01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég get að verulegu leyti sparað mér raunar að standa hér upp, því að efni míns máls var aðallega að beina fsp. til hæstv. fjmrh. svipað því, sem hv. 1. þm. Rang. (IngJ) hefur hér gert.

Hæstv. ráðh. svaraði því til hér í umr. í gær um annað frv., sem þá lá fyrir, varðandi skattfríðindi sjómanna, að hann gæti ekki gert grein fyrir því, hvað háa upphæð væri þar um að ræða og hver tekjumissir ríkissjóðs yrði. Það kann vel að vera, að í því tilfelli sé nokkru erfiðara um vik heldur en hér er um að ræða, þó að ég búist nú raunar við og þekki þá illa hæstv. fjmrh., ef hann hefur farið að bera fram till. um skattalækkanir án þess að hafa nokkurn veginn hugmynd um það, hver tekjumissir það yrði fyrir ríkissjóð. Það eru a.m.k. alveg nýstárleg vinnubrögð hjá honum, jafngætnum manni, ef svo er. En ég vil ekki vefengja þær upplýsingar, sem hann gaf í gær um það, að hann gæti engu svarað til um það atriði.

Ég hygg, að það sé miklu nær lagi, að hann hljóti að geta svarað því, hvað hér er um að ræða. Hv. 1. þm. Rang. hefur upplýst, að það muni vera 1120 kr., sem hjón með eitt barn muni eiga að greiða í skatt. Ég veit satt að segja ekki einu sinni, hvort þetta er svo há upphæð. Ég vildi gjarnan fá það upplýst hjá hæstv. ráðh., þannig að það lægi ljóst fyrir, og jafnframt, hvort hann geti gefið nokkrar upplýsingar um, hvað það muni verða margir gjaldendur, sem kynnu að koma til með að njóta þeirra hlunninda, sem hér er um að ræða, og þá, hver heildarupphæð þessara hlunninda verður.

Þá langaði mig jafnframt til þess að grennslast eftir því, hvað það séu háar tekjur hjá einstaklingi, sem koma til með að falla undir þessi hlunnindi.

Það er vitanlega alveg rétt, að það er full þörf á því og nauðsynlegt að reyna að hlynna að lágtekjufólki eftir þær geysilegu álögur, sem lagðar hafa verið á borgarana. Ég held sannast sagna um hjón, sem ekki hafa hærri tekjur en 47500 kr., að það sé mjög hæpið, að hægt sé að skattleggja slíkar tekjur hjá hjónum með einu barni, og ef ríkisstjórnin hefði nú viljað sýna rausn í þessu efni og meira en aðeins að sýnast, þá hefði átt að fella tekjuskatt þessara gjaldenda niður. Ég efast um, að það geti munað verulegum fjárhæðum fyrir ríkissjóðinn, þótt það væri gert, enda álít ég, að það eigi að vera meginstefnan, að það eigi ekki að leggja skatta á þurftartekjur fólks, sem það þarf til brýnasta lífsframfæris. Það náttúrlega kemur fram, eftir að upplýsing er fengin um, hvað þessi hlunnindi nema, hvað það mundi kosta ríkissjóðinn, ef sú leið væri farin að fella alveg niður skatt þessara aðila, sem hér eiga hlut að máli. En sé það hugsunin hjá hæstv. ríkisstj. að gera hér einhverja bragarbót, miðað við þær miklu álögur, sem lagðar voru á borgarana nú fyrir jólin, þá mun sannarlega ekki af veita, ef það á að vera nokkur raunveruleg aðstoð við jafntekjulágt fólk og þetta frumvarp á við, að það hefði þá verið stigið það spor til fulls að gefa eftir þessar 1000 kr. eða hvað það er nú, sem þessum skattþegnum er ætlað að greiða til ríkisins. Það hefði varla getað talizt mikil rausn, en þó verið hægt að segja, að með því væri gerð ráðstöfun, sem væri nokkru meira en til þess eins að sýnast og geta flaggað með því, að verið sé að gera ráðstafanir til að létta af fólki í stað þeirra feikiþungu álaga, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á borgarana.