10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

18. mál, umferðarlög

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 283 við frv. til umferðarlaga. Brtt. er við 28. gr., að síðasti málsl. 1. málsgr. orðist þannig:

„Þeir unglingar, sem náð hafa 14 ára aldri, mega þó án ökuskírteinis aka dráttarvél, þegar hún er notuð við jarðyrkju- eða heyskaparstörf utan alfaravegar.“

Þegar frv. til umferðarlaga var lagt fram í hv. Ed. á síðasta þingi, var í 28. gr. ákvæði, sem kvað á um, að stjórnendur dráttarvéla mættu ekki vera yngri en 15 ára. Þó náði það aðeins til vinnslu við jarðyrkju- og heyskaparstörf utan alfaravegar.

Ed. sá sér ekki fært að samþykkja þetta lágmarkstakmark unglinga um keyrslu dráttarvélanna við áðurnefnd störf, og er það út af fyrir sig mál, sem ekki skal hér gert að umræðuefni.

Í grg. fyrir frv., eins og það var, þegar það var fyrst lagt fram, er sagt um þetta ákvæði 28. gr. m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi þykir ástæða til að krefjast sérstaks prófs eða ökuskírteinis fyrir þá, sem einungis stjórna dráttarvélum utan alfaraleiða við jarðyrkjustörf eða heyskaparstörf. Aldurstakmark er sett 15 ár, og er það í lægsta lagi. Þar sem ökutækin eru tiltölulega auðveld í notkun og eiga ekki að vera á alfaraleiðum, þykir fært að taka tillit til hagsýnisástæðna.“

Sérfræðinganefnd sú, sem samdi lagafrv., virðist eftir þessu hafa haft þá mjög ákveðnar skoðanir á þessu ákvæði og beinlínis talið það hina mestu nauðsyn. Í áðurnefndri grg. taka þeir, eins og áður hefur verið bent á, mjög skýrt fram, að 15 ára mark sé í lægsta lagi. Manni gæti skilizt jafnvel á orðalaginu, að þeir hefðu rætt um að hafa lágmarkið hærra. En hv. Ed. virðist hafa verið alveg á gagnstæðri skoðun. Það hvarflar ekki að hv. alþm. d. að færa aldurstakmarkið alveg burt úr frv. Hv. alþm. Ed. virðast ekki hafa óttazt slysahættu í sambandi við meðferð barna og unglinga við vinnslu þessara tækja, Hv. alþm. hafa þó hlotið að vera fullljós og í fersku minni hin alvarlegu slys, sem orðið hafa við meðferð vélanna. Annars skal ekki rætt frekar um skoðanir hv. Ed: þingmanna á þessu máli.

Eins og frv. liggur því nú fyrir, eru í því engin ákvæði um lágmarksaldur unglinga, sem stjórna dráttarvél við jarðyrkjustörf. Í 28. gr. er beinlínis gert ráð fyrir, eins og ég hef áður bent á, að ekki þurfi ökuskírteini við akstur slíkra véla utan alfaravegar.

Ég get út af fyrir sig fallizt á það, að ökuskírteinis sé máske ekki þörf við notkun dráttarvéla við heimastörf. En hitt finnst mér ófært, að ákveða ekki lágmarksaldur þeirra unglinga, sem settir kunna að verða til keyrslu slíkra véla. Það ætti öllum að vera ljóst, að það er alls ekki vandalaust verk að stjórna dráttarvélum, t.d. í halla eða í mikilli brekku, og að meðhöndlun og stjórn vélanna er í mörgum tilfellum hættulegt starf og þarf mikla nákvæmni og stöðuga aðgæzlu, enda hafa slys átt sér stað og sum þeirra mjög alvarleg, m.a. dauðsföll.

