28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

Almennar stjórnmálaumræður

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Háttvirtir tilheyrendur. Ég mun aðallega nota þann tíma, sem ég hef hér til umráða, til þess að ræða þróun þá, sem orðið hefur í landbúnaðarmálum fyrir tilstilli löggjafarvaldsins á síðustu 12–13 árum.

Þegar Sjálfstfl. hafði forustu í ríkisstj. á árunum 1944–47 og hrifsaði landbúnaðarmálin í sínar hendur, gerðust þáttaskil um stund í afstöðu ríkisvaldsins til bænda og landbúnaðarins í heild. Áður hafði verið markvisst að því stefnt af Framsfl, sem með þessi mál hafði farið, að auka gengi bændastéttarinnar og hefja hana til þess vegs og gengis og framfara, sem þjóðinni allri er nauðsynlegt að þessi þáttur þjóðlífs og atvinnulífs skipi.

En þá voru helztu málin, sem Framsfl. barðist fyrir á Alþingi vegna sveitanna, ýmist drepin eða látin daga uppi. Landbúnaðurinn var vanræktur og lítilsvirtur af stjórninni.

Stéttarsamtök bænda, sem þá voru að fæðast, voru ofsótt, og með búnaðarráðslögunum var bændum lögskipuð forusta. Þessi skipan var gerð til höfuðs stéttarsamtökum bændanna.

Búnaðarmálasjóður, sem átti að notast til styrktar stéttarsamtökunum, var tekinn í annað til þess að svelta samtökin fjárhagslega, jafnhliða því sem búnaðarráð var sett þeim til höfuðs.

Af öllu því gífurlega fjármagni, sem ráðstafað var, fór svo að segja ekki neitt til landbúnaðarins.

Innflutningur vélakosts var sáralítill. Af þeim 50 millj., sem látið var í veðri vaka að ættu að fara í landbúnaðinn af gjaldeyrisforðanum, var aðeins lítill hluti, sem þangað fór, og var búið að ráðstafa meginhlutanum í annað, þegar leyfi voru loks gefin út, eftir að framsóknarmenn komu í ríkisstj.

Áburðarverksmiðjumálið var saltað þennan tíma og farið hinum háðulegustu orðum um áætlunina um áburðarverksmiðju.

Ég ætla ekki að nefna fleira, en af meiru er að taka.

Þannig fór Sjálfstfl. úr hendi forustan í landbúnaðarmálum, sem hann hafði hrifsað til sín. Það eina mál, sem Framsfl. gat barið í gegn, var frv. um ræktunar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, og í l. um landnám og nýbyggðir var tekið tillit til frv. flokksins um breytingar á l. um byggingar- og landnámssjóð og raunar byggt á eldri löggjöf, sem Framsfl. setti á sínum tíma.

Þannig varð það fyrir áhrif frá Framsfl., að sett voru þó tvenn lög á þessum tíma, sem mörkuðu spor í rétta átt til handa landbúnaðinum.

Framsfl. tók þátt í ríkisstj. þeirri, sem mynduð var 1947, og hefur síðan átt sæti í ríkisstj. þeim, sem setið hafa að völdum, og alltaf farið með landbúnaðarmálin. Hann tók þegar til við að fá afnumin verstu rangindin, sem landbúnaðarforusta Sjálfstfl., ef forustu skyldi kalla, hafði framið gegn bændastéttinni. Lögin um búnaðarráð voru afnumin, en bændum ætlað sjálfum að kjósa sína menn í verðlagsráð. Bændasamtökin í landinu fengu búnaðarmálasjóðinn til eigin ráðstöfunar. Síðan hefur Framsfl. alltaf haft forustu landbúnaðinum til framdráttar og þannig unnið bændastéttinni og þjóðinni í heild stórmikið gagn.

Íslenzka þjóðin er í heild mjög framsækin og áköf í framkvæmdir og umbætur. Á fyrstu áratugum þessarar aldar voru umbætur og framkvæmdir nær eingöngu utan sveitanna. Það fjármagn, sem þjóðin hafði eða gat fengið að láni, var að mestu notað þar, en sveitirnar urðu útundan. Framsóknarmenn hafa unnið að því að jafna þessi met.

