeim nú og ekki var hægt að gera fyrr en vitað var, hvaða ráðstafanir yrðu lögleiddar í efnahagsmálunum að öðru leyti. Um þetta held ég að sé tæpast hægt að deila.

Á hinn bóginn var það mín skoðun, að það hefði verið hægt að afgreiða fjárlögin í fyrra fyrir áramót, vegna þess að það var búíð það snemma þá að ákveða í raun og veru, hvað yrði gert í framleiðslumálunum, að það var hægt að sjá miklu fyrr þá en nú, hvaða áhrif þær ráðstafanir mundu hafa á afgreiðslu fjárlaganna.

Þá sagði hv. 2. þm. Eyf., og að því er líka vikið í nál., að það hafi verið haldið upplýsingum fyrir hv. minni hl. um afkomuhorfur ríkissjóðs. Um þetta segir svo orðrétt í nál. minni hl.:

„Jafnfurðulegt er það, að enn hefur fjmrh. ekki talíð sig geta gefið fjvn. neinar upplýsingar um afkomu ríkissjóðs s.1. ár, þótt hálfur annar mánuður sé liðinn af þessu ári og slíkar upplýsingar hafi allar legið fyrir í janúar í fyrra. Ekki hefur n. heldur fengið upplýsingar um tekjuhorfur ríkissjóðs vegna skatta þeirra og tolla, sem á voru lagðir fyrir jól.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta stendur í áliti minni hl.

Nú veit hv. minni hl., að það liggja fyrir upplýsingar um afkomu ríkissjóðs til nóvemberloka, tekjur og gjöld, og ég hef athugað það vegna þessara aðdróttana, að í fyrra lá ekki fyrir bráðabirgðauppgjör um tekjur og gjöld ríkissjóðs fyrr en í marz, og ekkert slíkt bráðabirgðauppgjör er til, enda hefði mér aldrei dottið í hug að leyna neinu í því efni fyrir hv. minni hl. fjvn., ef það hefði legið fyrir. Þeir eiga aðgang að öllu því, sem liggur fyrir um þetta, að sjálfsögðu. Þessar ásakanir hjá hv. minni hl. eru þess vegna í mínum augum furðulegar og alveg út í bláinn. Það mun hafa verið gerð tilraun í janúar í fyrra til þess að áætla, hvað tekjurnar yrðu í heild. Sams konar tilraun munum við reyna að gera nú á næstunni í sambandi við þá áætlun, sem gerð verður um væntanlegar tekjur 1957. En vitaskuld er það, að ef menn hafa tekjurnar til loka nóvembermánaðar, þá geta þeir séð nokkurn veginn, hvernig tekjurnar verða yfir árið, með því að áætla. Það getur aldrei munað neinu stórkostlegu. Þessar upplýsingar um tekjurnar til nóvemberloka hefur fjvn. að sjálfsögðu til afnota, og hún hefur, bæði meiri og minni hl., allar þær sömu upplýsingar sem við höfum í fjmrn. Ef hv. minni hl. hefði bara viljað hafa fyrir því að tala um þetta við mig, þá hefði ég getað leiðrétt þennan misskilning, og ég hefði satt að segja álitið það meiri kurteisi en að setja aðdróttanir og dylgjur í nál.

Það stendur hér enn fremur:

„Ekki hefur n. heldur fengið upplýsingar um tekjuhorfur ríkissjóðs vegna skatta þeirra og tolla, sem á voru lagðir fyrir jól.“

Þetta er alveg óskiljanleg setning. Þegar löggjöf var sett fyrir jólin um útflutningssjóð o.fl., var það gert opinbert, hvað tekjur væru áætlaðar miklar af þeirri löggjöf. Þessi áætlun liggur fyrir, og við höfum ekki aðra áætlun til yfir tekjurnar af þeirri löggjöf. Á henni verðum við að sjálfsögðu að byggja við 3. umr. fjárlaganna. Þessi aths. hjá hv. minni hl. er því alveg út í hött.

Af því að það er þessu atriði skylt, vil ég líka minnast á annað, sem ég tel furðulegt í þessu nál. Það er sagt hér á bls. 3 í nál., og hv. 2. þm. Eyf. vék að því nokkuð í sinni ræðu, að það væri ekki hægt að komast hjá að átelja þau vinnubrögð fjmrh. að senda n. til flutnings till. um milljónaútgjöld, sem engin grein er gerð fyrir. Og svo er talið upp:

„Áður er getið um ábyrgðarheimild vegna frystihúsanna, en nefna má enn fremur till. um að hækka framlög til greiðslu ríkisábyrgðarlána um 2 millj. kr., framlag til atvinnuleysistrygginga um 2 millj. kr., framlag til niðurgreiðslna um 24 millj. kr. og loks að leggja fram 1 millj. kr. til væntanlegs orlofsheimilis verkalýðssamtakanna.“

Það hafa komið till. frá fjmrn. um að taka þessi útgjöld inn í fjárlögin. En ég hef ekki verið beðinn um neinar skýringar á þessum liðum, þar af leiðandi vitanlega aldrei komið til mála, að það hafi verið synjað af minni hendi um nokkrar upplýsingar varðandi þá. Ég hefði satt að segja álitið það meiri kurteisi, ef menn töldu þessu áfátt um skýringar, að leita þeirra skýringa í stað þess að dylgja á þennan hátt í nál., sem hlýtur að gefa það í skyn, að það hafi verið haldið fyrir mönnum upplýsingum í þessum efnum.

