22.11.1957
Efri deild: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

18. mál, umferðarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. þm. Ak. hefur nú raunar talið öll þau rök gegn þessari brtt., sem mestu máli varða, svo að ég þarf þar ekki miklu við að bæta. Ég get þó ekki stillt mig um að fara um þetta atriði örfáum orðum.

Ég efast ekki um, að það vaki gott eitt fyrir hv. flutningsmönnum þessarar brtt., og það er kannske að sumu leyti erfitt að tala á móti henni.

Ég álít þó, að gera verði þá kröfu til hv. alþm., að þeir séu a.m.k. dálítið raunsæir í till. sínum og skírskoti ekki einungis til tilfinninga. Ég verð að telja, að þetta álit hv. þm. Barð. skjóti a.m.k. dálítið skökku við það, sem hann sagði okkur hér við 2. umr. málsins, en þá var honum mjög illa við það ákvæði frv., að ekki mætti gera dráttarvél fyrir hraðari akstur en 30 km á klukkustund. Mætti ef til vill af þessu leiða, að hann teldi allt í lagi með það, að dráttarvélum væri ekið á miklum hraða úti á þjóðvegum landsins, enda þótt þar sé sá mikli munur á, að til stjórnenda þeirra farartækja eru gerðar mun minni kröfur, en til bifreiðastjóra.

Ég vildi beina því til hv. flutningsmanna að lesa vel bæði 49. og 50. gr. frv. og einnig það, sem segir í grg. frv. um það efni. Vitanlega er meginreglan sú, eins og kemur skýrt fram í 49. gr., að hraðinn má aldrei vera meiri en svo, að ökumaður geti haft fullkomna stjórn á ökutæki o.s.frv., og í 49. gr. eru talin upp atriði í stafliðum a-o, sem öll miða að því að draga úr ökuhraða, þegar ytri aðstæður segja til um það, enda er sú reynslan hjá flestum þjóðum nú orðið, að þær ganga jafnvel svo langt að afnema öll ákvæði um hámarkshraða. Ef lesin er grg. frv., þá sést, hvaða regla gildir í þessum efnum á Norðurlöndum. Það má draga þá meginreglu út úr þeirri umsögn, að hámarkshraði sé enginn á Norðurlöndum nema í Noregi, að vísu með ýmsum undantekningum. Og svo er nú ekki alveg hundrað í hættunni við að samþykkja þessi ákvæði um hámarkshraða, þar sem í 50. gr. stendur, að dómsmrh. geti sett nánari reglur um ökuhraða og takmarkað hann að vild. Slíkar reglur má og setja í lögreglusamþykktum úti um allt land, svo sem gert hefur verið.

Hv. þm. Barð. las upp mikla grg. eftir Erling Pálsson yfirlögregluþjón. En sú grg. fannst mér ekki styðja hans mál eindregið. Ég hef oft rætt við vin minn, Erling Pálsson, um þessi mál og fer nærri um það, að skoðanir okkar eru ekki langt frá því að fara algerlega saman í þessum efnum.

Ég verð að segja það, að ég teldi mjög miður farið, ef þessi brtt. hv. þingmanna næði samþykki, og ég legg eindregið til, að ákvæði frv. í 49. og 50. gr. verði samþykkt óbreytt.