Ég ætla með nokkrum tölum að sýna mismun þeirrar þróunar, sem hefur verið í lánamálum eða lánveitingum til landbúnaðarins tvenn stjórnartímabil. Ég tek fyrst tímabilið, sem Sjálfstfl. hafði forustu landbúnaðarmála, árin 1944–46, alls 3 ár. Þá voru veittar samtals öll árin 394 þús. kr. að láni úr ræktunarsjóði og 765 þús. úr byggingarsjóði. Þetta eru að meðaltali á ári 386 þús. kr. Ég tek svo fyrir næstu stjórnartímabil, þegar Framsfl. fór með landbúnaðarmálin og hafði fjármálastjórn ríkisins með höndum, árin 1947–55, alls 9 ár. Þá voru veittar að láni úr ræktunarsjóði 116 millj. kr. og úr byggingarsjóði 71 millj. kr. Þetta er 21 millj. kr. að meðaltali á ári. Og ef tekin eru meðaltöl af lánveitingum þessara sjóða síðustu 2 árin, 1954 og 1955, kemur í ljós, að lánveitingar hafa verið þau ár að meðaltali 381/2 millj. kr.

Hér er svo gífurlegur munur á forustu í framkvæmda- og lánamálum landbúnaðarins þrátt fyrir verðgildismun peninga, að furðu hlýtur að vekja hjá þeim, sem ekki hafa veitt þessu athygli. En hér er um staðreyndir að ræða, sem ekki verða hraktar. Þessar staðreyndir sýna, að Sjálfstfl. er viljalaus og tómlátur um framfarir landbúnaðarins og hann beitir ekki orku sinni að uppbyggingu landbúnaðarins, þegar hann hefur tækifæri til þess og getur ráðið þróun málanna. Hins vegar er það Framsfl., sem rekur landbúnaðarpólitík, sem er að valda hinum stórkostlegustu þáttaskilum í búnaðarháttum og búnaðarframförum landsins, því að þetta fé hefur farið í umbætur í sveitunum og mun skila þjóðinni og næstu kynslóðum betra landi og þægilegra lífi.

Það hefur verið og er hlutverk Framsfl. í íslenzkri pólitík m.a. að vinna að alhliða umbótum og uppbyggingu í sveitum landsins. Í því starfi hefur hann oft átt í höggi við Sjálfstfl., sem er fyrst og fremst málsvari og hlífiskjöldur gróðamanna í bæjunum, eins og bezt hefur komið í ljós nú nýlega við setningu laga um skatt á stóreignir.

En þótt Framsfl. hafi beitt sér fyrir alhliða umbótum í sveitunum, fer þó fjarri, að hann hafi látið forustu sína í landbúnaðarmálum draga úr starfi sínu í nauðsynjamálum þeirra, sem við sjóinn búa. Þvert á móti hefur flokkurinn jafnframt haft forustu um mörg hin þýðingarmestu málefni í þágu sjávarútvegsins og alþýðustéttanna í kauptúnum og kaupstöðum. Mætti þar margt nefna, en hér skal aðeins drepið á forgöngu framsóknarmanna í íbúðalánamálum kaupstaða og kauptúna og stuðning þeirra við uppbyggingu sjávarútvegsins í fiskiðnaði víðs vegar um landið.

Nú á þessu þingi hefur Framsfl. beitt sér fyrir nýju átaki til þess að hefja landbúnaðinn á hærra stig. Þar er miðað að auknu átaki í ræktunarframkvæmdum. Hefur Alþ. samþ. að verja stórum fjárhæðum á næstu 5 árum til þess að koma áfram ræktun á þeim jörðum, sem aftur úr hafa dregizt, og til þess að auka stuðning við þá, sem stofna nýbýli. Framlög til landnáms ríkisins voru nú á þessu þingi aukin um 21/2 millj. kr. og eru nú 5 millj. kr. á ári. Framlög til ræktunar á jörðum, sem hafa minna tún en 10 ha., eiga að verða 25 millj. kr. á næstu 5 árum, og framlög til íbúðabygginga á nýbýlum eru ákveðin 25 þús. kr. á býli.

