11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

86. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf. (PO), sem ég vildi minnast á. Hann sagði, að verið gæti, að fjárhag landsins eða ríkissjóðs væri nú svo komið, að hann þyldi ekki þá breytingu, sem hann legði til að gerð yrði á skólakostnaðarlögunum. Það, að ég vil fyrir mitt leyti ekki mæla með samþykkt till. hans, stendur í engu sambandi við það, hvernig fjárhag ríkissjóðs eða landsins sé komið. Ef hann lítur þannig á, að það, að ég vilji ekki styðja þessa till, hans, hljóti að stafa af því, að fjárhag ríkissjóðs sé sérlega illa komið, þá hefði væntanlega nákvæmlega sama gilt 1955, þegar fyrirrennari minn í starfi, flokksbróðir hv. þm. Borgf., Bjarni Benediktsson, vildi ekki heldur styðja að slíkri breytingu á reglunum um þátttöku ríkisins í stofnkostnaði skóla sem hann núna stingur upp á. Væri einhver fótur fyrir þeirri ályktun, sem hann var að gera ráð fyrir nú, hefði nákvæmlega sami fótur verið fyrir henni þá. (Gripið fram í.) Ég sagði, að þetta væri svo mikið fjárhagsatriði, að ekki væri rétt að hlaupa í slíka breytingu nú á þessu stigi, þegar ekki væri þó komin einu sinni þriggja ára reynsla á þá reglu, sem flokkur hv. þm. beitti sér fyrir að sett yrði. Sé sú regla röng eða óeðlileg, sem nú gildir um þátttöku ríkisins í greiðslu skólakostnaðar, getur hv. þm. fyrst af öllu sakað þingflokksformann sinn um þau rangindi og ekki aðra, því að hann hafði forustu um, að sú regla yrði mótuð, sem nú gildir og ég vil ekki breyta, a.m.k. ekki fyrr, en fengin er meiri reynsla á þær reglur, sem nú gilda.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, til þess að þessum umr. lyki ekki þannig, að þessum orðum hv. þm. væri ómótmælt. Þó að hér sé um nokkurt fjárhagsatriði að ræða, er það að sjálfsögðu ekki svo mikið, að það gæti haft nein veruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Það er ekki það sjónarmið, sem fyrst og fremst er um að ræða, heldur hitt, að sjálfsagt virðist að láta þá reglu, sem sett var með samhljóða atkv. fyrir tæplega þremur árum, gilda í nokkur ár og fá um hana verulega reynslu, en ekki hlaupa til að breyta henni að lítt eða ekki athuguðu máli.