18.11.1957
Efri deild: 23. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

18. mál, umferðarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það var eitt atriði í þessu frv., sem ég vildi gera nokkuð að umtalsefni, en það er brtt. hv. frsm. við 20. gr., þess efnis, að 3. mgr. eigi að falla niður. Um þetta voru allskiptar skoðanir í n., og varð það ofan á, að þessi liður var látinn óbreyttur standa, en hins vegar flytur formaður n. sérstaka brtt. um þetta efni.

Hv. frsm. færði þau aðalrök fyrir brtt. sinni, að ef 20. gr. yrði samþ. eins og hún er í frv., þá þyrfti árlega að afla nokkurra hundraða vottorða frá bifreið eftirlitsmönnum, til þess að takast mætti að afskrá bifreiðar.

Eins og ég sagði, var þetta atriði dálítið umdeilt í nefndinni, enda lít ég svo á og við fleiri, að það megi ekki vera algerlega í sjálfsvald sett hverjum eiganda ökutækis, hvenær hann láti afskrá ökutæki sitt, heldur sé rétt að hafa þá heimild nokkuð takmarkaða. Ég tel, að sérhvert ökutæki, sem er skráningarskylt á annað borð, eigi að vera á ökutækjaskrá, frá því að það er tekið í notkun sem nýtt og þangað til það er afskráð sem ónýtt. Hins vegar er að sjálfsögðu heimilt að skipta um eiganda svo oft sem verða vill og einnig skrásetningarmerki á ökutæki. Ég hef því leyft mér, þótt seint sé, að bera fram brtt. við 20. gr., og legg til, að 3. töluliður orðist svo, — og vil ég leyfa mér að vænta þess, að það megi þá verða nokkurs konar málamiðlunartillaga:

„Nú vill eigandi ökutækis fá það afskráð, og skal þá því aðeins sinna þeirri beiðni, að telja megi ökutækið ónýtt“ — Þ.e.a.s., ef eigandi kemur og óskar afskráningar, þá verður það yfirleitt heimilað af skráningarstjóra, þ.e. lögreglustjóra, en ef einhver ástæða er til að ætla, að ökutækið sé ekki ónýtt og eitthvað annað vaki fyrir manninum, heldur en að hætta að nota bifreiðina fyrir fullt og allt, þá verður lögreglustjóri auðvitað að meta það og væntanlega leitar hann þá til sérfræðinga sinna um þetta efni, sem eru bifreiðaeftirlitsmenn.

Ef þessi till. verður samþ., má væntanlega alveg komast hjá því, sem hv. frsm. gat um, að afla fjölda vottorða frá bifreiðaeftirlitsmönnum í sambandi við afskráningu bifreiða. — Ég held það sé óþarft að fara fleiri orðum um þessa brtt.

En það var aðeins eitt annað atriði þessu óskylt, sem ég ætlaði að leyfa mér að minnast á, og það er sú spurning, sem við stöndum nú frammi fyrir, hvort upp skuli tekinn hægri handar akstur á Íslandi eða hvort við eigum að lúta að þeirri reglu, sem hingað til hefur verið fylgt, að aka á vinstri vegarhelmingi. Eins og kunnugt er, má telja það viðtekna reglu um allan heim, að ekið er á hægri vegarhelmingi. Hins vegar eru nokkur lönd, sem enn þá fylgja hinni reglunni, en það eru Svíþjóð, England og Írland.

Ég tel, að eftir því sem samskipti þjóða aukast, — og þau aukast ár frá ári, — þá verði meiri og meiri nauðsyn til þess að samræma umferðarreglur um allan heim. Ég skal geta þess, að Íslendingar voru það framsýnir, að þeir höfðu lögleitt hægri handar umferð þegar árið 1940, er brezki herinn kom hingað til lands. En þá var sú regla aftur numin úr lögum, vegna þess að menn óttuðust árekstra við brezka setuliðið.

Mér fannst ákaflega lítill hljómgrunnur fyrir þessu í hv. allshn., og n. sú, sem undirbjó frv., lét þetta atriði algerlega standa opið, ef svo má segja. Hún skýrði í grg. aðeins frá þeim rökum, sem mæla með og móti vinstri og hægri handar akstri. Ég vil þó ekki láta hjá líða að nota þetta tækifæri til þess að biðja ykkur, hv. alþm., að íhuga þetta mál, vegna þess að ef við eigum að breyta yfir í hægri handar akstur, þá þurfum við helzt að gera það nú þegar eða mjög bráðlega. Það er talið, að eins og nú standa sakir mundi það kosta rúmar 6 millj. að breyta frá vinstri handar akstri yfir í hægri handar akstur, en sú breyting verður æ kostnaðarsamari ár frá ári. Það er því annaðhvort nú eða aldrei að breyta um að mínum dómi. Ég hef ekki flutt um þetta sérstaka brtt., en vil einungis biðja ykkur að hugleiða þetta mál, áður en við látum frv. fara frá okkur sem lög frá Alþingi.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hv. forseta áður nefnda brtt.