Hv. þm. A-Húnv. var hér í gærkvöld með vangaveltur um það, að einhverjir vondir menn úr stjórnarliðinu hefðu í vetur stórspillt frv. milliþn., sem samdi frv. til breyt. á l. um landnám og byggingar í sveitum. Hvað var það, sem milliþn. lagði til? Hún lagði til, að frumbýlingum væri tryggt 25 þús. kr. framlag til húsbygginganna, en skv. lögunum fá þeir 25 þús. kr., hver svo sem tala þeirra verður. Milliþn. lagði til, að gert væri ráð fyrir 25 millj. kr. framlagi til þeirra býla, sem hafa dregizt aftur úr með ræktun, en það eru 24 millj. skv. lögunum. Það er öll breytingin, sem hv. þm. býsnaðist mest út af. Milliþn. lagði til, að framlagið til byggingarsjóðs yrði aukið um 21/2 millj. kr. á ári í næstu 10 ár. Byggingarsjóði er tryggt með l. um húsnæðismálastofnun fé til í búðarhúsabygginga í sveitum. Það var því óþarft að ætla honum aukið fjárframlag skv. hinum nýju l. um landnám og nýbyggðir. Þetta veit hv. þm. Milliþn. lagði til, að veðdeildin fengi 5 millj. kr. á ári. Það fé fær hún nú í ár og framvegis í gegnum skyldusparnaðinn og stóreignaskattinn, sem sjálfstæðismenn lögðust gegn. Sjálfstæðismenn í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs greiddu atkv. á móti láni til veðdeildar Búnaðarbankans. Og hér á Alþ. vildu þeir afnema skyldusparnaðarákvæðið og útiloka þannig veðdeild Búnaðarbankans alveg frá þátttöku í sparnaðinum og voru á móti stóreignaskattinum, en 1/3 hans á að renna til veðdeildarinnar. Það væri því ekkert fé væntanlegt í veðdeildina, ef sjálfstæðismenn hefðu ráðið. Þá var við afgreiðslu fjárl. á þessu þingi skv. till. fjmrh. breytt í óafturkræft framlag til stofnlánadeilda Búnaðarbankans lánum ríkissjóðs til þeirra af tekjuafgangi fyrri ára, 42 1/2 millj. krónum.

Hér hefur því verið stigið stærra skref en nokkru sinni áður til eflingar landbúnaði Íslendinga. Þetta má vera fagnaðarefni bændum landsins. Þeir, sem höfðu trú á því, að samstarf vinnandi stétta til sjávar og sveita þyrfti að takast og gæti leitt margt gott af sér, geta nú þegar hrósað miklum árangri. En ég hef hér lýst að nokkru því, sem sérstaklega snýr að landbúnaði. En hitt, sem áunnizt hefur á öðrum sviðum og snýr að uppbyggingu atvinnulífs og umbóta í kaupstöðum og smærri bæjum landsins, er ekki minna virði fyrir það fólk, sem þar býr, og hag þjóðarinnar allrar.

Ég hef hér með fáum orðum dregið fram nokkra þætti í þróun landbúnaðarmála á tilteknu tímabili, sem sýna mismunandi útkomu eftir því, hvorir hafa farið með þau mál, framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn, og ég hygg, að eitt af því, sem mesta athygli vekur af þeim mörgu málum, sem það þing, er nú er að ljúka störfum, hefur haft til meðferðar, verði einmitt afskipti þess af landbúnaðarmálum.

Nokkuð hefur borið á því, að verðlagsmál landbúnaðarins hafi verið gerð að umtalsefni nú um skeið, bæði innan þings og utan, og um þau efni hafi verið hafðar fullyrðingar, sem ekki standast. Verðlagning landbúnaðarvara fór fram á s.l. hausti á sama hátt og undanfarin ár, þannig að fulltrúar bænda og neytenda semja um verðlagsgrundvöll sín á milli og framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður svo heildsölu- og smásöluverð varanna með hliðsjón af þeim grundvelli. Ríkisstj. á engan fulltrúa í verðlagsgrundvallarnefnd né framleiðsluráði og getur því ekki haft nein áhrif á verðlagninguna. Þetta ættu allir að vita. Hið svonefnda verðlagsgrundvallarverð er verð, sem framfærsluráðið ætlast til að bændur geti fengið undir eðlilegum kringumstæðum, ef sala búvaranna gengur eins og reiknað er með í byrjun verðlagsársins og ef tekizt hefur að meta rétt þann kostnað, sem fellur á vörurnar í heildsölu og smásölu. Verðlagsgrundvallarverðið er því ekkert ábyrgðarverð, er ríkisstj. tryggir bændum frekar nú en áður. Verðlagsgrundvöllurinn s.l. haust sýndi hækkun á vöruverði um 8.2%. Framleiðsluráðið verðlagði hins vegar þannig, að hækkunin var öll sett á mjólk og mjólkurvörur, kindakjöt og garðávexti. Hins vegar var ekkert af hækkuninni sett á nautakjöt vegna þess, hversu miklar birgðir voru til af því í landinu. Gærur og ull seljast að mestu leyti úr landi, og var því ekki hægt að hækka verð þeirra. Mjólkin hækkaði um 28 aura lítrinn, en það er nærri 9% af fyrra grundvallarverði. Ostur hækkaði um kr. 2.35 kg, sem er rösklega 9.4 %. Smjör um kr. 5.07 kg, sem er 9.2% hækkun frá haustinu 1955. Dilkakjötið hækkaði í grundvellinum úr kr. 17.25 í kr. 19.05, sem er kr. 1.80 hækkun á kg, eða um 10.4%. Hvort grundvallarverðið næst fyrir verðlagsárið 1956–57, er ómögulegt að segja um, þar sem enn eru eftir af verðlagsárinu um 3 mánuðir, og eru því allar fullyrðingar um þau efni fleipur eitt.

