24.02.1958
Neðri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Varðandi það, sem hv. þm. V-Húnv. sagði í sambandi við sína till. um áfengismagn við blóðprufu, þá virðist mér þar vera aðalatriðið að reyna að finna stað fyrir hugtakinu „að vera undir áhrifum áfengis“. Það var upplýst á fundi, sem allshn. átti með nokkrum úr umferðarmálanefndinni, eins og ég sagði áður, að reynslan hefur orðið sú á undanförnum árum, að dómstólar hafa ekki dæmt, ef áfengismagn hefur verið minna en 0.8%0, nema þá sérstakar aðstæður hafi verið þar um.

Sakadómarinn í Reykjavík sendi umsögn um þetta atriði, og vildi ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkuð úr því, sem hann segir:

„Um þetta skal tekið fram, að ég er í öllum meginatriðum samþykkur þeim ákvæðum frv., sem um er spurt. Ef tryggilegar verður um hnútana búið við töku og rannsókn blóðsýnishorna úr þeim mönnum, sem grunaðir verða um að aka bifreið undir áfengisáhrifum, ættu nýmælin um það að verða til bóta. Hitt getur verið álitamál, hvar setja skuli mörkin um áfengismagn í blóðinu, hvort lágmarkið skuli vera 0.60%0 eða eitthvað hærra, svo sem 0.70 eða 0.80, eins og er í Svíþjóð. Það hefur vissulega nokkuð til síns máls að vera strangur í þessum efnum. En ef jafngóður árangur næst með mildari aðferð, ber að sjálfsögðu að velja hana. Ég hef trú á því, að beiting allhárra sekta auk réttindasviptingar fyrir þessi brot, framin í fyrsta sinn án sérstaklega þyngjandi atvika, beri engu minni árangur en varðhald.“

Mér virðist sakadómarinn slá því föstu þarna, að það sé hæfilegt mark, sem sett er, með því að setja 0.6%0. Mér virðist ekki, að það hafi verið farið þarna sérstaklega út í það að finna meðalveg, heldur hafa þeir aðilar, sem um þetta fjölluðu, talið eðlilegt, að þessi tala væri tekin, og hefur sérstaklega verið bent á þá ónákvæmni, sem sé hugsanleg í sambandi við blóðrannsókn.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. V-Húnv. talaði um í sambandi við endurkröfurétt frá þeim, sem valda tjóni, þá finnst mér sjálfsagt, að við tölum nánar um þetta í n., og hef náttúrlega ekkert á móti því. Hins vegar ræddum við þetta nokkuð Við þá úr umferðarmálanefndinni, sem komu til viðtals, og mér fannst þeir tvímælalaust leggjast á móti því, að þetta væri tekið svona upp, sérstaklega vegna þess, að þeir töldu talsverða erfiðleika á því að framkvæma þetta. Endurkröfurétturinn er fyrir hendi, og með því að vátryggingarfélögin væru skylduð til að krefja í hverju tilfelli, þá veit ég ekki nema þetta yrði dálítið erfitt í framkvæmdinni. Mér sýnist augljóst, að félögin reyni að gera þjónustu sína sem bezta. Þau tryggja gegn þessum tjónum, eiga náttúrlega endurkröfuréttinn, en meta það svo, hvort málið er lagt fyrir dómstóla eða ekki. Það kann vel að vera, að þetta sé atriði, sem hægt væri að taka til athugunar aftur. Við sáum okkur ekki fært í allshn. að leggja þetta til eða mæla með þessari till. á því stigi, sem málið var þá, en mér finnst sjálfsagt að taka það til athugunar aftur.