27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það má nú segja, að leikurinn berist víða um völlinn, þegar hv. 5. þm. Reykv. fyrr í þessum umr. fór að reyna að áætla, hvaða heildarfjármagn mundi hafa farið til húsnæðismála í öllu landinu að öllum leiðum, en nú vill hann endilega halda sér eingöngu við það, sem hefur farið í gegnum húsnæðismálastofnun ríkisins. Þegar hann vildi halda umr, á hinum fyrri grundvellinum, þá var honum bent á, að Landsbankinn gæti meira að segja ekki gert neina nákvæma áætlun um það, hvað hefði farið til húsnæðismálanna í heild, því að þar yrði hann að reikna með áætlunartölu um alla lánastarfsemi sparisjóðanna, sparisjóðalánin til íbúðamála væru víðast hvar í víxilformi og það væri mjög óhægt um vik að aðgreina þau lán í sundur, hvað af þeim hefði farið til húsnæðismála og hvað til annarrar lánastarfsemi í víxilformi. Nú fellst hann á, að það sé kannske ekki neinn aðili í landinu, sem geti gefið alveg nákvæma tölu um þetta, og þá skulum við hafa það loksins fyrir satt, því að það hefur það verið frá öndverðu. Hitt vill hann ekki heldur vefengja, að það sé búið að auka fjárframlög af hendi ríkisins, bæði til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og til verkamannabústaða, enda er það engum manni fært. Í þriðja lagi getur hann ekki heldur vefengt það, að ýmiss konar fjáröflun var höfð í frammi og lögfest með húsnæðismálalöggjöfinni á síðasta þingi og þar jafnvel hinir stærstu tekjustofnar lögfestir og þó haldið öllum sömu leiðum opnum um fjáröflun til þessara mála og áður hafði verið gert, þ. á m. að leita til banka og sparisjóða og tryggingastofnana eins og áður, enda er það margskjalfest, að hinar sömu kröfur hafa verið gerðar allt fram til þessa til seðlabankans um útvegun fjár frá bönkum og sparisjóðum og opinberum tryggingastofnunum og tryggingafélögum. Öll járn eru því höfð í eldinum í þessum málum, sem áður voru höfð, og þó nokkuð mörg önnur.

Ég tel ástæðulaust að endurnýja enn þá upprifjun á þeim skýrslum, sem ég vitnaði í áðan. En þegar hv. 6. þm. Reykv. hefur það við orð, að ég skrökvi og fari ekki rétt með þær tölur, sem liggja fyrir framan mig, þá vil ég til frekari áréttingar mínu máli segja honum það, að hann fer með hæpnar tölur og hann stingur undir stól vitneskju, sem gefin er í þeirri skýrslu, sem hann hefur fyrir framan sig, þegar hann vill aðgreina nákvæmlega í sundur árið 1957 og 1958 núna s.l. áramót, því að í þeim blöðum, sem ég hygg að hann hafi haft fyrir framan sig, stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess skal getið, að skilin á milli áranna 1957 og 1958 eru ekki glögg, því að segja má, að sama úthlutun hafi staðið yfir frá því í nóvember og þangað til í marz.“

Las hann þetta upp, hv. þm.? Nei. Þar segir einmitt frá því, að það sé ekki til nákvæmur talnagrundvöllur um skil milli áranna 1957 og 1958 og það hafi verið samfelld úthlutun frá því í nóvembermánuði og þangað til í byrjun marz, nákvæmlega eins og ég var búinn að segja. Einasta talan, sem við höfum því í heild nákvæmlega til að halda okkur við, er það, að frá 1. jan. 1957 og fram til þessa tíma, sem við erum nú að ræðast við um, hafi verið veittar í lánum rúmar 65 millj. kr. Það hefur enginn misskilningur eða ruglingur átt sér stað í sambandi við það, hvort 12 millj. til Búnaðarbanka Íslands væru taldar með eða ekki. Ég hef margsinnis í þessum umr. skýrt frá því, að þær tölur, sem ég hef nefnt, eru að frádregnum þeim 12 millj., sem áttu að fara á hverju ári og hafa farið á hverju ári til Búnaðarbankans. Þær bætast því við allar mínar tölur, og hækkar þannig talan alveg eins fyrir árið 1957 og hin árin um 12 millj. kr. að því er það snertir, það gerir engan mismun. En hitt er rétt að taka svo enn fram og bæta enn við, að það vantar í viðbót við þær tölur, sem ég gaf upp núna fyrir árið 1957 og fram til þessa dags, að geta þess, að auk þess er gert ráð fyrir, að tryggingafélög úthluti 4 millj. kr. og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis 2.5 millj. kr. í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar og með hennar staðfestingu. Þær tölur, sem ég hef nefnt fram að þessu, eru því of lágar a.m.k. sem nemur 6.5 millj. kr.