Það má að sjálfsögðu benda á, að þótt settur verði lágmarksaldur unglinga við keyrslu dráttarvélanna, útiloki það ekki slysahættuna að öllu leyti. því er til að svara, að 14 ára unglingar og eldri hljóta að vera færari til að stjórna vélunum en 10 eða 12 ára unglingar, en það mun ekki vera óalgengt, að börn á þeim aldri eða jafnvel yngri séu látin stjórna dráttarvélunum.

Það er alkunna, að börn og unglingar á þessum aldri eru mjög áköf í það að keyra slíkar vélar, og á meðan löggjafinn sér ekki ástæðu til þess að lögfesta lágmarksaldur unglinga til keyrslu slíkra véla, er beinlínis hætta á, að um misnotkun verði að ræða í meðferð vélanna. Með þessu er ég ekki að halda því fram, að bændur landsins ofþyngi unglingum með of mikilli vinnu. En það er staðreynd, að keyrsla vélanna getur haft mjög alvarleg áhrif á taugakerfi barna og unglinga, ef ekki er gætt alveg sérstakrar varasemi og hófsemi í þessum málum.

Það munu vera fá eða jafnvel kannske engin lönd í Evrópu, þar sem unglinga- og barnavinna er jafnalmenn og hér. Þess eru allmörg dæmi, að 10–12 ára börn vinna óheyrilega langan vinnutíma, t.d. við síldar- og fiskvinnslustörf. Þetta er mikið vandamál, sem ekki verður komizt hjá öllu lengur að taka til sérstakrar athugunar.

Að sjálfsögðu getur hófleg vinna undir stjórn góðra verkstjóra og kennara verið unglingum hollur og góður skóli. Það er mesta nauðsyn, að börn og unglingar kynnist vinnunni og atvinnuháttum þjóðarinnar. En allt slíkt verður að gerast á þann hátt, að það glæði áhuga barnanna fyrir gagnsemi vinnunnar og að börnin liti ekki á vinnuna sem eitthvert böl, þegar fram í sækir, sem beri að forðast, heldur hið gagnstæða. 10 eða 12 ára barn, sem vinnur fullan vinnudag og í mörgum tilfellum eftirvinnu, hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu fyrr eða síðar, að erfiðisvinna, hvort sem hún er unnin í sveit eða við sjó, sé ekkert glæsilegt takmark út af fyrir sig til að keppa að, enda er svo komið í okkar þjóðfélagi, að stór hluti af æskulýð okkar stefnir frá aðalatvinnuvegunum til miður þarfari starfa. Hér er um mjög mikið vandamál og alvarlegt vandamál að ræða, sem barna- og unglingaskólarnir ættu að gefa meiri gaum en nú er gert.

Mitt álit er, að það sé hin mesta nauðsyn, að komið sé á fót verklegum námskeiðum fyrir elztu nemendur barnaskólanna og framhaldsskólanna í hagnýtum vinnubrögðum, m.a. þar sem væri kennd stjórn og meðferð algengustu vinnuvéla. Slík námskeið ættu að sjálfsögðu að vera undir stjórn sérfróðra manna á því sviði og vinnutímanum mjög stillt í hóf.

Ekkert er þjóðfélaginu eins nauðsynlegt og að búa vel að æskulýðnum. Hvað ungur nemur, gamall temur, er gamalt máltæki, sem er í fullu gildi í dag. Og jafnfámennt þjóðfélag og okkar hefur á engan hátt efni á öðru en að sú æska, sem nú er að alast upp, sé sem bezt undir það búin að taka við þeim verkefnum, sem óhjákvæmilega bíða hennar, en það verður hún því aðeins, að það opinbera geri sitt til þess að beina huga æskufólksins inn á réttar brautir og því sé kennt að meta og skilja gagnsemi vinnunnar og að hin almenna vinna sé ekki böl, heldur sé snar þáttur í lífi þjóðarinnar, sem öll velmegun hennar veltur á.

Ég veit, að þetta mál í heild er á ýmsan hátt erfitt og það þarf nákvæmrar athugunar við. Ég er þó þeirrar skoðunar, að sú brtt., sem ég hef hér leyft mér að flytja, sé spor í rétta átt og Alþ. geti ekki afgreitt þetta frv. án þess, að sett verði lágmarksákvæði í frv. um aldur þeirra unglinga, sem keyra slíkar vélar sem hér um ræðir.