Annars hélt ég satt að segja, að það hefði ekki þurft flóknar viðbótarskýringar um þessi atriði. Ef við tökum dæmi t.d. um ríkisábyrgðarlánin, af hverju þau eru hækkuð. Ég hef upplýst um þau mál hér við umr. áður í þinginu, og það hefði verið hægt á einn andartaki að upplýsa það, ef um hefði verið spurt, að þessi till. um að hækka um 2 millj. kr. áætlunina er byggð á reynslu þessa árs, sem er að líða, og horfunum fram undan.

Varðandi atvinnuleysistryggingarnar, þá er sú till. hreinlega byggð á þeim upplýsingum félmrn., að reynslan, sem orðin er, sýnir það ótvírætt, að það sé ekki hægt að standa við skuldbindingarnar samkv. lögunum um atvinnuleysistryggingar nema með því að hækka fjárhæðina. Ég undrast það, að menn, sem hata setið í marga mánuði í fjvn., skuli ekki hafa haft framtak til þess að afla sér slíkra upplýsinga eða spyrja um þær, enda gat till. um að hækka þennan lið ekki byggzt á öðru en upplýsingum um, að það mundi þurfa á peningunum að halda, þetta er lögboðinn liður.

Um framlag til niðurgreiðslna, aukið framlag um 24 millj. kr., hef ég oft upplýst það hér á hv. Alþingi, að einmitt þessar 24 millj. kr. séu það, sem hagstofustjóri og þeir, sem reikna út þessi mál, telji þurfa til þess að standa undir niðurgreiðslunum, sem ákveðnar voru í haust. Þessi tala á ekki að geta komið neinum hv. þm., sem hefur fylgzt með, ókunnuglega fyrir, allra sízt fjvn.-mönnum, sem eiga að reyna að hafa yfirlit um það, sem er að gerast. Það hefði verið hægt að endurtaka þetta, ef það hefði verið grennslazt eftir því. Það eina, sem ég man eftir að ég hafi verið spurður um í þessu sambandi, er það, að skrifstofustjórinn í fjmrn. vék að því einhvern tíma, hvort það væri hægt að láta fjvn. í té útfærslu á þeirri till. eða grg. fyrir þeirri till. að hækka ábyrgðarheimildina vegna frystihúsa, mjólkurbúa og fiskimjölsverksmiðja úr 20 millj. upp í 50 millj. Ég bað hann að koma því á framfæri, að það væri ekki sundurliðuð áætlun til um þetta, því að um þetta væri ekki hægt að gera sundurliðaða áætlun fram í tímann, en þessa ósk byggðum við á því í fyrsta lagi, að nú er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að ábyrgjast fyrir frystihús, sem reist eru til kjötfrystingar, og enn fremur að ábyrgjast lán vegna mjólkurbúa. Þetta væri stórfelld útfærsla á heimildinni frá því, sem hún hefði áður verið, og hlytu að koma þar stór fyrirtæki til greina, sem ættu rétt á ábyrgð, og auk þess væri okkur kunnugt um, að stór fiskiðjuver væru í smiðum, sem vafalaust mundu sækja um ábyrgð skv. þessum lið. Ég bað hann að koma því á framfæri, að þetta væru ástæðurnar fyrir því, að farið væri fram á þessa hækkun, en það væri ekki hægt að gera sundurliðaða áætlun um þessi efni.

Mér finnst þessi tónn í nál. vera vægast sagt óviðeigandi, og það sækir að manni, að það sé ekki á bak við þetta mikill vilji til þess að vinna eðlilega að málinu, heldur sé meira sótzt eftir því að geta komið að hnútukasti í nál.; það hafi ekki verið ríkur áhugi eða vilji fyrir því að fá upplýsingar, heldur sótzt eftir því að viðhafa slíkt hnotabit, sennilega til þess að hægt væri að lesa það í útvarpið úr nál.

Loks er einn liður hérna, sem ég vildi benda á. Það stendur hér á bls. 1 í þessu nál., að mörgum nýjum starfsmönnum sé bætt við embættisbáknið og kostnaður við það stóraukinn. Hvað sem um þetta er að segja, þá held ég, að það sé varla hægt að drótta því að núverandi stjórn, að í þetta fjárlagafrv. séu settir nýir liðir til þess að kosta nýja embættismenn á hennar vegum, og ef hér er um að ræða nýja starfsmenn og nýja embættismenn eða útfærslu á embættisbákninu, þá munu það frekar vera þeir embættis og starfsmenn, sem fyrrverandi stjórn setti í sessinn, áður en hún fór frá, og ég veit, að við athugun á því máli mundi það koma í ljós, að þeir munu hafa verið drýgstir við það, sem skyldastir eru hv. minni hl. pólitískt og hv. 2. þm. Eyf.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að efna hér til almennra umræðna um stefnu ríkisstj. og fjárhagsmálin yfir höfuð, þó að ræða hv. 2. þm. Eyf. eða niðurlag hennar gæfi að sumu leyti tilefni til þess. Ég læt aðeins við það sitja að minnast á þá liði, þar sem sérstaklega er að mér vikið í nál. eða því, sem hv. frsm. ræddi um, og leiðrétta það, sem mér finnst ástæða til. En ég get ekki stillt mig um að segja það að lokum, að mér sýnist hlutskipti sjálfstæðismanna verða það í sambandi við þessa fjármálaafgreiðslu, að þeir hafi ekkert til málanna að leggja annað en yfirboð og þá fullkomlega marklaus yfirboð í svo að segja öllum greinum.