Mér þykir rétt að víkja lítils háttar að orðrómi, sem heyrzt hefur úr herbúðum stjórnarandstöðunnar um það, að hækkun á áburði sé vegna ráðstafana ríkisstj. Hið sanna í því máli er, að hækkun sú, sem varð á innfluttum áburði, er af tvennum ástæðum: í fyrsta lagi, að verð á honum hækkaði erlendis, og í öðru lagi, að Eimskipafélag Íslands, sem annaðist flutninginn til landsins, hækkaði farmgjöldin m.a. vegna farmannaverkfallsins, sem sjálfstæðismenn stóðu að. Verð á íslenzka áburðinum frá áburðarverksmiðjunni í Gufunesi er hið sama og það var í fyrra.

Ég vil taka það fram, að þótt ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar á Alþ. hafi nú komið fram mörgum merkum málum, sem ætlazt er til að verði atvinnulífi og efnahag almennings í landinu að lyftistöng, þá er það undir þjóðinni sjálfri komið, hvernig hún hagnýtir þann stuðning, sem henni er í hendur fenginn af hálfu löggjafarvaldsins. Leggi þegnarnir fram krafta sína í störfum sínum og gæti hófs um eyðslu og kröfur, þá mun vel fara með þeim grundvelli, sem nú hefur verið lagður. Hitt er ljóst, að engar ráðstafanir duga, nema fólkið í landinu standi einhuga að því að treysta grundvöll framleiðslunnar til lands og sjávar og vinnufriður verði. Eins og flestum er vist ljóst fyrir alllöngu, er fjárhagskerfið veikt og mun illa þola nýja spennu. Ef það er spennt enn meira, þá getur svo farið, að möguleikar til áframhaldandi velmegunar bresti úr hendi þeirra, sem spenna bogann um of.

Það er illt til þess að vita, að sá stjórnmálaflokkur í landinu, sem hefur talið sig vera eins konar vörð þjóðarinnar um sjálfstæði hennar og valið hefur sér nafn til þess að tákna þetta hlutverk, skuli nú ala á nýrri baráttu í kaupgjaldsmálum, sem hlýtur að leiða af sér vandræði fyrir þjóðina, ef út í slíkt fen verður ætt. Enginn vegur er vísari til þess, að þjóðin tapi fjárhagslegu sjálfstæði sínu, en ef hér verða verkföll og nýjar kaup- og verðhækkanir.

Ég hygg, að þeir menn í landinu, sem barizt hafa við það að undanförnu að framleiða og nú höfðu orðið von um vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að rofa færi til fyrir atvinnuvegunum, séu stjórnarandstöðunni ekki þakklátir fyrir það dæmalausa tiltæki að hvetja til kauphækkana. Og ég hygg, að launþegarnir eigi ekki minna í. hættu, ef slík verður þróun málanna, að nýtt stríð verður milli kaupgjalds og verðlags.

Ég hóf mál mitt með því að gera samanburð á þróun landbúnaðarmálanna annars vegar í höndum sjálfstæðismanna og hins vegar í höndum framsóknarmanna, og ég hef látið staðreyndir tala í því máli. Af þeim er augljóst, að sjálfstæðismenn hafa hugann fremur við eitthvað annað en framfarir í landbúnaðarmálum, þegar þeir fara með þau mál, en hins vegar forusta Framsfl. reynzt landbúnaðinum heillavænleg. Ég vil ljúka þessari ræðu minni með því að segja, að sundrungarstarf stjórnarandstöðunnar, þ.e. Sjálfstfl., í því að spilla vinnufriði í landinu með því að hvetja til nýrrar kaupgjaldsbaráttu og nýs kapphlaups milli kaupgjalds og verðlags er hið versta tilræði við bændastéttina ekki síður en aðrar framleiðslustéttir landsins.