19.02.1957
Sameinað þing: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

1. mál, fjárlög 1957

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ) og ég flytjum á þskj. 263 till. um breyt. á 10. gr. fjárlagafrv., III. lið 6. Sá liður fjallar um áætlaðan kostnað við sendiráðið í Osló, samtals 409950 kr. Í brtt. fjvn. er þessi kostnaðarliður hækkaður upp í 475541 kr., en samkvæmt till. okkar tvímenninganna er liðurinn orðaður svo:

„Ræðismannsskrifstofa í Osló, 80 þús. kr., enda verði ambassador Íslands í Kaupmannahöfn falin forsjá sendiráðs í Noregi:

Með samþykkt þessarar till. mundu sparast nærri 400 þús. kr. á þessum eina lið. Að vísu yrðu Íslendingar einum sendiherra eða sendiráðherra fátækari, en margir munu telja, að það ættu þeir að geta þolað.

Það mun ríkjandi skoðun meðal þeirra flokka, er hæstv. ríkisstj. styðja, að forstöðumenn sendiráða séu óþarflega margir orðnir. Sömu skoðunar mun og meginþorri þjóðarinnar vera. Utanríkisþjónustan, eins og raunar fleiri opinberar stofnanir, er vaxin þjóðinni yfir höfuð. Hún er orðin þessari fámennu þjóð ofviða. Ég lít svo á, að það sé eitt af mörgum verkefnum hæstv. ríkisstj. að taka hér til hendi og kippa í lag.

Það, sem í till. felst, er ekki nýmæli hér á hinu háa Alþ. Ég er ekki vel að mér í þingsögu, en þó kann ég að greina frá því, að 1948 og 1949 var flutt lagafrv., er efnislega stefndi í sömu átt. Voru flutningsmenn þess frv. þeir hv. þm. V-Húnv. og fyrrv. alþm. Helgi Jónasson. Þeir lögðu til, að forstöðumenn sendiráða (sendiherrar og sendifulltrúar) mættu ekki vera fleiri en 4. Árið 1949 var kostnaður við sendiráðin áætlaður í fjárlagafrv. töluvert á aðra millj. og þótti mikið, en sendiherrar munu þá hafa verið 6. Nú eru þeir 8 að tölu og kostnaður á þessu ári áætlaður nærri 6 1/2 millj. kr.

Það vill nú svo til, að sendiherraembættið í Osló er laust. Það er því tilvalið tækifæri að lækka tölu forstöðumanna sendiráða úr 8 niður í 7 nú þegar. Það væri góð byrjun og mundi mælast vel fyrir. Sendiherrann í Kaupmannahöfn gæti sem bezt annazt störfin í báðum löndum, Noregi og Danmörku. Síðan mætti við hentugleika halda áfram að lækka töluna niður í 5 eða jafnvel 4.

Ég kemst ekki hjá að geta þess, sem allir þó vita, að orðrómur hefur þegar tilnefnt ákveðinn mann sem sendiherraefni í Osló, en þessi maður er hv. 4. þm. Reykv. (HG). Skæðar tungur gætu fundið upp á því að bera okkur flutningsmönnum till. það á brýn, að með henni vildum við hafa virðulegt embætti af þeim mæta manni, hv. 4. þm. Reykv., það væri vegna illkvittni í hans garð, að till. kæmi fram. Því fer þó fjarri, að nokkuð slíkt hafi ráðið því, að við flytjum þessa till. Hún er eingöngu fram komin vegna málefnisins. Það væri sönnu nær að ætla okkur flutningsmönnum þann veikleika, að við hefðum ekki borið þessa tillögu fram, ef við með henni hefðum talið okkur gera á hlut þessa hv. þm. En það, sem auðveldaði okkur að bera fram till., var þetta: Ef sendiherrastaðan í Osló hefur verið ætluð hv. 4. þm. Reykv., er hægur nær að bæta honum tjónið, því að innan skamms mun losna sams konar embætti í Kaupmannahöfn, og verður hann þá svo að segja sjálfkjörinn í það, ef till., sem um er að ræða, hlýtur samþykki hins háa Alþingis.