Það má að sjálfsögðu halda því fram, að þetta ákvæði, þótt að lögum yrði, sé út af fyrir sig lítil takmörkun á barna- og unglingavinnu og það sé takmörkuð trygging fyrir því, að þetta ákvæði verði haldið. Því er til að svara, að svo mikið traust ber ég til íslenzkra bænda, að ég er ekki í neinum minnsta vafa um, að þeir mundu halda þessi lög ekki síður en önnur, og það mundi gera þeim léttara fyrir að banna börnunum beinlínis að keyra vélarnar, ef lágmarksaldur þeirra væri settur inn í lögin, Það er nú svo í okkar ágæta þjóðfélagi, að það er meira og minna, sem lög eru brotin, og við getum aldrei verið þess fullvissir, þegar við samþykkjum lög, að þau verði ekki brotin eða farið í kringum þau að meira eða minna leyti.

Í sambandi við þetta mál hef ég leyft mér að leita til tveggja aðila, til Slysavarnafélags Íslands og öryggismálastjóra ríkisins. Báðir þessir aðilar hafa góðfúslega sent mér bréf, þar sem þeirra álit kemur mjög skýrt fram, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa þessi bréf upp.

Bréf Slysavarnafélagsins hljóðar svo:

„Í sambandi við fram komna brtt. við frv. til laga um bifreiðalög, sem fyrir Alþ. liggur, þar sem lögð er áherzla á, að í lögum verði lagt bann við því, að yngri unglingar en 14 ára séu látnir fara með stjórn á vélknúnum búnaðarvélum, þá leyfir Slysavarnafélag Íslands sér að vekja eftirtekt hins háa Alþingis á því, hvað það hefur verið áberandi síðustu árin, að mörg börn hafa slasazt við meðferð vélknúinna búnaðartækja, bæði vegna þess, að allt of ungum börnum hefur verið trúað fyrir stjórn tækjanna og börnum leyft að sitja á tækjum, þegar þau hafa verið í notkun, og teljum vér því nauðsynlegt, að í lögum verði ákvæði, sem leggi á þetta sterkar hömlur, að börn verði látin stjórna eða sitja uppi á opnum og óvörðum landbúnaðartækjum, jafnvel þótt heima á sléttum túnum sé.

Virðingarfyllst,

Slysavarnafélag Íslands,

Henry Hálfdánarson.“

Hitt bréfið, sem ég fékk í dag, er svo hljóðandi:

„Herra alþm. Gunnar Jóhannsson, Reykjavík. Í viðtali hafið þér beðið mig að láta í ljós álit mitt á akstri barna á dráttarvélum. Í útvarpserindum, sem ég hef flutt og fjalla um akstur dráttarvéla, minntist ég nokkuð á börn við þessi störf. Öllum þeim, sem láta sig slysavarnir nokkru skipta, ber saman um, að vélar og börn eigi ekki saman, og eru dráttarvélarnar þar engin undantekning, nema síður sé. Það mun þó því miður vera allalgengt hér á landi, að drengir allt niður í 9–10 ára aldur séu látnir aka dráttarvélum.

Eigi akstur dráttarvéla að vera hættulítill, bæði fyrir þann, sem ekur, og umhverfið, þarf ökumaðurinn að hafa skýra hugsun og fullkomna leikni í meðferð vélarinnar.

Skrifstofustjóri tæknideildar aðalstöðva sænska öryggiseftirlitsins og formaður samnorrænu vélanefndarinnar, aðalsérfræðingur sænska eftirlitsins í notkun landbúnaðarvéla, hefur allmikið rætt um akstur barna á dráttarvélunum. Skoðun hans er sú, að ekki ætti að leyfa yngri börnum en 15 ára að aka dráttarvélum. Færir hann mjög sterk rök máli sínu til stuðnings, og eru þessi helzt:

Yngri börn en 15 ára taka yfirleitt starf sitt á dráttarvélinni sem leik og meta þess vegna ekki hætturnar með þeirri alvöru, sem eldri ökumenn viðhafa og nauðsynleg er til þess að bægja hættunum frá eða forðast þær. Dómgreind barna er ekki svo þroskuð, að þau geri sér jafnskýra grein fyrir hættunni og fullorðnir eða meti hana rétt, t.d. fjarlægð frá hættulegum, ótraustum bakka, hliðarhalla o. s. frv.

Viðbragðsflýtir barna er minni en fullorðinna, og börn verða því ekki jafnfljót til að gera hið rétta, þegar hættu ber að, og verða því seinni til að afstýra eða draga úr hættunni.

Börn hafa minni hæfileika en fullorðnir til þess að dæma fjarlægðir. Þeim hættir því til að gera of seint ráðstafanir til þess að forðast eða afstýra hættu, sem fram undan kann að vera.

Slysin vegna aksturs barna á dráttarvélum eru þegar orðin svo mörg, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að þau ættu að vera nægileg aðvörun og vekja til umhugsunar um úrræði til bóta.

Því mun oftast borið við, að fólksfæðin knýi menn til þess að láta börn aka dráttarvélum, en verður það vinnuafl ekki of dýru verði keypt?

Ég er þeirrar skoðunar, að lögfesta beri, að stofnað skuli til námskeiða, þar sem mönnum gefist kostur á að kynnast meðferð og akstri dráttarvéla til hlítar, og að engum leyfist að aka dráttarvél, nema hann hafi sótt slíkt námskeið og lokið þaðan prófi, eftir að hann varð 15 ára.

Þórður Runólfsson.“

Eins og sést á þessu bréfi, gengur öryggismálastjórinn lengra, en mín tillaga fer fram á. Hann telur, að enginn ætti að keyra dráttarvél yngri en 15 ára og helzt hafa lokið lágmarksprófi í meðferð slíkra véla. Að mörgu leyti gæti ég fallizt á þetta, en mun þó ekki breyta minni tillögu frá því, sem hún hér liggur fyrir.

Eins og sést á bréfi Slysavarnafélagsins, er bent á þá staðreynd, að það hafi verið áberandi undanfarin ár, að mörg börn hafi slasazt við meðferð vélknúinna búnaðartækja, m.a. vegna þess, að allt of ungum börnum hafi verið trúað fyrir stjórn tækjanna og börnum leyft að sitja á tækjum, þegar þau hafa verið í notkun. Fyrir því vilja forráðamenn þessara merku samtaka, að í umferðarlögunum séu sett ákvæði, sem leggja á það sterkar hömlur, að börn verði látin stjórna eða sitja uppi á óvörðum landbúnaðartækjum, þegar þau eru í notkun, jafnvel þótt heima á sléttum túnum sé.

Öryggismálastjóri tekur mjög í sama streng, gengur jafnvel lengra, bendir á fjölmargar sannanir máli sínu til stuðnings, m.a. álit aðalsérfræðings sænska öryggiseftirlitsins í notkun landbúnaðarvéla. Skoðun þessa sænska sérfræðings er sú, að börn yngri en 15 ára ættu ekki að fá leyfi til aksturs dráttarvéla.

Þá er öryggismálastjóri þeirrar skoðunar, að stofna ætti til námskeiða í meðferð og akstri dráttarvéla og enginn skuli fá leyfi til að aka dráttarvél, nema hann hafi áður sótt slíkt námskeið og lokið þaðan prófi eftir 15 ára aldur.

Ég tel að svo komnu máli ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Það er mjög einfalt. Okkur ber að gera allt, sem hægt er, til að forðast slys og óhöpp, Um það eru að sjálfsögðu allir hv. alþm. sammála. Fyrir því ber að samþykkja till. mína á þskj. 283.